Á fundi borgarstjórnar 20. mars sl. óskaði ég eftir því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri upplýsti um launakostnað Reykjavíkurborgar vegna þeirra fulltrúa stjórnmálaflokka sem hafa setið í ráðum og nefndum á vegum borgarinnar á kjörtímabilinu. Spurningin er skýr og því á að vera auðvelt að svara henni. Svörin hefðu hins vegar leitt í ljós að kostnaður borgarinnar vegna fulltrúanna er verulegur og að í hópi fulltrúanna eru fjölmargir vinir borgarstjóra.
Gæðingar í húsi borgarstjóra
Nú hafa verið haldnir fjórir borgarstjórnarfundir án þess að borgarstjóri hafi svarað fyrirspurn minni. Lesendur blaðsins þurfa ekki að velkjast í vafa um ástæðu þagnarinnar. Það hentar ekki borgarstjóra að svara fyrir kosningar. Þeir eru nefnilega ófáir gæðingarnir sem borgarstjóri hefur á húsi.
Nýir vendir sópa best
Kostnaður við stjórnsýslu borgarinnar hefur blásið út á kjörtímabilinu. Það er ekki ókeypis að stofna á fjórða hundrað ráð og nefndir til að móta stefnu borgarinnar. Sífellt fellur til meiri kostnaður vegna bitlinganna. Veljum fulltrúa Borgarinnar okkar – Reykjavík til að taka til í rekstri borgarinnar. Veljum X-O í kosningunum 26. maí nk.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Rita ummæli