Laugardagur 19.01.2013 - 09:54 - FB ummæli ()

Davíð Oddsson – í réttu og röngu ljósi

Davíð Oddsson, fyrrverandi þjóðarleiðtogi okkar Íslendinga, er hálfsjötugur um þessar mundir. Ég óska honum til hamingju með það. Á tímamótum er líka við hæfi að líta til baka.

Aðdáendur Davíðs hefja hann enn til skýjanna. En hverju skilaði forysta hans í reynd?

Ágætur borgarstjóri

Því er ekki að neita að Davíð Oddsson var sterkur og afgerandi leiðtogi. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn verulega langt í átt frjálshyggjustefnu, að hætti Margrétar Thatcher. Hann jók svigrúm markaðshátta, einkavæddi, jók afskiptaleysisstefnu í stjórnsýslunni og færði fyrirtækjaeigendum og fjáraflamönnum verulega aukin fríðindi, svo dæmi séu tekin. Hann breytti flokknum og landinu með.

Þó mér litist illa á frjálshyggjutilraun Davíðs og Eimreiðarklíkunnar þá hafði ég verið frekar ánægður með Davíð Oddsson sem borgarstjóra í Reykjavík, þó hann yrði á endanum óþægilega hrokafullur þar.

Afleitur landsfaðir

Hins vegar voru áhrif hans í landsstjórninni ekki öll til farsældar fyrir þjóðina. Hann stýrði þjóðarbúinu inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar, meðal annars með siðlausri einkavæðingu ríkisbankanna. Þegar bóluhagkerfið var komið á flug gerðist hann aðalbankastjóri Seðlabankans og varð þar með æðsti yfirmaður íslenskra peningamála.

Peningakerfið (krónan og bankarnir) hrundi síðan til grunna á hans vakt, vegna ofþenslu og ævintýralegrar skuldasöfnunar – og ófullnægjandi viðbragða Seðlabankans og annarra eftirlitsaðila.

Þó menn kunni að meta kosti Davíðs er varla við hæfi að horfa framhjá því sem miður fór á ferli hans, ekki síst þegar tjón þjóðarinnar af stefnu hans og hruninu varð jafn mikið og raun ber vitni.

Pólitík gegn alþýðufólki

Aðdáandi Davíðs og vinur, Hannes H. Gissurarson, sér hins vegar ekkert nema kosti og árangur í ferli leiðtogans í nýjum pistli á Pressunni – að vanda. Ástæða er til að setja fyrirvara við sumt af því sem hann tínir til í pistli sínum.

Hannes segir til dæmis um Davíð: “…hann er einbeittur hugsjónamaður, sem hefur ætíð tekið málstað alþýðu manna, venjulegs vinnandi fólks, gegn þeim, sem hafa viljað fá gæðin fyrirhafnarlaust upp í hendur í krafti mælsku, prófskírteina, ætternis, auðs eða annars slíks.”

Margt kemur strax upp í hugann sem rímar alls ekki við þessa fullyrðingu. Davíð tók t.d. ekki afstöðu með alþýðu manna, venjulegu vinnandi fólki, þegar hann hæddist af fátæku fólki sem stóð í biðröðinni hjá Mæðrastyrksnefnd og beið eftir matargjöfum. Sagði að alltaf væri til fólk sem hlypi eftir ókeypis gæðum ef þau væru í boði. Neitaði að um væri að ræða skort eða fátæktarvanda.

Raunar var honum sérstaklega í nöp við að talað væri um fátækt fólk á Íslandi á stjórnartíma hans. Er ég birti árið 1996 ásamt öðrum rannsókn á fátækt á tímabilinu 1986 til 1995 lenti ég t.d. í mikilli ónáð hjá Davíð og stuðningsmönnum hans. Þeir eru enn að fárast yfir því sem sagt var um ástandið þá, þó það væri allt mjög mildilega orðað og raunar ekki óþægilegar niðurstöður fyrir stjórnvöld.

Fátækt var bannorð hjá Davíð og hans mönnum. Var það til marks um afstöðu með alþýðu manna eða fátækum? Nei, öðru nær!

Pólitík í þágu yfirstéttar

Var Davíð gegn þeim sem vildu fá gæðin fyrirhafnarlaust upp í hendurnar í krafti auðs? Nei, öðru nær!

Stjórnarstefna Davíðs frá 1995 til 2004 einkenndist af síauknum skattfríðindum til hátekjufólks um leið og skattbyrði lágtekjufólks var aukin. Skattar vinnandi alþýðufólks voru hækkaðir en skattar iðjulítilla fjárfesta og braskara voru stórlega lækkaðir.

Barnabætur voru einnig lækkaðar ár frá ári eftir 1995. Vaxtabætur vegna húsnæðiskostnaðar sömuleiðis. Stefna og framkvæmd ríkisstjórna Davíðs Oddsonar frá 1995 til 2004 var að stærstum hluta í þágu yfirstéttarfólks en íþyngdi lágtekjufólki, hinni vinnandi alþýðu, þar á meðal ungu barnafólki og lífeyrisþegum.

Hannes Hólmsteinn sagði á sínum tíma að þetta væri eðlilegt, því að lágtekjufólkið hefði orðið “aflögufærara”. Hátekjufólkið sem fékk þó margfalt meiri tekjuaukningu en fólk með milli og lægri tekjur varð hins vegar ekki “aflögufærara” í huga Hannesar, þó ríkidæmi þess væri orðið meira en áður hafði sést í landinu! Nei, það þurfti skattalækkanir og aukið frelsi til að flytja fé í erlend skattaskjól – sem það fékk frá stjórn Davíðs.

Mesta framfaraskeið Íslandssögunnar?

Loks segir Hannes: “Tímabilið frá 1991 til 2004, þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra, er eitthvert mesta framfaraskeið Íslandssögunnar.” Þetta er því miður eins rangt og nokkuð getur verið!

Í byrjun árs 2003 var hinni misheppnuðu einkavæðingu bankanna lokið og í lok árs 2004 var íslenska þjóðarbúið orðið það skuldugasta í heimi (sjá bls. 74)! Það varðaði leiðina að hruni. Voru það framfarir?

Tölur Hagstofu Íslands um hagvöxt og aukningu ráðstöfunartekna heimilanna, sýna að auki að stjórnartími Davíðs (1991 til 2004) var frekar slakur í samanburði við t.d. tímabilið frá 1960 til 1987. Árlegur hagvöxtur og raunaukning ráðstöfunartekna heimila var talsvert meiri frá 1960 til 1987 en á stjórnartíma Davíðs (sjá hér).

Staðreyndirnar benda þannig ekki til þess að stjórnartími Davíðs hafi verið mesta framfaraskeið Íslandssögunnar. Öðru nær.

Eigum við ekki heldur að hafa það sem sannara reynist?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar