Laugardagur 13.09.2014 - 16:54 - FB ummæli ()

Íbúa(ó)lýðræði

Ég man vel þegar ég vandi komur mínar í Miðtúnið hér í borg á árum áður og húsráðandi sagði mér í hvert skipti frá fyrirhugðum breytingum á byggðinni í kring og þá sérstaklega Borgartúninu.  Ekki náði ímyndunarafl mitt að mynda í huganum þá ásýnd sem nú er á þessu svæði.  Byggingar í Borgartúni, Sóltúni og Mánatúni hafa risið upp að ógleymdu Höfðatorgi.  Svæðið hýsir í dag mörg af stærstu fyrirtækum borgarinnar, stofnanir, verslanir, þjónustu og íbúðir.  Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu eftirsótt þetta svæði er orðið.

Samstarfssáttmáli meirihlutans hefur að geyma fallegar yfirlýsingar um aukið gagnsæi og íbúalýðræði, sem eigi að auka traust (á meirihlutanum), bæta upplýsingagjöf og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku.  En yfirlýsingar hafa ekkert að segja ef ekki fylgja þeim efndir.

Breyta á deiliskipulagi fyrir Borgartún 28 og 28a.  Þegar það var auglýst bárust fjölmargar athugasemdir frá nágrönnum m.a. úr Borgartúni og Sóltúni.

Þarna hefði verið kjörið tækifæri fyrir nýjan meirihluta að staðfesta í verki yfirlýsingar sínar þess efnis að þeir vilji hlusta á fólkið í borginni.  En það var ekki alveg svo og því fór að Framsókn og flugvallarvinir auk Sjálfstæðismanna lögðu til að umhverfis – og skipulagssvið myndi halda opinn upplýsinga- og samráðsfund vegna breytinga á deiliskipulagi á lóðinni og það deiliskipulag yrði ekki afgreitt fyrr en að loknum þeim fundi.  Þeirri tillögu var hafnað og ákvörðunin um afgreiðslu deiliskipulagsins samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði og hjá borgarráði.

Slíkar afgreiðslur verða ekki túlkaðar með öðru hætti en þeim að meirihlutinn vilji ekki halda upplýsinga- og samráðsfundi.  Þá er tekin ákvörðun þar sem virt er að vettugi vilji nágrannanna, íbúanna í borginni. Slík vinnubrögð ganga í berhögg við fagurlega orðaðar yfirlýsingar samstarfssáttmála meirihlutans.

Þar sem ágreiningur var um málið í borgarrráði, þá fer það fyrir borgarstjórnarfund á þriðjudaginn 16. september og það verður áhugavert hvort að meirihlutinn sé tilbúinn til að þess að hverfa frá fyrri stjórnunarháttum, snúa við blaðinu og raunverulega fara að hlusta á íbúa borgarinnar.

Góða helgi.

Flokkar: Bloggar · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur