Fimmtudagur 29.06.2017 - 19:25 - FB ummæli ()

Framsalstakmarkanir á lóðum. Er rétt að setja þær á?

Framsókn og flugvallavinir gerðu tillögu á borgarráðsfundi í dag 29. júní 2017 að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hjá borginni og borgarlögmaður útfæri og leggi fyrir borgraráð tillögur og hugmyndir um hvernig hægt er að setja framsalstakmarkanir/kvaðir í nýja lóðarleigusamninga, við endurnýjun lóðarleigusamninga eða breytingar þegar gildandi lóðarskilmálum er breytt, eða nýjir lóðarsamningar gerðir vegna sameininga lóða eða breytinga á lóðarmörkum, þannig að óheimilt sé að framselja lóðir nema að ákveðnu byggingarstigi sé náð, t.d. fokheldi.  Tillögur og hugmyndir skulu liggja fyrir eigi síðar en í lok ágúst 2017.
Rökstuðningur fyrir tillögunni er m.a. þessi:
1.  Byggingalóðir innan Reykjavíkur eru í dag takmörkuð auðlind.  Fasteignaverð í höfuðborginni hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum og ekkert lát virðist vera þar á.  Viðvarandi lóðarskortur er m.a. ástæða hækkana. Ekkert hefur gengið að fækka á biðlistum eftir félagslegu húsnæði, hvorki á þessu kjörtímabili né því síðasta og engar íbúðir virðast vera til fyrir Félagsbústaði til að kaupa, þrátt fyrir um 11 milljarða króna hagnað félagsins á síðasta ári.
2.  Borgarfulltrúar sem og aðrir borgarbúar fá endurtekið upplýsingar um framsal á lóðum sem borgin hefur ráðstafað þar sem lóðir eru seldar með miklum hagnaði án þess að byggingarframkvæmdir séu einu sinni hafnar.  Um fasteignamarkaðinn gilda engin lög eða reglugerðir, ólíkt því sem er um verðbréfamarkaðinn þar sem er mikið og flókið regluverk með töluverðri neytendavernd, t.d. ákvæði um fagfjárfesta. Því verða sveitafélög að bregðast við með þeim aðgerðum sem þeim eru tæk til að vernda neytendur (kaupendur fasteigna) og ein af þeim aðgerðum er það sem þessi tillaga snýr að.
3.  Framsókn og flugvallarvinir hafa allt frá upphafi kjörtímabilsins á árinu 2014 bent á þörf á því að koma á framsalstakmörkunum til að koma i veg fyrir óeðlileg viðskipti með lóðir.
4.  Sé litið til verðbólumælinga í maí 2017 þá hafa aðeins tveir liðir hækkað umfram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans og það er húsnæðisliður og opinber þjónusta.  Fagaðilar eins og SA hafa bent á að hækkandi húsnæðisverð má öðru fremur rekja til framboðsskorts á lóðum og húsnæði almennt, en húsnæðisliðurinn hefur hækkað á þessu ári um 15,8%. Þetta hefur að sjálfsögðu bein áhrif til hækkunar á húsnæðislánum íbúa um land allt, ekki aðeins í höfuðborginni.
5.  Þegar slíkur viðvarandi framboðsskortur er á lóðum eins og nú er staðreynd er mikilvægt að sýna ábyrga stjórnsýslu með því m.a. að setja inn framsalstakmarkanir/kvaðir á lóðarsamninga eins og tillagan kveður á um.  Ef breytingar verða á ytri aðstæðum og jafnvægi hefur náðst, hefur Reykjavíkurborg alltaf heimild til að breyta þessu aftur eða falla frá takmörkunum í einstökum tilvikum.
6.  Þá er mikilvægt er að þeir aðilar sem borgin gerir samninga við sýni staðfestu í að klára þau verkefni sem þeir falast eftir með samningum við borgina.
7.  Framsalstakmarkanir hafa verið í lóðarleigusamningum sem gerðir hafa verið af Reykjavíkurborg áður, en horfið var frá þeirri stefnu eftir efnhagshrunið.
8.  Reykjavikurborg er í lófa lagið að bregðast við þeirri húsnæðiseklu sem nú er staðreynd á markaðnum og er þessi tillaga einn liður í þeim efnum.
Núverandi meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata stendur ráðþrota og endutekur bábyljur um að húsnæðisskorturinn sé skuldaleiðréttingunni að kenna.  Önnur eins rökleysa er vandfundin.  Nú er staðan orðin það aðkallandi að minnihlutinn í borgarstjórn sér sig knúinn til leggja fram lausnatillögur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur