Miðvikudagur 22.05.2013 - 21:32 - FB ummæli ()

Hvernig stjórn verður þetta?

Það var athyglisvert að heyra Bjarna Benediktsson segja í hofi Jónasar frá Hriflu, Héraðsskólanum á Laugarvatni, að þetta yrði “samvinnustjórn”.

Sigmundur Davíð hafði áður útskýrt staðsetningu stofnfundar ríkisstjórnarinnar með því að undirstrika tengsl hennar við landsbyggðina og ungmennafélagshreyfinguna.

 

Andi Framsóknar

Það var sem sagt andi Framsóknar sem sveif yfir vötnum, þegar stjórnarsáttmálinn var kynntur og undirritaður.

Framsókn hefur forsætisráðuneytið og stærsta stefnumál þeirra er höfuðmál ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðismenn fá meira texta um “breytingar” á skattakerfinu “á kjörtímabilinu” en afgerandi ákvæði um lækkun skatta.

Eina skýra skattalækkunin sem er boðuð er lækkun tryggingagjaldsins, sem allir flokkar eru sammála um að gera. Bjarni sagði svo í viðtölum að hann vildi láta auðlegðarskattinn á stóreignafólk fjara út í árslok. Það mun vekja ánægju í Garðabæ og Arnarnesi.

Hugmyndir frjálshyggjumanna og vúdú-hagfræðinga um dólgslegar skattalækkanir sjást varla í stjórnarsáttmálanum. Talað er af varkárni um stöðu ríkisfjármála og nauðsyn úttekta og leitar að hagræðingu og breyttri forgangsröðun.

 

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn kominn aftur?

Að því leyti má segja að það sé meira “gamli Sjálfstæðisflokkurinn” sem er í þessari stjórn frekar en hinn “nýji Sjálfstæðisflokkur” frjálshyggjunnar. Þannig birtist þetta a.m.k. í upphafi ferðarinnar.

Ef þetta reynist rétt hjá mér þá hygg ég að Bjarni Benediktsson gæti styrkt sig í þessu stjórnarsamstarfi. Hann ætti raunar að rjúfa sem mest tengsl við hirð Davíðs Oddssonar og frjálshyggjutrúboð Hólmsteins og fara eigin leið, leið hinnar klassísku sjálfstæðisstefnu. Það yrði farsælt – fyrir hann sjálfan, flokkinn og almenning.

Mér lýst ágætlega á sumt í þessum stjórnarsáttmála. Ég hef áður tekið undir leið Framsóknar um skuldalækkun til heimila. Þarna er skýrt kveðið á um að hún muni fela í sér leiðréttingu á verðbólguáhrifum frá 2007 til 2010, en jafnframt er tekið fram að til greina komi að setja þak á endurgreiðsluna. Ég hef sjálfur mælt með slíku á Eyjunni. Ef það er gert þá verður þetta ekki flöt niðurfelling skulda. Auk þess sparar það umtalsverð útgjöld til þeirra sem ekki þurfa á slíku að halda, sem nota má til annarra mikilvægari verka.

Nýja veiðigjaldið verður endurskoðað en ekki lagt af. Það eru tíðindi. Aðildarviðræður við ESB verða settar í bið, en ekki slitið. Það er út af fyrir sig best fyrir þann málaflokk að bíða í 3-4 ár, uns Evrópa verður aftur komin á sléttan sjó. Sjálfur vil ég fá niðurstöðu í aðildarviðræðurnar fyrir framtíðina – hvort sem við förum inn eða ekki.

 

Endurreisn frítekjumarka í almannatryggingum og einföldun skattkerfis

Stjórnin ætlar að innleiða á ný frítekjumörk vegna atvinnutekna og fjármagnstekna sem voru rýrð og aflögð í júlí 2009. Það er gott. Ég var sjálfur í “Verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga” sem lagði til slík frítekjumörk á árinu 2008.

Ég tel að leið frítekjumarka í almannatryggingakerfinu sé farsæl, því henni fylgja heilbrigð hvataáhrif, til atvinnuþátttöku og sparnaðar. Stjórnin vill endurskoða hið nýja almannatryggingafrumvarp sem hvarf af braut frítekjumarka. Mér finnst það athyglisvert.

Það er líka út af fyrir sig í fínu lagi að einfalda skattkerfið. Ég er enginn sérstakur talsmaður fjölþrepakerfisins í tekjuskattinum, því hægt er að ná sömu dreifingaráhrifum skattbyrðar með flötum skatti og háum persónuafslætti.

Það var jú jafnaðarmaðurinn Jón Baldvin Hannibalsson sem innleiddi flatan tekjuskatt hér á landi 1988, með mjög háum persónufrádrætti. Það var ágætt kerfi, þó vel megi hafa í því hátekjuskatt að auki, eins og var milli 1994 og 2005. Tvö þrep í stað þriggja getur þannig verið í lagi, með réttri útfærslu.

Það sem miður fór á þeim árum var hins vegar óeðlileg rýrnun persónufrádráttarins (skattleysismarkanna), sem bitnaði illa á lágtekjufólki.

Svo leggur nýja stjórnin mikla áherslu á samráð við aðila vinnumarkaðar og aðra hagsmunahópa í samfélaginu. Það er auðvitað í fínu lagi – svona upp að vissu marki. Ekki má þó gefa of mikið eftir af valdi stjórnmálanna til hagsmunasamtaka. En að tengja skattabreytingar eða velferðarumbætur við kjarasamninga getur vel átt rétt á sér og verið hagkvæmt.

 

Lítið um dólgafrjálshyggju

Svo hvernig stjórn verður þetta þá?

Samvinnustjórn, Framsóknarstjórn, Sjálfstæðisstjórn, samráðsstjórn, velferðarstjórn, þjóðleg stjórn?

Dómur reynslunnar svarar því að leiðarlokum. En út úr stjórnarsáttmálanum má lesa forsendur allra þessara skilgreininga – í mismiklum mæli þó. En lítil merki er þar að finna um róttæka frjálshyggju.

Ég er harður gagnrýnandi frjálshyggju og tel því mikilvægt að henni sé haldið í skefjum. Fátt ógnar meira velferð almennings en dólgafrjálshyggja, eins og sú er tíðkaðist hér á árunum fram að hruni.

Vonandi farnast stjórninni vel að vinna í þágu almannahagsmuna – eins og hún segist ætla sér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar