Sunnudagur 31.03.2013 - 11:11 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn byggja á vúdú-brellu Hannesar

Nú er tími kosningaloforðanna. Sjálfstæðismenn eru með lengsta listann og sennilega þann allra óraunhæfasta.

Loforða þeirra virðast geta falið í sér útgjöld (eða lækkaðar tekjur ríkisins) upp á 90-125 milljarða á ári, eða 15-20% af núverandi skatttekjum hins opinbera, skv. lauslegu mati. Það er svipað og hallinn á fjárlögunum var árið 2009, á fyrsta ári eftir bankahrunið.

Samt leggja þeir mikla áherslu á að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum og greiða niður skuldir ríkisins. Þá er spurning hvernig greiða á fyrir loforðin um aukin útgjöld og stórfelldar skattalækkanir. Skoðum það nánar.

Hér er loforðalistinn.

Útgjöld og lækkun tekna:

  • Lækkun tekjuskatts með afnámi fjölþrepaálagningar (lækkar skatta mest hjá hærri tekjuhópum)
  • Lækkun eldsneytisgjalda
  • Lækkun tolla og vörugjalda
  • 20% lækkun höfuðstóls íbúðarlána með skattaafslætti og skattfrjálsum séreignasparnaði (kostar um 60 ma.kr. á ári)
  • Fyrstu íbúðakaup gerð auðveldari með skattalegum sparnaði
  • Stimpilgjöld afnumin
  • Lækkun tryggingagjalda á atvinnulíf
  • Lækkun vörugjalda og skatta á fyrirtæki
  • Arðsemi sjávarútvegs aukin (væntanlega með aflagningu nýja veiðigjaldsins – 10 ma.kr. á ári)
  • Eldri borgarar geti aflað sér atvinnutekna án skerðingar lífeyris
  • Skerðing ríkisstjórnarinnar á grunnlífeyri frá 1. júlí 2009 afturkölluð (3,5 ma.kr. á ári)
  • Aukið fé í “notendastýrða þjónustu” (NPA)
  • Hefja uppbyggingu samgöngukerfisins að nýju
  • Unnið verði að uppbyggingu stofnvega til og frá höfuðborgarsvæðinu
  • Löggæsla efld um land allt og sérstaklega hugað að lögregluembættum á landsbyggðinni
  • Landhelgisgæslan ráði á hverjum tíma yfir nauðsynlegum tækja- og skipakosti
  • Niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs

Engin loforð eru gefin um aukin útgjöld til heilbrigðis- eða menntamála. Sjálfstæðismenn segja að jafnvægi í ríkisfjármálunum sé forsenda stöðugleika. Hvernig á þá að fjármagna nýju útgjöldin og tapaðar tekjur vegna skattalækkana? Hér er það eina sem nefnt er á tekjuhliðinni:

 

Tekjur móti útgjöldum og skattalækkunum:

  • Endurskipulagning og sparnaður í yfirstjórn ríkisins
  • Breytt forgangsröðun
  • Vúdú-brellur Hannesar Hólmsteins um að skattalækkanir skili stórauknum tekjum

Ekki er mikið að hafa í endurskipulagningu og sparnaði í stjórnsýslunni. Þar er þegar búið að fækka ráðuneytum, sameina stofnanir og fækka starfsmönnum um 20% á síðustu 4 árum (sjá hér).

Ef breytt forgangsröðun á að skila auknum tekjum til nýrra útgjalda þýðir það niðurskurð einhvers staðar í núverandi starfsemi (t.d. í almannatryggingum, heilbrigðiskerfi, menntun, framkvæmdum). Það hægir á hagvexti og getur aukið atvinnuleysi, eins og reynslan frá Bretlandi, Spáni og Írlandi sýnir.

Sjálfstæðismenn hafa áður talað um þörfina á mjög miklum niðurskurði opinberra útgjalda (sjá hér og hér). Þeir nefna það hins vegar ekki í kosningastefnuskrá sinni.

Þeir boða nú aðra leið til að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum.

 

Vúdú-brella Hannesar Hólmsteins á að skila tekjunum

Í máli Bjarna Benediktssonar við upphaf kosningabaráttunnar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Silfri Egils kom skýrlega fram að þau gera ráð fyrir að skattalækkanirnar borga fyrir sig sjálfar – með aukinni vinnu þjóðarinnar og auknum hagvexti, sem skili stórauknum tekjum hins opinbera! Eða svo segja þau.

Það á sem sagt að greiða öll hin góðu útgjöld, t.d. skuldalækkun heimilanna, með skattalækkunum! Jafnvel niðurgreiðslu gríðarlegra skulda ríkissjóðs skal greiða með skattalækkunum!

Ég sýndi ítarlega í síðustu grein minni hvernig þessar hugmyndir um risastór Laffer-áhrif eru ískaldar blekkingar eða í besta falli byggðar á misskilningi.

Það er líka reynsludómur sögunnar.

Þegar Reagan-stjórnin í Bandaríkjunum lækkaði skatta umtalsvert eftir 1980 jókst halli á ríkiskassanum og skuldir mögnuðust. Clinton hækkaði svo aftur skatta á hátekjufólk og grynnkaði á skuldunum. Bush yngri lækkaði svo skatta aftur og jók skuldavandann gríðarlega á ný (stríðsrekstur hans og bankabjörgun bættu svo í þá hít).

Fjárhagsvandi bandaríska ríkisins er nú sagður gríðarlegur. Frjálshyggjumaðurinn Alan Greenspan sagði fyrir skömmu að Bandaríkjamenn verði nú að horfast í augu við að þeir hafi ekki efni á hinu hóflega velferðarríki sem þeir búa við. Vegna skuldavandans sem varð til að miklu leyti vegna skattalækkana til ríka fólksins.

Þegar gert er ráð fyrir að hægt sé að stórauka tekjur ríkissjóðs með mikum skattalækkunum (allt að því tvöfalda þær eins og línurit Hannesar bendir til), þá eru menn komnir inn á fagsvið gullgerðarmanna miðaldanna.

Mér sýnist að margir forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi látið Hannes Hólmstein blekkja sig hressilega (sjá t.d. viðræður Björns Bjarnasonar við Hannes um gildi vúdú-hugmyndanna fyrir kosningabaráttuna í þessu myndbandi, byrjið á mínútu 4:45).

Ekki vil ég trúa því að forystumenn Sjálfstæðisflokksins fari fram með slíka stefnu vísvitandi um að þeir stefni fjárhag ríkisins, velferðarkerfinu og fjöreggi þjóðarinnar í voða, ofaná öll kreppuáhrif hrunsins. Sjálfstæðismenn eru almennt ekki slæmt fólk. Ég geri frekar ráð fyrir að þeir trúi vúdú-brellum Hannesar.

Það virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi engu gleymt – og ekkert lært – frá árunum fyrir hrun. Þeir eru enn að synda í hugmyndum Hannesar Hólmsteins um fjármálamiðstöðina sem átti að gera Ísland að ríkasta landi heims. Sú hugmynd var m.a. byggð á miklum skattalækkunum, auknu frelsi á fjármálamarkaði, aukinni einkavæðingu (jafnvel hálendisins, heilbrigðiskerfisins og lífeyrissjóðanna), minni ríkisafskiptum og aukinni bankaleynd.

Fjármálamiðstöð frjálshyggjunnar hrundi eins og spilaborg – til grunna.

Það virðist engu hafa breytt í hugarheimi víkinganna í Valhöll.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar