Laugardagur 19.05.2018 - 09:05 - FB ummæli ()

Engar eyðsluklær í borgarstjórn

Þeir sem hafa komið nálægt rekstri fyrirtækja gera sér grein fyrir mikilvægi þess að allar ákvarðanir um fjárfestingar og útgjöld séu vel ígrundaðar.  Rangar ákvarðanir geta verið dýrkeyptar og komið í veg fyrir vöxt og viðgang fyrirtækisins.  Hið sama á við um ákvarðanir í rekstri sveitarfélaga.  Það hefur því reynst mörgu sveitarfélaginu happadrjúgt þegar sá sem stendur í brúnni hefur þurft að hafa fyrir hlutunum í lífinu, er hagsýnn og gerir sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem felst í því að fara með fé annarra.  Eyðsluklær eiga ekki að koma nálægt rekstri sveitarfélaga.

Skuldirnar hækkað um meira en 50%

Að undanförnu hef ég vakið athygli á óhóflegri skuldasöfnun A-hluta borgarsjóðs.  Í borgarstjóratíð Jóns Gnarr hækkuðu skuldirnar lítið milli ára. Skuldirnar námu 57 milljörðum kr. í árslok 2011, 61 milljarði kr. í árslok 2012, 62 milljörðum kr. í árslok 2013 og tæpum 65 milljörðum kr. í árslok 2014.  Eftir að Dagur tók við stjórnartaumunum tóku skuldirnar hins vegar stökk upp á við.  Þannig námu þær 81 milljarði kr. í árslok 2015, 84 milljarði kr. í árslok 2016 og 100 milljörðum kr. í árslok 2017 (miðað við útkomuspá sem kynnt var 5. desember sl.). Fyrsta heila starfsárið eftir að Dagur tók við hækkuðu skuldirnar því um 25% eða 16 milljarða kr.  Fyrstu þrjú heilu starfsárin hækkuðu þær hins vegar um meira en 50% eða 35 milljarða kr.  Það þarf óstjórn til að ná slíkum árangri.

Ég er stoltur þegar ég horfi yfir reikningana

Þegar Dagur er spurður út í fjárhagsstöðu borgarinnar vill hann aldrei ræða um þann hluta borgarsjóðs sem hann stýrir.  Hann vill bara ræða um Orkuveituna.  Í sjónvarpsþættinum Kjarnanum 18. apríl sl. var Dagur spurður að því hvernig hann brygðist við þeirri gagnrýni að óráðsía væri í rekstri borgarinnar.  Dagur var fljótur til svars og kvað viðsnúning“ hafa náðst í rekstrinum og vísaði í því sambandi til þess mikla viðsnúnings sem hafi náðst í rekstri Orkuveitunnar.  Kvað hann ársreikning Reykjavíkurborgar 2017 sýna áframhaldandi styrka stjórn og sterka stöðu.  Þetta væru hins vegar ekki nýjar fréttir fyrir þá sem fylgdust með fjármálum borgarinnar.  Kvaðst Dagur vera stoltur þegar hann horfði yfir reikningana.  Var Dagur ekki krafinn frekari skýringa af þáttastjórnanda Kjarnans enda tengsl fjölmiðilsins við forystumenn Samfylkingarinnar kunnari en frá þurfi að greina.

Í svörum Dags birtast helstu ástæður þess að stjórnmálamenn missa virðingu kjósenda.  Í fyrsta lagi reynir Dagur að beina athyglinni frá því sem fram kemur í ársreikningum borgarinnar þegar hann svarar málefnalegri gagnrýni með innihaldslausum frösum um viðsnúning, styrka stjórn og sterka stöðu.  Í öðru lagi skreytir hann sig með stolnum fjöðrum, ef fjaðrir skildi kalla, þegar hann eignar sér þann árangur sem náðst hefur í endurskipulagningu á fjárhag Orkuveitunnar.  Enda þótt Jón Gnarr hafi ekki haldið þétt um stjórnartaumana í borgarstjóratíð sinni var það Besti flokkurinn, en ekki Dagur, sem hafði forgöngu um að taka til í rekstri Orkuveitunnar.  Gjaldskráin var hækkuð og viðskiptavinir fyrirtækisins greiddu reikninginn.  Í úttekt Viðskiptablaðsins á árinu 2016 var bent á að á fimm árum hafi raforkuverð Orkuveitunnar hækkað um 48% á meðan vísitala neysluverðs hafi aðeins hækkað um 23%.

Áfram seilst í vasa Reykvíkinga

Því miður staðfesta ársreikningar Reykjavíkurborgar að Dagur tilheyrir þeim hópi stjórnmálamanna sem er ekki treystandi til að fara með opinbert fé. Það eru að minnsta kosti ekki margir sem kalla það styrka stjórn þegar skuldir aukast og eigið fé dregst saman.  Í stað þess að taka til í rekstri A-hluta borgarsjóðs ætlar Dagur að láta viðskiptavini Orkuveitunnar greiða fyrir kosningaloforð sín. Þegar Dagur kynnti loforð Samfylkingarinnar kvaðst hann ætla að ráðast strax í uppbyggingu á svonefndri Borgarlínu sem talið er að kosti á bilinu 70-150 milljarða kr.  Þá skyldi Miklabraut fara í stokk, strax!  Hann mun þá væntanlega að drífa í að moka burt veggnum sem hann lét reisa meðfram Miklubraut við Klambratún síðasta sumar.

Nýtt framboð: BORGIN OKKAR – REYKJAVÍK

Sívaxandi skuldir A-hluta borgarsjóðs tala sínu máli um fjármálastjórn Dags B. Eggertssonar. Ég trúi því að kjósendur vilji borgarfulltrúa sem eru ábyrgðarfullir og duglegir, sýna áræðni og ráðdeild og umfram allt fulltrúa sem eru skynsamir. Það eru þau gildi sem ég tel mest um verð.  Í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí nk. býð ég mig fram sem oddviti fyrir nýtt framboð, BORGINA OKKAR – REYKJAVÍK.  Við leggjum áherslu á ábyrga fjármálastjórn.  Í því felst að lausnirnar séu raunhæfar en setji ekki myllustein um háls útsvarsgreiðenda á komandi áratugum.

(greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu)

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur