Þriðjudagur 24.02.2015 - 15:10 - FB ummæli ()

Gjaldþrot Seðlabanka Íslands

Nú er til umræðu enn eitt atriðið er varðar gjaldþrot Seðlabanka Íslands, sem varð vegna gáleysislegra veðlána í aðdraganda hrunsins. Svo virðist sem 35 milljarðar hafi tapast vegna ónógra veða sem bankinn fékk gegn þrautarvararláni til Kaupþings örstuttu fyrir hrun.

Nýjasta fréttin í því er að Davíð Oddsson, þá Seðlabankastjóri, virðist reyna að varpa af sér ábyrgð yfir á Geir Haarde, sem þá var forsætisráðherra. Rök Davíðs sýnist mér þau, að Geir hafi hvatt hann til að lána til Kauþings til að reyna að bjarga bankanum.

Nú kann vel að vera að Geir hafi hvatt Davíð til þess að lána til Kaupþings. Það getur meira að segja verið að Davíð hafi tekið tekið slíkar hvatningar uppá sérstakt segulband að Geir forspurðum, líkt og flest bendir til.

Ekki get ég þó séð að það skipti neinu hvað varðar efni þessa máls, líkt og núverandi seðlabankastjóri raunar bendir réttilega á. Jafnvel þótt einstaka ráðamenn hvetji seðlabanka til að standa við lögbundið hlutverk sitt, sem er að veita lán til þrautarvara, er slíkt auðvitað alltaf gert undir þeim formerkjum að það sé gert gegn tryggum veðum.  Um þetta gildir hin meira en 100 ára regla Bagehot, að seðlabankar eigi að lána frjálst til viðskiptabanka í lausafjárskrísu svo lengi sem þeir hafi trygg veð og slíkt skuli gera með álagi.

Og það var á ábyrgð Davíðs Oddssonar og Seðlabanka Íslands að ganga úr skugga um að veðin gegn láninu væru trygg. Og það var einfaldlega ekki gert, sýnist mér, í ljósi þessa gífurlega taps, amk er full ástæða til að skoða hvernig sú áhættugreining fór fram. Forsætisráðherra, á hinn bóginn, hafði engar forsendur til að leggja mat á veðhæfni þeirra eigna sem lágu til grundvallar láninu.

Það grátbroslega í þessu (og hér er rétt að undirstrika orðið grát) er auðvitað að þetta er aðeins síðasta, og engan veginn stærsta dæmið, um óvenjulega illa útfærða veðlánastarfsemi Seðlabanka Íslands í aðdraganda hrunsins. Einungis toppur á ísjakanum.

Gagnrýni á starfsemi Seðalbanka Íslands í aðdraganda hrunins, mín og annarra, hefur almennt ekki beinst að því að hann hafi lánað viðskiptabönkunum pening.  Það gerðu Seðlabankar alls staðar í veröldinni, til að mynda í Seðlabanka Bandaríkjanna þar sem ég vann á þessum tíma. Gagnrýnin hefur verið sú, að Seðlabanki Íslands lánaði bönkunum pening án þess að fá í staðinn haldbær veð.  Peningar voru lánaðir, líkt og um sjoppustarfsemi væri að ræða. Þetta þýddi að þegar allt hrundi, voru veðin lítils sem einskis virði.

Kaupþingsmálið sem nú er um rætt er aðeins lítill hluti af þessu máli öllu, þó svo að þar hafi verið lagður undir allur gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar.

Nei, því miður. Skaðinn var miklu stærri.

Kannski eru sumir búnir að gleyma því, að stærsti kostnaðurinn við hrunið var að Seðlabankinn lánaði bönkunum hundruð milljarða án nokkurra haldbærra veða í hinum svokölluðu ástarbréfaviðskiptum. Mér er ekki kunnugt um nokkurt dæmi í sögu seðlabanka heimsins um viðlíka tap sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Fyrir þá sem ekki muna fólst gjörningurinn í þessu, með nokkurri einföldun: Banki A seldi banka B bréf í sjálfum sér sem banki B borgaði fyrir með bréfi sem hann gaf líka út sjálfur. Svo notaði Banki A bréfið sem hann fékk frá banka B sem veð í Seðlanbanka Íslands gegn láni (og banki B gerði hið sama). Nú eru auðvitað engin takmörk á því hversu mörg bréf hver og einn banki (A og B) gat prentað fyrir hvern annan og fengið þannig lán í Seðlabankanum. Vandinn var auðvitað sá að þessi bankabréf urðu verðlaus þegar allt hrundi.

Með þessum hætti leyfði Seðlabankinn beinlínis íslenskum bönkunum að prenta peninga fyrir sjálfa sig án nokkurra haldbærra veða, upphæðin við hrun nam um 30 prósentum af þjóðarframleiðslu ef ég man rétt.

Þetta hefur auðvitað verið rakið í Rannsóknarskýrslu Alþingis í all nokkrum smáatriðum, gagnrýnt af Ríkisendurskoðanda, OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum osfrv osfrv.

Í samhengi við þessa 35 milljarða sem fólst í tapinu í veðláninu til Kaupþings er ágætt að hafa í huga að tapið sem fólst í ástarbréfaviðskiptunum nam hundruðum milljarða.  Stundum er talað um 300 milljarða reikning í þessu samhengi. Upphæðin er svo stór að ég held að fólk nánast skilji hana ekki.  Ef 300 milljarðar er rétt tala, nemur þetta tap Seðlabankans um 5 milljónum á hverja þriggja barna fjölskyldu á Íslandi.

Ég hef reyndar aldrei reynt að leggja mat á þessa upphæð sjálfur. Þegar Ríkisendurskoðun lagði mat á þetta 2009 var matið að minnsta kosti 175 miljarðar (sjá fréttir hér). Tölur frá Fjármálaráðuneytinu eða Alþjóða Gjaldeyrisjóðnum bentu til nær 300 milljörðum, en fyrrum aðalendurskoðandi Seðlabankans talaði um 250 milljarða í blaðagrein. Það eina sem við vitum með vissu er að tapið hleypur á hundruðum milljarða.

Mér skilst að nú ætli Seðlabanki Íslands að leggja í sérstaka rannsókn vegna þessara 35 milljarða sem töpuðust vegna Kaupþingslánanna. Það væri ekki úr vegi, svona í leiðinni, að rannsaka betur hvað fór úrskeiðis í ástarbréfarviðskiptunum. Og þá væri líka athyglisvert að vita hversu stórt tapið var og það sett í samhengi við Kaupþingslánið og annað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur