Á fundi borgarstjórnar 6. mars sl. lagði ég fram tillögu um að Reykjavíkurborg samþykkti bann við notkun snjallsíma í grunnskólum borgarinnar. Áður hafði ég rætt við fjölmarga kennara um áhrif símanotkunar á skólastarf og nemendur. Þeir kennarar sem ég ræddi við voru almennt þeirrar skoðunar að símanotkun truflaði kennslu og að nemendur væru margir hverjir háðir símunum. Nemendur teldu sér heimilt að nota símana í kennslustundum og algengt væri að upp kæmi ágreiningur milli kennara og nemenda af þeim sökum. Sífellt yrði erfiðara að fanga athygli nemenda. Einn kennaranna kvaðst hafa leitað eftir leiðbeiningum skólastjóra um heimild sína til banna símanotkun og vísa nemendum úr kennslustund en skólastjórinn vísað til þess að ekki væru til reglur í þessum efnum frá skólayfirvöldum.
Skaðleg áhrif símanotkunar á skólastarf
Á undanförnum árum hefur hver rannsóknin á fætur annarri staðfest að símar hafa skaðleg áhrif á nemendur og skólastarf. Þá staðfestir nýleg rannsókn að áhrifin eru ekki bundin við þann nemanda sem notar símann heldur truflar notkun hans jafnframt kennara og samnemendur.
Niðurstöður rannsóknanna eru áhugaverðar. Rannsóknirnar staðfesta að þeir nemendur sem hafa aðgang að síma í skólastofum telja almennt að það efni sem þeir geta nálgast í símanum sé áhugaverðara en það námsefni sem er til umfjöllunar, að þessir nemendur eiga erfiðara með að halda athyglinni á því sem kennarinn segir, að þeir eyða minna tíma en áður í að vinna með námsefnið í skólstofunni og að þeir fá lægri einkunnir og eru óánægðari með frammistöðu kennarans en þeir nemendur sem fá ekki að hafa síma í skólastofunni. Eru þessi áhrif einkum tengd við notkun nemenda á samfélagsmiðlum, svo sem Snapchat, Instagram, Facebook og YouTube. Kemur það ekki á óvart enda viðurkenna hönnuðir þessara samfélagsmiðla að þeir eru hannaðir með það í huga að notandinn verði háður því að nota þá. Það er því engin tilviljun að unga fólkið ánetjast.
Frumkvæði skólayfirvalda skortir
En það eru ekki aðeins kennarar sem bíða eftir frumkvæði skólayfirvalda. Eftir að ég lagði fram tillöguna í borgarstjórn hafa fjölmargir foreldrar haft samband við mig. Það sem einkennir viðhorf foreldranna er að þeir telja að frumkvæðið verði að koma frá skólayfirvöldum og skólastjórnendum. Foreldrarnir benda á að erfitt sé að útskýra fyrir sínu eigin barni að það megi ekki nota símann í skólanum þegar barnið bendi á móti á að önnur börn megi nota símann í skólanum. Ákvörðunin um að banna snjallsíma í grunnskólum verði þess vegna að vera tekin af skólayfirvöldum.
Hver er afstaða borgarstjóra?
Það vakti óneitanlega athygli viðstaddra að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ákvað að taka ekki til máls þegar tillaga mín var tekin til umræðu í borgarstjórn. Það gerðu Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs og Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, ekki heldur. Foreldrar grunnskólabarna í Reykjavík eru þess vegna engu nær um afstöðu borgarstjóra og skólayfirvalda þegar kemur að símanotkun grunnskólabarna í Reykjavík. Nema að það sé afstaða þeirra að engin þörf sé að setja samræmdar reglur í þessum efnum.
Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu í dag.
Rita ummæli