Sunnudagur 20.3.2016 - 15:31 - FB ummæli ()

Pólitísk umræða á Íslandi

Ég setti litla færslu inná facebook í gærmorgun. Og nú sé ég þegar ég opna tölvuna að henni hefur verið deilt 70 sinnum. Mér finnst það benda til þess að ef til vill ættu þessar hugleiðingar mínar að vera aðgengilegar fleirum en vinum mínum á facebook. Færslan frá því í gær birtist hér að neðan:

„Sú umræða sem skapast hefur um að maki forsætisráðherra hafi átt hálfa milljarða króna kröfu á þrotabú bankanna á sama tíma og ríkisstjórnin átti í samningaviðræður við þessa sömu kröfuhafa um gífurlega þjóðhagslega hagsmuni er prófsteinn á íslenska stjórnmálamenningu eftir hrun, á stjórnmálaflokkana og ekki síst íslenska fjölmiðla. Komið er fram að enginn hafi vitað um þessi stóru hagsmunatengsl, hvorki flokksmenn ráðherra, né samstarfsflokkurinn. Það sem ég hef séð í íslenskri þjóðmálaumræðu, sbr. viðbrögð forsætisráðherra og sumra fjölmiðla t.d. leiðara Fréttablaðsins í dag, lofar ekki góðu. Það er fáránlegt að halda því fram að þetta mál sé ekki fréttnæmt heldur endurspegli „fárveika pólitíska umræðu“– þetta væri stórfrétt alls staðar í veröldinni sem hefði alvarlegar afleiðingar. Þetta snýst ekki um tilteknar persónur, heldur grundvallar leikreglur um hagsmunatengls stjórnmálamanna og traust á stjórnmálalífinu almennt og ekki síst hvort íslensk fjölmiðlun sé yfir höfuð í stakk búin til að glíma við svona viðkvæm mál. Á Íslandi þekkja allir alla, og því er erfitt að tala um svona mál, bæði fyrir fjölmiðla- og stjórnmálamenn. Þetta var líka alvarlegt vandamál fyrir hrun. Vera kann að það verði ekki fyrr en erlendir fjölmiðar taki málið upp að fólk skynji alvöru málsins, því fréttamat þeirra mun ekki miða við persónur, tiltekna flokka, þ.e. hægri-vinsti osfrv., heldur einfaldlega hvernig málið lítur út utan frá séð. Ísland er ekki lengur eyland, hrunið var alþjóðlegt fyrirbæri. Ísland er að reyna að endurvinna traust á íslensku efnahagslífi, og því er rétt að fólk í ríkisstjórnarflokkunum hugsi vandlega og af ábyrgð um hvernig best er að glíma við þetta stórmál út frá trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi, fremur en með því að reyna að persónugera málið.“

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.2.2015 - 15:10 - FB ummæli ()

Gjaldþrot Seðlabanka Íslands

Nú er til umræðu enn eitt atriðið er varðar gjaldþrot Seðlabanka Íslands, sem varð vegna gáleysislegra veðlána í aðdraganda hrunsins. Svo virðist sem 35 milljarðar hafi tapast vegna ónógra veða sem bankinn fékk gegn þrautarvararláni til Kaupþings örstuttu fyrir hrun.

Nýjasta fréttin í því er að Davíð Oddsson, þá Seðlabankastjóri, virðist reyna að varpa af sér ábyrgð yfir á Geir Haarde, sem þá var forsætisráðherra. Rök Davíðs sýnist mér þau, að Geir hafi hvatt hann til að lána til Kauþings til að reyna að bjarga bankanum.

Nú kann vel að vera að Geir hafi hvatt Davíð til þess að lána til Kaupþings. Það getur meira að segja verið að Davíð hafi tekið tekið slíkar hvatningar uppá sérstakt segulband að Geir forspurðum, líkt og flest bendir til.

Ekki get ég þó séð að það skipti neinu hvað varðar efni þessa máls, líkt og núverandi seðlabankastjóri raunar bendir réttilega á. Jafnvel þótt einstaka ráðamenn hvetji seðlabanka til að standa við lögbundið hlutverk sitt, sem er að veita lán til þrautarvara, er slíkt auðvitað alltaf gert undir þeim formerkjum að það sé gert gegn tryggum veðum.  Um þetta gildir hin meira en 100 ára regla Bagehot, að seðlabankar eigi að lána frjálst til viðskiptabanka í lausafjárskrísu svo lengi sem þeir hafi trygg veð og slíkt skuli gera með álagi.

Og það var á ábyrgð Davíðs Oddssonar og Seðlabanka Íslands að ganga úr skugga um að veðin gegn láninu væru trygg. Og það var einfaldlega ekki gert, sýnist mér, í ljósi þessa gífurlega taps, amk er full ástæða til að skoða hvernig sú áhættugreining fór fram. Forsætisráðherra, á hinn bóginn, hafði engar forsendur til að leggja mat á veðhæfni þeirra eigna sem lágu til grundvallar láninu.

Það grátbroslega í þessu (og hér er rétt að undirstrika orðið grát) er auðvitað að þetta er aðeins síðasta, og engan veginn stærsta dæmið, um óvenjulega illa útfærða veðlánastarfsemi Seðlabanka Íslands í aðdraganda hrunsins. Einungis toppur á ísjakanum.

Gagnrýni á starfsemi Seðalbanka Íslands í aðdraganda hrunins, mín og annarra, hefur almennt ekki beinst að því að hann hafi lánað viðskiptabönkunum pening.  Það gerðu Seðlabankar alls staðar í veröldinni, til að mynda í Seðlabanka Bandaríkjanna þar sem ég vann á þessum tíma. Gagnrýnin hefur verið sú, að Seðlabanki Íslands lánaði bönkunum pening án þess að fá í staðinn haldbær veð.  Peningar voru lánaðir, líkt og um sjoppustarfsemi væri að ræða. Þetta þýddi að þegar allt hrundi, voru veðin lítils sem einskis virði.

Kaupþingsmálið sem nú er um rætt er aðeins lítill hluti af þessu máli öllu, þó svo að þar hafi verið lagður undir allur gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar.

Nei, því miður. Skaðinn var miklu stærri.

Kannski eru sumir búnir að gleyma því, að stærsti kostnaðurinn við hrunið var að Seðlabankinn lánaði bönkunum hundruð milljarða án nokkurra haldbærra veða í hinum svokölluðu ástarbréfaviðskiptum. Mér er ekki kunnugt um nokkurt dæmi í sögu seðlabanka heimsins um viðlíka tap sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Fyrir þá sem ekki muna fólst gjörningurinn í þessu, með nokkurri einföldun: Banki A seldi banka B bréf í sjálfum sér sem banki B borgaði fyrir með bréfi sem hann gaf líka út sjálfur. Svo notaði Banki A bréfið sem hann fékk frá banka B sem veð í Seðlanbanka Íslands gegn láni (og banki B gerði hið sama). Nú eru auðvitað engin takmörk á því hversu mörg bréf hver og einn banki (A og B) gat prentað fyrir hvern annan og fengið þannig lán í Seðlabankanum. Vandinn var auðvitað sá að þessi bankabréf urðu verðlaus þegar allt hrundi.

Með þessum hætti leyfði Seðlabankinn beinlínis íslenskum bönkunum að prenta peninga fyrir sjálfa sig án nokkurra haldbærra veða, upphæðin við hrun nam um 30 prósentum af þjóðarframleiðslu ef ég man rétt.

Þetta hefur auðvitað verið rakið í Rannsóknarskýrslu Alþingis í all nokkrum smáatriðum, gagnrýnt af Ríkisendurskoðanda, OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum osfrv osfrv.

Í samhengi við þessa 35 milljarða sem fólst í tapinu í veðláninu til Kaupþings er ágætt að hafa í huga að tapið sem fólst í ástarbréfaviðskiptunum nam hundruðum milljarða.  Stundum er talað um 300 milljarða reikning í þessu samhengi. Upphæðin er svo stór að ég held að fólk nánast skilji hana ekki.  Ef 300 milljarðar er rétt tala, nemur þetta tap Seðlabankans um 5 milljónum á hverja þriggja barna fjölskyldu á Íslandi.

Ég hef reyndar aldrei reynt að leggja mat á þessa upphæð sjálfur. Þegar Ríkisendurskoðun lagði mat á þetta 2009 var matið að minnsta kosti 175 miljarðar (sjá fréttir hér). Tölur frá Fjármálaráðuneytinu eða Alþjóða Gjaldeyrisjóðnum bentu til nær 300 milljörðum, en fyrrum aðalendurskoðandi Seðlabankans talaði um 250 milljarða í blaðagrein. Það eina sem við vitum með vissu er að tapið hleypur á hundruðum milljarða.

Mér skilst að nú ætli Seðlabanki Íslands að leggja í sérstaka rannsókn vegna þessara 35 milljarða sem töpuðust vegna Kaupþingslánanna. Það væri ekki úr vegi, svona í leiðinni, að rannsaka betur hvað fór úrskeiðis í ástarbréfarviðskiptunum. Og þá væri líka athyglisvert að vita hversu stórt tapið var og það sett í samhengi við Kaupþingslánið og annað.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.6.2014 - 00:35 - FB ummæli ()

Framsókn í ruslflokk

Það er eiginlega með hreinum ólíkindum að forsætisráðherra Íslands skuli ekki fortakalaust hafna hugmynd um að afturkalla byggingarleyfi fyrir bænahús tiltekins trúarhóps. Þessi hugmynd var helsta kosningamál Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Henni var fleytt fram með eftirfarandi formerkjum af  Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttir, oddvita lista Framsóknarflokksins (sjá hér) örfáum dögum fyrir kosningar:

Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur“

Þessi hugmynd gengur í berhögg við ákvæði stjórnarskrár Íslands um trúfrelsi og þess sem almennt tíðkast í vestrænum þjóðfélögum.

Ekki er hægt að vera annað en sammála fyrrum formanni Framsóknarflokksins, Jóni Sigurðsyni, og öðrum nú og fyrrverandi flokksmönnum sem virðast í óða önn að yfirgefa þann ófögnuð sem Framsókn er orðin. Jón segir ekkert að finna í yfirlýsingum Sigmundar Davíðs undanfarna daga sem bendir til þess að hann mótmæli hugmyndum Sveinbjargar á einn eða annan hátt eða almennum málflutningi hennar yfir höfuð (sjá hér og hér).

Þvert á móti segir Jón ummæli Sigmundar Davíðs “úthugsað herbragð” og að Sigmundur “taki undir með Sveinbjörgu.” Nú virðist Jón hættur að kjósa þann flokk sem hann veitti forystu ekki alls fyrir löngu. Fimmti maður af lista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, Hreiðar Eiríksson, sagði af sér í miðri kosningabaráttu vegna þessarar ömurlegu uppákomu. Frambjóðandi flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur í síðustu kosningum, Einar Skúlason, hefur ekkert sagt um málið, annað en að pósta á facebook trúfrelsisákvæði stjórnarskrár Íslands. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Sigrún Magnúsdóttir, og sjálfur utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, segja þessar trakteringar illa í takti við stefnu flokksins. En ekki hvað?

Hin nýja þjóðbelgingsstefna Framsóknarflokksins, undir forystu Sigmundar Davíðs, er tiltölulega ömurleg hvernig sem málinu er snúið, jafnvel svo mjög að sómakærum Framsóknarmönnum og konum blöskrar og annað hvort halda fyrir nefið eða yfirgefa flokkinn. Það er óskaplega erfitt að finna á þessu neinn góðan flöt. Það eina sem maður getur vonað er að þetta sé allt saman helber misskilningur. Að Framsókn geri loksins hreint fyrir sínum dyrum. Slíkar vonir verða æ daufari með hverjum deginum sem líður.

Segja má að þessar vonir hafi eiginlega algerlega slokknað hjá mér þegar ég sá aðstoðarmann forsætisráðherraráðherra og fyrrum skólabróðir minn (og kórfélaga), Jóhannes Þór Skúlason, fara mikinn á netinu (sjá hér). Hvað hafði Jóhannes Þór til málanna að leggja? Að gera hreint fyrir dyrum Framsóknarflokksins og taka af allan vafa um að flokkurinn standi vörð um mannréttindi minnihlutahópa í samræmi við stjórnarskrá Íslands? Ekki var orð um málflutning frambjóðanda Framsóknarflokksins í Reykjavík sem sagði ekki bara að afturkalla eigi byggingarleyfi fyrir bænahús Íslendinga sem eru Islam trúar, heldur líka að íslenskt samfélag þurfa að ræða lagasetningar gegn nauðungarhjónaböndum, sem væri jú auðvitað voða bráðnausynlegt vegna vaxandi fjölda múslima í landinu (!) (sjá hér).

Nei, í staðinn fyrir að gera hreint fyrir dyrum Framsóknarflokksins er grein Jóhannesar Þórs eitt samfellt væl um að allir tali svo voða voða illa um Framsóknarmenn! Það taki svo ægilega mikið á sálarlíf vesalings Framsóknarmanna að verja sín sérkennilegu stefnumál og þeir eigi jú börn og mömmur og svoleiðis sem þarf að útskýra öll þessi ósköp fyrir (!). “Ætli kennarar barnanna minna hafi verið að hlusta?” spyr Jóhannes Þór í samhengi við einhverja umræðu í fjölmiðlum þar sem hinni nýju stefnu Framsóknarflokksins var jafnað við þjóðernispopúlisma af einhverjum þátttakendum (þessi skoðun hefur líka verið sett fram með góðum rökstuðningi af fjölmörgum fræðimönnum og stjórnamálafólki, þar á meðal úr hans eigin flokki og af fólki í samstarfsflokknum í ríkisstjórn).  „Eða kannski mamma?“

Ég veit varla hvað maður á að kalla málfutning Jóhannesar. Ég á ekki til orð — eða að minnsta kosti ekkert á íslensku. Þetta er það sem sumir vinir mínir hérna í New York myndu kalla chutzpha en það orð á uppruna sinn í Yiddísku (sem er tungumál sem rakið er til gyðinga úr miðevrópu sem margir settust að hérna í borginni). Ég held að ekkert almennilegt orð sé til á íslensku sem lýsir svona firringu. Ég er virkilega búinn að gramsa í huganum. Á wikipedia er chutzpha skilgreint sem svo, sem skýrir kannski afhverju þetta kom upp í hugann á mér:

„Leo Rosten in The Joys of Yiddish defines chutzpah as „gall, brazen nerve, effrontery, incredible ‘guts,’ presumption plus arrogance such as no other word and no other language can do justice to“ … Rosten defined the term as „that quality enshrined in a man who, having killed his mother and father, throws himself on the mercy of the court because he is an orphan.“ Chutzpah amounts to a total denial of personal responsibility, that renders others speechless and incredulous.“

Framsókn er komin í ruslflokk.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.5.2014 - 19:03 - FB ummæli ()

Enn lækka þeir veiðigjöldin

Nú er nær ár liðið síðan ríkisstjórnin tók við. Enn bólar ekkert á hinum margboðuðu skuldaniðurfellingum. Síðast þegar forsætisráðherra var spurður átti það að vera jafn einfalt og að panta pítsu, og hægt væri að skila inn pöntunum 15. Maí. Nú virðist málið vera að daga uppi á Alþingi (sjá hér).

Á sama tíma sé ég þess engin merki að á döfinni sé lagasetning um að aflétta gjaldeyrishöftum, nú heilu ári eftir að ríkisstjórnin tók við.  (Á hinn bóginn virðist voða mikilvægt að skipa nefnd til að krukka í lagasetningu um að fjölga seðlabankastjórum. Til hvers?).

Hvað er þessi ríkisstjórn þá eiginlega búin að gera?

Jú henni lá ógurlega mikið á að lækka skatta á útgerðarmenn á síðasta sumarþingi um marga milljarða króna. Áður en nokkuð annað var gert. Þetta var fyrsta málið. Númer eitt. Og nú er útlit fyrir að svo lítill tími sé eftir á Alþingi að öllum helstu málum ríkisstjórnarinn verði frestað. Nema einu. Og hvaða mál ætli það nú sé?

Jú aftur þá stór liggur á því að lækka veiðigjöld á útgerðarmenn enn frekar. Um marga milljarða í viðbót (sjá hér bls 13).

Mér skilst að það sé methagnaður í útgerðinni um þessar mundir.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.2.2014 - 16:09 - FB ummæli ()

Að segja satt

Einhvern veginn finnst mér þessi úrdráttur úr frétt RÚV ramma ágætlega inn umræðuna um að slíta viðræðum við ESB sem mér sýnist ansi mikill hiti um uppá Íslandi.

„Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði þetta ein stærstu svik í íslenskum stjórnmálum. Birgir Ármansson, hefur hins vegar sagt að þetta séu ekki svik, heppilegra hefði þó verið að orða hlutina með öðrum hætti í aðdraganda kosninga en að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.“

Sjá hér.

Það er í sjálfu sér lítið um það að segja þótt tveir flokkar sem eru andsnúnir ESB vilji slíta viðræðum við það samband. Fyrir því eru ágætis rök. En þá áttu þeir ekki að fara í kosningar og lofa fólki að það fengi að kjósa um málið, því bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru skýrir í þeim málflutningi að því er ég best get séð, bæði í auglýsingum og málflutningi forystumanna. Ekkert hefur breyst síðan þetta loforð var gefið.

Mér sýnist þetta mál því einfaldlega snúast um hvort það sé réttlætanlegt að skrökva til að ná kosningu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.2.2014 - 20:48 - FB ummæli ()

Seðlabankar og stjórnmál

Nú sé ég að einhver umræða er um hvernig skipan seðlabankastjóra í Bandaríkjunum er háttað (sjá hér). Svo virðist sem nafnlaus penni Viðskiptablaðsins virðist telja að það sé voða mikil samsvörun milli flokkapólitíkur og hver vermi stól „Chairman of the Federal Reserve“ í Bandaríkjunm. Ég vann við bandaríska Seðlabankan um 8 ára skeið og hef fylgst ágætlega með hvernig málum er þar háttað (Ben Bernanke, fyrrum „Chairman“, var raunar einn af leiðbeinendum mínum í doktorsverkefni mínu við Princeton háskóla).

Skoðum nú aðeins söguna.

Paul Volcker var skipaður seðlabankastjóri af Jimmy Carter Bandaríkjaforseta, sem var demókrati. Og svo er að skilja á Viðskiptablaðinu að Volcker hafi líka verið ógurlega mikill demókrati.

En skipunartími „the Chairman“ er aðeins 4 ár. Hvað ætli hafi nú gerst fjórum árum seinna? Jú, hinn stæki demókrati Ronald Reagan sem þá var Bandaríkjaforseti skipaði Volcker aftur í stól bankastjóra.

Þegar Volcker lét af störfum skipaði Ronald Reagan Alan Greenspan bankastjóra. George Bush hinn fyrri enduskipaði hann svo í þann stól.

Hvað ætli hafi svo gerst næst? Jú hinn harði repúblikani Bill Clinton (!), þá forseti Bandaríkjanna, skipaði Greenspan enn og aftur í stól bankastjóra.

Víkur nú sögunni til George Bush hins síðari. Þegar Greenspan lét af störfum skipaði hann Ben Bernanke í stöðu seðlabankastjóra. Mér skilst af Viðskiptablaðinu að það hafi aðallega verið vegna þess að hann hafi verið svo voða mikill Repúblikani enda í ráðgjafahóp forsetans (það fór reyndar framhjá okkur öllum sem þekktu hann á þeim tíma að hann væri Repúblikani). Hvað ætli Obama hafi svo gert þegar skipunartími Bernanke´s rann út? Jú, enduskipaði hann í embættið. Þegar Bernanke gaf til kynna að hann vildi gjarnan snúa sér aftur að fræðastörfum var svo Janet Yellen fyrir valinu.

Ef við skoðum söguna í Bandaríkjunum yfir þetta tímabil (sem spannar meira en 30 ár) kemur þetta í ljós: Forseti Bandaríkjanna hefur alltaf endurskipað þann seðlabankastjóra sem sat í þeim stóli ef forveri forsetans sem upphaflega skipaði bankastjórann var úr öðrum flokki. Regan endurskipaði kandídat Carters (Volcker), Clinton kandítat Bush I (Greenspan) og Obama kandídat Bush II (Bernanke). Með þessu hefur seðlabankanum verið lyft uppúr dægurþrasi.

Víkur nú sögunni til Íslands. Lykilatriðið er í rauninni bara þetta: Á Íslandi virðast menn alltaf stilla fólki upp í hópa: Már Guðmundsson var í Alþýðubandalaginu fyrir um 30 árum síðan! (Innskot: Fyrir þá sem ekki vita þá var Alþýðbandalagið  flokkur á vinstri væng íslenskra stjórnmála einhvern tíma á síðustu öld og klofnaði síðan margoft og rann inn í alls konar aðra flokka). Þess vegna er óhugsandi — algerlega óhugsandi!!! — að enduskipa hann af Framsóknar eða Sjálfstæðisflokki.

Og ef í harðbakkan slær, og það er of óvinsælt að sparka Má, þá breytum við bara lögunum og skipum 2 bankastjóra í viðbót!

Þetta er hugafar sem mætti gjarnan hverfa úr íslenskum stjórnmálum, ekki síst þegar kemur að skipan opinberra stofnanna líkt og Seðlabanka Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.2.2014 - 17:14 - FB ummæli ()

Sjálfstæði Seðlabanka

Allir, eða að minnsta kosti vel flestir, eru sammála um mikilvægi sjálfstæði seðlabanka, á sama hátt og nauðsynlegt þykir að dómstólar hafi sjálfstæði frá stjórnvöldum.

Það þarf mjög mikið að gerast, til að mynda að seðlabanki fari á hausinn svo nemi hundruðum milljarða króna og allt fjármálalíf fari á annan endan, til að skynsamlegt geti talist að hrófla við umgjörð seðlabanka. Þetta er vegna þess að almennt þykir mikilvægt að vernda sjálfstæði þeirra til þess að þeir geti einbeitt sér að fjármálastöðugleika og því að halda verðbólgu í skefjum, án þess að þurfa að sveiflast eftir vindum stjórnmálanna. Að baki þessari skipan mála eru áratuga rannsóknir sem hægt væri að skrifa um í löngu máli.

Þess vegna er það til dæmis svo, hér í Seðlabanka Bandaríkjanna sem ég starfaði við um langt skeið, að skipanatími ´Governors´í ´Board of Governors´ í Washington er 14 ár. Í Hæstarétti Bandaríkjanna er það svo að menn eru æviráðnir. Hugmyndin er að tryggja að þessar stofnanir séu stöðugar og láti ekki sveiflast eftir vindum stjórnmálanna á hverjum tíma.

Það virðist hafa gengið afar treglega að viðhorf af þessu tagi nái yfirhöndinni í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Gefum Sigmundi Davíð, forstæðisráðherra, orðið (úr sjónvarpsþætti Gísla Marteins) en nú ætlar hann að gjörbylta stjórnskipan Seðlabanka Íslands til að troða þangað fólki sem honum eru þóknanlegt (og væntanlega gera greiningar á efnahagi landsins þegar þær eru „umbeðnar“).

„Það getur verið mjög æskilegt og mikilvægt, til dæmis ef það er einhvers konar ríkissjórn önnur en nú er, þá myndi ég vilja hafa sjálfstæðan seðlabanka til að passa upp á hana.“

Sumsé, sjálfstæður seðlabanki er mikilvægur þegar Sigmundur Davíð er ekki við völd. En þess á milli — eins og gefur að skilja — þarf að endurskrifa lögin ef bankastjórnin sem þá ríkir er honum ekki að skapi og gerir „óumbeðnar“ greiningar á íslensku efnahagslífi.

Hvers konar stjórnskipun er þetta eiginlega? Er þessu fólki alvara?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.2.2014 - 15:17 - FB ummæli ()

Pönkast á Seðlabankanum

Um daginn kynnti forsætisráðherra ´stærstu skuldaaðgerðir í heimi´að eigin sögn.

Og nú gefur Seðlabanki Íslands út peningamál, en hann hefur lögbundið hlutverk að setja peningastefnu til að ná verðbólgumarkmiði.

Sem gefur að skilja verður bankinn þá, lögum samkvæmt, að segja fólki hvernig stærstu aðgerðir í heimi hafi áhrif á spár bankans um verðbólgu og hagvöxt

Og þá verður forsætisráðherrann alveg brjálaður ….  þetta hafi jú verið algerlega ´óumbeðið´.

Af hverju skrifa þeir ekki bara um ´greiðslujöfnuð´  …..  eða eitthvað?

http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/02/12/greining-sedlabankans-sem-forsaetisradherra-mislikadi/

 

Ég á erfitt með að ímynda mér annað en að fólk á mínum gamla vinnustað í Seðlabanka Bandaríkjanna myndi reikna út áhrif bandarískra fjárlaga, hvað þá heldur áhrif ´stærstu aðgerða í heimi´ á verðbólgu og hagvöxt. Og jafnvel óumbeðið.

Það er líka dulítið erfitt að ímynda sér að nokkrum stjórnmálamanni bandarískum – hvað þá heldur æðsta stjórnanda ríkissins — dytti í hug að þetta væri óeðlilegt, eða skrítið, enda lögbundið hlutverk bankans hér í Bandaríkjunum líkt og uppá Íslandi.

Í hvaða skógarferð er forsætisráðherra Íslands eiginlega kominn? Og síðan hvenær eru stjórnmálamenn farnir að kalla hagvaxtarspár opinberra stofnana sem eru lögum samkvæmt sjálfstæðar ´óumbeðnar´.  Á bankinn að fara að hafa samband við Sigmund og spyrja um leyfi áður en hann tjáir sig um efnahagsmál? Hvaða rugl er þetta eiginlega?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.9.2013 - 00:56 - FB ummæli ()

Allt samkvæmt áætlun

Ég var að halda dálítinn hagfræðifyrirlestur uppí Boston, og er á leiðinni í lest aftur til New York. Og er sumsé að dunda mér við að skoða fréttir að heiman.

Og ég rakst á dálítið viðtal við Sigmund Davíð í Kastljósi, mér sýnist frá því í gær. Um daginn skrifaði ég að mér þætti það dálítið skrítið að 100 dögum eftir að hann myndaði ríkisstjórn, var hann fyrst nú að skipa nefnd um skuldaaðlögun heimilinna (sjá hér).

En sumsé, mér þótti forvitnilegt að heyra hverjar skýringarnar á þessum seinagangi væru. Svarið: „Þetta er allt samkvæmt áætlun.“

Þetta er auðvitað sami Sigmundur Davíð og ég og líklega sumir aðrir kjósendur skildi þannig fyrir kosningar að málið yrði leyst strax eða amk fyrir sumarlok.

En þetta minnir mig sumsé á þegar ég flaug til Afríku fyrir margt löngu. Ferðinni var heitið til Ghana og er það efni þessarar færslu . Í Ghana var konan mín á þeim tíma í vettvangsrannsóknum. Þegar kom að því að ákveða hvernig komast skyldi til Afríku skoðaði ég auðvitað hvaða flugfélag byði best.

Og nú kom upp úr dúrnum að langbesta tilboðið kom frá Ghana Airways („star of service excellece“ var mottó flugfélagsins). Eitthvað fannst mér nú samt grunsamlegt að Ghana Airways – star of service excellence – bauð svo miklu betur en allir aðrir. Fullur efasemda grenslaðist ég fyrir á netinu. Þar fann ég ferðaáætlun Ghana Airways langt aftur í tímann. Og það merkilega við þetta flugfélag var að eftir hvert og eitt flug — svo lang sem augað eigði —  stóð alltaf fyrir aftan flugið stórum feitletruðum stöfum– ON SCHEDULE. Eða „samkvæmt áætlun.“

Þetta gat ekki verið svo slæmt, hugsaði ég, þetta er svakalega gott tilboð — peningalega séð — og að minnsta kosti eru þeir alltaf „ON SCHEDULE„.

Ég kaupi miða. Nú líður og bíður og ég mæti loks á John F. Kennedy flugvöllinn í New York til að fara til Afríku og vitja frúarinnar.

Þegar ég kem til að innrita mig tekur á móti mér afar vingjarnleg kona:

„Til Accra? Nei, því miður, það er búið að seinka fluginu,“ segir hún brosandi.

„Ha,“ segi ég, „hversu lengi?“

„Í þrjá daga,“ svarar hún.

Ég er auðvitað furðu lostinn og þegar ég kem heim fer ég að samstundis á netið á heimasíðu félagsins til að sjá hverju sæti. Og viti menn! Þarna er flugið mitt, nú á leiðinni eftir þrjá daga, og fyrir aftan hið áætlaða flug stendur með stórum feitum stöfum: „ON SCHEDULE„.

Þremur dögum seinna kem ég svo á flugvöllinn og spyr sömu vingjarnlegu konuna hvernig stendur nú á þessu, ég botni nú ansi illa í þessar netsíðu flugfélagins. „Fluginu seinkar um þrjá daga“, segi ég, „og þið segist vera á áætlun?“

Og hún svarar brosandi án þess að depla auga. „Of course we are on schedule. We are always on schedule. But sometimes our schedule changes.“

Af einhverjum ástæðum kom þetta í hugann þegar ég sá viðtalið við Sigmund Davíð um það að það nú sé allt á áætlun. (Framsóknarflokkurinn – star of service excellence).

PS. Við þessu er það að bæta að þegar ég fór aftur til Bandaríkjanna frá Ghana seinkaði fluginu aftur en nú um tvo daga. Á flugvellinum spurði ég afgreiðslukonuna af hverju flugvélin hafi ekki farið á tilsettum tíma. Og hún svaraði: „Það var vegna þess að flugvélin var ekki full fyrir tveimur dögum síðan.“

Og í þetta sinn var flugvélin auðvitað yfirfull og svo yfirfull að færri komust að en vildu.  Ég var einn þeirra heppnu.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.8.2013 - 17:43 - FB ummæli ()

Góð hugmynd um ráðgjafaráð hagfræðinga

Í dag sé ég, satt best að segja, fyrstu jákvæðu fréttina frá ríkisstjórninni síðan hún tók við, en mér sýnist fyrstu mánuðirnir einkum hafa einkennst af flumbrugangi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur ákveðið að setja saman ráðgjafaráð hagfræðinga um efnahagsmál og opinber fjármál. Þetta er góð hugmynd.

Hér í Bandaríkjunum er löng hefð fyrir ráðgjafaráði af þessu tagi, svo callað ´Council of Economic Advisors´, sem starfar beint undir forsetanum. Í löndunum í krigum okkur er líka farið að bera á því að svipuð ráð séu sett á laggirnar, mér er til dæmis kunnugt um álíka apparöt í Frakklandi og Þýskalandi í gegnum samstarfsmenn sem komið hafa að þeim. Ég held að það sé fín hugmynd að hafa nefnd utanaðkomandi sérfræðinga sem gefa öðru hverju ráð um hvert skuli stefna en standa með einhverjum hætti utan hefðbundinnar stjórnsýslu.

Mér sýnist vel í hópinn skipað en úr fræðaheiminum sitja þar Ragnar Árnason og Þráinn Eggertsson prófessorar, en Guðrún Inga Ingólfsdóttir og Orri Hauksson eru með bakgrunn úr atvinnulífinu.

Annars er það tiltölulega útbreiddur misskilningur innan fræðisviðsins hér í útlandinu að við Þráinn Eggertsson séum skildir. Tveir íslenskir hagfræðingar sem heita Eggertsson en Þráinn skrifaði bók sem er mjög vel þekkt innan hagfræðinnar á sviði stofananhagfræði og er því vel kunnur utan landsteinanna (sjá hér ). Ég man ekki hversu oft ég hef verið spurður hvort við séum feðgar.

Og svarið er náttúlega nei, útskýri ég, því þá væri ég Þráinsson. En við erum náttúrulega frændur – eins og allir Íslendingar – þótt ég hafi nú ekki tékkað í Íslendingabók hversu langt ég þyrfti að leita aftur.

Eina sem segja má að sé heldur óvenjulegt við þetta ráð, miðað við það sem gerist erlendis, er að það heyri undir fjármálaráðherra en ekki forsætisráðherra. Ráð af þessu tagi eru oft á hendi forseta eða forsætisráðherra/kanslara osfrv. En það er vonandi að slíkt valdi ekki núningi og grafi ekki undir áhrifum ráðsins. Kannski hefði verið heppilegra ef ráðið heyrði undir bæði ráðuneytin — án þess að ég hafi nokkra þekkingu eða sterka skoðun á slíkum prótókollum – og að í ráðið hefði verið skipað af bæði forsætis- og fjármálaráðherra.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur