Mánudagur 29.04.2013 - 21:56 - FB ummæli ()

Sterkari staða Sigmundar Davíðs

Nú pæla menn mikið í því, hver fái stjórnarmyndunarumboð og hvor þeirra Bjarna Ben. eða Sigmundar Davíðs fái forsætisráðuneytið, í hugsanlegri ríkisstjórn B og D lista.

Sigmundur Davíð hefur klárlega sterkari stöðu í forystuhlutverkið. Hann hefur fleiri spil á hendi og vænlegri stöðu.

Hvers vegna? Hér eru rökin:

  • Sigmundur Davíð og flokkur hans er ótvíræður sigurvegari kosninganna
  • Sveiflan meðal kjósenda var frá vinstri til miðjunnar, en ekki til hægri. Sjálfstæðisflokkur er enn með fylgi í sögulegri lægð
  • Sigmundur Davíð nýtur miklu meira trausts í embættið en Bjarni Benediktsson meðal þjóðarinnar, skv. skoðanakönnunum
  • Forsetinn sagði að mikilvægt væri að ný ríkisstjórn nyti víðtæks stuðnings í samfélaginu
  • Sigmundur Davíð er með eindreginn stuðning síns flokks á bak við sig
  • Bjarni Benediktsson er með andstöðu gegn sér innan Sjálfstæðisflokksins og þurfti að verjast áhlaupi skuggabaldra í aðdraganda kosninganna, sem nærri felldi hann
  • Samningsstaða Framsóknar er sterkari því Bjarni Ben. á pólitískt líf sitt undir því að komast í ríkisstjórn – sem allra fyrst

Á móti þessu vegur að Sjálfstæðisflokkurinn er sjónarmun stærri að fylgi en Framsókn.

Ekki er líklegt að VG vilji fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki, ef ekki skyldi nást saman með Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Því má ætla að möguleiki Framsóknar á stjórnarmyndun með Samfylkingu og VG sé sterkari, að Sjálfstæðisflokki frágengnum. Það eflir samningsstöðu Sigmundar.

Það er mikilvægt fyrir styrk nýrrar ríkisstjórnar að hún lúti forystu sem er hnökralaus og staðföst.

Þess vegna er staða Sigmundar Davíðs til að fá forsætisráðherraembættið mjög sterk. Að því frátöldu hlyti Framsókn að fá ansi stóra bita í formi stefnuáherslna sinna og mikilvægra ráðuneyta.

Þannig gerast kaupin á pólitísku eyrinni!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar