Laugardagur 18.05.2013 - 22:52 - FB ummæli ()

Eurovision fyrirbærið

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva  er að mörgu leyti stórt fyrirbæri, þó hún skipi misháan sess í hugum fólks.

Keppnin er stór hvað snertir fjölda þátttökuþjóða og umgjörðin öll er skrautleg í meira lagi. Í keppninni má auðvitað finna alla flóruna í sjóbísness, frá smekkleysu til ágætrar kvöldskemmtunar, auk þess sem lesa má sitthvað út úr fyrirbærinu.

 

Smekkleysa

Sumir sjá í Eurosivion hápunkt „kitch“ áhrifa, eins konar fjöldaframleidda list fyrir lágreistan neytendamarkað. Svona eins og lýðskrum er í stjórnmálum. Í einu orði: smekkleysu.

Mér fannst HvítaRússland (Belarus) toppa í „kitchinu“ þetta árið. Þau voru með sérstaklega ýkt framlag, þar sem allt krydd var tvöfalt eða þrefalt það sem hefði verið heppilegt.

Belarus glímdi að vísu við harða keppinauta í smekkleysu. Svisslendingarnir með afa gamla sem þóttist spila á kontrabassa voru billegir – og sömuleiðis Ukraínumenn sem tróðu upp með risa úr þarlendum sirkus Geira Smart, svona til skrauts! Eða Þjóðverjar sem reyndu að kópera sigurlagið frá í fyrra, án þess þó að brjóta augljóslega höfundarréttarlögin. Það var ódýrt!

 

Meinlaus kvöldskemmtun

Aðrir sjá í söngvakeppninni saklausa skemmtun í nokkrar kvöldstundir í vorstemmingunni. Samkeppni um sönglög, sem veitir í leiðinni smá innsýn í fjölbreytta menningarheima nútímaþjóða í Evrópu. Í einu orði: Kvöldskemmtun.

Það er auðvitað ágætt.

Ég þekki hins vegar fólk sem af fræðilegum áhuga skoðar svona fyrirbæri eins og Eurosvision, sem eins konar glugga að sálarlífi nútímans í Evrópu.

 

Sameiginlegur vettvangur

Þá spyrja menn: hvað segir Eurovision okkur um hugarfar fólksins í Evrópu í dag? Hvað segir Eurovision um breytingar samfélaganna í Evrópu?

Um daginn sagði ég að Eurovision hefði hlutverk sem mótunarafl sameiginlegrar ímyndar Evrópuþjóða, svona á almennan hátt. Kjörorð keppninnar núna er “We are one”!

Þetta er sameiginleg sena, sameiginlegur fókus. Þjóðir Evrópu koma saman og mæla sig á stiku alþýðutónlistar, oft með miklum metnaði.

Þetta er vettvangur til að vera þjóð meðal þjóða – ekki síst þegar vel gengur.

Það gildir um menningarsamskipti, eins og viðskipti, að þjóðir sem gera eitthvað saman eru ekki eins líklegar til að murka lífið hver úr annarri í fánýtu stríði. Það er einhvers virði. Aukin tengsl eru þannig verðmæt á marga vegu.

Með hugann við breytingar var til dæmis stórkostlegt að sjá og heyra frábæra sönglistamenn frá Rússlandi syngja á ensku og spyrja, hvernig það væri ef við öll kæmum sama sem eitt.

Sem augnablik í nútímanum er það kanski lítill hljóðbiti, en fyrir okkur sem lifðum ógnir kalda stríðsins þá er þetta tákn þeirra gríðarlegu framfara sem orðið hafa eftir 1990. Rússland var hálf lokað land og af því þótti stafa mikil ógn. Það er hreint ekki svo langt síðan.

Rússar standa okkur nú nær og það er frábært.

 

Íslendingar í Eurovision

Íslendingar hafa meiri áhuga á Eurovision en margar Evrópuþjóðir. Í ljósi þess hversu margir háværir og heiftúðugir andstæðingar Evrópusambandsins eru hér á landi gæti það virst undarlegt.

Það er þó kanski skiljanlegt í ljósi þess, að við erum fjarlæg eyþjóð sem fékk sjálfstæði fyrir ekki svo löngu. Við erum sennilega nokkuð föst í fullveldishugsun gamla tímans, sem þó er orðin úrelt í hnattvæddum heimi aukinnar samvinnu og tengsla.

Í ár áttum við sérstaklega álitlega fulltrúa í Eurovision, þá Jesús og Pétur postula, með Örlyg Smára í farteskinu. Frábær flutningur Eyþórs Inga á ljúfu lagi sem hafði sérstöðu í þessari flóru alþýðutónlistar í Evrópu gladdi augljóslega fjölda Íslendinga – ef ekki alla.

Það er auðvitað einhvers virði fyrir sjálfsmynd þjóðar að geta átt álitlega fulltrúa í keppnum þjóða, af hvaða toga sem er.

Ekki síst þegar okkar fólk stendur mörgum þeim bestu ágætlega á sporði.

Svo er rétt að minna á að lögmál smekksins er þannig, að bestu lögin sigra ekki alltaf! Það er vegna þess að þeir smekklausu eru oft duglegri að kjósa…

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar