Facebook er merkilegt apparat sem við notum mörg hver mjög mikið með ýmsum hætti. Samfélagsvettvangur og afþreying, auglýsingar og fleira. Reglulega koma hinar ýmsu tilkynningar upp eins og ein sem fræg var um Jayden K. Smith, en hann var sagður hakkari sem tengdi sig inná kerfi Facebook og inná reikning manns.
Nú síðast er tilkynning sem segir frá leyfi um aðgang að efni okkar, myndum og öðru sem er á Facebook og við teljum vera okkar. Ég sá hina ýmsu vini setja þetta á vegginn hjá sér og taldi að um einhverskonar umræðu um aðgengi og oft frekju Facebook væri um að ræða á nýju ári, því ekki næ ég að fylgjast með öllum heimsins fréttum.
Það virðist vera að um þvælu sé að ræða og um enn eina dreifitilkynningu á Facebook. Ég setti þetta á vegginn hjá mér um miðnætti og nú undir morgun sá ég mjög margir hafa gert það sama. Ég tók þetta svo út – eitt af fáum skiptum sem ég tek efni út sem ég hef sett inn.
Eitt vekur furðu mína nú er ég fer yfir Facebook og sé efni vina minna og sérstaklega þeirra sem hafa sett inn sömu færslu og ég gerði, eru skammirnar og leiðindin sem fólk, „séníin“ sem vissu allt og vita allt um Facebook og hvernig það er notað með ýmsum hætti, láta frá sér í athugasemdum. Orð eins; „fávitar, sauðir, apar, heimskingjar, hjarðfífl,“ og önnur orð og lýsingar, eru ekki spöruð af „sérfræðingunum.“ Ég fékk jafnvel einkapóst frá vinum sem helltu sig yfir mig og voru hissa á að ég – Sveinn Hjörtur, myndi falla fyrir svona.
Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, né „sérfræðingana“ á Facebook. En það væri óskandi að fólk myndi horfa í eigin barm yfir hjarðhegðun á Facebook og múgsefjun sem sett er af stað, þegar það eltir þvælu og alvarlega umræðu um fólk, málefni, skoðanir, jólakveðjur, og jafnvel mögulega glæpi sem skilar svo því að augnabliks taugaveiklun fólks á Facebook skilar því að manneskja er kosin Maður ársins – og allir eru sáttir að hafa elt fjölpóst og algjöra og fáránlega múgsefjun.
Ég velti því fyrir mér hver er í raun sauðurinn, apinn og allt það?
Eigið góðan dag…
Rita ummæli