Þriðjudagur 26.4.2016 - 21:25 - FB ummæli ()

Að verða ríkur á stjórnmálum

Því miður virðast upplýsingar síðustu daga renna stoðum undir margt sem nú þegar hefur komið fram í umræðunni á Íslandi. Svo virðist sem að góð leið til þess að verða ríkur á Íslandi, sé að vera vel tengdur inn í stjórnmálaflokka.

Spilling er stærsta efnhagslega vandamál margra þróunarríkja. Grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja sem byggjast á kapítalísku skipulagi og frjálsu framtaki er sú að búa til samfélagsgerð þannig að besta leiðin til þess að eignast pening sé að stofna fyrirtæki og selja vöru sem fólk vill kaupa. Þannig er hægt að leiða saman hvata fólks til að hámarka eigin hag og hag almennra neytenda. Auðvitað er ýmislegt sem ber að varast — svo sem einokun — en í grundvallaratriðum hefur þetta þjóðfélagsskipulag gengið mjög vel. Alvarleg vandamál verða til þegar fólk fer að beina hæfileikum sínum og orku — ekki til að búa til ný fyrirtæki og vörur sem annað fólk vill kaupa — heldur í staðinn í rentusókn. Að besta leiðin til þess að verða ríkur sé ekki að búa til hluti sem aðrir vilja kaupa, heldur að þekkja réttu mennina sem eru í aðstöðu til að úthluta takmörkuðum gæðum á óljósum forsendum. Þá er orku, vinnu og hugviti eytt í hluti sem skapa ekki neitt nýtt, heldur færa bara pening úr vasa Péturs til Páls.

Ísland er dásamlegt land, með mikinn mannauð og ótrúlegar náttúruauðlindir. Ég held að Íslandingar séu í grunninn ærlegir og ákaflega vinnusamir. En mig grunar að landið gæti verið í svo miklu betri efnahagslegri stöðu ef að minna væri um frændhygli. Ef það væri ekki svona óskaplega mikilvægt að vera besti vinur eða frændi aðal. Því þegar þær aðstæður eru uppi, beinir fólk kröftum sínum í vitlausar áttir, bæði í pólitíkinni og þjóðfélaginu öllu. Og öll umræða litast af þessu, ekki síst fjölmiðlanna, því að svo miklir hagsmunir eru undir því komnir að eiga vini á réttum stöðum. Eða eins og Styrmir Gunnarsson orðaði það svo eftirminnilega, en hann er sá maður sem segja má að fylgst best með stjórnmálum íslenskum úr innsta hring: „Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Þessi lýsing rímar vel við þjóðfélag þar sem rentusókn í gegnum stjórnmálalíf er ein megin leiðin til þess að verða ríkur.

Framundan eru gífurleg sala ríkiseigna svo nemur hundruðum milljarða í kjölfar uppgjörs þrotabús bankanna. Þetta er fordæmalaust. Við vitum hvernig bankarnir voru seldir síðast. Með grófri einföldun gerðist það svona samkvæmt Rannsóknarskýrslu Alþingis: Einn ríkisbankinn var seldur með láni frá hinum ríkisbankanum og öfugt. Og kaupendurnir voru nátengdir stjórnmálaflokkunum sem voru við völd.

Framundan er gríðarlega stór sala eigna. Við höfum nú þegar séð, að í tilfelli sölu á Borgunar — sem Landsbankinn nú reynir að rifta að því er ég best get séð — var hún seld langt undir markaðsverði svo að hagnaður kaupenda hleypur á milljörðum. Það er ekki til þess að auka traust að þessi sala fór fram á bak við luktar dyr, og að í kaupendahópnum var föðurbróðir fjármálaráðherra og helsti viðskiptafélagi til margra ára. Ég þekki ekkert söguna á bak við þessa sölu og get ekki dæmt um hvernig staðið var að málum. Ekki ætla ég að þykjast geta sest í neitt dómarasæti í þessu einstaka máli. Ísland er lítið land, allir eru frændur hvers annars.

En stóra myndin er sú að við eigum eftir að sjá gífurlega mörg álitaefni af þessu tagi koma upp á næstu tveimur árum. Ríkið mun selja fullt af fyrirtækjum og þau kaup verða að stóru leiti fjármögnuð með lánum frá ríkisbönkum og kannski að einhverju leiti fjármögnuð með peningum sem urðu til vegna síðustu ríkisbankasölu og enduðu í aflandseyjum.

Það verður að reyna að ná sátt um einhvers konar gagnsætt ferli þar sem allir sitja við sama borð. Á meðan ekki er fyrir hendi skýrar reglur, þá gengur ekki að vinir, viðskiptafélagar eða venslamenn þeirra sem eru við völd séu að kaupa þessi fyrirtæki og græða milljarða, eða þetta gerist í gegnum torskilin ferli í gegnum skúffufyrirtæki frá aflandseyjum sem engin veit hver á. Þetta verður að  vera yfir allan vafa hafið. Stjórnmálamenn íslenskir geta ekki lengur notið vafans, eftir allt sem á undan er gengið.

Stærsta verkefnið framundan á Íslandi sýnist mér vera að búa til stofnanir og leiðir til að hægt sé að koma þeim fjölda fyrirtækja sem nú eru í ríkiseign til hæstbjóðenda í ferli sem er opið, og þar sem enginn vafi getur leikið á því ekki sé verið að úthluta til frænda, vina eða vandamanna í einhverjum helmingaskiptum líkt og í síðustu risavöxnu sölu ríkisseigna.

Í kjölfar hrunsins í Mars 2009, vöktum við Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla, máls á því hvernig hægt væri að standa að þessu í grein í Morgunblaðinu, sjá hér.

Því fer fjarri að ég þykist vita hvað sé besta lausnin, og er ekki að halda því fram að sú leið sem við lögðum til sé einhver töfralausn.

En staðan í dag er ekki góð. Það er engu líkara en allt þetta söluferli sé í rassvasanum á ríkisstjórnarflokkunum eða flokkshestum sem virðast í all nokkru óðagoti vera að reyna að selja þessar eignir. Reglur og ferli eru óskýr, ábyrgð hvers og eins óljós. Þessu þarf að breyta. Það er hlutverk fjölmiðla, stjórnarandstöðu og almennings að halda stjórnvöldum við efnið. Og hlutverk stjórnvalda að setja fram áætlun sem er trúverðug þannig að sala einstakra fyrirtækja eða banka sé ekki háð geðþótta einstakra flokka eða stjórnmálamanna. Kannski hef ég verið að missa af einhverju hérna í útlandinu. En trúverðuga áætlun af því tagi hef ég ekki séð enn.

PS. Eftir að ég skrifaði þessa færslu var ég var að sjá þessa frétt frá því í dag að einkahlutafélag um þessar miklu eignir hafi verið stofnað. Það litla sem ég sá lofaði ekki góðu. Fjármálaráðherra sjálfur á að vera formaður félagsins? En ég ætla að bíða lengur til að sjá hver útfærslan verður, áður en ég felli neina dóma. En það hlýtur að vera lágmarkskrafa að stjórnmálamennirnir sjálfir séu ekki að garfa í því að selja fyrirtæki í eigu ríkisins. Þeir eiga að setja almennar reglur og lög um hvernig þetta fer fram, ekki vera í því hlutverki þeirra sem velja hver má kaupa og hver má ekki kaupa, hvort heldur beint eða úr aftursætinu. Slíkt þarf að binda í lög, að viðurlögðum refsingum. Ég vona að Alþingi nái saman um skynsamlegt fyrirkomulag á þessu í breyðri sátt. Þetta er í raun ekki hægri-vinstri mál, heldur snýr að því að vernda hagsmuni almennings.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.4.2016 - 23:05 - FB ummæli ()

Er Ólafur Ragnar sterkur frambjóðandi?

Mér sýnist viðtekið viðhorf uppá Íslandi að í raun sé búið að flauta af forsetakosningarnar, sjá til dæmis þessa úttekt DV. Nánast sé óþarfi að leggja út í kosnaðinn sem kosningunum fylgir, Ólafur Ragnar Grímsson (ÓRG) muni hvort sem er vinna.

Kannski er þetta rétt mat, ég umgengst ekki Íslendinga dags daglega hér í New York, né hlusta eða sé íslenskar fréttir nema að takmörkuðu leiti. En utan frá séð horfir þetta dálítið öðruvísi við mér, sem gerir stöðuna náttúrulega óvenjulega forvitnilega fyrir óforbetranlegan áhugamann um pólitík eins og mig.

Ég var að velta fyrir mér hvort það gætu verið einhverjar aðrar ástæður fyrir þessu en sú augljósa ályktun að ég hafi einfaldlega algerlega misst samband við Íslands eftir 19 ára brottveru í Bandaríkjunum. Þegar maður sér fréttir bara öðru hverju, held ég að maður muni og sjái hlutina dálítið öðruvísi en þeir sem stöðugt standa í hringiðunni á hverjum degi. Fyrir utan þá augljósu ályktun — að ég er einfaldlega dottin úr sambandi – datt mér í hug tvær aðrar ástæður sem kannski valda því að sjónarhornið mitt er dálítið annað.

Fyrsta ástæðan sem mér datt í hug er að fólk mislesi kosningarnar 2012 þegar ÓRG náði kjöri með miklum yfirburðum. Sú seinni er að fólk misminni aðdragandann að þeim kosningum og hversu tæpt ÓRG stóð. Ég ætla að rekja þessar vangaveltar að neðan, en það væri gaman að heyra hvað fólki finnst í athugasemdum og hvort þettar vangaveltur séu úti á túni eða ekki.

Þegar ég horfi til baka, og ber 2012 saman við 2016, sýnist mér að það geti vel verið að kosningarnar verði  mjög tvísýnar og það sé allt of snemmt að flauta leikinn af. Ég held að ÓRG sé í miklu veikari stöðu en virðist vera viðtekin skoðun.

Mislæsi á 2012?

Kosningarnar 2012 eru einu kosningar ÓRG eftir hrun, en staða hans skaddaðist auðvitað töluvert í hruninu. Hann var helsti hvatamaður útrásarinnar eins og rakið er í bók Guðjónar Friðrikssonar sem gefin var út með blessun forsetans rétt fyrir hrun, þegar flestir töldu að saga íslensku bankana væri stórkostleg sigursaga: Saga af forseta: Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, útrás, athafnir, átök og einkamál. Í þeirri bók lýsir Sigurður Einarsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, því yfir að Ólafur sé „andlegur leiðtogi íslensku útrásarinnar“. Í siðferðiskafla Rannsóknarskýrslu Alþingis má svo lesa yfirlit yfir að líklega hefur enginn annar þjóðarleiðtogi á Vesturlöndum ferðast jafn mikið með einkaþotum auðmanna og ÓRG fyrir hrun. Og líklega á það sama við um einkaboð og veislur. Það virðist óumdeilt að hann var þeirra helsta hjálparhella og innsti koppur í búri í útrásinni, sá það beinlínis sem sitt hlutverk greiða götu bankanna erlendis eins og glögglega kom fram í bók Guðjóns Friðrikssonar.

En þrátt fyrir þetta, voru aðstæður fyrir kosningar 2012 ákaflega sérstakar, líka út frá sjónarmiði hrunsins, og mjög svo ÓRG í hag. Við ríki var þá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir. Hún var á þeim tímapunkti óvinsælli en nokkru sinni fyrr í kjölfar þess að hafa tapað tvívegis í Icesave þjóðaratkvæðagreiðslum, eftir að hafa höndlað það mál – svo ekki sé dýpra í árina tekið– afar klaufalega og náð að sameina alla þjóðina gegn sér. ÓRG var þannig í óskastöðu, viðspyrna við óvenjulega óvinsæla ríkisstjórn.

Nú er málum öfugt farið. ÓRG er frambjóðandi óvinsællrar ríkisstjórnar og pólitískur guðfaðir Sigmundar Davíðs sem er nýbúinn að segja af sér vegna máls sem varð alþjóðlegt hneyksli. Hinn nýji forsætisráðherra var svo einna fyrstur til að lýsa yfir stuðningi við ÓRG, enda forsetinn nýbúinn að leiða hann til valda með því að koma í veg fyrir þingrof sem hefði leitt til kosninga. Þessi forsætisráðherra virðist mælast með minnsta traust sem sögur fara af á Íslandi að því er ég best kemst næst.

Í síðustu kosningum var forsetinn sumsé aðhald við óvinsæl stjórnvöld. Hann var því kosinn til að halda ríkisstjórninni við efnið. Nú er hann hækja og stuðningsmaður óvinsællar ríkisstjórnar sem á beinar rætur að rekja til stjórnarhátta fyrir hrun. Það vekur líka athygli að hann hefur aldrei veitt þessum óvinsæla ríkisstjórnarmeirihluta neitt aðhald, þó að full ástæða hafi verið til þess. Eitt dæmi er þegar forsetinn fékk afhent 35 þúsund undirskriftir gegn lögum er kváðu á um að aflétta veiðgjöldum af kvótaeigendum. Þann risastóra skattaaflátt, sem hljóp á milljörðum, skrifaði hann upp á án mikillar umhugsunar þrátt fyrir augljósa gjá milli þings og þjóðar. Það kæmi mér ekki á óvart ef það komi fram á næstu vikum að stór hluti þessa skatta-afsláttar endaði á aflandseyjum líkt og Tortóla, frekar en að hafa safnast í vasa almennings í gegnum veiðigjöld. Slíkt gæti verið sprengiefni í kosningabaráttu. Hitt dæmið er auðvitað þegar hann kom í veg fyrir að krafa almennings um þingrof og Aþingiskosningar gengi eftir fyrir nokkrum vikum eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar. Þess í stað kastaði hann nýrri líflínu til hins óvinsæla ríkisstjórnarmeirihluta og tilkynnti stuttu síðar að hann hefði hætt við að hætta við — annað skiptið í röð — með það að meginmarkmiði, að því er virðist, að tryggja óbreytt ástand.

Misminni?

Hvað varðar misminnið, var ég að velta því fyrir mér hvort fólk hafi einfaldlega gleymt því hversu tæpt ÓRG stóð í síðustu kosningum þrátt fyrir þær kjöraðstæður sem raktar eru hér að ofan, þegar hann var aðhald við óskaplega óvinsæla ríkisstjórn? Til þess að sjá hvort ég mundi atburðarrásina rétt fann ég þessa síðu hérna sem sýnir ágæta tímalínu fyrir síðustu kosningar. Stuttu fyrir kosningar, nánar tiltekið 13 Maí 2012 á mæðradaginn, ákvað Ólafur Ragnar að hefja formlega kosningabaráttu, sjá hér.

Hvernig leit staðan út á þeim tíma? Á þeim tímapunkti bentu flestar skoðanakannanir til þess að Þóra Arnórsdóttir myndi velta honum úr sessi. Til dæmis benti skoðanakönnun Capacent Gallup til þess 4. Maí, þar sem 82 prósent höfðu tekið afstöðu, að Þóra Arnórsdóttir fengi 46.4 prósent á meðan 37.2 prósent styddu Ólaf (sjá hér).

En einmitt þennan dag, á mæðradaginn 13. Maí, byrjar ÓRG sína kosningabaráttu opinberlega. Hann byrjar hana með því að “hjóla í Þóru” eins og Eyjan orðaði það hér. Sagði að þjóðin þyrfti ekki “puntudúkku” á forsetastól, kallaði Þóru dæmigerðan “2007 frambjóðanda”, osfrv ofrv. Ég minnist ekki orðbragðs af þessu tagi áður í forsetakosningum.

Tímasetning upphafs kosningabaráttu ÓRG, og stórskotahríðin á Þóru, var athygliverð. Aðeins nokkrum dögum áður en orrahríðin hófst, var Þóra nefnilega lögst inná spítala til þess að eignast barn. Barnið kom svo ekki í heiminn fyrr en 18 Maí (sjá hér). Sjálf byrjaði Þóra svo ekki kosningabáráttuna sína aftur fyrr en 28 Maí, meira en tveimur vikum eftir að ÓRG hóf stórskotaárásina. Í tvær vikur var ÓRG því í öttulli kosningabaráttu en vart heyrðist neitt frá helsta mótframbjóðandanum sem var rúmfastur.

Fyrsta skoðanakönnunin að því er ég best get séð (sjá hér) sem tekin var eftir að Þóra var stiginn úr sjúkrarúmi þann 1. Júni sýnir að meðan Þóra tók sér tveggja vikna barneignarleyfi hafði staðan algerlega snúist við. Þegar Þóra mætti aftur til leiks, eftir að hafa verið uppnefnd puntudúkka og ópólitískur 2007 frambjóðandi, var Ólafur Ragnar kominn með fylgi uppá 56,4% og Þóra Arnórsdóttur með 34,1%. Staðan var svo svipuð þegar upp var staðið í kosningum.

Hvernig hefði kosningabaráttan farið ef að Þóra hefði ekki verið barnshafandi en svarað ÓRG fullum hálsi? Staðreyndin er auðvitað sú, að Þóra er alls engin ópólitísk puntudúkka frá 2007, heldur barnabarn Hannibals Valdimarssonar, hápólitísk og fluggáfuð með framhaldsgráður frá Yale og Johns Hopkins háskólum, altalandi 6 tungumál reipirennandi (eða hvað var það nú aftur?) osfrv osfrv.

Stundum velti ég því fyrir mér af hverju stuðningsmenn Þóru tóku ekki hraustlegra á móti þessum árásum. Ein ástæðan kann að vera sú að þeir vanmátu ÓRG, enda Þóra með töluvert forskot á þessum tímapunkti og margir virtust búnir að gera upp hug sinn. Ég man sjálfur að ég hélt að fylgið myndi hrynja af ÓRG þegar hann hóf árásirnar á Þóru. Það mat reyndist algerlega rangt. Fremur en að ganga fram af kjósendum náði kosningabárátta ÓRG nú miklu flugi, meðan helsti mótframbjóðandinn var bókstaflega rúmfastur og svaraði litlu. Hin ástæðan fyrir því að ekki var tekið hraustlegar á móti var ef til vill ekki vanmat á ÓRG heldur sú að fólkið í kringum Þóru – ekki síst hún sjálf – var einfaldlega of upptekið af því að vera að eignast nýtt barn!

Ef ég horfi yfir sviðið núna er því grundvallarmunur á því hvernig væntanleg kosningabarátta fer fram á næstu mánuðum. Í fyrsta lagi, getur ÓRG ekki slegið sér upp á kostnað óvinsællar ríkisstjórnar. Þvert á móti er hann fulltrúi hennar og hún virðist jafnvel enn óvinsælli en sú sem ÓRG notaði til að lyfta sér upp síðast. Í öðru lagi, sýnist mér ólíklegt að þeir frambjóðendur sem helst eru líklegir til að velgja honum undir uggum vanmeti hann eða þurfi að draga sig í hlé þegar baráttan hitnar upp. Ég held að þeim sé það líka flestum ljóst nú, fjórum árum seinna, að ef ÓRG telur sér ógnað mun hann leggjast í beinar persónulegar árásir á þá sem hann telur andstæðinga sína. Ólíkt 2012, verða þeir því ef til vill viðbúnir að svara fullum hálsi, enda af nógu af taka eftir langan og viðburðarríkan stjórnmálaferil ÓRG.

Þegar maður rýnir í skoðanakannanir frá 2012 er líka eftirfarandi ljóst: Stuðningur við ÓRG er afar fljótandi. Með öðrum orðum kunna veður að skipast fljótt í lofti í þessum kosningum eins og síðast. Stuðningurinn við ÓRG er reikull og skoðanakannanir næstu vikna kunna því að vera misvísandi. Ég man varla eftir annarri eins sveiflu í könnunum í íslenskri pólitík og vikurnar tvær þegar Þóra fór í barnseignaleyfi og ÓRG hóf árásirnar. Í því felast augljós tækifæri fyrir mótframbjóðendur ÓRG því stuðningsmenn hans virðast ekki sérstaklega fastir í hendi. En líka augljósar hættur. Ef ÓRG telur sér ógnað mun hann láta öllum illum látum og kann þannig að snúa við tapaðri stöðu líkt og síðast.

Ég held því að forsetakosningarnar geti því verið ansi skrautlegar að þessu sinni og stend mig að því að skoða netið oftar en áður til að lesa fréttir að heiman. Ég vona þó að þær verði þó ekki jafn “áhugaverðar” og hérna í Bandaríkjunum í dag….

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2016 - 21:01 - FB ummæli ()

Um hvað verður kosið?

Það eru farnar að skýrast línurnar í forsetakosningunum. Öllum að óvörum, virðast þær ætla að verða áhugaverðar nú þegar Ólafur Ragnar býður sig fram enn og aftur eftir að hafa hætt við að hætta, annað skiptið í röð í ljósi “óvissu”.

Það sem er einkum áhugavert í þessum kosningun er að í fyrsta skipti svo ég muni virðist vera raunverulegur málefnaágreiningur milli frambjóðenda til forseta. Þetta er ekki bara fegurðarsamkeppni.

Andri Snær Magnason hefur gert það að grunnstefi í sínu framboði að nota eigi niðurstöður þjóðfundarins og þess ferlis sem gat af sér nýtt stjórlagafrumvarp til að breyta stjórarskrá Íslands.

Ólafur Ragnar er á móti nýju stjórnarskránni og öllu því ferli sem að baki hennar lá, til að mynda niðurstöðum Rannsóknarskýrslu Alþingis sem hann sagði “uppfulla af rangfærslum og villum” (sjá til dæmis hér)

Andri Snær hefur haldið því fram að hrunið og eftirleikur þess gefi tilefni til að endurskoða stjórnsýslu landsins þar sem samþykkt stjórnarskrár er grundvallaratriði. Ólafur Ragnar heldur því fram þvert á móti að eftirleikur hrunsins og pólitík síðustu ára sýni styrk stjórnarskrárinnar og íslenskrar stjórnsýslu. Um þetta verður kosið á Íslandi í sumar.

Andri Snær hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að virkja ekki fleiri náttúruauðlindir að óþörfu, enda verið að selja orkuna á lágu verði og verið sé að fórna gulleggi þjóðarinnar, sem er óspillt náttura. Hún er ástæða þess að nú flykkist fólk til landsins sem túristar sem skapar langtum meiri tekjur en orkuframleiðsla á tombóluprís. Ólafur Ragnar skrifaði undir lög um Kárahnjúkavirkun þrátt fyrir að tugir þúsunda skoruðu á hann að vísa þeim lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu, fleiri en í tilfelli fjölmiðlalaganna ef ég man rétt. Við þessu varð Ólafur ekki en tók það hins vegar að sér að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun 2006 (sjá hér).

Andri Snær hefur minnst á mikilvægi ákvæðis nýrrar stjórnarskrár um að auðlindir landsins, líkt og fiskurinn í sjónum, fallvötnin, jöklarnir og hálendið, séu eign allrar þjóðarinnar. Ekki fárra útvalinna. Ólafur Ragnar hafnaði því að vísa lögum þeim til þjóðarinnar sem afléttu veiðigjöldum af útgerðarmönnum. Fyrir þá sem ekki muna var það fyrsta verk ríkisstjórnarninnar að stórlækka veiðgjöld á útgerðamenn (auk þess að afnema auðlegðarskatt). Ólafur Ragnar skrifaði undir þau lög þótt fyrir lægju undirskriftir 35 þúsund landsmanna um að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu — á grundvelli þess að eðlilegt sé að útgerðamenn greiði markaðsvirði fyrir afnot af eign þjóðarinnar fremur en fá þau afnot ókeypis —  fleiri undirskrifendur en í tilfelli fjölmiðlalaganna og á svipuðu reki og í Icesave II undirskrifasöfnuninni.

Annað gerir þessar kosningar mjög óvenjulegar en í leiðinni afar áhugaverðar. Í fyrsta skipti að því er ég man er forseti fulltrúi tiltekinna pólitískra afla.

Einn fyrsti maðurinn til að lýsa yfir stuðningi við framboðið, að því er ég best kemst næst, var forsætisráðherra landins, Sigurður Ingi. Ég man ekki til þess að slíkt hafi áður gerst í forsetakosningum sem ég hef orðið vitni að á Íslandi, að forseti sé beinlínis studdur opinberlega af forsætisráðherra (þó mér skiljist að slíkt hafi gerst fyrir mína daga, sjá hér, en frambjóðendur forsætisráðherra munu þó alltaf hafa tapað í sögunni).

Segja má að Ólafur Ragnar sé guðfaðir ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs en þó ekki síst núverandi ríkisstjórnar með því að koma í veg fyrir þingrof sem hefði leitt til nýrra Alþingiskosningar fyrir nokkrum vikum. Það er vandséð hvaða rök lágu að baki því að ekki væri tilefni til að slíta Alþingi og efna til kosninga, eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar. Krafa þeirra mótmæla var afsögn forsætisráðherra og Alþingiskosningar. Einhvern veginn tóks Ólafi Ragnari, hins vegar, að komast að þeirri niðurstöðu að þessi mótmæli kölluðu á að hann kæmi í veg fyrir þingrof, fyrstur forseta í sögu Íslands (og að meðtöldum Danakonungi sem gengdi því hlutverki áður), og þvert á móti kölluðu stærstu mótmæli Íslandsögunnar á að lappa þyrfti uppá ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks með sérlegum fundarhöldum og að í kjölfarið þyrfti hann sjálfur að bjóða sig fram enn og aftur til forseta Íslands, þvert á fyrri orð, og með sérlegri stuðningsyfirlýsingu nýskipaðs forsætisráðherra. Það er erfitt að skilja hvernig friðsöm mótmæli af þessu tagi gegn ríkisstjórn landsins og stjórnarmeirihluta á Alþingi leiddu hann að þessari niðurstöðu.

Að mörgu leiti munu því kosningarnar snúast um hið “gamla” eða “nýtt” Ísland. Líkt og allir fyrri forsetar Íslands var Ólafur Ragnar fæddur áður en Ísland var sjálfstætt ríki, eða 1943, ári fyrir lýðveldisstofnun. Ef hann tapar kosningunum verður næsti forseti að öllum líkindum fyrsti forseti Íslands sem er ekki fæddur sem þegn Danakonungs. Mig grunar að sú kynslóð Íslendinga sem fæddist ekki undir dönskum kóngi muni hafa aðra sýn á hlutverk þessa embættis í framtíðinni, og að slík endurnýjun verði öllum til góða.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.4.2016 - 23:32 - FB ummæli ()

Óvissuástandið

Þá fer að draga að forsetakosningum. Og Ólafur Ragnar Grímsson gefur íslenskum kjósendum kost á að framlengja setu sína í forsetastóli í 24 ár.

Rök hans fyrir framboði sínu í þetta sinn eru þau sömu og fyrir fjórum árum. Svo mikil óvissa ríkir í íslensku samfélagi að hann þarf enn um sinn að gegna starfi forseta. Til þess að tryggja stöðugleika.

Þetta þykir mér sérkennileg röksemdafærsla þjóðarleiðtoga vestræns lýðræðisríkis. Stöðugleiki og festa vestrænna lýðræðisríkja felst ekki í því að sömu mennirnir vermi valdastólana áratugum saman, jafnvel þótt þeir séu óumdeildir eða jafnvel óvenjulega hæfileikaríkir. Þvert á móti er stöðugleiki lýðræðisríkja einmitt fólgin í því að hægt er að skipta um æðsta yfirmann ríkisins, forseta, án þess að því fylgi nein sérstök óvissa eða órói í samfélaginu.

Valdaseta í meira en 20 ár er fáheyrð í vestrænu lýðræðisríki þar sem leiðtogi er þjóðkjörinn – leita þarf til ríkja þar sem lýðræði er á mjög frumstæðu stigi til að finna svipuð fordæmi í dag. Mér sýnist í fljótu bragði (sjá hér) að á lista yfir 25 þaulsetnustu þjóðarleiðtoga heimsins í dag (þjóðarleiðtogar sem setið hafa lengur en 15 ár en eru ekki konungsbornir) sé aðeins einn þjóðarleiðtogi frá vesturlöndum: Forseti Íslands. Svo virðist sem — að minnsta kosti tölfræðilega séð — að langur valdatími kjörinna þjóðarleiðtoga sé því fyrst og fremst mælikvarði á vanþroskað lýðræði.

Hér í Bandaríkjunum urðu forsetaskipti áður en seinni heimstyrjöldinni lauk. Forsetaskipti urðu í tvígang þegar Bandaríkin voru í stríði í Víetnam. Enn voru hermenn í Írak þegar Barak Obama tók við að George Bush. Með öðrum orðum, það er oft á tíðum gífuleg pólitísk óvissa í Bandaríkjunum þegar skipt er um stjórnartauma. Hér í Bandaríkjunum ríkir oft óvissa, átök og jafnvel stríð — með öðrum orðum ástand sem á lítið sameiginlegt við hið friðsama Ísland í dag — og þó sjá þeir sér fært að færa vald frá einum forseta til annars. Og allt virðist þetta ganga slysalaust fyrir sig.

Raunar var það svo að Franklin Delano Rosevelt (FDR) dó í embætti rétt áður en seinni heimstyrjöldinni lauk. Hann hafði þá setið – fyrstur manna í bandarískri stjórnmálasögu – í meira en tvö kjörtímabil. Hann rökstuddi sitt endurkjör með þeirri óvissu sem seinni heimstyrjöldin skapaði.

Hin tveggja kjörtímabils hámarksregla um valdasetu forseta sem nú gildir í Bandaríkjunum hafði verið óformlega í gildi í 150 ár, áður en hún var brotin af FDR, eða allt frá stofun lýðveldisins þegar George Washington sóttist ekki eftir kjöri í þriðja sinni. Rök George Washington voru meðal annars þau að tvö kjörtímabil væru ”meira en nóg fyrir hvaða forseta” og taldi að með lengri valdasetu væri forsetaembættið líkara konungsstól.

Í kjölfar þess að FDR braut hina óskrifuðu reglu Georgo Washingtons, var stjórnarskrá Bandaríkjanna breytt 1951 í víðtækri pólitískri sátt. Stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður nú á um – líkt og fyrsti forseti Bandaríkjanna taldi eðlilegt en batt þó ekki í lög – að enginn forseti sitji lengur en tvö kjörtímabil. Bersýnilega fannst Bandaríkjamönnum að jafnvel óvissuástand á borð við seinni heimstyrjöldina réttlætti ekki þrásetu valdahafa.

Stöðugleiki í stjórnskipan landsins á aldrei að vera bundinn einstaklingum. Hann á að byggja á almennri virðingu fyrir lagaumgjörð og lýðræði í landinu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.4.2016 - 22:15 - FB ummæli ()

Ekki meir, ekki meir

Dagurinn í dag er líklega einn sá skrítnasti sem ég hef séð í íslenskum stjórnmálum, og er þó af ýmsu af taka frá síðustu vikum. Forseti landsins hafnar forsætisráðherra beiðni um umboð til þingrofs, sem fréttir segja að forsætisráðherra hafi ætlað að nota til að kúga Sjálfstæðisflokkinn til stuðnings við sjálfan sig. En þá bregður svo við að forsætisráðherra sakar forseta lýðveldisins um lygar, að hann hafi aldrei beðið formlega um umboð af þessu tagi, og forseti svarar að bragði fullum hálsi.

Þá lýsir forsætisráðherra því yfir að hann ætli að víkja úr embætti til þess að Sigurður Ingi verði forsætisráðherra, sem ég les að njóti mest traust ráðherra samkvæmt þrjú prósentum kjósenda af núverandi ráðherrum í ríkisstjórn. Það er vandséð að þetta sé heppilegt til að byggja upp traust.

Nú les ég og heyri svo hér í fjölmiðlum úti Bandaríkjunum að  forsætisráðherra Íslands hafi sagt af sér og þessu er slegið upp sem stórfrétt. Þetta er til dæmis á forsíðu vefsíðna CNN, NY Times, Washington Post, í augnablikinu. Og að því er virðist allra helstu fjölmiðla veraldarinnar.

Þegar ég hélt að atburðarrásin gæti ekki orðið furðulegri sé ég í Kjarnanum hér að það dúkkar upp fréttatilkynning úr forsætisráðuneytinu frá því í kvöld til erlendra blaðamanna þar sem segir að „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði aðeins til að Sigurður Ingi Jóhannsson tæki við forsætisráðuneytinu í „óákveðinn tíma.“ Hann hefur ekki sagt af sér og mun halda áfram sem formaður flokksins.“

Jahérna.

Ekki meir, ekki meir.

Ég er farinn að fá kvíðakast þegar ég kveiki á sjónvarpinu eða opna erlend blöð.

Ég held að þetta hljóti að vera komið gott, orstír Íslands er nú þegar stórlaskaður. Ég vona að mönnum — hvar í flokki sem þeir standa — beri gæfa til hætta þessu þjarki og koma sér saman um leið til að endurvekja traust bæði innanlands sem utan um að Ísland er vestrænt lýðræðisríki með raunverulega þinghefð. Ekki eitthvert bananalýðveldi. Eftir allar þessar uppljóstranir hlýtur eðlileg niðurstaða að vera sú að allir stjórnmálaflokkar fái endurnýjað umboð í kosningum — eftir allt sem á undan er gengið. Mér sýnist að menn ættu að einbeita sér að því að ná sátt um hvernig þetta verði gert — það er áreyðanlega ekki skynsamlegt að ana út í neitt en kosningar hefðu hvort sem er verið innan skamms. Í millitíðinni finni menn einhverja tímabundna ráðstöfunum í sátt allra flokka. Menn setji þjóðarhagsmuni yfir persónulega og flokkslega hagsmuni.

Og þar með held ég að ég reyni að taka mér frí frá fréttalestri íslenskum og skrifum um þessi mál í bili. Þetta er komið gott. Það versta er að ég er hræddur um að slíkt verði erfitt, amk hvað lestur varðar, því að erlend blöð eru nú farin að sýna málinu mikinn áhuga. Þær fréttir sem maður les eru þjóðinni ekki til vegsauka.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.4.2016 - 15:15 - FB ummæli ()

Gærdagurinn og viðbrögð um- og nærheimsins

Ég setti í gær inná facebook (eða fjasbókina) litla færslu til vina og vandamanna um það hverning atburðir dagsins horfðu við mér í gærkvöldi héðan utan frá séð. Kannski einhverjir fleiri hafa áhuga á þeim vangaveltum, þær birtast að neðan. Afsaka innsláttar og stafsetningarvillur, ég hef tíma til að vera að laga slíkt.

————————–

Eins og margir fjasbókarvinir mínir vita, þá vinnur konan mín, Helima Croft, í fjárfestingarbanka en líka sem álitsgjafi á bandarísku sjónvarpstöðinni CNBC.

Ég hef satt best að segja reynt að tala sem minnst um vandræði okkar Íslendinga á heimilinu, mér finnst það satt best að segja ekki skemmtilegt umræðuefni, og var að vona að hún tæki eftir litlu. Nú bregður svo við að konan mín ákveður að mér forspurðum að deila með öllum vinum sínum og fjölskyldu frétt CNBC af Íslandi í dag (sjá hér) en henni var bent á fréttina af samstarfskonu eftir að hún hafði verið að tala um olíu og Saudi Arabíu á CNBC í dag (sjá hér). Sem betur fer minntist enginn á Ísland í hennar umræðuþætti, þótt Saudi-Arabar hafi einnig verið áberandi á aflandeyjarlistunum ásamt Íslendingum og öðrum skuggalegum félagsskap.

Fyrir rúmum tveimur vikum þegar málið var fyrst tekið að skýrast setti ég inn smá færslu hérna á fjasbókinni í tilefni þess að Fréttablaðið sagði í leiðara að umræða um hagsmunaárekstra forsætisráðherra væru “dylgjur” og “sjúkdómseinkenni á fárveikri pólitískri umræðu.” (sjá hér). Ég spáði því að sumir Íslendingar myndu líklega ekki átta sig á alvöru málsins fyrir en erlendir fjölmiðlar færu að fjalla um það. Og það var fyrirsjáanlegt að það myndi gerast, því hrunið var alþjóðlegt fyrirbæri og Ísland í auga stormsins á þeim tíma. Þessi mál tengjast og því heimsfrétt.

Satt best að segja grunaði mig hins vegar ekki að þessi frétt yrði jafn risavaxið alþjóðlegt hneyksli og nú hefur komið í ljós. Og ég held að þetta mál sé töluvert verra fyrir orðstír Íslands en sjálft hrunið. Þá gátu landsmenn kennt vondu vondu bankamönnum um ófarir sínar, en erlendir bankamenn höfðu líka valdið stórfelldum skaða í öðrum ríkjum. Í þessu tilfelli erum við að tala um lýðræðiskjörinn leiðtoga í vestrænu lýðræðisríki sem nú er nefndur í sömu andrá og helstu harðstjórar heimsins líkt og Pútin, Assad eða Ashmaminabad. Þetta blasir við á forsíðum stórblaða heimsins. Og við reynum að auglýsa okkur á tyllidögum sem vestrænt lýðræðisríki með “elsta” þjóðþing veraldar (þótt að það, eins og margt annað sem við segjum við auðtrúa útlendinga, sé byggt á dálítið kúnstugri röksemdafærslu).

Ísland lítur út eins og bananalýðveldi í augu umheimsins í dag. Þetta er óþolandi og satt best að segja ósanngjarnt, ekki bara gagnvart þjóðinni okkar heldur líka mínum gamla skólafélaga úr MR, Sigmundi Davíð, sem þrátt fyrir sína galla á sannarlega ekki heima í hópi þessara alheimsskúrka og fjöldamorðingja. En burtséð frá því, þá er skaðinn er skeður. Forsætisráðherra gerði alvarleg mistök sem hann nú hefur viðkennt. Og það eru fleiri í þeim hópi. Nú verða menn að einhenda sér í að lágmarka skaðann, og láta eigin hagsmuni víkja fyrir þjóðarhag burt séð frá innanlandspólitík. Það taka aðrir við keflinu.

Annars fannst mér athyglivert að hjá Bandaríkjamönnum virðist helsta fréttaefnið sami punkturinn og ég tók strax eftir og þegar ég las um málið fyrst – sem er kannski ekki skrítið því ég hef búið hérna í 19 ár og því fréttamatið kannski svipað nú hjá mér og hérna úti. CNBC segir um leynireikningana að „Icelandic Prime Minister Sigmundur Gunnlaugsson, for example, had one in which he and his wife allegedly held stakes in financial institutions as he was negotiating with them.” Forsætisráðherra átti hálfra milljarða kröfu í þrotabú bankana og hélt því leyndu þegar hann átti í samningum við þessi sömu þrotabú fyrir hönd þjóðar sinnar. Hann sat beggja vegna borðins.

Það sem hefur verið svo furðulegt fyrir mig við að horfa á þetta svona utan frá, er að þessi staðreynd lá fyrir í nokkrar vikur í opinberri umræðu á Íslandi — þetta var óumdeilt, forsætisráðherra sjálfur játaði að hafa haldið þessu vísvitandi leyndu fyrir þjóð og þingi — og stórir fjölmiðlar líkt og Morgunblaðið eða Stöð 2 fjölluðu vart um málið. Aðrir eins og Fréttablaðið kölluðu umræðuna um hagsmunatenglin “fársjúka“ og upp dúkkuðu viðmælendur sem báru fyrir sig furðulegum lagatæknilegum rökum að engin ástæða hafi verið fyrir að lýsa þessum alvarlegu hagsmunatenglum. Mér sýndist Stundin og Kjarninn vera einu fjölmiðlarnir sem tóku á málinu af alvöru í fyrstu, og nokkrir aðrir hrópendur í eyðimörkinni, þótt RÚV hafi átt lokahnykkinn.

En þrátt fyrir þetta, utan frá séð, var umræðan undalega hljóðlát og maður horfði uppá fylgismenn forsætisráðherra ráðast með offorsi á alla þá er spyrðu sjálfsagðra spurninga lágum rómi, spurninga sem myndu vakna í hverju einasta vestræna lýðræðisríki í dagi. Það er eins og Íslendingar hafi ekki vaknað almennilega upp fyrr en þeir tóku eftir því hvernig umheimurinn bregst við upplýsingum um hagsmunaárekstra og laumuspil af þessu tagi af lýðræðislega kjörnum leiðtoga. Það er rétt að allt þetta mál er merki um fársjúka pólitíska umræðu á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.4.2016 - 20:21 - FB ummæli ()

Orðstír Íslands

Ég horfði á Kastljós í kvöld frá New York. Þetta eru skelfilegar fréttir fyrir alla Íslendinga og orðspor okkar á alþjóðavettvangi. Næstu skref eru mikilvæg. Ég vona að fólk persónugeri ekki hlutina heldur setji þetta í mun stærra samhengi. Þetta snýst ekki lengur um persónur eða hægri/vinstri pólitík heldur orðstír Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.4.2016 - 18:36 - FB ummæli ()

Eiga stjórnmálamenn að vera ríkir?

Mér þóttu athygliverð leiðaraskrif Fréttablaðsins í dag. Þar er varpað fram þeirri kenning að það sé á einhvern hátt “heppilegt” að þeir sem dunda sér í stjórnmálum séu ríkir því “þá eru minni líkur á því að hægt sé að hafa áhrif á þá.”

Þetta er mjög mikilvæg umræða og innlegg leiðarahöfundar áhugavert. En mér fannst þessi leiðari ekki ná utan um kjarna málsins.

Þegar kemur að stjórnmálaþátttöku og hvort hægt sé að hafa óeðlileg áhrif á fólk, held ég að það sé aukaatriði hvort menn séu ríkir eða ekki. Spurningin er sú hvort stjórnmálamenn, eða fólk þeim nákomið, hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þeim ákvörðunum sem stjórnvöld taka.

Út frá þessum sjónarhóli, tel ég til að mynda að það sé hvorki gott eða slæmt að forsætisráðherra eigi í gegnum konu sína um milljarð króna á Tortóla eyju. Á hinn bóginn er það ákaflega óheppileg — svo ekki sé dýpra í árina tekið — að hann eigi hálfa milljarða króna kröfu á þrotabú bankana í gegnum konu sína og hafi haldið þeim upplýsingum vísvitandi leyndum fyrir samstarfsfólki sínu og almenningi þegar hann leiddi samningaviðræður við þessa sömu kröfuhafa. Allar ákvarðanir sem hann tók höfðu umtalsverð áhrif á virði þessarar kröfu og þar með efnhag konu hans og hans sjálfs í framtíðinni.

Að sama skapi held ég að það sé hvorki gott né slæmt að svo virðist sem fjármálaráðherra sé vel efnaður og eigi eignir út um allan heim. Spurningin er fyrst og fremst sú hvort hann hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þeim ákvörðunum sem hann hefur tekið eða mun taka í framtíðinni – hvort heldur í gegnum eigin eignir, eignir konu sinnar, foreldra, nákominna ættingja, fyrrum viðskiptafélaga og svo framvegis.

Með samningum ríkisins við erlenda kröfuhafa tók ríkið yfir eignir á Íslandi sem hlaupa á hundruðum milljarða. Þær þarf að selja. Því sjáum við fram á stærstu sölu ríkiseigna í Íslandssögunnar á næstu árum. Næstu skref eru ákaflega vandasöm.

Er best að þeir sem bera ábyrgð á því að selja þessar eignir, séu ríkt fólk, fólk með meðaltekjur eða fátækt?

Það er ekki aðalaltriðið, heldur hitt að þeir sem að málum þessum koma hafi ekki prívat hagsmuna að gæta. Ef stjórnmálamenn, foreldrar þeirra, ættingjar, venslafólk eða vinir eiga hundruðir milljóna í leyndum skattaskjólum og eru á vappi um íslenskt efnhagslíf að leita sér að fjárfestingartækifærum, sem verða mörg og stór í sniðum á næstu árum, eru þessir sömu stjórnmálamenn ekki endilega sérstaklega vel til þess fallnir að fara með söluferli þessara eigna, jafnvel þótt þeir séu ríkir. Því er meira að segja stundum svo farið, þótt að það sé alls engin regla, að ríkt fólk hefur meiri áhuga á peningum en aðrir. Það er kannski einmitt þess vegna sem það ákveður — frekar en að til dæmis vinna í leikhúsi, dunda sér við ljóðasmíðar eða rannsaka Íslendingasögur — að vinna í banka eða sýsla með fé, og verður ríkt.

Verstu vandamálin verða til, þegar fólk fer að líta á það sem góða leið til að verða ríkt, að hella sér út í stjórnmál. Því miður er þessi raunin í fjölmörgum ríkjum heims. Pútín er nú talinn einn auðugasti maður í veröldinni en hann hefur einungis unnið hjá ríkinu. Að mati margra hagfræðinga er þetta stærsta efnahagslega vandamál margra þróunarríkja. Þeir sem hafa áhuga á að auðga sjálfan sig, eiga að stefna að því að búa til fyrirtæki, selja almenningi vörur sem fólk vill kaupa, og verða þannig ríkir. Og þá eru oftast allir ánægðir. Í því býr fegurð hins kapítalíska skipulags. Stjórnmál er ekki heppilegur vettvangur fyrir fólk sem er fyrst og fremst drifið áfram af persónulegri hagnaðarvon. Hvort stjórnmálamenn séu ríkir eða ekki áður en stjórnmálaþáttaka hefst er aukaatriði. Aðalatriðið er að það verður að ganga rækilega þannig frá málum, að stjórnmál séu ekki leið fyrir fólk til að auðga sjálft sig eða vini sína og ættingja, og að það séu engin dulin persónuleg hagsmunatengls sem áhrif geta haft á hvað stjórnmálamenn gera. Þetta verður að tryggja og er algert grundvallaratriði.

En aftur til Íslands. Þegar á öllu er á botninn hvolft, er kannski ekki bara ágætt að “fátækt fólk” sjái um það mikla söluferli ríkiseigna sem nú er framundan, fólk sem á engra peningalegra hagsmuna á að gæta í niðurstöðu sölunnar annan en þann að hámarka hagnað kjósenda? Til dæmis sá ég í sjónvarpinu um daginn að Katrín Jakobsdóttir býr í lyftulausri blokk — á þriðju eða fjórðu hæð að mig minnir. Ég þekki hina eldkláru eldri bræður hennar tvo frá fornu fari, þeir eru í fræðastússi uppí Háskóla Íslands og hafa því bersýnilega ákveðið að sókn í peninga er ekki forgangsmál í þeirra lífi, þótt ég sé viss um að þeir hefðu hæglega grætt meira með því að velja sér annan starfsferil. Ég er nokkuð viss um að þeir eiga ekki hundruðir milljóna í leyndum sjóðum á eyjum suður í höfum (nema bækur á þeirra vegum um fornsögur Íslendinga hafi óvænt orðið metsölurit án þess að ég hafi tekið eftir því þegar ég flutti af landinu fyrir 19 árum síðan).

En punkturinn snýr svo sem ekkert að Katrínu, og hún er auðvitað fjarri því að teljast „fátæk“ þótt seint teljist hún líklega „rík“ í peningalegum skilningi heldur er punturinn sá, að þótt Ísland sé lítið land er til aragrúi af eldkláru og hæfileikaríku fólki sem ekki hefur beina fjárhagslega hagsmuni af söluferlum þeirra ríkiseigna sem framundan eru. Það fólk er í öllum flokkum og sumt þeirra kann jafnvel að vera ríkt. Fólk sem hefur beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta í gegnum vini og fjölskyldu, á hinn bóginn, er vanhæft og á að segja sig frá þessum málum.

Það er mikið áhyggjuefni ef að nú er við völd fólk sem telur það ekki koma neinum við hver eru fjárhagsleg áhrif stjórnvaldsákvarðana á nákomna ættingja sína eða eiginkonur, vini og vandamenn, þegar stærsta sala ríkiseigna í Íslandssögunni er yfirvofandi. Það er líka áhyggjuefni ef fjölmiðlar skynja þetta ekki sem raunverulegt vandamál heldur eru jafnvel tilbúnir til að snúa þessu á haus: Að í raun og sann sé þetta kostur en ekki galli. Til að byggja upp traust í íslensku samfélagi á næstu árum, þarf að setja skýrar reglur um raunverleg hagsmunatengls allra stjórnmálamanna og þeirra er koma að sölu ríkiseigna. Um þetta hljóta allir stjórnmálamenn að geta verið sammála, ríkir sem fátækir, og hvort sem þeir eigi pening í Tortóla eða annars staðar. Vegna þess hvað framundan er hlýtur þetta að vera stærsta forgangsatriði í íslenskum stjórnmálum í dag. Og stærsta forgangsmál fjölmiðla að fylgja þessu eftir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.3.2016 - 18:49 - FB ummæli ()

Voru samningarnir góðir?

Mér sýnist margt benda til þess, að verið sé að afvegaleiða pólitíska umræðu upp á Íslandi út um víðann völl. Og menn sjái ekki lengur skóginn fyrir trjánum.

Fyrir mér eru hin stóru tíðindi síðustu daga, enn sem komið er hvað svo sem síðar verður, fyrst og fremst þessi: Forsætisráðherra átti í viðræðum við erlenda kröfuhafa þrotabús bankanna og var þar í leiðandi hlutverki að eigin sögn. Kona hans var á meðal þessara sömu kröfuhafa og átti kröfu uppá hálfan milljarð króna. Hann sat því beggja vegna borðisins og hefur sjálfur sagt að hann hafði haldið þessu leyndu vísvitandi, hvorki samflokkmönnum hans eða Sjálfstæðismönnum var kunnugt um þessi hagsmunatengsl. Enn hef ég ekki séð skýra greiningu á því, hvernig þetta geti verið í samræmi við íslensk stjórnsýslulög um vanhæfi.

Hvar konan hans og/eða aðrir Íslendingar hafi geymt peninga sína, er auðvitað forvitnilegt, en af annarri stærðargráðu í mínum huga.

En stöldum við þessa samninga við bankana, og aðkomu forsætisráðherra.

Ég hef oft verið spurður af fjölmiðlum hvort samningar íslenska ríkisins við erlenda kröfuhafa hafi verið góðir, allt frá því þeir voru fyrst kynntir.

Mitt svar á sínum tíma er óbreytt í dag: Ég veit það ekki og hef engar forsendur til þess að mynda mér skoðun á því án þess að leggjast í töluverða rannsóknarvinnu.

Samningar að þessu tagi er flóknir og að auki snúa þeir að mörgu leiti um lagaleg álitaefni sem ég hef litlar forsendur til að meta. Þess vegna er grundvallaratriði að það ríki traust til þeirra sem um þessi mál véla og hagmunir þeirra séu uppá borðum og öllum ljósir.

Það sem ég gerði þó þegar ég varð spurður að þessu í fyrsta skipti, fyrir um ári síðan, var að skoða þá umgjörð sem stjórnvöld settu utan um þessa samninga.

Um þá umgjörð má lesa hérna.

Mér sýndist hún að mörgu leiti til fyrirmyndar. Þarna eru settar sérlegar reglur þeim sem komu að samningunum meðal annars til að taka á hagsmunaárekstrum, innherjaviðskiptum og öðru slíku, ef ég skil rétt, að viðurlagðri refsingu.

Komið hefur fram að allir þeir sem komu að samningagerðinni, þar á meðal fjármálaráðherra sjálfur, Bjarni Benediktsson, hafi verið bundnir af þessum reglum.

Einn aðili virðist hins vegar ekki bundinn þessum reglum og skrifaði ekki undir neinar yfirlýsingar af þessu tagi. Sá var forsætisráðherra landsins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ef marka má fréttir Kjarnans af þessu máli hér og hér. Þetta er alvarlegt. Ég hef hvergi séð um þetta fjallað í öðrum fjölmiðlum en í Kjarnanum. Ef rétt er, verða að fást við þessu viðunandi skýringar. Þetta bætist ofan á það að forsætisráðherra vék sér undan því að undirrita siðarreglur ráðherra, sjá hér, sem einnig hefðu tekið á þessum atriðum.

Hvað samningana sjálfa varðar, eins og ég áður sagði, hef ég enn ekki neinar forsendur til að leggja mat á hvort þeir hafi verið góðir.

Það eru þó nokkur atriði sem standa uppúr hjá mér, þegar ég les fréttir að heiman, og reyni hér að neðan að vitna í þær heimildir sem ég hef séð. Ég myndi gjarnan fá miklu betri og viðameiri umfjöllun um þessi atriði.

Í fyrsta lagi, og í raun er þetta aukatriði en rétt þó að halda því til haga, fer því fjarri að það hafi verið sérleg hugmynd núverandi ríkisstjórnar að afskrifa kröfur erlendra kröfuhafa líkt og hefur verið látið í veðri vaka og ég hef séð marga fjölmiðla endurtaka í síbylju.

Þvert á móti var þetta sú leið sem síðasta ríkisstjórn lagði fram, og á rætur að rekja til lagasetningar sem setti þrotabú bankana undir gjaldeyrishöft í mars 2012. Þau lög þýddu að þrotabúin gátu aðeins greitt út kröfur sínar í krónum. Það var erlendum kröfuhöfum lítils virði að fá greiddar kröfur sínar í krónum, sem var í höftum, ekki síst í ljósi þess að stór hluti eigna þrotabúanna var erlendis. Lögin sköpuðu þannig ríkinu sterka samningsstöðu gagnvart erlendum kröfuhöfum.

En þá komum við að athygliverðri staðreynd: Hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn studdi lagasetninguna frá 2012. Engar viðunandi skýringar hafa fengist á því.

Að því er ég best veit fer því líka fjarri að núverandi forsætisráðherra hafi fyrstur kynnt hugmundir um að afskrifa ætti erlendar kröfur. Ég hygg að það hafa alltaf legið ljóst fyrir að til þess kæmi.

Til dæmis sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að afskrifa þyrfti 75 prósent af krónueignum erlendra kröfuhafa árið 2013. Um þetta má til dæmis lesa í fjölmiðlum frá þessum tíma, sjá til dæmi hérna og frétt af forsíðu Morgunblaðsins hérna. Sú leið hefði skilað um 350 milljörðum króna miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir á þeim tíma. Þessar fréttir eru frá því í mars 2013, í tíð fyrri ríkisstjórnar. Raunar hefði held ég að það væri gagnlegt að bera saman nákvæmlegt mat Seðlabankans 2013 í tíð fyrri ríkisstjórnar og raunverulegar fjárhæðir sem samningurinn skilaði. Ef einhver hefur séð slíkt mat, væri það vel þegið í athugasemdum. Til að mynda talaði Már um að afskrifa þyrfti 75 prósent erlendra krónukrafna, og gerði ráð fyrir að þær væru um 450 milljarðar. Seinna hygg ég að í ljós hafi komið, þótt ekki þori ég að fullyrða um það, að þessar krónukröfur hafi verið talsvert stærri. Það hefði aftur benti til þess að afskrifin hefði átt að vera stærri ef miðað er við upphaflegt mat Más. Þetta er ein þeirra spurninga sem fróðlegt væri að fá svar við.

Það nýja í því sem núverandi forsætisráðherra lagði fram seinna á árinu 2013 var ekki að afskrifa kröfur erlendra kröfuhafa. Hin nýja hugmynd var nota þetta fé, sem alltaf lá fyrir að myndi gefa ríkinu aukið svigrúm, til þess að afskrifa skuldir á íslensk heimili í stað þess að nota það til að borga niður skuldir ríkissjóðs sem stökkbreyttust til hins verra vegna hrunsins, ekki síst vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabanka Íslands. Flestir lögðust gegn þessari hugmynd, ekki af samúð við erlenda kröfuhafa, heldur vegna þess að hin innlenda skuldaniðurfelling kæmi sér aðallega vel fyrir það fólk, sem ekki þyrfi á afskriftum að halda. En það er rétt að halda því rækilega til haga, að þessar tvær aðgerðir voru algerlega sjálfstæðar. Hægt var að ganga hart að erlendum kröfuhöfum, án það hefði neitt með afskriftir af íslenskum húsnæðislánum að gera. Að því er ég best veit ríktu aldrei neinar deilum um að afskrifa þyrfti stóran hluta krónueigna erlendra kröfuhafa. Flestir Íslendingar, en þó ekki allir að því er nú virðist, höfðu af því ríka hagsmuni að þær afskriftir yrðu eins viðamiklar og lög leyfðu.

Í öðru lagi virðist sem þeir samningar sem náðst hafa, séu að miklu leiti hinir sömu og þegar lágu fyrir 2013, þótt mér sýnist sú upphæð sem ríkið fær í sinn hlut kunni að vera lægri en þeir 350 milljarðar sem seðlabankastjóri gerði ráð fyrir 2013. Um það vil ég þó ekki dæma, og grunar að upphæðin kunni að vera töluverðri óvissu bundin því að hún mun fara eftir söluverði þeirra eigna sem ríkið fékk í sinn hlut. Sem kveikir eftirfarandi spurningu: Hvað tók svona langan tíma úr því að lending málsins var nánast hin sama og um var rætt fyrir 3 árum? Og hver, nákvæmlegt, er hlutur núverandi forsætisráðherra í því máli? Ríkti ágreiningur milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar um hvaða leið velja skyldi? Hver var sá ágreiningur?

Í þriðja lagi er á þessu máli annar flötur sem einnig krefst skýringa. Þegar stjórnvöld kynntu samningana, sögðu þau að gerð hafi verið áætlun um stöðugleikaskatt samhliða samingum við kröfuhafa. Sagt var að ríkinu væri heimilt að leggja á 39 prósenta skatt á þrotabúin og að slík skattlagning væri lögleg og stæðist stjórnarskrá.

Niðurstaðan var hins vegar sú, að skattur þessi var ekki lagður á. Í staðinn var gerður samningur við kröfuhafa.

Ég hef ekki lagt sjálfstætt mat á tölur í þessu samhengi. Hér að neðan eru nokkrar heimildir sem ég hef séð, en auðvitað ætti að liggja fyrir ítarlegri rannsóknir en vitnað er til hér að neðan. Ábendingar eru vel þegnar í athugasemdum.

Fjölmiðilinn Kjarninn telur að sú leið sem farin var skilaði 300 milljörðum minna til ríkisins en ef skatturinn hafi verið lagður á, sjá hér.

Kári Stefánsson nefnir 550 milljarða í þessu samhengi, sjá hér, en í báðum tilfellum er um að ræða mat manna samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja í dag.

Ef við horfum til baka, kemur svo í ljós að ýmsir úr stjórnarandstöðunni og Indefence hópnum svokallaða lögðu svipað mat á hlutina á þeim tíma sem samningarnir voru kynntir. Í fésbókarfærslu Össurar Skarphéðinsson, fyrir um það bil einu ári, sjá hér, segir hann að sú leið sem farin hafi verið feli í sér “skattaafslátt” upp á 400 milljarða.

Í stuttu máli er því niðurstaðan þessi: Sú leið sem farin var í samningum við kröfuhafa virðist benda til að stjórvöld fái uppúr krafsinu heldur minna en Már Guðmundsson Seðlabankastjóri benti á að yrði líkleg niðurstaða árið 2013 í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Frá því að Már lagði þetta mat á stöðu mála, hafa í millitíðinni staðið yfir langar og strangar samningaviðræður. Í þeim viðræðum kynntu stjórnvöld meðal annars áætlun um skattheimtu – sem átti víst að standast stjórnarskrá að bestu manna yfirsýn – sem hefði að öllum líkindum skilað um það bil tvöfaldri þeirri upphæð sem endalega kom í hlut ríkisins, ef marka má þá umfjöllun sem vísað er í hér að ofan.

Ef þetta er rétt, erum við að tala um tilfærslu frá íslenskum skattgreiðendum til erlendra kröfuhafa sem nemur hundruðum milljarða, vegna þeirra leiðar sem farin var.

Voru þetta góðir samningar? Það kann vel að vera. En í ljósi nýjustu upplýsinga er fullt tilefni til að skoða svarið við þeirri spurningu nánar, fremur en að taka svarinu sem fyrirfram gefnu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.3.2016 - 22:58 - FB ummæli ()

Forsætisráðherra og vanhæfni

Upplýsingarnar um fjármál forsætisráðherra Íslands eru stærstu tíðindi sem ég hef séð í íslenskri stjórnmálasögu síðan hrunið varð 2008. Viðbrögð stjórnmálanna og fjölmiðla eru prófsteinn á hvort íslenskt þjóðfélag einfaldlega ræður við að glíma við mál af þessu tagi, þar sem allir þekkja alla, og allt verður umsvifalaust sett ofan í persónulegar og pólitískar skotgrafir. Ég ætla að víkja hér að einum anga þessa máls, sem kom upp í fésbókarspjalli mínu við nokkra lögmenn íslenska í gærkvöldi sem ég ber mikla virðingu fyrir, en ég hef enn ekki náð botni í þessa hlið málsins, né heldur séð henni gerð fullnægjandi skil í íslenskum fjölmiðlum. Kannski lesendur geti hjálpað mér í þessu efni með ábendingum í athugasemdum.

Eitt af því sem stendur upp úr hjá mér, er að félag sem skrifað er á konu forsætisráðherra í Tortólueyju á kröfu á þrotabú bankanna sem nemur hálfum milljarði króna. Á sama tíma átti forsætisráðherra í vandasömum viðræðum við þessa sömu kröfuhafa. Þjóðarhagsmunirnir voru gífulegir, miklu stærri en í nokkruð öðru máli í íslenskri stjórnmálasögu. Svo virðist sem forsætisráðherra líti svo á að þetta hafi jafnvel verið hans helsta hlutverk í pólítík. Hann segir í Fréttablaðinu: “Ég held að menn geti viðurkennt að ég hafi leitt þessa umræðu og fylgt henni eftir.” (þ.e. um samninga við kröfuhafa).

Það fyrsta sem kom mér á óvart er hversu há þessi fjárhæð er. Af fréttum að dæma á Tortólafélagið eignir, umfram þessar kröfur á bankana, sem metnar eru á um það bil einn milljarð. Lýstar kröfur á þrotabú bankana eru því á við um helming allra núverandi eigna Tortólafélagsins sem virðist grunnurinn af auðæfum forsætisráðherra og frúar hans.

Það er rétt að staldra við og setja þessar tölur í samhengi. Mér af vitandi (þótt ekki hafi ég lagst í rannsóknarvinnu um þetta efni) hefur forsætisráðherra eingöngu starfað áður sem fréttamaður á Sjónvarpinu áður en hann fór inn á Alþingi, en mér skilst að hann hafi komið beint inn á þing úr ókláruðu framhaldsnámi. Ég geri ráð fyrir að tekjur hans hjá RÚV í samskonar starfi í dag borgi vel undir einni milljón á mánuði. Varlega áætlað, er því ef til vill sanngjarnt að halda því fram að þær tekjur sem hann fær nú sem forsætisráðherra á mánuði, um 1.5 milljón, eru líklega heldur hærri en hann mætti gera ráð fyrir ef hann hefði ekki hellt sér út í pólítík. Skiptir þetta máli?

Já, því þegar maður leggur mat á hagsmuni, er mikilvægt að hafa í huga hversu stórir þeir eru. Það segir sig sjálft. Í þessu tilfelli er um að ræða hálfa milljarða króna kröfu á þrotabú bankana, sem er upphæð sem jafngildir uppsöfnuðum launum forsætisráðherra í 27 ár (fyrir skatt). Tvennt er því ljóst. Í fyrsta lagi erum við að tala um stærðargráðu hagsmuna sem vega þyngra en öll þau laun sem ætla má að Sigmundur fengi yfir starfsævi sína haldi hann núverandi starfi. Í öðru lagi eru þessar kröfur, hálfur milljarður, á jafns við um það bil helming þess fés sem þetta tiltekna Tortóla félag á í öðrum eignum í dag. Í stuttu mál, hvernig sem málunum er snúið, og nú má beita ýmsum ráðum til að leggja mat á væntar ævitekjur osfrv. sem ég held að sé vel þess virði að skoða betur, blasir það við að þeir hagsmunir sem hér er um að tefla hafa raunveruleg áhrif á ævitekjur og auðævi fjölskyldu forsætisráðherra.

Það er erfitt að ímynda sér annað en að hagsmunir af þessari stærðargráðu hafi einhver áhrif á það hvernig hver maður lítur á silfrið. Því er hins vegar ekki að neita að það kann vel að vera að slíkt eigi alls ekki við um Sigmund Davíð. Hann hefur einmitt upplýst þjóðina sérstaklega um það í Fréttablaðinu í gær, að þvert á móti, hafi hann viljað lágmarka endurheimtur Tortólafélagsins úr þrotabúi bankana íslensku þjóðfélagi til heilla. En þá er rétt að staldra við og viðurkenna, að ef svo er, telst Sigmundur Davíð óvenjulega viljasterkur. Vegna þess hversu sjaldgæfur slíkur viljastyrkur er, og hversu erfitt er að leggja mat á niðurstöðu flókinna samninga eftir á, hafa flest lýðræðisríki í veröldinni tiltölulega strangar reglur og lög er varða hagsmunaárekstra og stjórnmál. Og almennt tel ég að það sé ekki prívat einkamál stjórnmálamannana sjálfra að leggja mat á hvort þessir hagsmunir skipti máli eða hvort frá þeim þurfi að segja. Í þessu tilfelli er málið sérlega alvarlegt, því að nánast öll íslensk stjórnmálabarátta frá hruni hefur í raun og veru hverfst um eina og aðeins eina spurning: Hvernig á að ganga frá uppgjöri hinna hrundu banka? Hver fær peningana? Allar ákvarðanir stjórnvalda hafa haft áhrif á úrlausn þessa máls.

Eins og ég sagði áður mótast sjónarhorn mitt að einhverju leiti af því að hafa búið í Bandaríkjunum síðustu 19 ár, þar sem stjórnkerfið er auðvitað talsvert frábrugðið. Allir ráðherrar bandarískir, sem og allir æðstu embættismenn, fara í gegnum viðamikla skattrannsókn IRS, og rannsókn á vegum FBI, þar sem meðal annars er farið vandlega yfir eignasöfn þeirra, áður en skipan þeirra er staðfest af öldungadeildinni. Það er jafnvel farið yfir atriði eins og til dæmis þau, hvort menn hafi sagt satt og rétt frá um ferilskrá sína og skólagöngu. Allt er þetta gert til að koma í veg fyrir hagsmunatengsl, og einnig það, að einhverjar upplýsingar séu til sem hægt sé að nýta sér gegn ráðherra til að hafa áhrif á embættisverk hans með hótunum um uppljóstranir um upplýsingar sem gætu reynst óþægilegar. Rannsóknir af þessu tagi eru mjög ítarlegar, og ég hef orðið vitni að nokkrum slíkum á ýmsum stigum bandarísks stjórnkerfis. Ég minnist þess að þegar Hank Paulson, sem var fyrrum forstjóri Goldman Sachs fjárfestingarbankans, var skipaður fjármálaráherra af George Bush voru allar hans eigur settar í “blind trust.” Eins og nafnið gefur til kynna þýddi þetta að hann hafði ekkert með eignastýringuna auðæva sinna að gera, og vissi ekki einu sinni um samsetningu þeirra. Ég held að upplýsingar af því tagi sem hér um ræðir hefðu því alltaf legið fyrir áður en forseti formlega skipaði ráðherra og þingið staðfesti þá skipan mála. Almennt held ég að menn séu betur vakandi fyrir hagsmunatengslum hérna, þótt því fari auðvitað fjarri að Bandaríkin séu fullkomin í þessu efni. Það er nú einmitt það sem drífur áfram vinsældir Bernie Sanders og að einhverju leiti Donald Trump´s.

Þegar ég starfaði við Seðlabanka Bandaríkjanna í New York þurfti ég til dæmis alltaf að víkja af fundum bankans ef málefni Lehman bankans komu upp, því að konan mín var við vinnu þar. Því fór fjarri að þeir hagsmunir væru af stærðargráðu af þessu tagi í hlutfalli við okkar eignir eða væntar ævitekjur. Ég minnist þess líka að sussað hafi verið á forseta bankans á fundi í miðju hruni, Timothy Geithner, sem síðar varð fjármálaráðherra Barak Obama, þegar hann ætlaði að segja einhverja skemmtisögu af viðskiptum sínum við Íslendinga. Var bent á að það væri Íslendingur á svæðinu og því ekki eðlilegt að slík mál kæmu til umræðu vegna hagsmunatengla (ég er ennþá afskaplega forvitinn um efni þessara sögu en hún hafði víst eitthvað með Davíð Oddsson að gera!).

Frá mínum sjónarhóli séð get ég einfaldlega ekki skilið hvernig þessi hagsmunatengsl geta samræmst íslenskum stjórnsýslulögum sem eiga víst að taka á hagsmunaárekstrum. Ég verð þó að taka skýrt fram að ég hef ekki neitt vit á lögum almennt, hvað þá heldur íslenskum, heldur miða við þann veruleika sem blasir við mér hérna úti.

Ég stóðst reyndar ekki mátið, og googlaði stjórsýslulög rétt í þessu. Þau eru hér. Þau eru stutt og laggóð og á kjarnyrtri íslensku. Þar segir um vanhæfnisástæður í II kafla, 3 gr. að aðili sé vanhæfur ef að “hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.” Um um áhrif vanhæfis segir í II kafla, 4 gr: “Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess.”

Forsætisráðherra landsins lýsir því yfir í stærsta dagblaðið landsins um viðræður við kröfuhafa að “ég held að menn geti viðurkennt að ég hafi leitt þessa umræðu og fylgt henni eftir.” Einn þessara kröfuhafa var konan hans sem átti kröfu sem nam hálfum milljarði króna sem er verulegt hlutfall núverandi eigna þeirra hjóna, eða sem mælt sem hlufall af væntanlegum ævitekjum þeirra, hvernig sem málum er snúið. Viðræðurnar vörðuðu stærstu þjóðhagslegu hagsmuni í sögu landsins.

Það væri forvitnilegt að heyra í lögfróðum mönnum íslenskum um hvort þetta kveiki upp lagaleg álitaefni. Eins og ég segi, er ég í engri stöðu til að leggja mat á slíkt, því hvorki er ég lögfræðimenntaður, og að auki fer þetta væntanlega eftir íslenskri dómahefð sem ég hef enga þekkingu á. Þessi hlið málsins er lögfræðileg, en ekki pólitísk, og kemur í sjálfur sér ekkert þeim einstaklingi við sem hér um ræðir, né heldur því í hvaða flokki hann stendur. En ég hef enn ekki séð skýra greiningu á þessu atriði. Það er hlutverk fjölmiðla að upplýsa okkur um þetta.

En málið er auðvitað miklu stærra en að vera þröngt íslenskt lögfræðilegt álitaefni, og ekki vil ég gera lítið úr þeim þætti málsins. Mér finnst hann bara blasa meira við. Hin lögfræðilega spurning út frá íslenskum lögum sem ég þekki ekki vel er þrengri og er væntanlega auðveldara að svara án þess að pólitík komi þar mikið við sögu. Hins vegar hvernig brugðist er við af íslensku stjórnmálalífi, og ekki síst af fjölmiðlum, er fordæmisgefandi og mun hafa stór áhrif í framtíðinni fyrir íslenskt samfélag og stjórnmálalíf. Mér sýnist einnig á fréttum að mál þessi komi innan skamms til kasta erlendra stórmiðla því að rannsóknin á sér víst rætur erlendis frá. Við vitum ekki ennþá hvort þar komi fram nýjar upplýsingar en nú þegar liggja fyrir. Víst er, að forsætisráðherra telur það ekki vera sérlegt hlutverk sitt, að greina frá hagsmunatengslum sínum á nokkurn hátt, þannig að kannski eru ekki öll kurl komin til grafar. Það verður fróðlegt að bera sama fréttamat erlendra miðla við það sem við sjáum í íslenskum blöðum í dag.

Líklega er rétt að benda Alþingismönnum á það, hvar í flokki sem þeir standa, að þeirra næstu skref geta haft stór áhrif á efnahagslegan trúverðugleika Íslands til framtíðar, sem Íslendingar hafa eytt síðustu árum í að byggja upp með hörðum höndum eftir bankahrunið. Ég get sagt af eigin reynslu, að sá trúverðugleiki er ekki sérlega hár á alþjóðlegum vettvangi, og ég efast ekki um að slíkt hafi áhrif á viðskiptahagsmuni landsmanna. Því held ég að það væri skynsamlegt að reyna að persónugera ekki málið, heldur spyrja sig þeirrar spurningar hvernig eðlilegt sé að brugðist sé við af upplýsingum að þessu tagi út frá almennum og málefnalegum sjónarmiðum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur