Miðvikudagur 23.05.2018 - 08:50 - FB ummæli ()

Burt með snjallsíma

Fyrr á þessu ári lagði ég fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að nemendum yrði bannað að nota snjallsíma í skólum borgarinnar. Tillagan var felld með fjórtán atkvæðum gegn einu. Sumir þeirra sem greiddu atkvæði gegn tillögunni töldu að hún væri of víðtæk. Aðrir töldu að hún fæli í sér forræðishyggju því með henni væri gripið fram fyrir hendurnar á kennurum, skólastjórnendum og foreldrum.

Áhrifin í skólastofunni

Við þekkjum flest hve notkun snjallsíma geta verið ávanabindandi.  Snjallsímar hafa ekki minni áhrif á börnin okkar. Þegar skoðuð eru áhrif snjallsíma á nemendur staðfesta rannsóknir að það nægir að einn nemandi grípi til símans til að kennarinn og aðrir nemendur finni fyrir truflun af þeim sökum.  Nýlegar rannsóknir staðfesta jafnframt að áhrifin eru ekki takmörkuð við beina notkun nemenda á símanum heldur nægir að þeir taki símann með sér í skólann. Ástæðan er sú að mörg börn, líkt og fullorðnir, eru ánetjuð því að fylgjast með skilaboðum og myndböndum sem þeim berast í símann. Þau eru því „upptekin“ við að einbeita sér að því að fylgjast ekki með því sem bíður þeirra í símanum. Ég tel þess vegna að tillaga um algert bann við notkun snjallsíma sé ekki of víðtæk. Í mínum huga blasir það einfaldlega við að banna á notkun snjallsíma í skólastofunum.

Frumkvæði skólayfirvalda skortir

Í samtölum mínum við kennara hafa þeir staðfest að símarnir trufli kennslu og að nemendur séu margir hverjir háðir símunum. Athyglisbrestur sé sívaxandi vandamál. Kennararnir segja skólastjórnendur vilja taka á málunum, en aftur á móti sé beðið eftir frumkvæði skólayfirvalda.

Erlendar kannanir benda jafnframt til þess að stór hluti foreldra sé mótfallinn því að börn taki snjallsímann með í skólann. Foreldrarnir telja hins vegar að frumkvæðið verði að koma frá skólayfirvöldum.  Erfitt sé að útskýra fyrir barninu að það megi ekki taka símann með eða nota hann í skólanum þegar það bendi á móti á að önnur börn geri það athugasemdalaust.

Tökum frumkvæðið

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í borgarstjórn sýnir að þeir flokkar sem þar eiga fulltrúa skortir af einhverjum ástæðum kjark til að taka á málinu.  Ég hvet þess vegna alla þá sem vilja að tekið sé á málinu að velja X-O fyrir BORGINA OKKAR í borgarstjórnarkosningunum 26. maí nk.  Við munum ekki láta okkar eftir liggja.

Höfundur er oddviti Borgarinnar okkar – Reykjavík.

(greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí 2018)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur