Sunnudagur 16.02.2014 - 17:14 - FB ummæli ()

Sjálfstæði Seðlabanka

Allir, eða að minnsta kosti vel flestir, eru sammála um mikilvægi sjálfstæði seðlabanka, á sama hátt og nauðsynlegt þykir að dómstólar hafi sjálfstæði frá stjórnvöldum.

Það þarf mjög mikið að gerast, til að mynda að seðlabanki fari á hausinn svo nemi hundruðum milljarða króna og allt fjármálalíf fari á annan endan, til að skynsamlegt geti talist að hrófla við umgjörð seðlabanka. Þetta er vegna þess að almennt þykir mikilvægt að vernda sjálfstæði þeirra til þess að þeir geti einbeitt sér að fjármálastöðugleika og því að halda verðbólgu í skefjum, án þess að þurfa að sveiflast eftir vindum stjórnmálanna. Að baki þessari skipan mála eru áratuga rannsóknir sem hægt væri að skrifa um í löngu máli.

Þess vegna er það til dæmis svo, hér í Seðlabanka Bandaríkjanna sem ég starfaði við um langt skeið, að skipanatími ´Governors´í ´Board of Governors´ í Washington er 14 ár. Í Hæstarétti Bandaríkjanna er það svo að menn eru æviráðnir. Hugmyndin er að tryggja að þessar stofnanir séu stöðugar og láti ekki sveiflast eftir vindum stjórnmálanna á hverjum tíma.

Það virðist hafa gengið afar treglega að viðhorf af þessu tagi nái yfirhöndinni í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Gefum Sigmundi Davíð, forstæðisráðherra, orðið (úr sjónvarpsþætti Gísla Marteins) en nú ætlar hann að gjörbylta stjórnskipan Seðlabanka Íslands til að troða þangað fólki sem honum eru þóknanlegt (og væntanlega gera greiningar á efnahagi landsins þegar þær eru „umbeðnar“).

„Það getur verið mjög æskilegt og mikilvægt, til dæmis ef það er einhvers konar ríkissjórn önnur en nú er, þá myndi ég vilja hafa sjálfstæðan seðlabanka til að passa upp á hana.“

Sumsé, sjálfstæður seðlabanki er mikilvægur þegar Sigmundur Davíð er ekki við völd. En þess á milli — eins og gefur að skilja — þarf að endurskrifa lögin ef bankastjórnin sem þá ríkir er honum ekki að skapi og gerir „óumbeðnar“ greiningar á íslensku efnahagslífi.

Hvers konar stjórnskipun er þetta eiginlega? Er þessu fólki alvara?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur