Föstudagur 22.3.2013 - 22:38 - FB ummæli ()

Auðmannadekur íslenskra hægri manna

Það er auðvitað ekki nýtt að frjálshyggjumenn þjóni auðmönnum. Það hefur verið megininntak frjálshyggjunnar frá um 1980.

Frjálshyggjumenn hafa boðað auðhyggju, lækkun skatta á hátekjufólk, fjárfesta og atvinnurekendur. Þeir vilja um leið veikja launþegafélög og skera niður velferðarríkið.

Arthur Laffer er einn helsti talsmaður auðmannadekursins í Bandaríkjunum.

Hannes Hólmsteinn bauð honum til Íslands í nóvember 2007. Laffer varð frægur að endemum er hann lýsti því yfir að ástand fjármála og efnahagsmála á Íslandi væri þá eins gott og hugsast gæti!

Fjármálaráðherrann Árni Matthiesen og Hannes sjálfur fullyrtu við sama tækifæri að Ísland væri sönnun þess að kenningar Laffers virkuðu.

Tíu mánuðum síðar hrundi Ísland eins – og spilaborg!

Fjármálamiðstöð frjálshyggjunnar reyndist vera svikamylla sem byggð var á skuldasöfnun og braski auðmanna – samkvæmt formúlu frjálshyggjunnar.

Hér er brot úr messu Laffers á Íslandi þar sem hann brýnir auðmannadekrið. Talar um að menn eigi ekki að amast við ríkidæmi fólks. Svo smjaðrar hann fyrir fátækum og segir að hækka eigi tekjur þeirra fátæku en ekki lækka tekjur ríka fólksins.

En hvað hefur hann fram að færa til þess? Ekkert!

Frjálshyggjumenn mæla aldrei með því að lægstu laun séu hækkuð. Þeir mæla heldur aldrei með því að lífeyrir eða bætur séu hækkaðar. Þeir vilja alltaf skera allt slíkt niður. Líka Laffer.

Stefna frjálshyggjunnar eykur iðuglega fátæktina. Það liggur í því, að þegar meira rennur til ríka fólksins þá verður minna eftir handa millistéttinni og þeim fátæku.

Reynslan af framkvæmd stefnu Laffers og frjálshyggjunnar almennt í Bandaríkjunum frá 1980 er einmitt sú, að tekjur ríka fólksins hafa hækkað rosalega en miðtekjufólk hefur staðið í stað og lágtekjufólk lækkað. Þetta má sjá hérhér og hér.

Þetta er líka stefna hægri manna á Íslandi. Frjálshyggjupáfinn Hannes Hólmsteinn er helsti boðberi þessara sjónarmiða hér. Það var með þessari hugmyndafræði sem frjálshyggjumenn tóku yfir Sjálfstæðisflokkinn og breyttu honum varanlega í „flokk ríka fólksins„.

Slagorðinu “stétt-með-stétt” var þar með fleygt á haugana. Sjálfstæðismenn kórónuðu auðmannadekrið með því að gera auðmanninn Bjarna Benediktsson að formanni nýja Sjálfstæðisflokksins.

Það var við hæfi!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.3.2013 - 20:53 - FB ummæli ()

Sátt um sjálfseyðingu?

Margir eru mjög hugsi yfir þróun stjórnarskrármálsins.

Eitt er að málið skyldi verða afgreitt svo seint til þinglegrar meðferðar að hætta varð á tímaþröng. Ljóst var snemma að vænta mátti mikillar mótspyrnu frá stjórnarandstöðunni, einkum Sjálfstæðisflokki.

Hitt er að formaður Samfylkingarinnar skyldi á lokasprettinum setja í gang fléttu um sátt við stjórnarandstöðuna, án þess að hafa haft nokkuð til að byggja á, að því er virðist. Lágmark var að vænta hefði mátt þátttöku Framsóknar, til að réttlæta tilraunina. Þar voru hins vegar engar undirtektir þegar á reyndi – seint og um síðir.

Varaformaður Framsóknar kallar nú auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar “sósíalisma”! Það segir ansi mikið. Samt studdu 82% þjóðarinnar þetta ákvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Nú virðast líkur á að ekkert komi út úr þessari fléttu og stjórnarskrármálið fjari jafnvel út við þinglokin. Verði ekki einu sinni tekið til atkvæðagreiðslu, þó meirihluti sé fyrir því.

Minnihlutinn virðist hafa völdin!

Ef ekki tekst að fá í það minnsta sáttatillögu formannanna samþykkta þá er illt í efni. Ekki bara fyrir stjórnarskrármálið, heldur einnig fyrir Samfylkinguna, sem öðrum fremur hefur barist fyrir málinu.

Þá væri Samfylkingin komin í þá furðustöðu að hafa sjálf drepið sitt draumamál! Það yrði illa séð af kjósendum og myndi hrekja marga úr stuðningsliðinu. Sjálfseyðing væri þá helsta niðurstaðan.

Vonandi hef ég rangt fyrir mér um þetta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.3.2013 - 22:16 - FB ummæli ()

Velferðarútgjöld – aldrei hærri en nú

Þó mest hafi verið talað um niðurskurð á sviði velferðarmála eftir hrun þá er staðreyndin sú, að velferðarútgjöld voru einungis skorin niður á sumum sviðum en aukin verulega á öðrum.

Nettóútkoman er sú, að velferðarútgjöld hins opinbera í heild hafa aldrei fyrr verið hærri en nú eftir hrunið. Það þýðir að velferðarkerfinu hefur verið beitt til að vernda heimilin gegn hluta af afleiðingum kreppunnar.

Sérstaklega voru tekjutilfærslur til heimilanna auknar (bætur og lífeyrir) en skorið var niður í þjónustuhlutum velferðarkerfisins (heilbrigðisþjónustu og menntun). Tekjutilfærslur til heimila má sjá á fyrri myndinni, sem % af landsframleiðslu.

Velferðarútgjöld

Mynd 1: Opinber útgjöld til almannatrygginga og bóta (tekjutilfærslur til heimila), sem % af landsframleiðslu (Heimild: Hagstofa Íslands)

Opinber útgjöld til lífeyris almannatrygginga og bóta (atvinnuleysi, barnabætur og vaxtabætur) jukust úr rúmlega 8% af landsframleiðslu 2006-7 upp í 11-12% frá og með 2009. Þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra á Íslandi.

Þetta er hluti þess sem hefur verið kallað “skjaldborg heimilanna”. Ekki var sjálfgefið að útgjöld væru aukin á þessu sviði, nema helst til atvinnuleysisbóta (vegna aukins atvinnuleysis). Aukin útgjöld til lágmarkslífeyris og vaxtabóta voru miðuð að því að minnka hættu á fátækt og létta greiðslubyrði hópa í sérstökum vanda.

Á Írlandi voru slík útgjöld dregin saman.

Á seinni myndinni má sjá hvernig útgjöldin til allra liða velferðar-, heilbrigðis- og menntamála þróuðust á föstu verðlagi, frá 1998 til 2011.

Velferðarútgjöld á föstu verðlagi

Mynd 2: Þróun opinberra útgjalda til allra þátta velferðarmála, á föstu verðlagi, 1988 til 2011. (Heimild: Hagstofa Íslands)

Þarna má sjá hvernig útgjöldin til almannatrygginga og bóta (svarta línan) jukust að raunvirði eftir hrunið og eru nú hærri en nokkru sinni fyrr.

Útgjöld til heilbrigðismála og menntamála lækkuðu hins vegar að raunvirði frá 2008 til 2011. Útgjöld til menntamála eru nú svipuð að raunvirði og var árið 2005 en útgjöldin til heilbrigðismála lækkuðu meira og eru nú svipuð og var á árinu 2003.

Þrátt fyrir lækkun útgjalda til heilbrigðismála og menntamála var hækkunin á tekjutilfærslum til heimilanna svo mikil að samanlögð heildarútgjöld til allra þessara liða eru hærri eftir hrun en nokkru sinni fyrr.

Bæði að raungildi og sem hlutfall af landsframleiðslu.

Þeir sem vildu laga fjárhagsvanda ríkisins með niðurskurði einum og engum skattahækkunum hefðu þurft að skera opinber útgjöld niður tvisvar sinnum meira en gert var í reynd.

Þá hefðu kjör heimilanna ekki verið varin með auknum tekjutilfærslum og enn meira hefði verið þrengt að heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Lífeyrisþegar hefðu tekið á sig mun meiri byrðar. Þeir sem eru óánægðir með “hversu lítið var gert fyrir heimilin” hefðu þá haft yfir mjög miklu að kvarta.

Í þessu liggur munurinn á velferðarstefnu og niðurskurðarstefnu, sem viðbrögðum við djúpri kreppu. Skattar voru einkum hækkaðir á tekjuhærri hópa og fyrirtæki til að greiða fyrir tekjutilfærslur til heimila með milli og lægri tekjur (sjá nánar um þetta hér).

Íslenska leiðin í gegnum kreppuna var leið velferðarstefnu og nýtur hún nokkurrar sérstöðu í Evrópu, þar sem niðurskurðarstefnunni hefur víðast verið beitt í meiri mæli en hér var.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.3.2013 - 15:38 - FB ummæli ()

Geta vestrænir róbótar keppt við Kínverja?

Race against machineNý tækni hefur lengi breytt framleiðsluháttum og leyst vinnandi hendur af hólmi. Það er gömul saga og ný, alveg frá árdögum iðnbyltingarinnar. Þetta er það sem Jósef Schumpeter, einn af mikilvægari hagfræðingum og samfélagsrýnum 20. aldarinnar, kallaði “skapandi eyðileggingu” (creative destruction).

Ný tækni eyðileggur gömul störf – en skapar oftast ný í staðinn. Til skemmri tíma getur slík tækniþróun leitt til atvinnuleysis, en til lengri tíma hefur yfirleitt tekist að búa til nógu mörg ný störf á öðrum sviðum, meðal annars með aukningu kaupmáttar og hærra stigi menntunar og fagþekkingar.

Nú segja menn að þetta sé að breytast. Ekki verði lengur til nógu mörg ný störf í ríku löndunum.

Lengi vel héldu menn á Vesturlöndum að gott mál væri að rútínubundin framleiðslustörf og láglaunastörf í þjónustu færðust til láglaunalanda, t.d. Kína og Indlands. Það var ein af afleiðingum hnattvæðingarinnar sem ágerðist stig af stigi á síðustu 30 árum.

Verstu störfin færu til þróunarlanda – en í staðinn yrðu til fleiri góð og vel launuð störf við sérfræði ýmiss konar og hástigs þjónustu. Eða svo héldu menn.

Slík þróun hefur vissulega orðið og stór hluti af iðnaðarframleiðslu Vesturlanda hefur þannig tapast til þróunarlandanna, þar sem laun eru miklu lægri. Verkafólk ríku landanna er einfaldlega ekki samkeppnishæft við láglaunafólk í Kína og Indlandi og öðrum þróunarlöndum (sjá nánar hér).

Það nýjasta er að hátæknistörf og ýmis þjónustustörf eru líka að flytjast til láglaunalanda, sem hækka menntunarstig sitt og færni. Sérfræðingar á þessu sviði eru því farnir að hafa meiri áhyggjur af starfstækifærum á Vesturlöndum en áður.

En vélmenni, róbótar og tölvur eru líka að hafa áhrif á störfin í ríku löndunum.

Skoðið þetta frábæra myndband frá “60 minutes” þættinum um áhrif tækniþróunar á störf. Þar er viðtal við Eric Brynjolfsson og Arthur McAfee sem hafa skrifað mjög athyglisverða bók um málið, Race against the machine.

 

Fjölgun iðnaðarróbóta er ekki ný af nálinni. Menn voru byrjaðir að tala um það fyrir 20-30 árum síðan, og sú tækni hefur fengið stærra hlutverk, t.d. í bílaframleiðslu, bæði á Vesturlöndum og annars staðar.

Róbótar hafa hins vegar verið lítið í fréttum á síðustu árunum, kanski vegna þess að fjármálaþjónustan skyggði á þá. Fjörið og tekjurnar voru á sviði fjármálanna – fram að kreppunni.

Sérfræðingar segja hins vegar að mikið hafi verið að gerast í þróun og fjölgun róbóta á síðustu árum. Róbótar eru núorðið farnir að keppa við menn um störfin á Vesturlöndum. Þannig að bæði hnattvæðingin og róbótarnir takmarka starfstækifærin fyrir unga fólkið í ríku löndunum.

Menn sjá þetta alls staðar. Heimabankar leysa bankamenn af hólmi, verslun á netinu leysir verslunarfólk af hólmi, sjálfsalar skrá okkur í flug, þjónustusjálfsalar sinna margvíslegum erindum í síma, vélmenni manna risastór vöruhús, o.s.frv… Listinn gæti verið mjög langur.

Það nýjasta er að nú sé möguleiki á því að ná einhverju af störfum til baka frá Kína og Indlandi – en ekki handa fólki, heldur handa vestrænum róbótum. Kostnaður við nýja róbót í Bandaríkjunum er nú svipaður og tímakaup kínverskra verkamanna!

Ef þetta reynist rétt, þá eru horfurnar ekki nógu góðar fyrir venjulegt fólk – en þær eru hins vegar batnandi fyrir verstræna róbóta!

Þarna er athyglisverð umræða um framtíðina, tæknina og störfin…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.3.2013 - 09:25 - FB ummæli ()

Framsókn býður kjarabætur

Það eru tíðindi þegar Framsóknarflokkurinn er orðinn stærstur flokka í landinu samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum.

Icesave-dómurinn gaf Framsókn góðan vind í seglin eftir að flokkurinn hafði verið í lágmarksfylgi allt kjörtímabilið, þrátt fyrir ákafa og á köflum mjög háværa stjórnarandstöðu.

Síðan strengdu Framsóknarmenn loforðabogann og buðu hrjáðum heimilunum miklar kjarabætur, með stórtækri niðurfellingu skulda og afnámi verðtryggingar – og skattalækkanir í kaupbæti.

Það hittir í mark.

Almenningur virðist sjá í gegnum loforð Sjálfstæðismanna, minnugur þess að þeir með sitt auðmannadekur munu fyrst og fremst lækka skatta á þá betur stæðu. Einn af hverjum fimm sem áður kusu Sjálfstæðisflokkinn hefur fært sig yfir á Framsókn.

Sjálfsagt hefur óánægja með forystu Sjálfstæðisflokksins líka eitthvað með þessa sókn Framsóknar að gera. Vafningsferill Bjarna Benediktssonar í viðskiptalífinu og baksætisforysta Davíðs og Hannesar hugnast sífellt færri.

Á meðan sitja stjórnarflokkarnir með lágmarksfylgi, þó þeir hafi náð ágætum árangri við hreinsunarstarf og endurreisn, ekki síst miðað við aðrar kreppuþjóðir í Evrópu. Þeir bjóða upp á áframhaldandi ábyrga fjármálastjórnun.

Enginn hefur áhuga á því.

Kjósendur vilja kjarabætur. Það er líka skiljanlegt.

Heimilin höfðu fallið í þá freistingu að skuldsetja sig mörg of mikið á bóluárunum og svo þegar krónan hrundi um ca. 50% á árinu 2008 þá magnaðist skuldavandinn og kaupmátturinn hrundi, um 20% að meðaltali.

Þó lágtekjufólki hafi verið hlíft að hluta við kjaraskerðingunni þá er kaupmáttur ráðstöfunartekna flestra enn alltof lítill. Hann hækkaði á árinu 2011 en ekkert á árinu 2012 og virðist líka ætla að standa í stað á yfirstandandi ári. Þrátt fyrir afskriftir og verulega hækkun vaxtabóta eru kjörin sem sagt enn alltof lök.

Þar er við aðila vinnumarkaðarins að sakast. Þeir bera mesta ábyrgð á stöðu kaupmáttarins. En þeir eru ekki í framboði til Alþingis. Þeir stýra bara úr baksætum samráðsins.

Það er því skiljanlegt að þeir sem bjóða heimilunum mestu kjarabæturnar fái mesta fylgið. Hvort hægt er að efna slík loforð er svo auðvitað allt annað mál.

En hví skyldi fólk ekki láta á það reyna? Mig grunar að margir hugsi einmitt þannig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 16.3.2013 - 10:13 - FB ummæli ()

Opinberi geirinn – stærri eða minni en áður?

“Báknið burt” varð að kjörorði á hægri væng stjórnmálanna frá því um 1980. Það stóð fyrir þá ósk að minnka hlutverk ríkisins og stækka hlutverk einkageirans.

Menn hafa stundum tengt vinstri menn við óskina um að hafa ríkisvaldið stærra og hægri menn við minna ríkisvald. Það er þó einföldun því reynsludómur sögunnar sýnir að hægri menn viðhalda oft stóru ríkisvaldi.

Kanski ætti frekar að spyrja hvað ríkið gerir og hvernig það starfar, frekar en hversu stórt það er – á meðan stærðin er innan hóflegra marka.

Í þessu samhengi er fróðlegt að skoða helstu fjárhagslegu mælikvarða á heildarumfang hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, auk almannatrygginga. Það er gert á myndinni, með nýjustu tölum Hagstofunnar.

Tekjur og gjöld opinber til 2012

Gráu súlurnar sýna heildartekjur opinbera geirans, sem að langmestu leyti eru skatttekjur. Rauða línan sýnir heildarútgjöld. Hvoru tveggja eru sýnd sem hlutföll af landsframleiðslu. Tekjur og útgjöld að raunvirði á föstu verðlagi hafa svipað mynstur.

Tekjur opinbera geirans hafa oftast verið á bilinu 40-43% af landsframleiðslunni eftir 1995, nema á bóluárunum 2004 til 2007, er þær fóru í 44-48%. Nú á síðustu fjórum árunum voru tekjurnar einmitt á því róli (41-43%). Tekjurnar lækkuðu sem sagt eftir hrun niður á svipað plan og verið hafði fyrir bólutímann.

Tekjur hins opinbera eru á árinu 2012 mjög svipaðar og var á árunum 1999, 2000 og 2003, sem hlutfall landsframleiðslu.

Útgjöldin voru alla jafna ekki mjög langt frá tekjunum. Þó má sjá stór frávik. Stóru tíðindin af útgjöldunum urðu auðvitað með hruninu. Þannig má sjá að útgjöldin ruku upp árið 2008, í fordæmalausar hæðir, nærri 58% af landsframleiðslu.

Það var vegna beins kostnaðar við hrunið, einkum vegna endurreisnar Seðlabankans eftir gjaldþrot hans og einnig vegna kostnaðar við endurreisn annarra banka.

Einhver sagði á blogginu um daginn að vinstri stjórnin hafi notað tækifærið eftir að hún komst til valda til að stækka opinbera geirann. Það var hins vegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem var við völd árið 2008 og átti metið í aukningu opinberra útgjalda. Það var þó auðvitað ekki að neinni ósk eða vegna stefnu þeirra, heldur var þetta tjón sem lagðist á ríkið vegna hrunsins.

Vinstri stjórnin bar svo áfram talsverðan kostnað af hruninu á næstu árunum eftir að hún komst til valda 2009 (aukið atvinnuleysi, kostnaður við Íbúðalánasjóð, Sparisjóði o.m.f.). En þróun útgjaldanna hefur verið niður á við frá 2009 til 2012, eftir því sem endurreisninni hefur fram undið.

Raunar hefur vinstri stjórnin minnkað „báknið“, fyrst ríkisstjórna síðan 1980, því hún fækkaði ráðuneytum og fækkaði jafnframt starfsmönnum við opinbera stjórnsýslu um 20% frá 2007 til 2011 (sjá hér).

Þegar útgjöldin fóru framúr tekjunum varð munurinn auðvitað að skuldum hins opinbera, sem stórjukust í kjölfar hrunsins. Það fylgir fjármálakreppum.

Tekjur og gjöld eru svo að nálgast á árinu 2012 og 2013. Þá er stærð opinbera geirans aftur orðin svipuð og var á árunum áður en bóluhagkerfið fór á flug.

Ætli það megi ekki teljast þokkalega eðlilegt. Opinberi geirinn er þó enn minni hér en á hinum Norðurlöndunum, eins og lengst af hefur verið, þó Ísland hafi nálgast frændþjóðirnar í þeim efnum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 14.3.2013 - 12:21 - FB ummæli ()

Veruleikinn hafnar „lögmáli” frjálshyggjunnar

Frjálshyggjumenn eru eins og mormónar og marxistar. Þeir hafa uppgötvað “lögmálið”. Hina einu sönnu kenningu sem þeir trúa á – hvað sem á dynur.

Kenningin gildir um flest og engin frávik eru umborin í trúarheimi þeirra.

Hjá frjálshyggjumönnum er lögmálið óheft markaðshyggja. Hún er sögð besta leiðin til að haga skipan efnahagsmála, viðskipta og fjármála. Sú leið sem mestum árangri skili.

Allt sem markaðurinn gerir er gott. Allt sem ríkið gerir er slæmt. Sem flest á því að fela markaðinum en lítið pláss er fyrir lýðræði og ríkisvald. Svo segir í bók frjálshyggjunnar.

 

Fundur hjá frjálshyggjumönnum í gær

Ég fór á fund hjá frjálshyggju-hugveitu Hannesar Hólmsteins og félaga í gær. Þeir voru með enskan gest sem fjallaði um “hinar raunverulegu orsakir fjármálakreppunnar”. Philip Booth heitir hann og er háskólakennari í viðskiptafræði og leiðtogi frjálshyggju-veitunnar Institute for Economic Studies í London. Sá var ekki alslæmur – en slæmur þó.

Booth viðurkennir að fjármálamenn geri mistök. Fjármálamarkaðurinn líka. Það er reyndar talsvert afrek fyrir frjálshyggjumann að viðurkenna þetta, því það rekst á rétttrúnað frjálshyggjunnar. En hann bætir við og segir að eftirlitsmenn og stjórnmálamenn séu engu betri. Allir séu ófullkomnir. Því sé ekkert að byggja á reglun, aðhaldi og eftirliti.

En vegna mistaka fjármálamanna verða einmitt fjármálakreppurnar. Þeir láta undan freistingum, verða of áhættusæknir og auðvelda óhóflega skuldasöfnun í þjóðarbúinu. Þetta þekkjum við Íslendingar betur en aðrir, enda núverandi heimsmetshafar í áhættusækni fjármálamanna og skuldasöfnun þjóðarbúsins.

Eins og reyndustu rannsakendur á sviði fjármála hafa ítrekað sýnt (sjá t.d. umfjöllun hér) þá steypast þjóðir út í fjármálakreppur þegar skuldasöfnun vegna of mikillar áhættutöku keyrir um þverbak. Freistingar og græðgi sjá til þess að menn fara offari, þegar frelsið býður upp á slíkt. Að þessu leyti er frelsi á fjármálamarkaði hættulegt.

Þegar í óefni er komið og bankar hrynja draga þeir þjóðarbúið allt með sér í niðursoginu og efnahagskreppa tekur við, þar sem saklaus fórnarlömb verða mörg illa leikin. Þetta kennir sagan okkur. Þetta þekkjum við Íslendingar líka vel.

 

Er enn meiri frjálshyggja lausnin?

Boðskapur frjálshyggjumannsins frá London er sá, að lítið sé við þessu að gera. Hann talaði þó eins og hægt væri að koma við skipan þar sem bankar gætu farið á hausinn án þess að það hefði afleiðingar fyrir umhverfið, þannig að einungis eigendur banka og lánveitendur þeirra tapi sínu.

Þetta er því miður óraunsær draumur, því bankar eru samtengdir hver öðrum og fyrirtækjum á ótal vegu, líka milli landa í hnattvæddum fjármálaheimi, þannig að þegar gjaldþrotaskriða banka fer af stað þá fær ekkert stöðvað hana. Án viðnáms stigmagnast kreppuskriðan. Það kalla frjálshyggjumenn að “markaðurinn leiðrétti sig”, en slíkt gerist einungis með gríðarlegu tjóni fyrir samfélagið allt.

Raunar gekk þessi ágæti frjálshyggjumaður frá London svo langt að fullyrða að reglun og eftirlit með fjármálastarfsemi, frá seðlabönkum, fjármálaeftirliti og stjórnvöldum, gerði iðuglega illt verra. Hefði sjálfstæð aukaáhrif til að magna vandann.

Niðurstaðan var þá sú, að best væri bara að láta óhefta markaðinn ríkja, leggja af reglur og eftirlitið og láta skeika að sköpuðu. Skafti Harðarson spurði upptendraður á þeim tímapunkti hvort nokkur þörf væri yfirhöfuð fyrir seðlabanka sem lánveitanda til þrautavara. Svarið var, í löngu máli, “nei – eiginlega ekki”!

 

Reynsludómur sögunnar afsannar frjálshyggjuna

En þessi frjálshyggjumaður frá London gerir hins vegar þá reginskyssu að horfa framhjá reynsludómi sögunnar, þegar hann dæmir alla reglun, aðhald og eftirlit með fjármálamörkuðum gagnslausa. Hver er sá dómur?

Hann er sá, að eftir slæma reynslu af óheftum kapítalisma frá 1920 til 1939, ekki síst í Bandaríkjunum, þá var reglun, aðhald og eftirlit með fjármálamörkuðum stóraukið víðast á Vesturlöndum frá stríðslokum. Við það datt tíðni fjármálakreppa nánast alveg niður, næstu 30 árin.

Áhættan hafði verið tamin að verulegu leyti, með hertari reglum og Bretton Woods skipan alþjóðafjármála, sem takmarkaði frelsi til fjármagnsflutninga milli landa.

Síðan fór að gæta aukinna frjálshyggjuáhrifa á ný á áttunda áratugnum og sérstaklega eftir 1980. Afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar mótaði þá umhverfið í meiri mæli. Reglur voru rýmkaðar, eftirlit veikt og ýmis nýmæli innleidd (t.d. vafningar skuldabréfa), sem allt hafði þau áhrif að gera áhættuhegðun og skuldasöfnun auðveldari en áður hafði verið.

Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Tíðni fjármálakreppa jókst á ný og skuldastig fjölmargra þjóða sömuleiðis, stig af stigi eftir 1980. Núverandi fjármálakreppa er einfaldlega hápunktur þeirrar þróunar. Frelsið var aukið á fjármálamörkuðum og græðginni sleppt lausri.

Þetta er reynsludómur sögunnar, eins og Reinhart og Rogoff og flestir helstu sérfræðingar í fjármálakreppum hafa sýnt. Meira að segja skynsamari frjálshyggjumenn eins og Richard A. Posner hafa varað við óheftum markaðskapítalisma af sömu ástæðu.

En frjálshyggjumenn á Íslandi berja höfðinu við (hólm)steininn og heimta óheftari markaði en fyrr. Kenna of miklum ríkisafskiptum um hvernig fór, bæði á Íslandi og annars staðar, þvert á viðurkenndar staðreyndir.

Þeir reyna að koma tvíefldir til leiks eftir frjálshyggjuhrunið og bjóða nú enn sterkari útgáfu af snákaolíunni, sem þeir seldu hér á Davíðs-tímanum.

Ætli það sé þó ekki farsælla fyrir þjóðina að byggja framtíðarstefnu sína á reynsludómi sögunnar en trúboði frjálshyggjumanna?

Áhættan af frjálshyggjunni er einfaldlega of mikil – og of dýr.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.3.2013 - 21:42 - FB ummæli ()

Veiðigjaldið fer í „Hús íslenskra fræða”

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók í gær fyrstu skóflustungu að Húsi íslenskra fræða, sem rísa mun á lóð gamla Melavallarins við Þjóðarbókhlöðuna.

Húsið verður vettvangur fyrir Árnastofnun, handritin og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Starfsemi á sviði íslenskra fræða eflist til muna og loks verður handritunum sýndur sómi með boðlegri sýningaraðstöðu fyrir erlenda sem innlenda gesti.

Þetta er því mikið fagnaðarefni. Fjárfesting í menntun, rannsóknum og ferðaþjónustu. Ríkið greiðir um 70% kostnaðar og Happdrætti HÍ restina.

Ekki er víst að margir viti af því, en hlutur ríkisins er greiddur af hinu nýja veiðigjaldi, sem ríkisstjórnin setti á í fyrra.

Framkvæmdin er hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og Bjartrar framtíðar sem hófst í byrjun þessa árs, en þar er sett fé til margvíslegra góðra framfaramála, svo sem stóraukin framlög til vísinda og nýsköpunarstarfs.

Samkeppnissjóðir vísinda- og nýsköpunarsamfélagsins eru t.d. tvöfaldaðir á þessu ári, sem er eitt stærsta framfaraskref sem stigið hefur verið á því sviði í áratugi.

Nýja veiðigjaldið er því að skila arði af sjávarauðlindinni til þjóðarinnar – svo um munar.

Forsaga Húss íslenskra fræða er líka fróðleg. Þannig var að þegar Háskóli Íslands varð 90 ára gamall, árið 2001, þá færði þáverandi menntamálaráðherra Björn Bjarnason háskólanum afmælisgjöf, eins og margir gerðu við það tækifæri.

Afmælisgjöfin sem Björn Bjarnason færði HÍ fyrir hönd þáverandi ríkisstjórnar var sú, eins og tilkynnt var við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu, að ríkið myndi færa Háskólanum nýja byggingu yfir íslensk fræði og Árnastofnun.

Sá böggull fylgdi skammrifi að gjöfin skyldi afhendast á 100 ára afmæli Háskóla Íslands, árið 2011! Þetta var sem sagt “loforð” um að einhver önnur ríkisstjórn myndi færa HÍ slíka afmælisgjöf á hundrað ára afmælinu, tíu árum síðar!

Þessi “afmælisgjöf” ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar vakti mikla furðu í yfirstjórn Háskólans á þessum tíma – og litla kátínu. Mönnum var auðvitað ljóst að loforð án fjármögnunar eru almennt lítils virði.

En sagan endar vel, því hin illræmda vinstri stjórn sem nú situr er að efna loforð Björns Bjarnasonar um afmælisgjöf til íslenskra fræða. Katrín Jakobsdóttir tók upp budduna og byrjaði að grafa!

Vinstri stjórnin sýnir óneitanlega mikinn stórhug með þessum gjörningi – svona snemma á uppsveiflunni eftir hrunið – og nýtir hið nýja veiðigjald til að fjármagna hlut sinn í byggingunni.

Það má því segja að hið nýja Hús íslenskra fræða sé farsæll ávöxtur af stefnu núverandi ríkisstjórnar. Það sýnir líka hverju má áorka með réttlátri gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda þjóðarinnar.

Sá skuggi er þó yfir málinu öllu, að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafa þegar lýst yfir að þeir muni afnema veiðigjaldið komist þeir til valda í vor. Skila því aftur til útvegsmanna – sem þó græða nú sem aldrei fyrr.

Kanski Sjálfstæðismenn hugsi sér að fjármagna bygginguna í staðinn með skattalækkunum, í anda þeirra vúdú-hagfræða sem nú tíðkast á loforðamarkaði stjórnmálanna! Ja, nema byggingin verði fórnarlamb niðurskurðar sem tilkynntur verði eftir kosningar?

Við sjáum til.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 11.3.2013 - 20:16 - FB ummæli ()

Ævintýraleg ríkisstjórn

Ekki verður annað sagt en að ferill vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms hafi verið ævintýralegur.

Ekki einasta tók hún við versta búi lýðveldissögunnar, í kjölfar frjálshyggjuhrunsins, heldur hefur hún verið athafnameiri og farsælli í störfum sínum en flestar aðrar ríkisstjórnir.

Þetta segi ég þó ég hefði sjálfur gert sumt með öðrum hætti en stjórnin gerði. Ef við eigum að láta hana njóta sannmælis þá hljótum við þó að viðurkenna, að hún hefur náð ótrúlega góðum árangri við endurreisnina við ótrúlega erfiðar aðstæður.

Í þessu samhengi er sigur stjórnarinnar á þingi í dag afar stór, þar sem hún stóðst furðulegustu tilraun lýðveldissögunnar til að fella hana með vantrausti.

Þar lögðust á eitt fulltrúar þeirra flokka (Sfl. og Ffl.) sem ekki vilja samþykkja tillögu stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá og Þór Saari, sem er svo mikill stuðningsmaður nýju stjórnarskrárinnar að hann vill frekar drepa hana alveg en að koma henni til framkvæmda í áföngum! Skrítinn hjúskapur það, því þingmenn B og D listanna studdu vantraustið þó það væri borið fram vegna meintra vanefnda stjórnarflokkanna við að koma stjórnarskrármálinu í höfn – sem þeir styðja þó alls ekki!

Hvað um það. Stjórnin stóðst prófið og klárar stjórnartímabilið – og kemur enn meiru í verk. Vonandi verða þar á meðal nýtt kerfi fiskveiðistjórnunar og nýtt kerfi almannatrygginga.

Síðan þarf að fá samþykki fyrir tillögum formanna stjórnarflokkanna tveggja og Bjartrar framtíðar um breytingu á auðlindaákvæðinu og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskránni, ásamt ákvæði um fyrirkomulag breytinga á stjórnarskránni.

Þó ekki takist nú að koma allri stjórnarskránni í gegnum þingið fyrir kosningar þá yrði samþykkt ofangreindrar tillögu gríðarlega stór sigur stjórnarflokkanna, Bjartrar framtíðar og annarra stuðningsmanna framfara í stjórnarskrármálinu. Það yrði einnig sigur fyrir Árna Pál Árnason, sem um tíma virtist hafa klúðrað málinu.

Ef nýr þingmeirihluti ætlaði sér svo að fella þau ákvæði úr gildi á næsta kjörtímabili, í þágu auðmannastéttarinnar, þá væri forsetinn vís með að senda slíkt stórmála í þjóðaratkvæðagreiðslu – ef á því væri flötur.

Það er því mikið í húfi að frumvarp formannanna þriggja komist í gegn fyrir þingslit.

Ekkert má standa í vegi þess að á meirihlutastuðning þess verði látið reyna (þar með talin beiting 71. greinar þingskapa).

Það er engan veginn ásættanlegt að minnihlutinn á þingi nái að koma stjórnarskrármálinu fyrir (villi)kattanef.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.3.2013 - 20:16 - FB ummæli ()

Kaupþingslánið – hver var tilgangurinn?

Leyndin yfir láni Seðlabankans til Kauþings 6. október 2008 er furðuleg. Þetta var daginn sem neyðarlögin voru sett og Geir Haarde bað guð að blessa Ísland. Landsbankinn hrundi daginn eftir og lánveitendur vissu það þegar þeir greiddu lánið út úr Seðlabankanum.

Lánið var að upphæð 500 milljónir Evra, eða rúmlega 80 þúsund milljónir króna. Lánið var veitt í flýti án þess að eðlilegir pappírar væru frágengnir. Ekki var fylgt starfsreglun Seðlabankans við gjörninginn.

Sigrún Davíðsdóttir skrifaði mikilvægan pistil um málið um daginn og spurði lykilspurninga sem ekki hefur verið svarað.

Vitað hefur verið að Davíð leitaði samráðs við Geir Haarde forsætisráðherra. Það er ekki aðalatriði málsins. Stóra spurningin sem enn er ósvarað lýtur hins vegar að því hvers vegna lánið var yfirhöfuð veitt – og það á þessum tíma í miðri hrunskriðunni.

Þetta var sem sé nokkru eftir að Glitnir var kominn í fangið á Seðlabankanum og fyrirséð var að Landsbankinn myndi falla daginn eftir. Bankahrunið var á fullu skriði.

Allir vissu að mikil vá var á ferðum. Bankarnir voru nátengdir í fjármálum og eignarhaldi sínu og viðbúið að áhlaup yrði gert á Kaupþing við fall Landsbankans.

Það sem þarf að upplýsa er m.a. þetta:

  • Hver var tilgangurinn með lánveitingunni?
  • Í hvað átti féð að fara? Hverju átti að bjarga?
  • Hvers vegna fór fjármagnið til Þýskalands þegar sagt var að erindið væri að bjarga dótturfyrirtæki Kaupþings í London?
  • Hvað varð endanlega um féð?

Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fer mikinn í helgarblaðinu og úthúðar RÚV og starfsfólki þess fyrir það að spyrja um málið. Segir fyrir liggja að forsætisráðherra hafi verið þessu samþykkur og því sé engu við það að bæta. Hann vegur harkalega að mannorði blaðamanna og fréttastjórans á RÚV. Davíð vill ekki að um þetta sé spurt.

Forsenda ritstjórans Davíðs Oddssonar er sú, að þjóðinni komi ekki við hvernig málið var í pottinn búið. Formaður fjárveitinganefndar Alþingis sem gengur eftir svörum fær líka sinn skammt af ófrægingum frá ritstjóranum.

En þetta er ekki einkamál Davíðs Oddssonar. Hann var ekki að lána smápeninga af eigin skotsilfri. Þetta var fé þjóðarinnar sem nú er a.m.k. að hálfu leyti tapað, að sagt er. Tapið er risaupphæð sem myndi duga til að byggja stóran hluta af nýjum Landsspítala.

Yfirgnævandi líkur voru á að lánsféð myndi glatast þegar það var veitt. Var lánið veitt einfaldlega vegna fákunnátta gerenda eða var eitthvert vitrænt plan á bak við gerninginn? Ef eðlilegar skýringar eru á málinu hvers vegna hafa þær ekki verið settar fram á skilmerkilegan hátt?

Var eitthvað óhreint við framkvæmdina og hvað varð um fjármagnið? Þessu öllu þarf að svara og raunar er óþolandi að það skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu síðan.

Auðvitað á að birta umrædda hljóðritun af samtali Davíðs og Geirs. En það má vel vera að lykilspurningunum sé ekki svarað í því. Fylgja þarf málinu alla leið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 9.3.2013 - 08:42 - FB ummæli ()

Davíð og Hannes Hólmsteinn stýra flokknum

Sjálfstæðisflokkurinn kemur höktandi út af nýlegum landsfundi sínum, með brotið mastur og lekan skrokk.

Séra Halldór Gunnarsson sagði sig úr flokknum í kjölfar fundarins, með þessum eftirminnilegu orðum:

“Sjálfstæðisflokkurinn, sem ég ungur hreifst af, er ekki lengur flokkur samhygðar, réttlætis, jafnræðis og frelsis á jafnréttisgrundvelli.

Hann er orðinn tæki auðmanna og þeirra, sem þeir velja til þjónustu, – í þágu auðvaldsins.”

Helgi Magnússon, fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins og langtíma áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, varaði svo í gær við öfgafullri einangrunarhyggju flokksins gagnvart Evrópusambandinu, sem fram kom á landsfundinum. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður flokksins, tók í sama streng hjá Samtökum atvinnulífsins. Jafnvel Engeyingurinn Benedikt Jóhannesson efast um að hann geti kosið flokkinn í vor!

Helgi spyr hverju það sætir að núverandi forysta flokksins skuli víkja frá stefnu sem Bjarni Benediktsson, fyrrverandi formaður, mælti fyrir árið 1969. Svo reifar Helgi skýringar á þessum umskiptum:

“Ein er sú að nokkrir fyrrum ráðamenn í flokknum hafa lengi farið mikinn í öfgakenndri andstöðu sinni við Evrópusambandið og mælt eindregið gegn samningaviðræðum, hvað þá samningum, og einskis svifist í málflutningi sínum. Þeir voru fyrirferðarmiklir á fundinum og höfðu sitt fram ekki síst vegna þess að núverandi forysta flokksins er veik og ráðvillt og hefur ekki burði til að leiða stefnumótun flokksins inn á farsælar brautir. Fyrir það mun flokkurinn gjalda í komandi kosningum.

Helgi Magnússon kennir sem sagt Davíð Oddssyni og hirð hans um einangrunarhyggjuna gagnvart Evrópu, okkar helstu viðskiptalöndum.

Þetta eru tvö afgerandi merki um breytinguna sem orðið hefur á Sjálfstæðisflokknum. Gamli Sjálfstæðisflokkurinn (“stétt-með-stétt”) er horfinn á braut en nýji Sjálfstæðisflokkurinn (flokkur auðmanna og einangrunarhyggju) situr eftir. Þessar áherslur voru hertar á landsfundinum.

Nýji Sjálfstæðisflokkurinn varð til þegar Eimreiðarklíka Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins tók flokkinn yfir. Það gerðist smám saman upp úr 1980 og með vaxandi hraða eftir 1995.

Hugmyndafræði Eimreiðarklíkunnar var og er harðsvíruð frjálshyggja, sem Hannes flutti inn frá Bandaríkjunum. Megininntakið í þeirri hugmyndafræði er skefjalaus þjónkun við auðmenn, peningahyggja, fjandskapur við ríkisvald og velferðarríkið – og kaldrifjuð valdafíkn. Einangrunarhyggja í anda Teboðsins ameríska hefur nú bæst í flóruna.

Tilgangurinn helgar meðalið þegar valdafíklar vilja ná völdum. Þannig varð það sjálfsagt fyrir hinn fallna leiðtoga hrunadansins að gangast útvegsmönnum á hönd, til að fá að ritstýra Morgunblaðinu. Davíð náði þannig verkfærinu, ritstjórn Moggans,  sem nota má sem fyrr til að stjórna Sjálfstæðisflokknum.

Þess vegna er hann enn svo áhrifamikill í flokknum, þó hann sé mesti fallisti hrunsins. Hann stýrði jú Íslandi inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar og síðan beint í stærsta fjármálahrun sögunnar, eftir að hann varð æðsti yfirmaður íslenskra peningamála, sem seðlabankastjóri.

Davíð sækir hugmyndir sínar í öfgasmiðjur Hannesar (sem sækir þær til Cato Institute, Fraser Institute, Heritage Foundation og fleiri áróðursveita frjálshyggjumanna í Bandaríkjunum). Þaðan koma leiðarljós Davíðs við stefnumótun hans, í bland við heimasmíðaða heift, veruleikafirringu og hroka.

Davíð og Hannes hafa í reynd hreðjatak á Sjálfstæðisflokknum.

Þess vegna eiga orð bæði Halldórs Gunnarssonar og Helga Magnússonar svo vel við um nýja Sjálfstæðisflokkinn.

Skyldi sómakært Sjálfstæðisfólk ekki vera hugsi yfir stöðu flokksins og forystu hans, bæði þeirri réttkjörnu og svo þeim í baksætunum – sem í reynd stýra öllu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.3.2013 - 09:54 - FB ummæli ()

Ójöfnuður – Ísland og Bandaríkin samanborin

Um daginn gekk á netinu skjal sem útskýrir hinn mikla ójöfnuð sem er í skiptingu tekna og eigna í Bandaríkjunum (sjá hér). Ójöfnuður tók að aukast þar eftir 1980, samhliða auknum frjálshyggjuáhrifum á sviði fjármála og skatta (sjá hér).

Fróðlegt er að skoða hvernig þróunin var á Íslandi til samanburðar?

Ég hef ásamt Arnaldi Sölva Kristjánssyni hagfræðingi gert margvíslegar rannsóknir á þróun tekjuskiptingarinnar á síðustu misserum, til að kortleggja framvindu þessara mála á Íslandi (sjá nýja ítarlega grein okkar hér).

Ég mun á næstunni birta hér nokkurt efni um þróun tekjuójafnaðarins á Íslandi.

 

Ríkasta 1% þjóðarinnar

Í dag byrja ég á að bera saman hlut hátekjufólks af heildartekjum á Íslandi og í Bandaríkjunum. Mynd 1 sýnir hve stóran hluta af heildartekjum fjölskyldna ríkasta 1% þjóðarinnar var með. Mynd 2 sýnir hlut ríkustu 10% fjölskyldna.

Hlutur ríkasta 1% fjölskyldna af heildartekjum allra í Bandaríkjunum og á Íslandi samanborinn. Allar skattskyldar tekjur, fyrir skatt. (Heimild: Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar I).

Þarna má sjá hvernig ójöfnuðurinn í Bandaríkjunum jókst eftir 1980, sem frægt er orðið. Tölur Íslands ná ekki aftar en til 1993. Hér tók ójöfnuðurinn að aukast frá 1995, hægt í fyrstu en síðan með vaxandi hraða frá og með aldamótunum. Um 2004 hafði hlutur ríkasta 1% heimila meira en tvöfaldast. Í  bóluhagkerfinu tók þróunin síðan stökk uppávið, frá 2005 til 2007.

Ríkasta 1% heimila á Íslandi hafði um 4% heildartekna árið 1995 en á árinu 2007 var hlutur þeirra kominn upp í tæplega 20%. Á því ári var hlutur samsvarandi hóps í Bandaríkjun um 23,5%.

Þau tæpu 20% heildartekna sem ríkasta eitt prósent þjóðarinnar hafði 2007 var svipað og kom í samanlagðan hlut þeirra 45% sem lægstu tekjurnar höfðu. Með öðrum orðum, ríkasta eitt prósent þjóðarinnar hafði næstum jafn mikið í tekjur og tekjulægri helmingur þjóðarinnar samtals (sjá hér, töflu 1).

Ef bóluhagkerfið hefði staðið í 2-3 ár lengur hefði hlutur ofurtekjufólks á Íslandi orðið svipaður og var hjá ríkasta einu prósentinu í Bandaríkjunum.

Ójöfnuðurinn hafði aukist mun hraðar á Íslandi en í Bandaríkjunum. Það er augljóst af myndinni. Ójöfnuður hefur aukist á síðustu 30 árum í Bandaríkjunum, með bakföllum þó. Tímabil aukins ójafnaðar á Íslandi stóð hins vegar einungis í um 12 ár, frá 1995 til 2007.

Eftir hrun varð jöfnunin síðan mun meiri á Íslandi en í Bandaríkjunum, mest vegna samdráttar fjármagnstekna eftir 2008. Allt bendir til að hlutur ríkasta 1% heimila í Bandaríkjunum hafi aukist aftur á árunum 2010 og 2011 (sjá hér).

 

Ríkustu 10% þjóðarinnar

Seinni myndin sýnir svo þróun hlutar ríkustu 10% fjölskyldna. Mynstrið er svipað, nema hvað Ísland nálgast Bandaríkin ekki alveg jafn mikið og var fyrir ríkasta 1% fjölskyldna.

Hlutur ríkustu 10% fjölskyldna af heildartekjum allra í Bandaríkjunum og á Íslandi samanborinn. Allar skattskyldar tekjur, fyrir skatt. (Heimild: Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar I).

 

Niðurstaða

Tekjur hátekjuhópanna á Íslandi jukust mun örar frá 1995 til 2007 en var hjá samsvarandi hópum hátekjufólks í Bandaríkjunum á tímabilinu öllu frá 1980 til 2007.

Hlutur ríkasta 1% á Íslandi fór úr um 4% heildartekna árið 1995 í tæp 20% árið 2007. Það ár var ríkasta eitt prósentið í Bandaríkjunum með um 23,5% heildartekna þar. Ríkasta eitt prósent íslensku þjóðarinnar hafði árið 2007 næstum jafn miklu úr að spila og tekjulægri helmingur þjóðarinnar samtals.

Hutur ríkustu tíu prósentanna fór úr um 22% heildartekna á Íslandi árið 1995 upp í tæp 40% árið 2007. Það ár var samsvarandi hópur í Bandaríkjunum með nærri 50% heildartekna.

Eftir hrun dróg mjög ört úr ójöfnuðinum hér á landi, í reynd miklu örar en í Bandaríkjunum.

Sjá nánar um þessa þróun hér, hér og hér.

Ath! Ekki teljast með tekjur sem fluttar voru úr landi í erlend skattaskjól, en talsverð brögð voru að slíku meðal hátekjufólks.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.3.2013 - 10:12 - FB ummæli ()

Kosningar – býður einhver betra veður?

Kosningar eru framundan. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn bjóða gull og græna skóga. Niðurfellingar skulda, afnám verðtryggingar mörg ár aftur í tímann, betri heilbrigisþjónustu og menntun, betri kjör fyrir lífeyrisþega og ýmislegt fleira gott fyrir alla.

Það á líka að fjárfesta meira og greiða niður gríðarlegar skuldir ríkisins.

Þetta á svo allt að fjármagna með skattalækkunum!

Hmmmm… Við erum sem sagt stödd í landi vúdú-hagfræða og sjónhverfinga.

Ég velti því fyrir mér í morgun hvort enginn ætlaði að bjóða upp á betra verður á þessari sundurtættu eyju.

Það væri verðugt viðfangsefni fyrir vúdú-menn stjórnmálanna…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.3.2013 - 09:36 - FB ummæli ()

Er meiri fátækt á Íslandi en í Skandinavíu?

Í nýrri rannsókn á fátækt á Íslandi, sem Guðný Björk Eydal og ég höfum unnið og birt er í bókinni Þróun velferðarinnar 1988 til 2008, kemur fram að umfang fátæktar á Íslandi telst mismunandi eftir því hvaða mælistiku er beitt. Ólíkar mælingar gefa ólíkar niðurstöður.

Sumar mælistikur sýna heldur minni fátækt á Íslandi en í hinum norrænu löndunum, en aðrar sýna heldur meiri fátækt hér.

Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, lét gera skýrslu árið 2006 um barnafátækt á Íslandi með samanburði  við hin norrænu löndin. Niðurstaðan var sú, að allt að helmingi stærri hluti barna væri undir fátæktarmörkum hér á landi en var í hinum norrænu löndunum á árinu 2004.

Hagstofa Íslands fékk um svipað leyti þá niðurstöðu að afstæð fátækt væri meiri á Íslandi en í Svíþjóð, en minni en í Danmörku, Finnlandi og Noregi. Sem sagt ólíkar vísbendingar, enda ólíkar mælingar.

Ég hafði áður gert rannsókn á fátækt hér á landi með öðruvísi gögnum sem náðu til áranna 1997 og 1998 (birt í bókinni Íslenska leiðin árið 1999). Þar var niðurstaðan sú, að fátækt væri heldur meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum, en hún virtist minnkandi samkvæmt þeim gögnum, m.a. vegna aukinna áhrifa frá lífeyrissjóðunum á afkomu eldri borgara.

Allar ofangreindar mælingar byggja á afstæðri fátækt (relative poverty), þ.e. fátæktarmörk voru 50% eða 60% af miðtekjum fjölskyldna á mann. Síðan var talið hve stór hluti íbúa var með tekjur undir þessum fátæktarmörkum.

Hér að neðan er annars konar mæling, sem er að mörgu leyti raunsærri en mælingar á afstæðri fátækt. Það er mæling sem er meira í átt til þess sem kallað er algild fátækt (absolute poverty) og kemur úr lífskjarakönnun Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins.

Lágtekjufólk, þ.e. fólk sem telst vera undir fátæktarmörkum í löndunum, var spurt „hversu erfitt væri fyrir það að láta enda ná saman“. Myndin sýnir hlutfall lágtekjufólks sem segist „eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman“.

Á myndinni má sjá að lágtekjufólk á Íslandi segist mun oftar eiga erfitt með að láta enda ná saman en lágtekjufólk í hinum löndunum, öll árin frá 2004 til 2011 (Svörtu súlurnar eru tölur Íslands). Þrengingarnar voru mestar í byrjun tímabilsins 2004 og í kreppunni eftir hrun (2010-11). Raunar er afar lítill munur á fátæktarþrengingum lágtekjufólks árin 2004 og 2011, eða tæplega 21% á móti 23%.

Fjárhagsþrengingar lágtekjufólks (þeirra sem eru undir fátæktarmörkum) á Norðurlöndum, 2004 til 2011. Miðað er við 60% fátæktarmörk. Súlurnar sýna hlutfall þeirra sem eru undir fátæktarmörkum sem segjast “eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman”. (Heimild: Eurostat).

Fjárhagsþrengingar lágtekjufólks voru tvöfalt algengari á Íslandi en í hinum löndunum árið 2004. Minnkuðu svo til 2007, er þær jukust aftur í kreppunni upp í hámark árið 2010 (26,5%). Árið 2011 dró svo nokkuð úr þrengingum íslensks lágtekjufólks á ný.

Árin 2002 til 2004 hafði staða lágtekjufólks versnað á Íslandi, sem skilaði sér í auknum fátæktarþrengingum árið 2004. Kreppan jók síðan verulega á vandann eftir hrun, er hann varð nokkru meiri en verið hafði 2004.

Kaupmáttur þeirra sem lenda undir afstæðum fátæktarmörkum skiptir öllu fyrir raunverulegar fátæktarþrengingar fólks. Kaupmáttur lágtekjufólksins hefur verið lægri á Íslandi en í hinum norrænu löndumum um árabil, einnig í góðærinu svokallaða fyrir hrun (sjá t.d. OECD-tölur fyrir 2005  hér).

Þetta eru sterkar vísbendingar um að fátæktarþrengingar lágtekjufólks hafi verið meiri á Íslandi en í Skandinavíu öll árin á tímabilinu frá 2004 til 2011. Það er í samræmi við þá staðreynd að ráðstöfunartekjur lágtekjufólks voru lægri hér en á hinum Norðurlöndunum á árunum fyrir hrun.

Norrænu löndin eru með einna minnstu fátækt vestrænna þjóða á algengustu mælikvarða nútímans. Í ljósi ofangreindra upplýsinga má álykta, að þó fátæktarþrengingar getir verið heldur meiri á Íslandi en í hinum löndunum á tímabilinu, þá virðist fátækt almennt vera með minna móti á Íslandi miðað við aðrar vestrænar þjóðir.

 

——————————-

Skýringar:

Fyrst er reiknað hlutfall fólks sem er undir fátæktarmörkum ESB (60% af miðtekjum) og svo fundið út í hvaða mæli það fólk segist “eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman” í rekstri heimila sinna. Þetta er sem sagt vísbending um fjárhagsþrengingar fólksins sem er undir fátæktarmörkum, í norrænu löndunum öllum. Gögnin koma úr lífskjarakönnun ESB (sem framkvæmd er af Hagstofu Íslands hér á landi). Svarendur eru fulltrúar þeirra 10-12% heimila sem lægstar tekjur hafa í hverju landi fyrir sig.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 3.3.2013 - 09:50 - FB ummæli ()

Svona varð skuldavandi heimilanna til

Skuldabyrði heimilanna hefur verið eitt af stóru málunum í kjölfar hrunsins. Menn tala um að skuldir hafi stökkbreyst og erfiðleikar hafa vissulega verið miklir hjá mörgum.

Í reynd var það svo, að skuldir heimila jukust með ógnarhraða á árunum eftir 2002 og fram að hruni. Um 99% af skuldunum voru til komnar við lok árs 2008. Þær hækkuðu síðan lítillega til viðbótar og náðu hámarki á seinni hluta ársins 2009 – en lækkuðu eftir það.

Skuldavandinn var sem sagt orðinn til áður en bankarnir hrundu. Um tveir af hverjum þremur sem fóru á vanskilaskrá voru einnig komnir þangað fyrir hrun.

Þessa þróun má sjá á myndinni hér að neðan.

Þróun skulda heimilanna á föstu verðlagi. Vísitölur: 1993=100 (Heimildir Ríkisskattstjóri og Seðlabanki Íslands – sjá nánar hér)

Lækkun meðalskuldanna frá og með 2010 er umtalsverð. Mat AGS er að við upphaf ársins 2012 hafi skuldir heimilanna þegar lækkað um nálægt 20%, einkum með úrræðum stjórnvalda og gengislánadómunum. Eignirnar hrundu hins vegar í verði strax frá og með 2008 og til 2010, en hækkuðu aftur lítillega 2011.

Eins og sjá má á myndinni eru skuldirnar við lok árs 2011 á svipuðu stigi og var milli áranna 2006 og 2007, eða vel fyrir hrun.

Hvers vegna er þá skuldabyrðin enn svo erfið fyrir mörg heimili?

Jú, það er vegna þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hrundi um 20% að jafnaði, með hruni krónunnar. Hann er enn í dag miklu lægri en var á árunum fyrir hrun. Einungis um fjórðungur af kjaraskerðingunni hefur verið endurheimtur með kauphækkunum.

Það eru því ekki stökkbreyttar skuldir heimilanna sem skýra greiðsluerfiðleika heimilanna í dag, heldur lakur kaupmáttur ráðstöfunartekna.

Kanski menn ættu að beina sjónum að því?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar