Fimmtudagur 27.10.2016 - 10:17 - FB ummæli ()

Pólitískur möguleiki?

Menn velta nú fyrir sér mögulegum stjórnarmynstrum.

Kannanir hafa bent til að hugsanlega nái stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir nægum meirihluta – og þeir ræða það sín á milli. Það er þó ekki í hendi enn.

Þá kemur allt í einu upp þessi pólitíski ómöguleiki, sem er krafa Pírata um stutt kjörtímabil og höfuðfókus á setningu nýrrar stjórnarskrár.

Það er ekki efst á lista kjósenda og varla geta hinir andstöðuflokkarnir samþykkt það, þó þeir hafi mikinn áhuga á stjórnarskrárumbótum.

Annað hvort víkja Píratar frá þessari fráleitu kröfu eða sá stjórnarmöguleiki fer út af borðinu. Væri það gott fyrir framgang umbóta á stjórnarskránni og önnur áhugamál Pírata?

Til að koma fram umbótum á grunni tillagna stjórnlagaráðs þarf vönduð vinnubrögð með samstarfi allra flokka, nema helst Sjálfstæðisflokksins (sem hefur engan áhuga á slíku).

Það þýðir að framgangur stjórnarskrárbreytinga kallar á samstarf stjórnarandstöðunnar við Framsókn og Viðreisn. Menn þurfa helst að tryggja að stjórnarskrárbreytingar lifi af tvennar kosningar – annars kunna þær að verða til einskis.

Í þessu samhengi er mikilvægt að menn átti sig á að stjórnarskrárbreytingar eru ekkert smámál sem tekur örfáa mánuði. Ekki dugir að ljósrita tillögur stjórnlagaráðs og greiða atkvæði um þær. Vinna þarf með þær og útfæra vandlega, með aðstoð sérfræðinga. Ná nægri samstöðu.

Óraunsæ tímapressa og einstrengingur eru ekki sérlega skapandi innlegg í þá vinnu.

Stjórnarmyndun og samstarf þarf að vanda. Flaustur og ringulreið skila engu nema vonbrigðum.

Þess vegna ættu stjórnarandstöðuflokkarnir að hafa Framsókn og Viðreisn einnig inni í kortlagningu sinni á pólitískum möguleikum.

Samstarf við Framsókn í velferðarmálum og umhverfismálum landsbyggðar getur verið mikilvægt og farsælt. Viðreisn hefur reifað vilja til alvöru umbóta í sjávarútvegsmálum – svo nokkuð sé nefnt.

Allt getur þetta fallið vel að mikilvægum markmiðum stjórnarandstöðuflokkanna. Menn fá þó sjaldan allt sem er á óskalistanum.

Umbótastjórn verður varla mynduð ef pólitískir ómöguleikar eru settir í forgang!

Pólitík er list hins mögulega.

 

 

Síðasti pistill: Sveiflur á fylgi og framtíð Fjórflokksins

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 23.10.2016 - 15:14 - FB ummæli ()

Sveiflur á fylgi og framtíð Fjórflokksins

Frá hruni hafa orðið miklar sviftingar í íslenskum stjórnmálum.

Fram að hruni hafði nýfrjálshyggja Sjálfstæðisflokksins verið við völd, í minnst þrjú kjörtímabil samfleytt. Framsóknarflokkurinn tók við henni nánast gagnrýnilaust á þeim tíma.

Flestir tengdu hrunið við þessi nýfrjálshyggjuáhrif, óhefta markaðshyggju og afskiptaleysisstefnu ríkisvaldsins (sjá hér).

Strax í kjölfar hrunsins varð mikil sveifla til vinstri, sem var rökrétt ef menn vildu hafna nýfrjálshyggjunni. Það var ekki síst VG sem naut þeirrar sveiflu og fékk 21,7% fylgi í kosningunum 2009.

Samfylkingin, sem hafði verið í stjórn með Sjálfstæðisflokki frá 2007, fór lítillega upp, úr um 26,8% í 29,8%. Saman fengu vinstri flokkarnir tveir hreinan meirihluta – í fyrsta sinn í sögunni.

Kreppan var öllum erfið og vinstri stjórnin olli vonbrigðum, þó margt hafi verið vel gert í hennar tíð. Ekki tókst að efna stór loforð, svo sem um nýja stjórnarskrá og umbætur á kvótakerfi (þó var veiðileyfagjaldið hækkað). Icesave málið var hálfgert klúður.

Í kosningunum árið 2013 varð aftur mikil sveifla, einkum til miðjunnar. Fylgi vinstri flokkanna hrundi um meira en helming og Framsókn varð helsti sigurvegari kosninganna, fór úr 14,8% í 24,4%. Sjálfstæðisflokkur bætti lítillega við sig, fór úr 23,7% í 26,7%.

Núverandi ríkisstjórn hefur gert margt vel, eins og vinstri stjórnin, en er harðlega gagnrýnd fyrir að þjóna forréttindahópum samfélagsins um of (hátekjuhópum og útvegsmönnum).

Panamaskjölin sýndu svo að íslenskt efnafólk notar erlend skattaskjól í meiri mæli en almennt er í grannríkjunum. Jafnvel forystumenn stjórnarflokkanna beggja eru þátttakendur í þeim siðlausa leik. Almenningi var misboðið og grasrótin reis upp, eins og í byrjun hrunsins. Því er nú komið að kosningum, áður en kjörtímabilið er liðið.

Kannanir benda til að þriðju kosningarnar í röð stefni enn á ný í mikla sveiflu á fylginu. Nú er sveiflan til vinstri-miðju.

Píratar virðast ætla að fá mun meira fylgi en nýir flokkar hafa áður fengið. Það er merkilegt, en þeir eru skilgetið afkvæmi þess umróts sem einkenndi kreppuna í kjölfar hrunsins.

Ný stjórnarskrá, aukið gagnsæi, lýðræðisumbætur og trygging þess að auðlindir þjóðarinnar nýtist almenningi, en ekki eingöngu sérhagsmunaöflum yfirstéttarinnar, eru hluti af kröfunni um “nýtt Ísland”, sem víða ómaði í kjölfar hrunsins.

Þetta eru kröfur um kerfisumbætur sem aftra því að Ísland fari aftur inn á þá braut sem ríkjandi var hér fram að hruni.

Allt eru þetta mikilvægar áherslur Pírata og skýra mikið fylgi þeirra. VG falla einnig ágætlega að þessum markmiðum, ásamt fleiri stjórnarandstöðuflokkum.

Nýjustu kannanir benda til að hugsanlega geti stjórnarandstöðuflokkarnir fengið hreinan meirihluta á þingi og myndað ríkisstjórn.

Með slíkri stjórnarmyndum má segja að þau uppbyggingarmál eftirhrunstímans, sem vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms tókst ekki að framkvæma, komi kröftuglega á dagskrá á ný. Þetta er möguleiki, en þó ekki í hendi enn.

Nú er einnig mun hagstæðara tíðarfar til að gera umbætur í velferðarmálum, sem þjóðin kallar eftir. Það er því eftirsóknarvert að setjast í stjórn nú, ólíkt því sem var árið 2009.

 

Er tími Fjórflokksins liðinn?

Aukið umrót og fjölgun nýrra flokka hefur einkennt stjórnmálin frá hruni. Sveiflur hafa verið meiri en áður og nýir flokkar náð brautargengi, jafnvel fordæmalausu brautargengi eins og Píratar. Þeir hafa yfirburðafylgi hjá yngri kjósendum, sem eru óbundnari hefðbundnum stjórnmálum en eldri kjósendur.

Á liðnum árum hafa menn oft spyrt klassísku stjórnmálaflokkana saman, undir samheitinu Fjórflokkurinn. Þetta hefur iðulega verið tengt gagnrýni á hefðbundin stjórnmál á Íslandi, einkum fyrirgreiðslu og aðstöðubrask, sem erlendis er kallað spilling.

Sennilega var Vilmundur Gylfason einn helsti frumkvöðull slíkrar gagnrýni, um og upp úr 1980. Hann stofnaði síðan Bandalag jafnaðarmanna til höfuðs Fjórflokknum fyrir kosningar árið 1983.

Allar götur síðan hafa margir spáð Fjórflokknum óförum. Slíkar raddir voru einnig algengar eftir hrun.

Og nú virðist sem fjara muni enn meira undan Fjórflokknum en áður (þ.e. hefðbundnu stjórnmálaflokkunum með lengstu söguna). Þetta má sjá á myndinni hér að neðan. Það er auðvitað fylgi Pírata sem er vendipunkturinn nú – en þó ekki eingöngu.

Hnignun fjórflokksins

Myndin sýnir samanlagt fylgi fjór-flokkanna (heila línan) og samanlagt fylgi allra annarra flokka eða framboða (Heimildir: Hagstofan og könnun Félagsvísindastofnun).

Ef marka má nýjustu kannanir gæti útkoman í kosningunum orðið sú, að þrír hefðbundnir flokkar fái minna fylgi en nokkrum sinnum fyrr í sögu lýðveldisins. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin/Alþýðuflokkurinn. Það væru stór tíðindi.

Eins og sjá má á myndinni gæti Fjórflokkurinn fengið um 55% atkvæða (miðað við nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar) og aðrir flokkar um 45%. Fjórflokkurinn hefur aldrei áður fengið minna en 75% og aðrir flokkar hafa áður fengið mest um 25% atkvæða samanlagt.

Þetta er því óvenju mikil sveifla sem nú stefnir í, fyrir Fjórflokkinn sem heild (þó vafasamt sé að tala um þessa fjóra flokka sem eina fylkingu).

Ný framboð náðu áður mestum árangri í kosningunum 1987 og 2013 (um 25% atkvæða samanlagt). Árið 1987 var ástæðan klofningur í Sjálfstæðisflokknum (Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar fékk um 10%) og vaxandi staða Kvennalistans, sem fékk einnig um 10% atkvæða.

Í kosningum 2013 var óvenju mikið framboð nýrra flokka (Björt framtíð og Píratar náðu inn þingmönnum) og fjöldi smáflokka náði ekki 5% lágmarkinu til að koma mönnum á þing.

Við getum því sagt að í kosningum sem orðið hafa eftir hrun hafa orðið óvenju miklar sveiflur á fylgi flokka.

Og nú virðist stefna í fordæmalausan árangur nýs framboðs Pírata. Viðreisn, sem er klofningur úr Sjálfstæðisflokki, gæti að auki fengið álíka mikið og ný framboð hafa hvað mest fengið áður, eða um 10%. Það skemmir fyrir Sjálfstæðisflokki. Píratar taka einkum frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum.

En Vinstri-Græn stefna líka í afar góða kosningu. Þeir eru jú hluti Fjórflokksins!

Fjórflokkurinn á klárlega í vök að verjast, en hann er þó ekki dauður úr öllum æðum. Gamlir flokkar geta líka átt endurkomu, eins og Framsókn gerði eftirminnilega í síðustu kosningum.

Sveiflur á fylginu sýna hins vegar öðru fremur að kjósendur eru kröfuharðir og óvenju dómharðir á frammistöðu stjórnvalda. Þeir vilja að stjórnmálin þjóni almannahag en ekki sérhagsmunum forréttindahópa og yfirstéttar.

Hefðbundnir flokkar ættu auðvitað að geta svarað kröfum kjósenda þegar þeir eru í ríkisstjórn – og haldið lífi.

Ef ekki, taka nýir flokkar við.

Miklar sveiflur og fjölgun flokka þýðir líka að öðru jöfnu, að fleiri flokkar verða í stjórn hverju sinni.

Við gætum til dæmis fengið fjögurra flokka stjórn eftir kosningar – sem þarf ekki að vera vandamál, ef menn vanda sig og standa saman.

 

Niðurstaða

Sveiflur og umrót er mjög vaxandi í íslenska flokkakerfinu. Það eru breytingar sem jukust sérstaklega í kjölfar hrunsins.

Hvort slíkar breytingar verða þjóðinni til góðs eða ills ræðst af vinnubrögðum og árangri þegar á reynir í stjórnarsamstarfi.

Síðasti pistill:  Á Viðskiptaráð að stýra stjórnvöldum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.10.2016 - 13:01 - FB ummæli ()

Á Viðskiptaráð að stýra stjórnvöldum?

Viðskiptaráð slær aldrei af í hagsmunabaráttu sinni í þágu atvinnurekenda og fjárfesta.

Þeir eru ásamt Samtökum atvinnulífsins (SA) öflugustu talsmenn nýfrjálshyggju og forréttinda fyrir ríkasta eina prósentið á Íslandi.

Þessir aðilar senda nánast vikulega frá sér síbyljuáróður um eigin hagsmuni og stefnu, sem þeir vilja að stjórnmálamenn þjóni.

Viðskiptaráð vill sem sagt fá að stjórna réttkjörnum stjórnvöldum!

Þeir amast t.d. endalaust við velferðarríkinu, sem almenningur kann að meta og vill gjarnan efla.

 

Ýkjur allt um kring

Nú þykjast þeir hafa metið kostnaðinn við þau kosningaloforð sem fram hafa komið fyrir kosningarnar og boða að allt fari norður og niður ef loforðin yrðu hugsanlega efnd (sjá hér).

Þessir útreikningar Viðskiptaráðs eru raunar verulega ýktir.

Til dæmis segja þeir að hækkun lífeyrislágmarks fyrir einhleypa (eins og lofað er – og raunar hefur þegar verið efnt af sitjandi ríkisstjórn) muni kosta 25 milljarða.

Mat ríkisstjórnarinnar er hins vegar að það muni einungis kosta um 5 milljarða! Þar að auki á það ekki að vera að fullu komið til framkvæmda fyrr en árið 2018. Hóflegt loforð það…

Það sama á enn frekar við um útreikninga Viðskiptaráðs á kostnaði við umræddar umbætur í heilbrigðismálum.

Ýkjurnar eru allt um kring!

Þar horfa þeir einnig framhjá því að stór hluti væntanlegs kostnaðar við nýbyggingar Landsspítalans er að mestu einskiptiskostnaður.

Geta ríkisins til að mæta slíkum einskiptiskostnaði er einstaklega góð núna. Þar má til dæmis byggja á stöðugleikaframlögum kröfuhafa föllnu bankanna og einnig mun ríkið væntanlega hafa mikið fé til ráðstöfunar á næstunni vegna eignasölu.

Það fé sem verður tiltækt til umbóta og framfara fyrir almenning í landinu telur í hundruðum milljarða á allra næstu árum.

Svo mætti líka hugsa sér að hækka lítillega skatta á meðlimi Viðskiptaráðs, til dæmis með því að fella niður fáránlegan afslátt ferðaþjónustunnar á virðisaukaskatti.

Og svo er rík ástæða til að þjóðin fái alvöru auðlindarentu af fénýtanlegum náttúruauðlindum sínum, bæði til lands og sjávar.

Það eru því veruleg sóknarfæri fyrir þá sem vilja bæta hag almennings á Íslandi um þessar mundir.

Menn eiga ekki að láta síbyljuraus peningaaflanna í Viðskiptaráði hafa áhrif á framkvæmd lýðræðisins.

 

Síðasti pistill:  Eignaskiptingin á Íslandi – lök staða lægri og milli hópa

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.10.2016 - 12:17 - FB ummæli ()

Eignaskiptingin á Íslandi – lök staða lægri hópa

Hagstofan birti í vikunni nýjar tölur um þróun og skiptingu eigna á Íslandi, frá 1997 til 2015, samkvæmt skattframtölum.

Tölurnar sýna að eignaskiptingin er talsvert ójafnari árið 2015 en hafði verið í byrjun tímans.

Hreinar eignir (eignir umfram skuldir) ríkustu tíu prósentanna jukust gríðarlega í aðdraganda hrunsins.

Skuldastaða þeirra eignaminnstu (sem skulda meira en þeir eiga) versnaði meira en staða þeirra efnuðustu í kreppunni.

Bil milli þeirra eignaminnstu og þeirra eignamestu varð mest á árinu 2010, en hefur minnkað nokku síðan þá.

Samt er eignarhlutur þeirra ríkustu meiri nú en var í byrjun tímabilsins (1997). Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Eignaskipting 1997 og 2015

Þessi mynd sýnir hlutfallsskiptinguna milli tíu jafnstórra eignahópa (tíundarhópa), frá eignaminnstu tíu prósentum framteljenda (tíundarhópur 1) til eignamestu tíu prósentanna (tíundarhópur 10).

Hér má sjá að ríkustu tíu prósentin eiga árið 2015 um 64% allra hreinna eigna framteljenda, og hefur hlutur þeirra vaxið úr um 56% frá árinu 1997. Næsti hópur á um 23% framtalinna eigna (var 24% árið 1997).

 

Lök staða lægri og millihópa 

Samanlagt eiga ríkustu tuttugu prósent framteljenda hátt í 90% allra hreinna eigna á Íslandi.

Hlutur allra annarra en efstu tíu prósentanna er minni árið 2015 en hafði verið árið 1997.

Samþjöppun eigna hefur því aukist á tímabilinu, þ.e. eignaskiptingin er ójafnari árið 2015 en hún var 1997.

Eignaminnstu tíu prósentin skulduðu meira en þau áttu og er hlutfallsstaða þeirra svipuð nú og 1997.

Eignaminnstu 40% framteljenda eiga engar eignir og skulda flestir meira en þeir hafa umleikis af eignum. Fimmti eignahópurinn á mjög litlar eignir.

Þannig að um helmingur framteljenda á litlar eða engar eignir (þ.e. eignir umfram skuldir).

Algengt er að fólk byrji feril sinn á starfsævinnu með meiri skuldir en eignir (vegna húsnæðiskaupa og stofnunar fjölskyldu). Þeir yngstu eru því oft í hópi eignalausra.

Hins vegar er athyglisvert að eignastaða millihópanna skuli ekki vera betri en raun ber vitni. Hún hefur raunar versnað hlutfallslega á tímabilinu.

Eignaskiptingin er mun ójafnari en tekjuskiptingin, líkt og í öðrum löndum.

Tekjuskiptingin varð mun ójafnari á áratugnum fram að hruni, en jafnaðist svo á ný. Hún hefur orðið ójafnari á ný á síðustu þremur árum, einum vegna aukinna fjármagnstekna, sem renna einkum til þeirra eignamestu.

 

Þeir ríkustu fara framúr öðrum

Myndin hér að neðan sýnir svo þróun eigna tíundarhópanna frá 1997 til 2015, í milljónum króna á föstu verðlagi ársins 2015.

Þróun eignaskiptingar 1997 til 2015

Þar má glögglega sjá hversu ólíkt hlutskipti hópanna hefur verið á síðustu nærri tveimur áratugum.

Á myndinni má sjá hversu ört eignir ríkustu tíu prósentanna jukust í aðdraganda hrunsins, langt umfram alla aðra.

Þeir eignaminnstu (1. tíund) voru með meiri skuldir en eignir allan tímann (undir núll-línunni) og skuldastaða þeirra var versnandi á tímabilinu, uns hún tók djúpa dýfu eftir 2007.

Verst var skuldastaðan árið 2010 en hefur skánað síðan þá. Samt eru eignastaða lægstu tíu prósentanna ennþá verri en verið hafði árið 1997, þeir skulda meira en þá, þrátt fyrir batann sem varð 2011-2015.

Vöxtur eigna síðustu tvö árin hefur verið afar kröftugur hjá ríkasta tíundarhópnum (10. tíund). Eignir þeirra eru árið 2015 þegar orðnar meiri en var á árinu 2006.

Ekki tekur langan tíma uns eignir þeirra ríkustu verða orðnar svipaðar eða meiri en varð á toppnum árið 2007.

Staða efri millihópanna hefur batnað á síðustu árum, einkum vegna hækkunar fasteignaverðs.

En þó skuldastaða þeirra sem ekkert eiga hafi skánað þá er hún þó enn verri en var í byrjun tímabilsins.

Bilið milli þeirra efnuðustu og hinna efnaminnstu hefur breikkað mikið og forskot þeirra ríkustu heldur áfram að aukast, eins og seinni myndin sýnir glögglega.

 


Hér má sjá skýringar Hagstofunnar á gögnunum: http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__thjodhagsreikningar__skuldastada_heimili/THJ09005.px/.

Hér er alls staðar miðað við hreinar eignir, þ.e. eignir umfram skuldir, samkvæmt skattframtölum. Eignir í erlendum skattaskjólum eru vantaldar. Þær tilheyra almennt þeim eignamestu og því vanmeta niðurstöður skattframtala á Íslandi væntanlega ójöfnuðinn í eignaskiptingu meðal Íslendinga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.10.2016 - 13:44 - FB ummæli ()

Mikilvæg loforð Samfylkingar

Það sem af er kosningabaráttunni hefur Samfylkingin tekið afgerandi afstöðu í velferðarmálum.

Þetta er áherslubreyting frá kosningunum 2013, þegar Samfylkingin lagði meiri áherslu á stöðugleika og aðild að ESB.

Þannig hefur Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnt kröftuga áherslu á heilbrigðismál, lífeyrismál, fjölskyldumál (hækkun barnabóta og útrýming barnafátæktar) og í gær kynnti hún nýtt loforð í húsnæðismálum.

Þar er um að ræða fyrirframgreiðslu vaxtabóta næstu 5 ára, til að auðvelda fólki íbúðakaup. Þetta er eins konar stofnstyrkur, sem menn hafa talað fyrir í öðru samhengi, til að létta vanda ungs fjölskyldufólks og nýliða á húsnæðismarkaði.

Þetta er athyglisverð hugmynd.

Sjálfstæðisflokkurinn var hér áður fyrr málsvari séreignastefnu í húsnæðismálum. Í seinni tíð hafa þeir alveg misst áhugann á að styðja almenning við húsnæðisöflun og hugsa meira um að styrkja verktaka í byggingariðnaði (svo þeir geti tekið meira hagnað af íbúðabyggingum).

Þannig hefur t.d. greiðsla vaxtabóta til húsnæðiskaupenda hrunið eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tók völdin í fjármálaráðuneytinu 2013, eins og meðfylgjandi mynd úr Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra, sýnir.

Vaxtabætur eru nú lægri að raunvirði en nokkru sinnum fyrr, eins og segir í blaðinu.

Screen Shot 2016-10-05 at 13.03.03

Húsnæðisvandinn er alvarlegur. Húsnæðisbætur (bæði vaxta- og húsaleigubætur) þarf því að hækka umtalsvert, nema menn finni annað betra form stuðnings við húsnæðisöflun ungs fólks.

Þarna er góður samhljómur milli Samfylkingar og Framsóknarflokksins, en Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur barist fyrir umbótum í húsnæðismálum og öðrum velferðarmálum. Sú barátta hennar hefur oft mætt andstöðu hjá Sjálfstæðisflokknum, eins og kunnugt er.

Aðrir flokkar á miðju og vinstri væng ættu einnig að vera liðtækir talsmenn velferðarmála.

Þessi kröftuga áhersla Samfylkingarinnar á velferðarmál er í takti við áherslur kjósenda, eins og fram kemur í könnunum.

Velferðarmálin eiga að vera í lykilhlutverki í kosningabaráttunni.

Velferðarmálin eiga líka að vera helsti grundvöllur stjórnarmyndunar að kosningum loknum. Kjósendur ættu því að skoða vel stefnu flokkanna í velferðarmálum.

Staða ríkisfjármála er orðin góð, auðlindir þjóðarinnar gefa vel af sér þessi árin og framundan er sala hluta úr ríkisbönkum og fleiri eignum, sem tryggja þarf að renni til að bæta samfélagið og lífskjörin.

Nú er tækifæri til að ná markverðum árangri á þessu sviði.

Ísland þarf að vera samkeppnisfært í lífskjörum. Annars töpum við unga fólkinu varanlega úr landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.9.2016 - 08:07 - FB ummæli ()

Vigdís leikur Víglund!

Skýrsla hins svokallaða “meirihluta fjárlaganefndar Alþingis”, um það sem kallað er „Einkavæðing bankanna hin síðari“, virðist vera hinn mesti farsi.

Höfundur er leyndur, en virðist vera Vigdís Hauksdóttir, sem hefur notið aðstoðar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þau hjúin eru í forystu fjárlaganefndar Alþingis.

Fyrir það fyrsta var endurreisn bankanna eftir hrun ekki „einkavæðing“ í venjulegri merkingu orðsins. Sömuleiðis er samningurinn um stöðugleikaframlög ekki „þjóðnýting bankanna“, í venjulegri merkingu.

Samhengi málsins er þannig afbakað strax í heiti skýrslunnar.

Vígdís hefur lengi boðað miklar nýjar uppljóstranir um meint mistök og jafnvel lögbrot eða föðurlandssvik við endurreisn fjármálakerfisins eftir hrun. Menn biðu spenntir.

Nú þegar þessi skýrsla er birt þá virðist hún lítið annað en sundurlausar endurtekningar á ásökunum Víglundar Þorsteinssonar, fyrrverandi eiganda Steypustöðvarinnar BM Vallá.

Ásakanir hans hafa komið fram með formlegum hætti að minnsta kosti þrisvar sinnum áður. Þeim hefur jafn harðan verið hafnað með ítarlegum efnisrökum (sjá umfjöllun Kjarnans um það hér).

Bæði embættismenn sem að málinu komu og þar til bærar opinberar stofnanir hafa upplýst um alla málavexti með þeim hætti að ekkert af þessum harkalegu og meiðandi ásökunum fær staðist.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fór ítarlega ofan í málið allt og gerði úttekt á því fyrir stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd þingsins, var einnig búinn að hafna þessum málatilbúnaði, með skýrslu sinni.

Brynjar verður varla sakaður um að vilja sérstaklega verja pólitíska andstæðinga sína í þessu máli!

En finnst mönnum annars líklegt að Steingrímur J. Sigfússon beri svo mikla umhyggju fyrir alþjóðlegum fjármagnseigendum að hann hafi brotið lög og sveigt ákvarðanatöku við erfiða endurreisn fjármálakerfisins til að bæta sérstaklega hag hins erlenda auðvalds?

Finnst mönnum líklegt að Steingrímur hafi sem fjármálaráðherra getað fengið mikinn fjölda embættismanna og ráðgjafa til að fylgja sér í slíkri ferð – og að þeir hafi þagað um meint brot hans?

Þetta er ekki aðeins ólíklegt í meira lagi heldur hefur enginn sýnt fram á neitt slíkt, hvorki Víglundur né Vigdís.

Skýrslan er sem sagt ódýrt pólitískt áróðursplagg, sem miðar einkum að því að ófrægja pólitíska andstæðinga Vigdísar og Guðlaugs – á einstaklega ósmekklegan hátt.

Að auki virðast vinnubrögðin við skýrslugerðina og notkun aðstandenda á nafni fjárlaganefndar Alþingis vera í bága við eðlileg vinnubrögð og starfshætti þingsins.

Inntak þessa nýja máls er því lítið annað en það, að Vigdís Hauksdóttir bregður sér í hlutverk Víglundar Þorsteinssonar og endurtekur hinar misheppnuðu leiksýningar hans.

Þær leiksýningar áttu sér skiljanlegar skýringar (sjá hér).

Erfiðara er hins vegar að skilja Vigdísi – eins og stundum áður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.9.2016 - 09:55 - FB ummæli ()

Viðreisn Sjálfstæðismanna

Hið nýja stjórnmálaafl Engeyjarættarinnar (Viðreisn) er óðum að taka á sig mynd.

Guðmundur Magnússon, Sjálfstæðismaður og blaðamaður á Morgunblaðinu, lýsir því nokkuð vel á Facebook í dag:

“Þau (Þorsteinn og Þorgerður Katrín) eru auðvitað bæði ágæt og öflug. En áhugaverðara hefði verið að sjá Viðreisn þróast á eigin forsendum. Núna er flokkurinn eiginlega bara orðinn önnur útgáfa af Sjálfstæðisflokknum.

Semsagt: Viðreisn Sjálfstæðismanna!

Þorgerður Katrín var að ræða við Bjarna Benediktsson fyrir örfáum dögum um að hún kæmi á lista hjá honum í Garðabæ (suð-vestur kjördæminu)! Hugsjóna munurinn er ekki meiri en það…

Bjarni hefur þó sennilega ekki getað lofað henni ráðherrastól.

En Viðreisn gat lofað því.

Þess vegna fór hún þangað.

Þetta er þannig allt í anda “sjálfgræðisstefnunnar”.

Eiginhagsmunir og hégómi ráða för.

 

Hvað er Viðreisn?

Viðreisn er með fyrrverandi formann og varaformann Sjálfstæðisflokksins í forystu.

Og gamalgróinn Engeying úr Sjálfstæðisflokknum sem formann.

Og tvo fyrrverandi framkvæmdastjóra samtaka atvinnurekenda (Þorstein Pálsson og Þorstein Víglundsson) að auki.

Þetta eru talsmenn lágra launa almennings og skattfríðinda fyrir atvinnurekendur. Þarna eru óvinir velferðarríkisins í öndvegi.

Er hægt að vera meira “sjálfgræðis” en þetta? Nei, varla.

Sérstaðan felst hins vegar í því, að Viðreisnarfólk vill ganga í Evrópusambandið.

En Evrópusambandið er búið að ákveða að taka ekki við nýjum meðlimaríkjum næstu 5 árin!

Sambandið mun að auki verða óþekkjanlegt eftir 5 ár, vegna margvíslegra innri vandamála sem leysa þarf með viðamiklum breytingum á sambandinu.

ESB-aðild Íslands er því eins dautt mál og nokkuð getur verið, nú og allt næsta kjörtímabil.

Verkefni Viðreisnar getur því ekki orðið neitt annað en að fríska upp á Sjálfstæðisflokkinn.

Frjálslynt miðju og vinstri fólk á því varla nokkurt erindi þangað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 30.8.2016 - 21:30 - FB ummæli ()

Sjálfsagt er að skatta burt ofurbónusa

Fréttir af ofurbónusum stjórnenda og starfsmanna þrotabúa föllnu bankanna vekja enn á ný mikla athygli.

Nær öllum er gróflega misboðið.

Mest afgerandi viðbrögð, enn sem komið er, voru frá Þorsteini Sæmundssyni þingmanni Framsóknar, á Alþingi í dag.

Hann vill skattleggja þessa óheyrilegu bónusa með 90-98% álagningu.

Mér sýnist það ágæt hugmynd.

Ofursköttun er viðeigandi þegar ofurbónusar eru greiddir.

Fjármálageirinn og ýmsir aðrir í yfirstéttinni hafa fyrir löngu sýnt að þeir svífast einskis í græðgi sinni og sjálftöku.

Því þarf að taka fast á slíkum málum, ef við ætlum ekki að sleppa fjármálaelítunni og græðgi hennar lausri á ný.

Síðast þegar það gerðist setti fjármálaelítan samfélagið á hliðina og olli saklausum almenningi verulegu tjóni.

 

Jafnvel Bandaríkjamenn hafa ofurskattað hæstu tekjur

Slík ofurskattlagning, eins og Þorsteinn Sæmundsson nefnir, er hreint ekki án fordæma.

Allra hæstu tekjur voru til dæmis skattlagðar með meira en 90% álagningu í Bandaríkjunum í nærri 20 ár, eða frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar og fram til um 1963.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan (hún sýnir hæstu álagningu í tekjuskatti einstaklinga, frá 1913 til 2014).

Screen Shot 2016-08-30 at 20.53.06

Þetta gerðu Bandaríkjamenn til að greiða fyrir kostnaðinn af Kreppunni miklu og seinni heimsstyrjöldinni.

Við eigum enn eftir að bæta margvíslegt tjón sem hlaust af fjármálahruninu 2008.

Við eigum líka eftir að siða fjármálageirann.

 

Síðasti pistill:  Eygló stendur vaktina

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.8.2016 - 12:23 - FB ummæli ()

Eygló stendur vaktina

Það vakti athygli í vikunni að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sat hjá við afgreiðslu fjármálaáætlunar núverandi ríkisstjórnar, sem nota bene er fyrir árin 2017 til 2021.

Sjálfstæðismenn hafa brugðist sérstaklega harkalega við og sumir kallað eftir afsögn Eyglóar.

Ástæða fyrirvara Eyglóar um málið er sú, að hún telur áætlunina ekki sinna nógu vel þeim markmiðum að bæta hag lífeyrisþega og barnafjölskyldna.

Og það er alveg rétt hjá Eygló. ASÍ hefur einnig tekið sömu afstöðu til málsins.

En hvers vegna er allur þessi stormur út af þessu máli?

Á núverandi ríkisstjórn að móta stefnu í fjármálum fyrir næstu ríkisstjórn, sama hverjir þar sitja?

Það er þá nýtt! Og stríðir gegn leikreglum lýðræðisins.

Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms samþykkti á síðasta valdaári sínu fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013 til 2015. Að mörgu leyti gott plagg með vænlega uppbyggingarstefnu.

Núverandi ríkisstjórn sendi því máli hins vegar langt nef er hún tók við völdum árið 2013 og jafnvel hæddist að þeirri stefnu sem þar var boðuð. Hafnaði áætluninni.

Þannig verður væntanlega með næstu ríkisstjórn líka. Hún mun ekkert gera með fjárhagsáætlun Bjarna Benediktssonar og stjórnarinnar – nema þá hugsanlega ef sama stjórn situr áfram.

Núverandi ríkisstjórn á ekki að geta bundið hendur næstu ríkisstjórnar í fjármálum. Fjárveitingavaldið er í höndum Alþingis og nýr meirihluti þar fer sínu fram. Það eru leikreglur lýðræðisins.

Eygló gerði því hárrétt er hún setti fram fyrirvara sína gagnvart þessari fjárhagsáætlun næsta kjörtímabils.

Sérstaklega af því hún hafði rétt fyrir sér um skakkar áherslur sem þar er að finna.

Eygló hefur því áfram staðið velferðarvaktina með sóma.

Hins vegar hefur þetta mál varpað ljósi á þá fyrirstöðu sem velferðarmálin gjarnan mæta á vettvangi Sjálfstæðisflokksins.

 

Síðasti pistill:  Fjármagnshöftum létt af efnafólki

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 17.8.2016 - 07:47 - FB ummæli ()

Fjármagnshöftum létt af efnafólki

Gjaldeyrishöftin (fjármagnshöftin) frá 2008 hafa ekki snert almenning á neinn afgerandi hátt.

Það er vegna þess að lítil sem engin höft hafa verið á milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu og almenningur hefur að auki getað ferðast nokkuð frjálslega til annarra landa með greiðslukort sín.

Helstu fórnarlömb fjármagnshaftanna voru efnamenn (atvinnurekendur og fjárfestar). Þeir gátu ekki flutt fjármagn úr landi að vild, eins og tíðkaðist fyrir hrun.

Nú þegar fjármagnshöftunum verður að mestu aflétt á næstunni þá eru það einkum efnamenn sem munu njóta aukins frelsis til að flytja fé úr landi, þar á meðal í erlend skattaskjól.

Í því ljósi er vægast sagt skondið að við alla kynningu á málinu og í fjölmiðlaumfjöllun er nú lögð sérstök áhersla á að þessi aflétting fjármagnshafta sé “í þágu almennings”!

Hún er hins vegar einkum í þágu þeirra efnuðustu. Það er eina fólkið sem getur flutt fjármagn úr landi, þannig að máli skipti.

Þetta má glögglega sjá þegar menn lesa lista fjármálaráðuneytisins um lykilatriði frumvarpsins um losun haftanna. Hann er hér:

  • Bein erlend fjárfesting innlendra aðila ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands.
  • Fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verði frjáls upp að ákveðnu fjárhæðarmarki,  að uppfylltum tilteknum skilyrðum
  •  Einstaklingum veitt heimild til kaupa á einni fasteign erlendis á almanaksári, óháð tilefni og kaupverði. (NB! Þeir sem ekki hafa efni á að kaupa hóflega íbúð á Íslandi fagni þessu sérstaklega!)
  • Dregið úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri. Hún verði afnumin vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign eða farartæki eða til fjárfestinga erlendis.
  • Ýmsar sértækar takmarkanir afnumdar eða rýmkaðar, m.a. heimildir einstaklinga til kaupa á ferðagjaldeyri. (NB! Þetta skiptir flesta litlu máli)
  • Heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar verða auknar svo hann geti betur stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika.

Fyrsta janúar 2017 verði:

  • Fjárhæðarmörk hækkuð til fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu erlendra lána.
  • Innstæðuflutningur heimilaður innan ofangreindra fjárhæðarmarka.  Skilyrði um innlenda vörsluaðila erlendra verðbréfafjárfestinga fellt niður. Þar með munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka sem frumvarpið setur þeim. (NB! Vaxtamunaviðskipti geta aukist enn frekar með þátttöku íslenskra fjárfesta og braskara)
  • Heimildir einstaklinga til kaupa á gjaldeyri í reiðufé rýmkaðar verulega. (NB! Gott fyrir þá sem vilja flýja íslensku krónuna með fé sitt)

Frelsi efnamanna til að flytja fé úr landi og til að taka þátt í fjármálabraski milli landa er sem sagt aukið á ný. Við nálgumst nú aðstæður eins og voru hér fram að hruni.

Það er þó vissulega leiðinlegt að sjá, að íslenskir efnamenn munu eitthvað áfram búa við þau höft að mega ekki kaupa meira en eina fasteign erlendis á hverju almanaksári.

Það er þó bót í máli, að fasteignin má að því er virðist kosta hvað sem er og vera óháð tilefni (eða eins og ráðuneytið segir: “…óháð tilefni og kaupverði”)!

Þegar þessar skýringar fjármálaráðuneytisins eru lesnar blasir þannig við að þetta afnám fjármagnshafta er ekki atriði sem snertir almenning sérstaklega eða yfirhöfuð.

Þetta er einkum í þágu efnafólks.

Það er því afar villandi að segja þetta sérstaklega í þágu “almennings”.

 

Síðasti pistill: Hrunið skýrt með klassískum kenningum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 11.7.2016 - 09:46 - FB ummæli ()

Hrunið skýrt með klassískum kenningum

Í nýjasta hefti fræðitímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla er birt grein eftir mig, þar sem hrunið á Íslandi er skýrt með klassískum kenningum um fjármálakreppur.

Eftirfarandi er útdráttur um efni greinarinnar, sem var ritrýnd af fagfólki á sviðinu áður en til útgáfu kom.

Útdráttur

Hér er leitast við að skýra íslenska bóluhagkerfið og fjármálahrunið 2008 með lærdómi af klassískum kenningum um fjármálakreppur. Þar er einkum um að ræða kenningar Keynes, Minskys, Kindlebergers, Reinharts og Rogoffs.

Spurt er hvers vegna bóluhagkerfið og hrunið komu til sögunnar á Íslandi; hvers vegna fjármálaþróunin hér fór jafn mikið afvega og raun ber vitni; hverjir voru helstu gerendurnir; og hvað þeim gekk til með háttarlagi sínu?

Sýnt er að stefnubreyting í stjórnmálum og skipulagsbreytingar í fjármálum og atvinnulífi gátu af sér bæði ný tækifæra og nýjar áhættur og greiddu jafnframt götu nýrra áhrifaaðila í samfélaginu, ekki síst með einkavæðingu ríkisbankanna.

Mikil oftrú á óhefta markaðshætti einkageirans ýtti undir andvaraleysi stjórnvalda og annarra gagnvart nýju áhættunum, um leið og nýju tækifærin voru sótt af miklum krafti.

Af hlaust klassísk en óvenju stór fjármálabóla, er náði hámarki á árunum 2003-2008, með ofurvexti bankakerfisins og aukinni áhættutöku er stefndi fjármálastöðugleika Íslands í hættu.

Helsta sérkenni íslensku bólunnar var viðamikil spákaupmennska viðskiptalífsins með hlutabréf og aðrar eignir, sem einkum var fjármagnað með lántökum. Afleiðingin varð óhófleg söfnun erlendra skulda þjóðarbúsins, sem er einmitt algengasta beina orsök fjármálakreppa.

Helstu gerendurnir voru hátekju- og stóreignafólk, sem hagnaðist gríðarlega á árunum að hruni. Tekjur þeirra jukust mjög langt umfram tekjur annarra, ekki síst fjármagnstekjurnar, sem spruttu öðru fremur af ósjálfbæra bóluhagkerfinu.

 

Hér er tengill á greinina í heild sinni:  Hrunið skýrt – Sjónarhorn klassískra kenninga um fjármálakreppur

 

Síðasti pistill:   Heimilin – Skattar hækka og bætur lækka

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 30.6.2016 - 13:42 - FB ummæli ()

Heimilin: Skattar hækka og bætur lækka

Árlegt uppgjör ríkisskattstjóra, þegar álagningu er lokið, gefur oft góða mynd af framvindu skattgreiðslna og velferðarbóta á síðastliðnu ári.

Um daginn birti fjármálaráðuneytið yfirlit um þróun helstu liða skatta og bóta frá 2014 til 2015 (sjá hér).

Niðurstöðurnar eru í megindráttum þessar:

  • Velferðarbætur til heimila (vaxta- og barnabætur, sem einkum fara til barnafjölskyldna) rýrna verulega.
  • Skattbyrði almennra heimila eykst umtalsvert, vegna rýrnunar persónuafsláttar. Menn greiða nú tekjuskatt af stærri hluta tekna sinna en áður.
  • Skattbyrði fjármagnstekna eykst minna, en það hlífir hátekju- og stóreignafólki, sem eru helstu þiggjendur fjármagnstekna.

Hér eru nokkrar tölur úr yfirliti fjármálaráðuneytisins um þessi mál:

  • Álagður tekjuskattur heimila hækkar umfram hækkun launavísitölu (þ.e. um 14,3% á meðan hækkun launavísitölunnar var 7,2% og hækkun tekjuskattstofns var 7,4%).
  • Þeim sem greiða tekjuskatt fjölgar um 7,3% þó framteljendum í heild fjölgi aðeins um 2,1%. Fleiri eru sem sagt fangaðir í tekjuskattsnetið og almenn tekjuskattbyrði eykst.
  • Ráðuneytið segir það vera vegna óvenju lítillar hækkunar persónuafsláttar. Hann fylgir aðeins verðlagi núna, en þarf alltaf að fylgja launahækkunum ef ekki er stefnt að aukinni skattbyrði.
  • Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fjölgar einungis um 1,1% og álagning á fjármagnstekjur hækkar aðeins um 6,6% (á móti 14,3% hækkun tekjuskatts á heimilin almennt).
  • Samt jukust arðgreiðslur (sem eru stærsti liður fjármagnstekna þetta árið) um 18% frá fyrra ári. Það er einkum hátekju- og stóreignafólk sem fær arð og fjármagnstekjur almennt (sjá einnig hér).
  • Fjármagnstekjur til hátekju- og stóreignafólks hafa aukist talsvert umfram almenn laun frá 2012 til 2015.
  • Þeim sem fá barnabætur fækkar um 7,4%, vegna þess að viðmið barnabótanna hækka ekki í takt við launin. Heildargreiðslur til barnafjölskyldna lækka.
  • Vaxtabætur lækkuðu um 25% á árinu 2015 og þeim sem þær fá fækkaði um 21%. Það er mikill samdráttur á alla mælikvarða.
  • Vaxtabætur hafa rýrnar verulega (um meira en 40%) frá árinu 2013. Þessi rýrnun er vegna þess að viðmið vaxtabótakerfisins voru hækkuð of lítið. Stuðningur þess við ungar fjölskyldur er nú veikari en áður.
  • Í fjármálaáætlun til næstu 5 ára boðar fjármálaráðherra að draga enn frekar úr barna- og vaxtabótum og auka tekjutengingar þeirra, svo þessir bótaflokkar verða þá væntanlega einungis fátækrastyrkir, en ekki almennur stuðningur við ungt fjölskyldufólk.

Ég geri ráð fyrir að þingmönnum og ráðherrum Framsóknarflokksins sé þessi þróun ekki beinlínis að skapi.

Félags- og húsnæðismálaráðherra Framsóknar hefur nýlega lagt fram ný frumvörp um húsnæðismál sem miða að bættum hag húsnæðiskaupenda og leigjenda. Þar er sem sagt öndverð stefna (en þó er enn óvíst hversu mikið fé fæst í nýju húsnæðisbæturnar).

Það er stefna Sjálfstæðismanna í fjármálaráðuneytinu sem ræður mestu um mótun og dreifingu skattbyrðarinnar og um upphæðir barna- og vaxtabóta til heimilanna.

Laun hækkuðu og fólk fékk skuldaleiðréttingu upp á 80 milljarða og greiddi til viðbótar sjálft niður skuldir sínar um 13 milljarða með eigin séreignasparnaði á árinu 2015.

Þeirri þróun var svo mætt með hærri tekjuskattbyrði og lækkun vaxtabóta.

Það rýrir kjarabæturnar sem fylgdu ágætum kauphækkunum og skuldaleiðréttingunni.

 

Síðasti pistill:  Ævintýrið heldur áfram

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.6.2016 - 23:44 - FB ummæli ()

Ævintýrið heldur áfram!

Hvað getur maður sagt um árangur strákanna í Nice?!

Þeir voru frábærir, einfaldlega betri en Englendingar.

Það er ótrúlegt að verða vitni að þessum góðu sigrum okkar manna á EM.

Stórkostleg skemmtun.

Samstaða og fagmennska eru trúlega lyklarnir að þessum árangri.

Bretar segja að þjálfari þeirra sé með nærri 700 milljónir króna í laun – en að þjálfari Íslands sé tannlæknir í hlutastarfi! Hann og Lagerbäck hafa væntanlega bara brot af launum þess enska.

Og þá á eftir að bera saman laun bresku landsliðsmannanna við laun þeirra íslensku. Þar munar verulegu.

Rooney er með 50 milljónir á viku, 2600 milljónir á ári. Einhver álitsgjafi sagði á SKY fréttastöðinni að Rooney hefði eytt meiru í hárkollu sína en næmi launum alls íslenska landsliðsins! Sel það ekki dýrar en ég keypti…

Það eru sem sagt ekki launin sem ráða úrslitum!

Ekki heldur fólksfjöldi. Við erum 330 þúsund en Englendingar eru 51 milljón!  Englendingar hafa því ævintýralega yfirburði í fjölda leikmanna sem þeir geta valið úr.

Líkindin eru þannig öll gegn okkur – í meira lagi. Ævintýrið sjálft er ævintýralegt!

Lars og tannlæknirinn hafa unnið frábært starf og strákarnir gefa allt sem þeir eiga í leikina.

Vonandi gengur þeim vel gegn Frakklandi…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.6.2016 - 00:32 - FB ummæli ()

Guðni fyrir alla – konur og karla!

Guðni Th. Jóhannesson er eini frambjóðandinn sem er með góðan stuðning í öllum þjóðfélagshópum.

Hann hefur því bestu forsendurnar til að verða forseti allra.

Sameiningartákn, eins og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir.

Óhætt er að óska Guðna til hamingju með prúðmannlega framkomu hans í kosningabaráttunni, þrátt fyrir að hart hafi verið sótt að honum, oft með ósanngjörnum og jafnvel ósvífnum hætti.

Samt hefur hann haldið ró sinni og forðast að láta etja sér út á foraðið.

Guðni er með mikla þekkingu á sögu forsetanna og stjórnmálanna. Hann býr einnig að öðrum ágætum mannkostum sem vel munu nýtast á Bessastöðum.

Ég ætla því að kjósa Guðna á morgun.

 

Ég hrífst þó einnig af Andra Snæ. Hann er með áhugaverðar hugsjónir og sterka framtíðarsýn.

Hann á skilið að fá góða kosningu.

Halla Tómasdóttir hefur sótt á, þrátt fyrir að hafa haft náin tengsl við Viðskiptaráð á þeim árum er peningaöflin keyrðu samfélagið fyrir björg. Hún kemur ágætlega fyrir, segist hafa lært sína lexíu og vilji nú bæta samfélagið með auknu réttlæti.

Sturla Jónsson hefur einnig sótt á og kemur mun betur fyrir en áður. Hann er líklega ákveðnasti talsmaður réttlætis í hópi frambjóðenda.

En morgundagurinn verður dagur Guðna.

Og það er vel.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.6.2016 - 16:44 - FB ummæli ()

Halla og Davíð auglýsa mest

Það er áberandi hversu mikið Halla Tómasdóttir og Davíð Oddsson auglýsa í baráttunni um forsetaembættið.

Bæði eru mjög mikið með keyptar auglýsingar:  á prenti, í sjónvarpi, á strætóskýlum og á netinu.

Auk þess hefur Morgunblaðinu verið beitt í ríkum mæli til að styðja framboð Davíðs, með miklum tilkostnaði.

Kosningabaráttan er því  væntanlega langdýrust hjá Höllu og Davíð.

Það er hins vegar skemmtilegt að sjá, að Guðni Th. Jóhannesson er mjög hófsamur í auglýsingum.

Samt nær hann miklu meiri árangri en þau sem mest auglýsa.

Aðrir þættir en skrautmálaðar auglýsingar ráða sem betur fer úrslitum.

Það er heilbrigðara þannig.

 

Síðasti pistill:  Guðni sameinar þjóðina

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar