Þriðjudagur 17.04.2018 - 17:25 - FB ummæli ()

Breytt vaktafyrirkomulag og aukin lífsgæði

Á borgarstjórnarfundi í dag, þriðjudaginn 17. apríl 2018, var tekin fyrir tillaga Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa, þar sem skorað var á borgarstjóra að eiga frumkvæði að samtali milli Reykjavíkurborgar, heilbrigðisráðherra, forstjóra Landsspítala og stéttarfélaga heilbrigðisstarfsfólks, um að kanna hvort breyta megi vaktafyrirkomulagi á Landspítalanum til að stytta ferðatíma heilbrigðisstarfsfólks til og frá vinnu.  Með breyttu vaktafyrirkomulagi mætti jafnframt stytta ferðatíma annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu á háannatíma.

Þessari tillögu var vísað til umhverfis – og skipulagsráðs.

Alkunna er að gatnakerfi borgarinnar ræður ekki lengur við álagið á háannatímum með þeim afleiðingum að miklar tafir verða á umferð.  Landspítali er stærsti vinnustaður landsins en þar starfa á sjötta þúsund starfsmenn.  Vaktafyrirkomulag á sjúkrahúsinu er með þeim hætti að upphaf og lok dagvakta er á háannatímum.  Dagvaktir eru frá kl. 8.00 til 16.00, kvöldvaktir frá kl. 15.30 til 23.30 og næturvaktir frá kl. 23.15 til 8.00.  Þetta veldur því að heilbrigðisstarfsfólk er mun lengur að komast til og frá vinnu en ella.  Í dag þarf starfsfólk sjúkrahússins sem býr í efri byggðum borgarinnar að leggja af stað á bilinu 7.15-7.30 til að vera öruggt um að vera mætt til vinnu kl. 8.00.  Það hefur ekki möguleika á því að byrja að vinna fyrr og eyðir þess vegna dýrmætum tíma í að ferðast til og frá vinnu.

Erlendis þekkist að vaktafyrirkomulag á sjúkrahúsum sé með öðrum hætti. Í Noregi er t.d. vaktafyrirkomulag þannig að morgunvaktir eru frá kl. 7.00 til 14.30, kvöldvaktir frá kl. 14.30 til 22.00 og næturvaktir frá kl. 22.00 til 07.00. Með því að breyta vaktafyrirkomulaginu væri unnt að létta álagi á gatnakerfi borgarinnar á álagstímum og auka lífsgæði heilbrigðisstarfsfólks og annarra borgarbúa.

Þessi mál ásamt öðrum voru rædd í Harmageddon í dag. http://www.visir.is/section/media98&fileid=CLP62373

Þegar niðurstaða þessa samtals liggur fyrir, þá væri ráðlegt að eiga sambærilegt samtal við fulltrúa Háskólanna, nemenda og kennara þar með það að markmiðið að laga flæðisvanda í borginni á háannatíma.

Ákvörðun um að breyta vaktafyrirkomulaginu er hins vegar ekki einfalt verkefni og kallar á samtal milli margra aðila.  Góðir hlutir gerast hægt, en ekkert gerist hins vegar nema lagt sé af stað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur