Þriðjudagur 11.2.2014 - 16:50 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn eiga Ísland

Bjarni Benediktsson segir eftirfarandi í viðtali við blaðið Austurfréttir:

“Það var eitthvað rangt þegar við vorum ekki í ríkisstjórn. Eitthvað öfugt við það sem ætti að vera.”

Einmitt!

Við sáum þetta á síðasta kjörtímabili. Sjálfstæðismönnum var gróflega misboðið að vera ekki í stjórn.

Þeir litu á vinstri stjórnina sem eins konar “valdarán”!

Kosningar eru líka tilraun til valdaráns í huga þeirra. Þetta er auðvitað sérkennilegur skilningur á lýðræði.

Sjálfstæðismönnum finnst að þeir eigi alltaf að stjórna landinu og það byggir á þeirri hugsun, að þeir eigi landið allt – og miðin líka. Öðrum kemur þetta ekki við.

„Ég á ‘etta – ég má ‘etta“, sögðu útrásarvíkingar og braskararnir sem settu þjóðina á hausinn. Það er í sama stíl.

Sólarkonungurinn í Frakklandi sagði: “Ríkið – það er ég”!

Á Íslandi segja Sjálfstæðismenn: “Ríkið – það eigum við”!

Svo vilja þeir auðvitað nota ríkið til eigin ábata.

 

Síðasti pistill: Auður heimsins vex – en hvað með þinn auð?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.2.2014 - 22:28 - FB ummæli ()

Auður heimsins vex – en hvað með þinn auð?

Alþjóðleg kýrsla um skiptingu auðsins í heiminum (Global Wealth Report) fyrir árið 2012 var fyrir skömmu birt. Þar má fá mynd af því hvernig auður heimsins skiptist og hvernig auðurinn hefur verið að þróast á síðustu árum.

Auður heimsins hefur vaxið í kreppunni, en flestir íbúar vestrænna þjóða hafa upplifað minnkandi eignir á sama tíma. Hvar er þá vöxturinn?

Jú, auðurinn í Kína og Indlandi vex, sem og í nokkrum öðrum þróunarlöndum. En einnig á Vesturlöndum, þar sem flestir hafa séð eignir sínar og tekjur dragast saman eða standa í stað.

Það er hins vegar ríkasta fólkið sem er víðast að bæta við auð sinn.

Hér á myndinni að neðan ma sjá hvernig auður heimsins skiptist árið 2012.

Auður heimsins

Ríkasta 0,7% jarðarbúa á 41% auðsins á jörðinni.

Næstu 7,7% eiga 42%.

Samtals eiga þá ríkustu 8,4% jarðarbúa um 83% auðsins.

Fátækustu 69% eiga hins vegar aðeins um 3% auðsins á jörðinni.

Auðnum er því mjög misskipt – og munurinn virðist vera að aukast.

Í vaxandi mæli virðist sem að tækifærin í heiminum komi fyrst og fremst í hlut þeirra allra ríkustu.

Hófleg skattlagning á þá súperríku gæti hins vegar leyst nær öll fátæktarvandamál heimsins – og líka skuldavandamál ríkisstjórna á Vesturlöndum.

Það sagði Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS)  í nýlegri skýrslu (sjá hana hér).

 

Síðasti pistill: Ör hnignun millistéttarinnar í USA

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.2.2014 - 10:16 - FB ummæli ()

Ör hnignun millistéttarinnar í USA

Aukinn ójöfnuður í Bandaríkjunum felur í sér að yfirstéttin verður sífellt ríkari, en millistéttin dregst afturúr og lágstéttin sígur enn neðar. Þetta hefur gerst á síðustu tveimur til þremur áratugum og enn frekar nú í kreppunni.

Kannanir á tekjuskiptingu og eignum sýna þetta (sjá t.d. hér og hér).

Viðhorfakannanir sýna þetta líka. Þannig telja sífellt færri Bandaríkjamenn sig vera í millistétt og fleiri telja sig vera í lágstétt. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem kemur frá PEW stofnuninni.

Decline of middleClass in USA

Árið 2008 sögðu sem sagt um 53% Bandaríkjamanna að þeir væru í millistétt, en árið 2014 eru það 44% sem telja sig vera í millistétt.

Á sama tíma fór hlutfall þeirra sem segjast vera í lægri stétt frá 25% upp í 40%.

Þetta er afar mikil breyting á stuttum tíma.

Bandaríkin eru ekki lengur hið mikla millistéttarsamfélag sem áður var. Ekki lengur land tækifæranna.

Norðurlöndin standa betur undir þeirri lýsingu.

 

Síðasti pistill: Launastefna Adams Smiths

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.2.2014 - 17:56 - FB ummæli ()

Vilja Píratar siðleysi og þjófnað?

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á fyrir hvað Píratar vilja standa.

Í málflutningi þeirra hefur verið áberandi áhersla á frelsi á netinu og barátta fyrir mannréttindum.

Á heimasíðu þeirra kemur fram að Píratar leggja áherslu á gagnrýni, upplýsingu, borgararéttindi, friðhelgi einkalífs, gegnsæi og ábyrgð, auk mikillar áherslu á beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt.

Maður getur vel tekið undir sumar almennar áherslur af þessu tagi. Mestu skiptir þó alltaf hvernig framkvæmdin er.

Á heildina litið virðist stefna Pírata einkennast af sterkri einstaklingshyggju og fjandskap við eftirlit og stjórnun ríkisins. Að því leyti gætir þarna afskiptaleysisstefnu, eins og líka tíðkast hjá róttækum markaðshyggjumönnum frjálshyggjunnar.

Ég efast þó um að margir Píratar taki undir þjónkun nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum við auðmenn og valdamenn fjármálaheimsins.

Kanski eru þarna fyrst og fremst almennir straumar stjórnleysisstefnu (anarkisma), eins og oft gætir hjá ungu fólki sem finnur marga annmarka við “kerfin” sem fyrir eru.

Mér finnst of mikið vanta á ábyrgðarhlið stefnuskrárinnar hjá Pírötum á meðan mikil áhersla er á frelsi einstaklingsins. Í því liggur nokkur hætta.

Frelsi eins má ekki verða til þess að skerða frelsi annars, eins og John Stuart Mill kenndi. Það er grundvallarregla farsælla samfélaga.

Slíkt kallar á ábyrgð og einhverjar hömlur á frelsi – þ.e. í þágu farsællar sambúðar í samfélagi. Við samþykkjum hóflegar takmarkanir á frelsi okkar til að fá jafnrétti, öryggi, réttlæti og önnur gildi sem eru okkur mikilvæg, ekki síður en frelsið.

 

“Stóra Tryggingastofnunarmálið”

Ástæðan fyrir því að ég fór að pæla í þessu hjá Pírötum er “Stóra Tryggingastofnunarmálið”. Það snýst um að á Alþingi var nýlega samþykkt lagabreyting með auknum heimildum TR til að koma í veg fyrir misnotkun í lífeyris- og bótakerfinu. Ég tek fram að málið er mér skylt, því ég er stjórnarmaður í TR.

Helsta nýmæli breytingarinnar er heimild til að beita ákveðnari viðurlögum gegn bótasvindli, þ.e. þegar einstaklingar eru staðnir að því að svíkja út lífeyri eða bætur án þess að eiga rétt til þeirra. Slík svik eru beinn þjófnaður frá samfélaginu, sem veikir velferðarkerfið.

Þingmenn Pírata samþykktu í fyrstu lagabreytinguna, en ruku svo upp til handa og fóta og báðu afsökunar á því. Virðast telja að með þessu sé ríkisvaldið að teigja sig of mikið til aukins eftirlits með borgurunum.

Nú er það staðreynd að til er fólk sem er víst með að misnota frelsi sitt til eigin ábata og jafnvel með því að skaða frelsi annarra. Í þessu tilviki að freista þess að svíkja fé út úr almannatryggingum (frá skattgreiðendum)  með ólögmætum hætti. TR hefur beitt ýmsum aðferðum til að aftra slíku og nær árangri við það.

Samt telur Ríkisendurskoðun hugsanlegt að um 3 milljarðar tapist á ári hverju vegna svika eða rangra greiðslna í kerfinu. Ástandið væri þó mun verrar án eftirlits og aðhalds.

Hvað þýðir þetta?

Þetta þýðir að í algerlega óheftu frelsi einstaklinga felst aukin hætta á að fólk fari afvega, leiðist út í siðleysi og afbrot. Ef það er auðvelt að stela munu einhverjir láta freistast. Allir þurfa aðhald. Frelsinu þarf sem sagt að fylgja aðhald og ábyrgð.

Við sáum hvernig aukið frelsi á fjármálamörkuðum og í bönkum leiddi marga afvega fyrir hrun, svo mjög að sjálft samfélagið fór á hliðina. Þess vegna er róttæk afskiptaleysisstefna bæði hættuleg og einfeldningsleg.

Við vitum það líka að án löggæslu myndi lögbrotum fjölga og ofbeldi aukast. Umferðin á vegum yrði hættulegri með meira tjóni, fleiri slysum og fleiri dauðsföllum. Slíkt felur í sér frelsisskerðingar fyrir saklausa.

Það þarf því jafnvægi milli frelsis, réttlætis og öryggis í samfélaginu. Það eru einkum stjórnvöld sem geta tryggt eftirlit og aðhald til að bæta það jafnvægi.

Auðvitað er líka hægt að hafa of mikið og skaðlegt eftirlit og ríkisvald getur orðið hættulegt einstaklingsfrelsinu. Líkur á slíku eru þó minnstar í þróttmiklum lýðræðisríkjum, eins og tíðkast í okkar heimshluta.

Samfélagið þarf því líka að geta haft eftirlit með eftirlitsaðilunum. Þar er áhersla Pírata á gagnsæi og upplýsingar mikilvæg.

Þó er ástæða til að vara við einfeldningslegri afskiptaleysisstefnu og hömlulausri áherslu á frelsi einstaklinga, eins og virðist gæta hjá Pírötum.

Farsæld í samfélagi er best tryggð með jafnvægi milli frelsis, réttlætis og öryggis.

Ofuráhersla á frelsi án aðhalds og ábyrgðar leiðir til siðleysis, spillingar, lögbrota og jafnvel ofbeldis. Það er einmitt helsti galli nýfrjálshyggjunnar, sem gerði að verkum að hún endaði sem hugmyndafræði auðræðis og yfirstéttar, hún réttlætir ofurvald þeirra ríku og valdamiklu á kostnað allra annarra.

Ég held ekki að Píratar vilji siðleysi og þjófnað, en þeir þurfa að átta sig á því að góð, siðleg og farsæl hegðun allra sprettur ekki af sjálfu sér.

Þess vegna ættu Píratar að styðja heilbrigt eftirlit með því að fjármunum almannatryggingakerfisins sé eðlilega varið til þeirra sem á þurfa að halda og rétt hafa.

Það þjónar almannahag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.2.2014 - 23:37 - FB ummæli ()

Hanna Birna vill einkavæða einokun í KEF

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra Sjálfstæðismanna, segist vilja skoða aðkomu einkaaðila að rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Þetta er það sem áður var kallað “einkavæðing” – eða “einkavinavæðing” (þegar svo bar undir).

Innanríkisráðherra segir að þetta sé ekki einkavæðing – heldur eitthvað annað!

Jónas Kristjánsson segir að ráðherrann tali “Newspeak” – í anda Orwells. Hún segir svart vera hvítt!

Það er rétt hjá Jónasi.

Hér áður fyrr mátti jafnvel vænta þess að sumir Sjálfstæðismenn hefðu skilning á því, að ekki væri gott að einkavæða einokunarfyrirtæki. Kostir samkeppnismarkaðar koma þar hvergi við sögu.

Einkaaðili með einokun hefur opið veiðileyfi á viðskiptavini sína. Þeir geta ekkert annað farið.

Nú þykir sjálfsagt í Sjálfstæðisflokknum að einkavæða einokunarfyrirtæki eins og orkuveituna á Suðurnesjum (HS Orku og HS Veitur) og nú Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Einkavinavæðing hlýtur að búa að baki.

 

Síðasti pistill er um Sjóðasósíalisma lífeyrissjóðanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.2.2014 - 13:42 - FB ummæli ()

Sjóðasósíalismi Svía ríkir nú á Íslandi

Margir muna eftir hugmynd sósíalistanna í sænsku verkalýðshreyfingunni frá sjöunda áratugnum, um að lífeyrissjóðir almennings myndu smám sama kaupa upp öll hlutabréf á markaði í Svíþjóð.

Þetta þótti snjöll hugmynd hjá þeim sem voru lengst til vinstri í pólitíkinni.

Þar eð sjóðirnir væru í eigu launafólks, mætti með þessum hætti smygla sósíalísmanum inn um bakdyrnar.

Í stað þess að steypa kapítalismanum í blóðugum stéttaátökum myndu launamenn einfaldlega kaupa út kapítalistana (með sparifé sínu) og koma atvinnulífinu þar með í sameign þjóðarinnar (eða a.m.k. í sameign launamanna).

Atvinnurekendur í Svíþjóð börðust af krafti gegn þessari hugmynd og var hún á endanum lögð til hliðar.

Miðað við frétt Fréttablaðsins í dag erum við hins vegar á hraðferð inn í sænskan sjóðasósíalisma, með því að íslensku lífeyrissjóðirnir eiga nú þegar um 37% allra hlutabréfa á aðallista íslensku kauphallarinnar.

Lífeyrissjóðir eiga jafnvel í fyrirtækjum sem keppa innbyrðis á markaði, t.d. í báðum helstu tryggingafélögunum. Sjóðirnir eru alls staðar.

Þeir eiga t.d. í Össuri (110,2 milljarða króna virði), Icelandair (98,5 ma.), Marel (94 ma.), Högum (52,4 ma.), Eimskip (50,7 ma.), VÍS (26,4 ma.), TM (23,2 ma.), Reginn (20,7 ma.), N1 (18,8 ma.), Vodafone (10,3 ma.) og Nýherja (1,5 ma.).

Á Íslandi var það gjarnan svo hér áður fyrr að eignarhald olíufélaga var eins konar djásn í krúnu fyrirtækjakapítalista. Eitt slíkt djásn var gjarnan í helstu keðjum fyrirtækja, svo sem hjá Kolkrabbanum og Smokkfiskinum.

Nú er N1 sem sagt í sameign sjóðsfélaga – í sjóðasósíalismanum íslenska. Þetta er auðvitað athyglisverð þróun.

 

Laun stjóra og stjórnarmanna hækka – en almenningur sýni hófsemd og lækki verðbólgu

Samt er það svo að almennir launamenn njóta lítils og forstjóri frá Eimreiðinni, þ.e. félagi frjálshyggjumanna í Sjálfstæðisflokknum, var þar til nýlega forstjóri Framkvæmdasjóðs lífeyrissjóðanna.

Atvinnurekendur eru líka með fulltrúa í öllum stjórnum lífeyrissjóða, með verkalýðsleiðtogum. Sennilega hafa atvinnurekendur mestu áhrifin í stjórnunum – þeir eru meira í fjármálum, klæðast flottari jakkafötum og kunna betur á Excel-skjölin en verkamennirnir.

Í stjórnum sjóðasósíalismans leika aðilar vinnumarkaðarins “fjárfesta” og tengjast órjúfanlegum böndum. Slíkur hjúskapur gæti þó hamlað kjarabaráttu verkalýðsfélaga.

Það reynist t.d. mun auðveldara að hækka laun stjóranna í félögunum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem og hjá stjórnarmönnum í lífeyrissjóðunum, en að hækka kaup almennings. Almenningi er ætlað að axla ábyrgð á lækkun verðbólgu í staðinn.

Þetta er hinn nýi veruleiki fjármálanna á Íslandi. Stóra spurningin er hvort launþegahreyfingin hafi mótað sér skýrar hugmyndir um hvernig best sé að stýra þessu bákni og hvernig tilvist þess verði til góðs fyrir almenning og lífeyrisþega um langa framtíð. Ég held að mikið vanti upp á að fyrir öllu sé hugsað í þeim efnum.

Menn skyldu líka minnast þess, að lífeyrissjóðir voru þátttakendur í öllum útrásarverkefnum sem farið var í frá Íslandi fram að hruni. Töpuðu svo hátt í fjórðungi af eignum launafólks í hruninu.

Lífeyrissjóðirnir eru nú helstu fulltrúar og valdhafar kapítalismans á Íslandi.

Stjórnun þeirra skiptir afar miklu fyrir valddreifinguna í samfélaginu – og raunar fyrir framþróun samfélagsins alls.

 

Síðasti pistill: Launastefna Adams Smiths

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.2.2014 - 09:59 - FB ummæli ()

Adam Smith: Hækkun launa eykur afköst

Nýfrjálshyggjumenn hafa lengi flaggað Adam Smith sem læriföður sínum. Hann var jú helsti höfundur markaðshyggjunnar, sem hann skrifaði um í bók sinni Auðlegð þjóðanna, er kom út árið 1776.

En Adam Smith var ekki eins og dæmigerður nýfrjálshyggjumaður nútímans (“neoliberal” á ensku). Hans hugsun var miklu dýpri og víðari – og raunar tók hann mun meira tillit til félagslegra sjónarmiða en nýfrjálshyggjumenn almennt gera.

Hann barðist heldur ekki fyrir forréttindum til auðmanna, eins og nýfrjálshyggjumenn iðulega gera.

Atvinnurekendur gera gjarnan nýfrjálshyggjuna að sinni hugmyndafræði, enda mærir hún hlutverk þeirra í samfélaginu og óskar þeim sérstakra fríðinda, eins og skattfríðinda, frelsis frá afskiptum ríkis og verkalýðshreyfingar – og lítils launakostnaðar.

En Adam Smith var enginn talsmaður lágra launa. Það má sjá á eftirfarandi ívitnun í bók hans Auðlegð þjóðanna:

“Ríkuleg laun stuðla að aukinni vinnusemi meðal alþýðunnar, rétt eins og þau leiða til aukinnar fólksfjölgunar. Vinnulaunin eru sá vinnuhvati sem, eins og önnur mannleg eigindi, leiðir til árangurs í réttu hlutfalli við notkun hans. Gott viðurværi eykur líkamlegan styrk verkamannsins og hin þægilega von um bætt kjör og um að búa við þægindi í ellinni hvetur hann til að nýta líkamsstyrk sinn af fremsta megni.

Samkvæmt þessu er ljóst, að þar sem laun eru há eru verkamenn ætíð starfssamari, kostgæfnari og skjótvirkari en þar sem laun eru lág… (feitletrun mín)”

Adam Smith, Auðlegð þjóðanna, bls. 81-82

Og svo er þetta:

“Ekkert þjóðfélag getur sannanlega blómstrað ef meirihluti íbúanna býr við fátækt og eymd. Það er auk þess aðeins sanngjarnt að þeir sem fæða, klæða og byggja yfir þjóðina alla með vinnu sinni skuli sjálfir fá í sinn hlut nóg til að vera þolanlega haldnir í fæði, klæðum og húsnæði.”

Adam Smith, Auðlegð þjóðanna, bls. 79

Þetta er hliðin á Adam Smith sem nýfrjálshyggjumenn sýna aldrei né ræða um.

Þeir sem vilja losa Íslendinga úr faðmi láglaunastefnunnar eiga sem sagt öflugan stuðningsmann í Adam Smith.

Hann er talsmaður launastefnu sem felur í sér há laun verkafólks og almennings og meiri árangur í framleiðslu (meiri framleiðni). Hvoru tveggja vantar tilfinnanlega á Íslandi og fer einmitt vel saman, eins og fram kemur hjá Adam Smith.

Hærri laun > aukin framleiðni > aukinn hagvöxtur.

Þetta er stefnan sem launþegahreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld ættu að sameinast um.

 

Síðasti pistill: Hof Poseidons – myndir frá Grikklandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.2.2014 - 21:27 - FB ummæli ()

Hof Poseidons – nýtt í galleríinu

Ég hef nýlega klárað nýja seríu frá Grikklandi í galleríi mínu á netinu. Smellið á hof Poseidons hér að neðan til að sjá seríuna (sniðugt að skoða í „Slideshow“ – efst til hægri).

004-DSC_1548 c1

Hér má svo sjá galleríið í heild sinni: http://www.pbase.com/stefanolafsson/root

 

Síðasti pistill: Er það lýðskrum að vilja bæta hag almennings?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.2.2014 - 11:20 - FB ummæli ()

Lýðskrum að vilja bæta hag almennings?

Lýðræði á að snúast um það, að kjörin stjórnvöld þjóni almenningi – almannahag.

Það þýðir að stjórnvöld eiga að reyna að svara óskum og þörfum fjöldans, eins og frekast er kostur.

Eitt af því mikilvægasta sem stjórnvöld eiga að gera er að stuðla að bættum hag sem flestra. Auka velferð og kaupmátt allra, ekki bara fámennrar yfirstéttar. Bæta lífsgæði heildarinnar.

Þetta er kjarninn í klassískum boðskap John Stuart Mills um lýðræðið. Þetta er líka grundvöllur velferðarríkisins í blönduðum hagkerfum nútímans.

Samt heyrum við ætíð raddir sem kenna það við “lýðskrum” þegar stjórnmálamenn vilja svara kalli almennings um bættan hag á tilteknum sviðum.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi stjórnarformaður MP banka, kallar tillögur Framsóknarflokksins um skuldalækkun til heimila og afnám verðtryggingar á neytendalánum “lýðskrum”.

Raunar kallar hann það líka “þjóðernispopúlisma”, til að krydda það með enn neikvæðari tón.

Í dag segir Þorsteinn sigri hrósandi að lélegt meirihlutaálit nefndar forsætisráðherra um afnám verðtryggingar feli í sér „bakslag fyrir popúlisma” Framsóknar. Samt er forsætisráðherra búinn að lýsa því að hann muni taka fullt tillit til vitlegra minnihlutaálits Vilhjálms Birgissonar.

Sumir verkalýðsleiðtogar í ASÍ eru reyndar komnir svo langt af leið kjarabaráttunnar að þeir kalla félaga sína sem vilja alvöru kjarabætur fyrir launafólk “lýðskrumara”.

Kyrja í staðinn hagfræðiþulur atvinnurekenda um að lágu launin á Íslandi séu helsta orsök mikillar verðbólgutilhneigingar. Slíkt tal hefði mátt reyna ef laun almennings á Íslandi væru sérstaklega há. Því fer þó fjarri.

Manni sýnist að launþegahreyfingin sé búin að missa trúna á að hægt sé að auka kaupmáttinn í landinu – jafnvel þó þokkalegur hagvöxtur sé. Það er auðvitað út úr öllu korti.

Er ekki tímabært að rifja upp hvert eðli og hlutverk stjórnvalda í lýðræðisþjóðfélagi á að vera?

Og hvert hlutverk launþegahreyfingar er?

 

Síðasti pistill: Hvers vegna varð risahrunið á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.1.2014 - 00:13 - FB ummæli ()

Hvers vegna varð risahrunið á Íslandi?

Í framhaldi af umræðunni um hina mikilvægu bók Guðrúnar Johnsen um hrunið er fróðlegt að velta nánar fyrir sér, hvers vegna þetta gríðarlega klúður varð á Íslandi? Það gerðist ekki af sjálfu sér.

Guðrún lýsir því vel í bók sinni hvernig ofurvöxtur bankakerfisins, sem byggður var á óhóflegri skuldasöfnun, jók áhættu og gerði bankakerfið á endanum ósjálfbært.

Þegar alþjóðlegir fjármálamarkaðir lokuðust var ekki lengur hægt að halda kerfinu gangandi með endurfjármögnun. Björgun að hálfu Seðabanka og stjórnvalda var langt frá því að vera möguleg.

Auðvitað brugðust þeir sem áttu að verja þjóðina gegn ofvexti og óhóflegri áhættu í bönkunum – Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og stjórnvöld – eins og Guðrún sýnir með skýrum hætti.

En hvers vegna fóru bankamennirnir og fyrirtækjamennirnir sem tóku mest að láni svona langt afvega? Hvers vegna gekk þetta svona langt?

Ekki voru þetta heimskir menn sem vissu ekki hvað þeir voru að gera? Nei, þetta voru vel menntaðir og klárir menn.

Það voru heldur ekki útlendingar sem ráku Íslendinga til að blása upp eitt stærsta bóluhagkerfi sögunnar, né brugðu fyrir þá fæti í eðlilegum viðskiptum. Það voru ekki Bretar sem tóku niður íslenska bankakerfið, eins og Guðrún Johnsen segir.

Jafnvel þó framboð lánsfjár á alþjóðamarkaði væri mikið þá áttu menn samt ekki að safna meiri skuldum er hægt var að greiða til baka á eðlilegan hátt.

Hvers vegna voru íslensku gerendurnir þá að safna svona óhóflegum skuldum, með svo vafasömum hætti?

Taumlaus gróðasókn íslenskra braskara

Megin ástæðan var sú, að þeir græddu gríðarlega á ævintýrinu. Brask með óhóflegt lánsfé var leið til að græða gríðarlega á stuttum tíma. Þetta var taumlaus gróðasókn að hálfu bankamanna og braskara, sem drekktu íslenska þjóðarbúinu á endanum í skuldum.

Tölur Ríkisskattstjóra um þróun tekna á áratugnum fyrir hrun sýna hvernig hátekjufólkið á Íslandi jók hluta sinn af heildartekjum þjóðarinnar, mjög langt umfram alla aðra landsmenn. Bankamennirnir og braskararnir voru í hópi tekjuhæstu einstaklinga landsins og juku tekjur sínar langmest allra.

Hraðinn í vexti tekna hátekjufólksins á Íslandi var mun meiri en hjá ríkasta eina prósentinu í Bandaríkjunum á sama tíma, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Þetta voru fordæmalaus uppgrip fyrir hátekjufólk á Íslandi, sennilega meiri en áður hafa sést á Vesturlöndum, enda jókst ójöfnuður tekna og eigna örar hér en annars staðar.

Slide2

Hlutur hátekjufólksins á Íslandi (þess eina prósents íbúa sem höfðu hæstu tekjurnar) fór frá því að vera um 4% af heildartekjum þjóðarinnar árið 1995 upp í tæplega 20% árið 2007, þegar bóluhagkerfið náði hámarki. Á sama tíma fór hlutur sama hóps í Bandaríkjunum frá um 15% í um 23,5%. Hraði tekjuaukningarinnar var miklu meiri á Íslandi.

Ég og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur fjöllum nánar um þetta í grein í nýrri bók um þróun tekjuskiptingarinnar í heiminum (sjá hér). Greinin heitir “Income Inequality in Boom and Bust: A Tale from Iceland’s Bubble Economy”.

Þarna er komin rökrétt skýring á því, hvers vegna óhófleg skuldasöfnun gekk svo langt á Íslandi. Bankamenn og braskarar slepptu græðgi sinni algerlega lausri og gengu eins langt og þeir komust. Tekjur þeirra jukust gríðarlega ört, einkum fjármagnstekjur.

Og þeir komust alltof langt vegna þess að eftirlit og aðhald frá stjórnvöldum, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti var alltof veikt, eins og sýnt er í bók Guðrúnar Johnsen.

Það var sem sagt yfirstéttin á Íslandi sem fór afvega í gróðaleit sinni – og þjóðin öll ber afleiðingarnar.

Það skiptir líka máli að óhófið, eftirlitsleysið og ójöfnuðurinn var réttlætt af hugmyndafræði frjálshyggjunnar, sem var hættulega áhrifamikil á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 28.1.2014 - 10:52 - FB ummæli ()

Dagur er með helmingsfylgi

Í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið fær Dagur B. Eggertsson um helmingsfylgi sem næsti borgarstjóri.

Stuðningur við Dag sem borgarstjóra hefur því aukist verulega frá nóvember sl. er hann með um 30%.

Ég hef áður vakið athygli á því að Dagur hefur unnið í kyrrþey að mörgum góðum málum. Hann leggur ríka áherslu á meiri nýsköpun í Reykjavík, húsnæðismál og lífsgæði, svo nokkuð sé nefnt.

Dagur er greinilega að uppskera laun erfiðis síns á síðustu árum. Hann er með réttar áherslur og kemur málum áfram.

Samfylkingin er með nokkurn ímyndarvanda og stendur ekki mjög vel á landsvísu eftir síðustu þingkosningar. Staðan er þó mun betri í Reykjavík.

Ef menn ætla að fá Dag sem næsta borgarstjóra, eins og helmingur kjósenda virðist vilja, þurfa sennilega fleiri að kjósa Samfylkinguna í borginni.

Á meðan er Sjálfstæðisflokkurinn sundraður í átökum og virðist vera að leysast upp í frumeindir sínar.

Það er því sóknarfæri fyrir skynsamlega og sanngjarna nútímapólitík á miðjunni – og fyrir vænlegan forystumann eins og Dagur er.

 

Nýlegur pistill: Stórmerk bók Guðrúnar Johnsen um hrunið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 26.1.2014 - 22:17 - FB ummæli ()

Oxfam veldur usla í veislunni í Davos

Skýrsla Oxfam um mikinn og sívaxandi ójöfnuð í heiminum var til umræðu á árlegu þingi helstu áhrifamanna heimsins í Davos í Sviss.

Á börum, í veislum, skíðabrekkum og fundarsölum auðmannasamkomunnar í Davos þetta árið var sem sagt talað um ójöfnuð. Heitasta umræðuefnið, sagði skondinn fjármálafréttamaður CNN.

Oxfam hafði sent samkomunni áskoranir um úrbætur.

Frétt Oxfam um að ríkustu 85 einstaklingarnir í heiminum eigi álíka miklar eignir og samanlagðar eignir helmings mannkyns (3.500.000.000 manna) er jú ansi mergjuð. Líka sú staðreynd að ójöfnuður er enn að aukast í kreppunni.

Oxfam-mönnum finnst að þeir hafi náð athygli, sem var markmið.

Aðrir segja að það sé hræsni að auðmenn í Davos ræði um ójöfnuð. Þeir séu sjálfir rót vandans.

Hins vegar hlýtur það að vera gott ef þessir auðmenn og tengdir áhrifamenn í pólitík gera eitthvað í málinu. Umræða í veislusölum þeirra yrði þá til góðs.

Auðvitað má efast um að auðmenn verði við þeim tilmælum Oxfam, að þeir hætti að fela auð sinn í skattaparadísum, styðji velferðarríkið, borgi starfsmönnum sínum hærri laun og greiði sjálfir meira í skatta – og hætti loks að kaupa sér áhrif í stjórnmálum til að auka auð sinn enn frekar. Sjáum til.

Bandaríski háðfuglinn Jon Stewart í The Daily Show gerir hins vegar grín að öllu saman, eins og sjá má hér:

 

Síðasti pistill: Víkingur í Hörpu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.1.2014 - 18:28 - FB ummæli ()

Víkingur í Hörpu

Lesa áfram »

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.1.2014 - 12:46 - FB ummæli ()

Ónýtar tillögur – verðtrygging blífur

Tillögur “nefndar um afnám verðtryggingar” gera ekki ráð fyrir afnámi verðtryggingar, heldur þrengja þær notkun hennar lítillega.

Þetta eru að mestu gagnlausar tillögur og takmarka einungis val fólks. Þjóna litlum tilgangi.

Markmið þessa starfs átti að vera að létta áþján húsnæðisskuldara vegna verðtryggingarinnar. Um það voru kosningaloforðin.

Ekkert slíkt kemur út úr tillögum meirihluta nefndarinnar, heldur má búast við að vaxtabyrði húsnæðislána aukist vegna tillagnanna. Erfiðara verði líka fyrir lágtekjufólk að eignast húsnæði.

Vilhjálmur Birgisson er hins vegar sjálfum sér samkvæmur og skilar séráliti. Hann vill bæta hag skuldara og jafna betur áhættu og byrðar milli skuldara og lánveitanda. Það má t.d. gera með þaki á verðtryggingu eða vaxtaþaki á óverðtryggða vexti. Ekkert slíkt er í tillögum meirihlutans.

Það var því rétt hjá Vilhjálmi að hafna tillögunum.

Niðurstaðan verður líklega sú, að verðtrygging verður áfram við lýði. En val um óverðtryggð lán er líka í boði og var þegar komið til sögunnar. Nefndin breytir því engu til batnaðar.

Hvernig á að bregðast við fyrirséðu framhaldslífi verðtryggingar á stórum hluta skulda heimilanna?

Rökrétt er þá að kjarasamningar verði verðtryggðir.

Ef launþegahreyfingin hefur einhverja burði til að verja hagsmuni launafólks þá á hún að setja fullan kraft í stefnu um verðtryggingu þeirra hóflegu hækkana sem hún nú aðhyllist. Það er í lagi að stefna á skandinavíska kaupmáttaraukningu (ca. 2% á ári), ef þeir kjarasamningar eru verðtryggðir – annars ekki. Það gengur vel upp án verðbólguþrýstings í 2-3% hagvexti.

Það er fullkomlega óásættanlegt að hafa verðtryggðar skuldir heimila en óverðtryggð laun. Það ástand er ígildi þess að leggja allar byrðar og áhættu þjóðarbúsins á herðar launafólks – en hlífa fjármálaöflunum.

Er ekki orðið tímabært að launþegahreyfingin fari að bjóða launafólki alvöru lífskjaratryggingar með starfi sínu? Eða ætlar hún að láta duga að starfa sem fjárfestir í stjórnum lífeyrissjóða, þar sem atvinnurekendur ráða för í flestu?

 

Síðustu pistlar:

Forstjórarnir – 98% samþykktu draumasamning

Ríkustu 85 einstaklingarnir í heiminum

Stórmerk bók Guðrúnar Johnsen um hrunið

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.1.2014 - 12:22 - FB ummæli ()

Forstjórarnir – 98% samþykktu draumasamning

Á meðan rúmur helmingur meðlima ASÍ félaga felldi kjarasamninginn þá var annað uppi hjá atvinnurekendum.

Um 98% þeirra samþykktu samninginn. Þetta var þeirra draumasamningur.

VR er fjölmennasta félagið sem samþykkti samninginn. Þar eru hins vegar um eða innan við 5% meðlima sem taka laun samkvæmt töxtum kjarasamninga. Langflestir þeirra eru yfirborgaðir, því taxtarnir eru svo lágir. Kjarasamningar skipta því litlu máli fyrir meðlimi VR. Einu gildir hvort þeir eru felldir eða samþykktir.

Ef við tökum tillit til þessa þá er höfnun samningsins meðal launþega í ASÍ meira afgerandi.

SA-menn segja að hækkanir samningsins hafi verið í efri kanti “þess sem er ásættanlegt”. Þeir vilja ekki greiða meira. Þeir verða þó væntanlega að leggja meira á borðið til að klára dæmið. Forsætisráðherra sagði jú í áramótaárvarpi sínu að lægri laun á Íslandi væru óásættanlega lág.

Raunar eru meðallaun líka óásættanlega lág hér og jafnvel sum hærri launin í opinbera geiranum.

Ísland er óeðlilega mikið láglaunaland, miðað við hagsældarstig þjóðarbúsins (sjá hér og hér og hér).

Þarna er verkefni sem kallar á alvöru kjarasamninga, en ekki gervisamning sem kallaður er “skandinavískur samningur” í blekkingarskyni.

Launþegahreyfingin ætti nú að móta stefnu til nokkurra ára um að gera launakjör á Íslandi meira samkeppnisfær við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum – og taka vinnutíma og framleiðni inn í dæmið.

Síðan má í framhaldinu semja um hóflegar kauphækkanir innan ramma hagvaxtarins (2-3% á ári) og með verðtryggingum.

Það væru alvöru “kaupmáttarsamningar”.

 

Síðustu pistlar:

Stórmerk bók Guðrúnar Johnsen um hrunið
Ríkustu 85 einstaklingarnir í heiminum
Hvað þarf til að kaupmáttur aukist á árinu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar