Mánudagur 20.08.2018 - 15:36 - Rita ummæli

VIÐ ERUM KOMIN Á ÞANN STAÐ

Ein fjölmennasta Menningarnótt Reykjavíkurborgar er að baki. Talið er að um tvö hundruð þúsund manns hafi verið í miðbænum. Margar góðar skemmtanir og frábært tónlistarfólk gerði kvöldið meðal annars afar ánægjulegt svo ekki sé minnst á veðrið sem var stillt og fallegt. Hin árlega flugeldasýning er mikilfengleg og spennandi er að sjá hvernig hún er hverju sinni, ár hvert.

Eitt þótti mér sláandi að sjá og það var mikil áfengisneysla, og sérstaklega var áberandi að sjá mikla unglingadrykkju og börn báru á sér bakpoka sem í var áfengi. Ekki var að sjá að foreldrar væru nærri. Frásögn lögreglu í fréttum staðfesta þetta.

Ég hef talið okkur íslendinga vinna að góðum málum í forvörnum og sýna eftirbreytni í því. Okkur hefur áunnist mikið verk, en margt af þessu brenglar baráttuna. Ég er nýlega búinn að taka þátt í viðtali á dönsku fréttastofunni TV2 þar sem umfjöllun þeirra var um góðan árangur í forvörnum okkar íslendinga í garð barna og unglinga. Danir dást að því hvað við erum dugleg og hvað rannsóknir skila.

Íslenskir áfengisframleiðendur markaðssetja vörur sínar með oft ansi bíræfnum hætti og dansa á línu þess sem telst löglegt. Með þátttöku ýmissa viðburða og tónleika er ljóst að ekki sé hægt halda skemmtun nema að fá styrktaraðila frá áfengisframleiðendum. Þar er nægilegt fé í að styrkja viðburði. Sumir tengjast íþróttum og fjölskylduhátíðum og telst því allt vera í lagi þrátt fyrir oft augljós brot á lögum og reglum sem tengjast auglýsingu á áfengi.

Á síðum á Facebook eru samkomur auglýstar og áfengi er hluti af skemmtuninni. Jafnvel á svæði skutlaranna á Facebook er skipulögð áfengissala og ekkert er gert í málinu. Yfirvöld horfa framhjá og ætlast er til þess að lögreglan bregðist við. Lögreglunni ber að bregðast við en vegna gífulegrar manneklu er líklega ekki mögulegt að sinna þessum málum. Á meðan eru oft og sérstaklega erlendir aðilar að skipuleggja harða svartamarkaðssölu á áfengi – beint fyrir framan okkur, yfirvöld, og ekki síst okkur foreldranna.

Yfirvöld þurfa því að ákveða hvort auglýsa megi áfengi á auglýsingamarkaði og þá að markaðurinn verði opinn með tilskilin leyfi. Og yfirvöld þurfa að ákveða hvort svartamarkaðssala á áfengi og „skutl“ sé gert leyfilegt.

Í raun er staðan þessi: yfirvöld þurfa að ákveða hvort þessi ótrúlegu vinnubrögð og viljaleysi í að fylgja lögum og siðferðilegum vanda sé áfram viðhaldið eða farið sé eftir settum lögum og reglum og eftirlitsaðilum gert mögulegt að framkvæma vinnu sína. Á meðan munum við sjá aukna drykkju ungmenna, ólöglegar áfengissölur, aukin afbrot og siðferðisrof samfélagsins.

Það er ljóst að yfirvöld geta ekki kennt lögreglunni um þróunina. Úrræðaleysi hennar er sorglegt og fjársveltið er orðið alvarlegt. Spurningin er því þessi: Erum við komin á þann stað að yfirvöld hafa viljandi gefist upp og horfa framhjá staðreyndum sem þykir óþægilegt að ræða? Getur verið að viðskiptalegir hagsmunir séu látnir ráða eða viljandi sé forgangur til lýðræðislegrar og siðferðislegrar eflingar ýtt til hliðar fyrir peningaöflin?

Að mínu mati, já…því miður.

Á meðan staðan er þessi skil ég vel áfengisframleiðendur nýti sér allar leiðir við að græða peninga og auka sölu á vörum sínum og þurfa á  sama tíma að hafa ólöglega sprúttsala á Facebook sem ákveðna samkeppnisaðila, aðila sem komast upp með það.

Við erum komin á þann alvarlega stað að langur biðlisti er í meðferðarúrræði, fíknivandinn er banvænn, og misskipting samfélagsins er sláandi. Orsök og afleiðing er rakin m.a. til stjórnleysis og viljaleysi yfirvalda – ríkisstjórn Íslands horfir framhjá einum mesta vanda samfélags okkar í dag…því miður. En fyrst og fremst þurfum við að horfa í eigin barm og spyrja okkur hvort við sættum okkur við stöðuna?

Það er því mikilvægt að viðhalda góðum árangri okkar íslendinga sem ratað hefur víða um heim. Við getum ekki alltaf lifað á gömlum rannsóknum og „frægð.“ Bæta þarf forvarnir, skilgreina betur lög og reglur, bæta strax meðferðarúrræði og auka fé í þann málaflokk, því það að fólk bíði eftir meðferð og deyi á meðan er hræðileg staðreynd. Að lokum er fyrir löngu komin tími til að efla lögreglu og bæta aðbúnað og kjör þeirra.

Við erum komin á annan stað og gætum misst af því mikla verki sem gerði okkur fræg og skilaði sér vel eftir gríðarlega mikla vinnu!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar