Miðvikudagur 01.05.2013 - 10:07 - FB ummæli ()

Frjálshyggjunni var hafnað

Úrslit kosninganna voru stór sveifla frá vinstri til miðjunnar – ekki til hægri.

Framsókn var miðpunktur miðjunnar og setti bætta velferð heimilanna í forgang: víðtæka skuldalækkun, breytt verðtryggingarumhverfi og bætt kjör lífeyrisþega.

Í anda skandinavískra jafnaðarmanna tengist velferðarstefna Framsóknar jákvæðum velvilja gagnvart atvinnulífi og nýsköpun.

Stjórnarflokkarnir vanmátu stöðu heimilanna og Samfylkingin lagði of einhliða áherslu á ESB-aðildina sem kosningamál. Því fjaraði illa undan þeim, einkum Samfylkingu.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði hins vegar ofuráherslu á frjálshyggjutrúboðið og færði það í búning kjarabóta til heimila, í formi skattalækkana. Útfærsla þessara tillagna var hins vegar þannig, að ljóst var að hátekjufólk, fyrirtæki og fjárfestar myndu njóta þeirra að mestu leyti. Ekki venjuleg heimili.

Það var líka reynslan síðast þegar Sjálfstæðisflokkurinn “lækkaði skatta”. Skattbyrði lækkaði einkum hjá hátekju- og stóreignafólki, en hækkaði hjá lægri tekjuhópum og miðjunni.

Ofuráhersla Sjálfstæðismanna á vúdú-hagfræðibrellur (um að skattalækkanir myndu borga fyrir sig sjálfar með göldróttri hækkun skatttekna ríkisins) virkaði ekki. Fólk sá að þetta voru blekkingar, sem myndu leiða til halla á ríkisbúskapnum og í framhaldinu til þrýstings á mikinn niðurskurð í velferðarmálum.

Þó þessi stefna Sjálfstæðisflokksins væri sett í búning seljanlegrar vöru og snerti það sem heimilin vildu fá (kjarabætur), þá sló þetta ekki í gegn.

Frjálshyggjunni var hafnað, því Sjálfstæðisflokkurinn bætti einungis við sig smá fylgi frá afhroðinu í kosningunum 2009 – þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn situr uppi með næst verstu útkomu sögu sinnar!

Frjálshyggjan fiskaði ekki betur nú en hún gerði strax eftir hrunið, sem þjóðin tengdi við frjálshyggjubraskið í fjármálaheiminum.

Höfnun frjálshyggjunnar er næst stærsta frétt kosninganna – á eftir sveiflunni frá vinstri til miðjunnar.

Þetta er mikilvægt að nefna á hátíðisdegi verkalýðsins, því nýfrjálshyggjan er hugmyndafræði yfirstéttarinnar og ójafnaðarins!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar