Þriðjudagur 04.11.2014 - 17:49 - FB ummæli ()

Snúinn bransi

Í borgarstjórn gleðst formaður borgarráðs, S. Björn Blöndal, yfir hækkandi fasteignaverði í Reykjavík og  segir að kaup og sala fasteigna sé snúinn bransi.  Einhverjir kunna að taka undir með honum.  Mér hefur reyndar fundist formaður borgarráðs hafa átt frekar auðvelt með að átta sig á hlutunum og því er miður að þessi tegund viðskipta vefjist fyrir honum.

Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að nýr meirihluti tók við völdum hafa þónokkur mál komið inn á borð borgarráðs, þar sem fjallað er um ráðstöfun eigna Reykjavíkurborgar.  Í flestum tilvikum er verið að selja eignir til að fá peninga í kassann, vonandi til að takast á við grunnþjónustu þá sem sveitarfélaginu, höfuðborginni er ætlað að sinna, velferðarþjónustu og skólamál, en ekki til að reka endalausar skemmtanir fyrir borgarbúa, þrátt fyrir að eflaust finnist mörgum stuð í skemmtilegheitunum. En það kemur að skuldadögum.

Ekki er aðeins verið að selja fasteignir borgarinnar, heldur er verið að falla frá forkaupsrétti á fasteignum og gera leigusamninga þar sem þarf að ákveða leiguverð.

Það veldur furðu, þó ekki sé dýpra í árinni tekið, hvernig staðið er að viðskiptum með fasteignir á vegum borgarinnar og er ljóst að mikilvægt er að setja samræmdar og gagnsæjar verklagsreglur hið allra fyrsta til að borgarbúar þurfi ekki að velkjast í neinum vafa um að hæsta verð og bestu greiðsuskilmálar séu hverju sinni í viðskiptunum. Tillögu um það hafa framsókn og flugvallavinir lagt fram.

Fyrsta dæmið er sala á 3 fasteignum í útleigu 800 fm, auk byggingarmagns sem er um 900 fm á besta stað í bænum.  Ákveðið er að fá verðmöt, frá tveimur fasteignasölum.  Á þeim var tæplega 20% munur, sem flestir myndu telja ósættanlega mun þegar ráðstafa ætti eign.  Á þessum verðmötum var rúmlega 80 milljón króna munur og hefðu dugað sem eigið fé í 40 íbúðir sem Félagsbústaðir gætu keypt ef meðalverðið er 20.000.000.- miðað við 90% lán og 10% eigið fé.

Ákveðið var að Reykjavíkurborg myndi óska eftir tilboðum.  Tilboð bárust, en hæsta þótti of lágt.  Ákveðið að láta sömu fasteignasala og gert höfðu verðmötin selja fasteignirnar.  Þá kom tilboð sem var 100.000.000.- hærra heldur en hæsta tilboðið sem hafði borist mánuði áður.  Ekki var gert gagntilboð af hálfu borgarinnar.  Eignirnar voru ekki auglýstar hjá fasteignasölunum sem höfðu þær í sölumeðferð, samt reyndi formaður borgarráðs að telja borgarfulltrúm trú um að það að verðmötin sem lægju fyrir hefðu ekki verið ákvörðunarverð um kaupin, heldur hefði markaðurinn ráðið verðinu.  Til þess að eðlileg verðmyndun sé á markaðnum verða leikmenn á honum að vita að eign er til sölu, þ.e.a.s. opið sölu- og tilboðsferli.  Borgarstjóri sagði reyndar bæði í ræðustól og í sjónvarpinu að söluverðið hefði verið nálægt fyrirliggjandi verðmötum.  Það sem láðist að nefna var að verðmötin voru 15 mánaða gömul.  Fróðleg verður að vita á hvaða verði þessi fasteign fer: http://fasteignir.visir.is/property/132367

Vert er að geta þessa að Íbúðalánasjóður telur 6 mánaða gömul verðmöt vera of gömul til að geta lagt þau til grundvallar, í ljósi mikillar hækkunar fasteignaverðs á árinu 2014.  Einmitt.

Þá skrifar hótelrekandi Reykjavíkurborg og óskar eftir að fá kaupa eign.  Þá fer borgin í að afla tveggja verðmata, sem enn og aftur munar 20% á.  Þá er fundið út meðaltal þeirra tveggja og hótelrekandanum sagt verðið og síðan í framhaldinu er gengið frá kauptilboði og það lagt fyrir borgarráð.  Það er hreint með ólíkindum að hótelrekandanum sé ekki sagt að gera tilboð og í framhaldinu gæti borgin aflað verðmata til að sjá hversu nálægt eða ekki framkomið tilboð er þeim verðhugmyndum sem borgin er með.  Í framhaldinu myndi borgin gera gagntilboð til að hámárka verðið.

Vera kann að þörf sé á tónlistarmenntuðum einstaklingum í borgarstjórn, einn slíkur vinnur við fasteignafjárfestingar hjá fjárfestingarsjóði og virðist honum fara það verk vel úr hendi. Kannski væri hægt að fá hann í “sér-verkefni”.

 

En að öllu gamni slepptu þá eru þetta óásættanleg vinnubrögð og verður að koma í veg fyrir að svona geti gerst aftur.

 

 

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur