Föstudagur 03.05.2013 - 11:35 - FB ummæli ()

Miðjan og pólitíska landslagið

Nú þegar uppi eru möguleikar á myndun annað hvort miðju eða hægri ríkisstjórnar er fróðlegt að velta fyrir sér pólitíska landslaginu í víðara samhengi. Hve stór hluti fylgisins er á miðjunni og hve stórt hluti kjósenda styður hægrið og vinstrið? Hver er jarðvegur stjórnarmyndunar og horfur til framtíðar?

 

Stærð miðjunnar

Um daginn sýndi ég greiningu á þróun fylgisins miðað við hægri–miðju–vinstri staðsetningu flokkanna. Þar kom fram að sveiflan í kosningunum nú var sterk sveifla frá vinstri til miðjunnar, en ekki til hægri.

Skipan nýju framboðanna á hægri – vinstri kvarðann byggði á flæði kjósenda milli þeirra (hvaðan kom fylgi nýju framboðanna?). Þar taldi ég Bjarta framtíð og Pírata sem vinstri flokka, vegna þess að flestir stuðningsmenn þeirra komu frá vinstri flokkunum (S og VG). Hins vegar er álitamál hvort þeir séu ekki frekar miðjuflokkar, a.m.k. miðað við lýsingar þeirra sjálfra.

Myndin hér að neðan sýnir fylgi við flokka nú, greint eftir hægri – vinstri staðsetningu (m.v. þeirra eigin lýsingar). Þar má sjá að miðjan er lang stærst (um 44% skv. þessari flokkun). Hlutfall kjósenda sem styðja hægri og vinstri flokkana er svipað, eða um 28-9% hvor fylking. Vinstra fylgið er hins vegar klofnara en hægra fylgið – að vanda.

Stærð miðjunnar

Mynd: Fylgi flokkanna í kosningunum 2013

 

Þegar kjósendur eru í könnunum beðnir um að staðsetja sig sjálfir á hægri – vinstri kvarða þá er það um helmingur sem setja sig á miðjuna (sjá hér). Álíka stór hópur setur sig til vinstri og til hægri (um 25% á hvorn vænginn).

Það er því ljóst að nærri helmingur kjósenda tilheyrir miðjunni í pólitíska litrófinu, hvernig sem talið er, en um fjórðungur telja sig vera vinstri menn og annað eins hægri menn. Íslendingar eru einkum miðjumenn!

Svo getur fylgið rokkað nokkuð milli flokka frá einum kosningum til annarra og vikið lítillega frá hægri–vinstri boxunum, eftir breytilegum áherslum flokkanna hverju sinni.

Þetta þýðir að miðjuflokkur á að geta haft mesta möguleika á að vera stærsti stjórnmálaflokkur landsins – að öðru jöfnu.

 

Pólitíska landslagið

Miðjuflokkar geta ýmist hallað sér til hægri eða vinstri og hægri/vinstri flokkarnir geta verið misjafnlega fýsilegir fyrir miðjufylgið, eftir áherslum og skírskotunum.

Sjálfstæðisflokkurinn færðist mikið til hægri á Davíðs-tímanum, fyrir tilstilli Eimreiðarklíkunnar og frjálshyggjunnar. Hann er enn á þeim slóðum og sökk í kosningabaráttunni djúpt í villur vúdú-hagfræðinnar, sem Arthur Laffer samdi til að réttlæta skattalækkanir til hátekjufólks.

Framsókn var skýr miðjuflokkur fyrir tíma Halldórs Ásgrímssonar, en þá gerðist hún afgerandi hægri flokkur í hinu langa samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Halldór Ásgrímsson skrifaði meira að segja uppá frjálshyggjutilraunina og gerðist talsmaður hugmyndarinnar um fjármálamiðstöðina árið 2006. Skipaði Sigurð Einarsson í Kaupþingi sem formann í starfshópi þriggja ráðuneyta til að útfæra  planið um fjármálamiðstöðina alþjóðlegu. Það var á þeim tíma sem dönsku bankamennirnir vöruðu mjög við stöðunni í íslenska fjármálakerfinu.

Samfylkingin var stofnuð sem vinstri-miðju flokkur, með fyrirmynd í skandinavísku jafnaðarmannaflokkunum. Í tíð Ingibjargar Sólrúnar var Samfylkingin höll undir Blairismann (sem var hægri slagsíða) og taldi sig eiga mesta samleið með Sjálfstæðisflokki. Undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur færðist Samfylkingin nær klassískri stöðu skandinavískra jafnaðarmanna. Í kosningabaráttunni missti Samfylkingin hins vegar sjónar á erindi sínu, taldi ekki ástæðu til að gera meira fyrir heimilin og gerðist nánast eins-málefnis-flokkur með ofuráherslu á ESB aðild. Það var undarleg herfræði.

VG var hugsaður sem félagshyggjuflokkur með umhverfisvernd og kvenfrelsi sem áherslumál. Hann er ekki eins langt til vinstri og Alþýðubandalagið var á árum áður. Eins og í ljós kom er slíkum flokki hætt við að verða vettvangur fólks sem hallt er undir fjölbreytileika og sérvisku og á til að vera óstýrlátt í samstarfi. Flestir sem nú eru áhrifamenn í VG eru þó nokkuð dæmigerðir og geðþekkir norrænir jafnaðarmenn – eins og raunar flestir liðsmenn Samfylkingarinnar og Framsóknar.

 

Baráttan um miðjuna

Með skírskotun til hægrisins og miðjunnar í bland var Sjálfstæðisflokkurinn lengst af lang stærsti flokkurinn, ekki síst í krafti fjármagns, fjölmiðlavalds og hefðar. Nú hefur sú staða hins vegar rofnað tvær kosningar í röð (2009 og 2013).

Þá er svigrúm til breytinga.

Sem skýr miðjuflokkur ætti Framsóknarflokkurinn að eiga raunverulega möguleika á að verða stærsti flokkur þjóðarinnar, jafnvel í svipaðri stöðu og jafnaðarmannaflokkarnir voru lengst af í Skandinavíu. Þeir eru yfirleitt vinstri-miðju flokkar, en Framsókn hefur á síðustu áratugum verið meira hægri-miðju flokkur.

Undir forystu Sigmundar Davíðs er heldur meiri vinstri-svipur á flokknum, með höfuðáherslu á velferð heimilanna (skuldamálin).

Með meiri skírskotun til vinstri en var á tíma Halldórs Ásgrímssonar gæti Framsókn sennilega styrkt stöðu sína sem stór miðjuflokkur til lengri tíma. Klofningur á vinstri vængnum og neikvæð áhrif frjálshyggju á hægri vængnum skapa slík sóknarfæri. Mikið er þó undir því komið að Framsókn takist að efna loforð sín í kosningabaráttunni á farsælan hátt. Það er líka mikið í húfi fyrir heimilin að það takist.

 

Stjórnarmyndun til hægri eða á vinstri-miðjuna?

Flokkarnir eiga ekki fylgið. Það á sig sjálft!

Eftir hrunið og tapað traust er flokkshollusta sennilega mun minni en áður hefur þekkst hér á landi. Fylgið flæðir þá meira til eftir frammistöðu flokkanna.

Lýðræðið á einmitt að snúast um að flokkarnir þjóni kjósendum – tali máli og gangi erinda fjöldans og veiti valdamiklum sérhagsmunum viðnám. Setji almannahag í öndvegi.

Framsókn bauð heimilunum athyglisverða leið til kjarabóta, sem vissulega er þess virði að kanna til þrautar hvort hægt sé að efna farsællega. Sigmundur Davíð og félagar hans hafa sýnt einurð og þrautseigju í því máli. Þjóðin veitti þeim brautargengi í kosningunum.

Það er mikilvægt að vel takist að finna því máli farveg í nýrri ríkisstjórn. Erfitt er að sjá að stefnuáhersla Framsóknar falli vel að loforðum Sjálfstæðismanna um miklar skattalækkanir, sem stefna afkomu ríkissjóðs í voða og munu auka vaxtakostnað hins opinbera (sem þegar er alltof mikill).

Undarlegt var að sjá hve illa forysta Samfylkingarinnar tók í leið Framsóknar fyrir kosningar. Samt var hún í anda norrænnar velferðar, snérist um að setja heimilin í öndvegi. Jafnaðarmenn sögðu að hátekjufólk fengi mest af niðurfellingu skuldanna, ef þær yrðu flatar. En um útfærsluna er auðvitað hægt að semja á annan veg í stjórnarmyndun, t.d. setja þak á upphæð niðurfærslunnar.

Hvers vegna skyldu vinstri- og miðjumenn ekki vilja starfa saman að því að bæta hag heimilanna, ef tækifæri til þess býðst? Væri það ekki eðlilegasta framhald áherslunnar um norrænt velferðarsamfélag?

Ef marka má skrif Paul Krugmans og annarra Keynes-sinna gæti stefna Framsóknar líka verið skynsamleg efnahagsstefna út úr kreppunni.

Vilja vinstri menn frekar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur helgað sig hagsmunum hátekju- og stóreignafólks?

Það má vera að leiðangur Framsóknar lendi í erfiðleikum. Ekkert er öruggt í þjóðarbúskapnum. En halda vinstri menn að þeir fái mikinn stuðning í framtíðinni fyrir að hafa hafnað því að leita allra leiða til kjarabóta fyrir heimilin? Halda þeir að umhyggja fyrir erlendum kröfuhöfum og úrtölur innanlands séu vænleg leið til álitsauka á íslenskum heimilum?

 

Síðasti pistill: Frjálshyggjunni var hafnað

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar