Fimmtudagur 23.05.2013 - 21:36 - FB ummæli ()

Ósanngjarnasta stjórnarandstaða lýðveldisins?

Nú við stjórnarskiptin er við hæfi að líta til baka

Fráfarandi stjórn tók við Íslandi á barmi þjóðargjaldþrots og upplausnar. Ástandið var eldfimt og hættulegt.

Stjórnin tók við erfiðasta búi lýðveldissögunnar. Hún náði verulegum árangri við endurreisnarstarfið. Hefur hlotið mikið hrós fyrir – en nær einungis frá útlöndum. Málsmetandi erlendir aðilar og alþjóðastofnanir hafa ausið stjórnina lofi fyrir verk sín.

Vissulega tókst henni ekki allt sem hún ætlaði sér, en þetta er sennilegasta vinnusamasta stjórn sögunnar. Sumt hefði mátt gera á annan veg, en það er auðvelt að vera vitur eftirá.

Hér heima var hins vegar sótt að ríkisstjórninni af fordæmalausri hörku og heift, alveg frá fyrstu vikum stjórnartímans, bæði innan þings og í fjölmiðlum.

Hvernig fjallað var um verk stjórnarinnar hér heima var ekki í nokkru samræmi við umfjöllunina erlendis. Ég tel augljóst að vinstri stjórnin hafi ekki notið sannmælis innanlands fyrir verk sín. Það er auðvitað ósanngjarnt.

Sumir þeirra sem voru hvað ómerkilegastir í heiftúðugum áróðri gegn stjórninni áttu sjálfir mesta sök á því hvernig allt fór hér afvega í fjármálunum frá 1998 til 2008 og endaði í hruni. Fremstur í þeim flokki var og er ritstjóri Morgunblaðsins.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sker sig úr á hægri vængnum fyrir drengskap og sanngirni. Hann segir um hátterni stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabils:

“Á tíma síðustu ríkisstjórnar fannst mér ömurlegt að heyra stjórnarandstæðinga óska stjórninni alls ills, og þeir hinir sömu gátu ekki einu sinni glaðst þegar góðar fréttir bárust af ríkisfjármálum, minnkandi atvinnuleysi eða góðri afkomu fyrirtækja. Heiftin í garð pólitískra andstæðinga var sterkara afl en óskin um bættan hag landsmanna.”

Þetta er ljótur vitnisburður.

Nú þegar sumir þeirra sem voru virkir í þessum leik stjórnarandstöðunnar eru komnir í stjórnarliðið þá eiga þeir auðvitað ekkert tilkall til sanngirni frá nýrri stjórnarandstöðu, í þessu ljósi.

Hins vegar gætu nýir stjórnarliðar á þingi sjálfir haft frumkvæði að siðlegri háttum sem gætu stuðlað að heilbrigðari samskiptum og jafnvel samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu í mikilvægum málum. Þeir gætu til dæmis haft samskipti á þingum norrænu frændþjóðanna til fyrirmyndar í því.

Boðuð samráð í nýja stjórnarsáttmálanum ættu þannig að ná líka inn í þingsalinn, en ekki bara frá stjórnarmeirihlutanum til samtaka atvinnulífsins og annarra hagsmunasamtaka.

Munum það að þingstörfin eiga að vera í þágu þjóðarinnar allrar, en ekki hluti af viðvarandi stéttastríði eða borgarastyrjöld.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar