Þriðjudagur 15.05.2018 - 17:07 - FB ummæli ()

Skítug strönd í Reykjavík.

Á síðasta ári bilaði neyðarloka í dælustöðinni við Faxaskjól með þeim afleiðingum að í tæpar þrjár vikur streymdi óhreinsað skólp í sjóinn við Ægissíðu. Almenningi var hins vegar ekki greint frá biluninni fyrr en fréttir fóru að spyrjast út um óþrifnað í flæðarmálinu. Erfiðlega gekk að ná í Dag B. Eggertsson borgarstjóra enda vissi hann upp á sig skömmina. Dælustöðvarnar eru komnar til ára sinna og höfðu líka bilað á árunum 2014 og 2015.

Endurnýjun óhjákvæmileg

Í ágætri grein sem Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, ritaði í Fréttablaðið á sumardaginn fyrsta fjallar hann um fráveitukerfið sem var endurnýjað fyrir fjörtíu árum. Kveður Bjarni sýn okkar á umhverfismál hafa tekið stakkaskiptum síðan þá og segir meðal annars: Fráveitukerfið er barn síns tíma og sem dæmi má taka að dælustöðvarnar tíu eru allar þannig að stöðvist dælurnar, til dæmis vegna rafmagnsleysis eða bilunar, þá opnast neyðarrás sem hleypir skólpinu beint í sjóinn, óhreinsuðu. Sama á við ef stöðva þarf dælingu vegna viðhalds eða endurbóta. Það er enginn varabúnaður sem tekur við. Ef neyðarrásin hleypti ekki skólpinu til sjávar myndi hækka í öllum lögnum og skólpið kæmi upp um klósett og niðurföll í þeim húsum sem lægst standa.“ Er augljóst að Bjarni kallar eftir skýru umboði frá stjórnmálamönnum til að ráðast í endurnýjun á fráveitukerfinu.

Aðeins „áform“ um hreinar strendur

Nútíma dælustöðvum er ekki aðeins ætlað að halda strandlengjunni hreinni heldur jafnframt til að síja frá efni, svo sem örplast, sem við viljum alls ekki að fari í hafið. Ætla mætti að vilji væri til þess að samþykkja að ráðast nú þegar í endurnýjun dælustöðvanna. Svo er hins vegar ekki. Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag hélt Dagur B. Eggertsson borgarstjóri áfram að tala um „áform“ borgarinnar um hreinar strendur og „framtíðarsýn“. Engar ákvarðanir voru teknar um endurnýjun fráveitukerfisins.

Vildu frekar ylstrendur

Á borgarstjórnarfundinum voru hins vegar til umræðu tillögur Dags um tvær nýjar ylstrendur í Reykjavík. Eina við Skarfaklett og aðra við Gufunes. Á fundinum lýsti ég þeirri skoðun minni að nauðsynlegt væri að forgangsraða og að ég vildi sjá fjármunum varið í að laga fráveitukerfið og dælustöðvarnar, sérstaklega með tilliti til örplastmengunar, áður en ráðist yrði í að útbúa nýjar ylstrendur. Þær gætu komið síðar. Það sorglega er að Dagur hafði sitt í gegn og að fulltrúar allra flokka, þar á meðal Vinstri grænna og Sjálfstæðismanna, voru þessu samþykkir. Hver vill vera á móti ylströndum?

(grein þessi birtist fyrir í Morgunblaðinu)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur