Fjölmargar vísbendingar eru um að snjallsímar geti haft neikvæð áhrif á athygli, þroska og andlega heilsu barna og ungmenna. Niðurstöður rannsókna staðfesta að þeir nemendur sem hafa aðgang að síma í skólastofunni telja almennt að það efni sem þeir geta nálgast í símanum sé áhugaverðara en námsefnið, að þeir eiga erfiðara með að halda athyglinni á því sem kennarinn segir, að þeir eyða minna tíma en áður í að vinna með námsefnið, að þeir fá lægri einkunnir og að þeir eru óánægðari með frammistöðu kennarans en þeir sem fá ekki að hafa símann með sér. Eru þessi áhrif einkum tengd við notkun nemenda á samfélagsmiðlum.
Ávani og kvíði
Snjallsímar eru ávanabindnandi. Öppin í þeim eru hönnuð með það að markmiðið að notandinn verði háður þeim. Íslenskar rannsóknir hafa leitt líkur að því helstu ástæður kvíðaaukningar megi tengja við hraðari lifnaðarhætti og snjalltækjavæðingu síðustu ára.
Einelti
Einelti hefur að miklu leyti færst frá persónulegum samskiptum yfir í samskipti í netheimil. Það vita allir sem koma nálægt uppeldi barna. Snjallsímabann í grunnskólum er í senn geðheilbrigðismál, lýðheilsumál og menntamál.
Það er því hlutverk Reykjavíkurborgar að styðja við skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra með því að banna snjallsíma í grunnskólum borgarinnar, á öllum tímum sem og í frístundastarfi. Með því leyfum við börnunum að njóta vafans.
Höfundur er borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar í Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.
Grein þessi birtist fyrst í Breiðholtsblaðinu 25. apríl 2018.
Rita ummæli