Laugardagur 31.08.2013 - 08:30 - FB ummæli ()

AGS og niðurskurður velferðar

Ég hef almennt verið ánægður með starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hér á landi í kreppunni. Þeir voru að mörgu leyti með skynsamlega nálgun á hin gríðarlegu vandamál sem við var að glíma eftir hrun.

Þeir lögðu ekki til stórkostlegan niðurskurð í velferðarmálum, eins og margir óttuðust.

Umfjöllun þeirra um vandann við afnám gjaldeyrishaftanna í nýjustu skýrslu sjóðsins er líka skynsamleg.

En í sömu skýrslu reifa AGS-menn mat á möguleikum til niðurskurðar í heilbrigðis- og menntamálum sem fer illa afvega. Það kemur raunar á óvart.

Þegar menn skoða niðurstöður þeirra um að hægt sé að lækka útgjöld til menntamála (forskóla, grunnskóla og framhaldsskóla) um nálægt 50 milljarða á ári án þess að tapa gæðum og árangri hljóta menn að hrökkva við. Núverandi útgjöld til þeirra skólastiga sem eiga að skila sparnaðinum eru um 75 milljarðar og því ættu allar viðvörunarbjöllur að hringja við svona boðskap.

Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra hafa enda báðir hafnað tillögum AGS.

Menn geta ekki lækkað útgjöld um fjórðung til helmings frá því sem nú er án þess að það komi alvarlega niður á gæðum, hvorki í menntun né heilbrigðisþjónustu.

Stytting námstíma til stúdentsprófs um 1 til 2 ár getur vel verið skynsamleg og álitlegur sparnaðarkostur, en hún skilar engum slíkum happafeng sem AGS nefnir. Fjarri lagi.

Lenging kennslutíma og fækkun kennara á lægri skólastigum gengur ekki nema verulega aukið álag á kennara verði bætt með umtalsverðum kauphækkunum (sem éta upp sparnaðinn að hluta).

Sama er uppi teningnum varðandi tillögur AGS um lækkun heilbrigðisútgjalda. Upptaka tilvísunarkerfis og aukin samkeppni í útboðum lyfjakaupa gætu sparað umtalsverða fjármuni, en ekkert í líkingu við hugmyndir AGS.

Ein tillaga þeirra til sparnaðar er sú að nota í minni mæli stofnanavistun fyrir aldraða og öryrkja og auka heimahjúkrun og umönnun. Það hefur þegar verið gert í ríkum mæli og er Ísland nú með eitt hæsta stig heimahjúkrunar og umönnunarþjónustu á Vesturlöndum. Þar er því lítinn sparnað til viðbótar að hafa.

Að skera niður ca. 50 milljarða í heilbrigðiskerfinu (42% niðurskurður) í viðbót við það sem þegar er orðið í kreppunni, af heildarútgjöldum uppá um 120 milljarða, er fráleitt að geti gerst nema gæðum verið stórlega fórnað.

 

Hvernig fá AGS-menn svona fráleitar niðurstöður?

Jú, þegar aðferðafræði AGS við þetta mat er skoðuð kemur í ljós að þeir gefa sér verulega umdeilanlegar forsendur, t.d. um gæðaviðmið. Þannig setja lönd eins og Mexíkó, Malta, Kýpur og Ísrael gæðaviðmiðið fyrir heilbrigðisþjónustuna.

Að sama skapi setja fátækari ríki en Ísland gæðaviðmið fyrir menntamálin á grunni námsárangurs í PISA könnunum. Í slíkum löndum getur náðst þokkalegur meðalárangur í einkunum, en það getur t.d. byggst á því að matið nái ekki til allra í árganginum (sem hækkar meðaleinkunnina óeðlilega fyrir árganginn).

Ísland fer ekki niður á gæðastig þessara landa öðru vísi en að lækka verulega gæðastig núverandi heilbrigðisþjónustu, sem þegar hefur verið skorin inn að beini. Sama gildir um menntamál, þó spara megi með styttingu námstíma til stúdentsprófs. Háskólastigið á Íslandi er hins vegar vel undir meðaltali OECD-ríkja í kostnaði, en nær þokkalegum árangri.

Heildarútgjöld Íslands til heilbrigðismála voru árið 2009 um 9,6% af landsframleiðslu, þegar meðaltal OECD-ríkja var 9,5%. Að setja Íslandi markmið fyrir heilbrigðisútgjöld sem væri langt fyrir neðan meðaltal OECD (eins og AGS gerir) væri afleitt. Það er vegna þess að hagsældarstig landsins er vel fyrir ofan meðaltal OECD-ríkja.

Ísland getur hagrætt (t.d. með upptöku alvöru tilvísunarkerfis og notkun ódýrari lyfja og miðlægs gagnagrunns fyrir heilbrigðiskerfið), en við hljótum að vera áfram fyrir ofan meðallag OECD-ríkja í heilbrigðisútgjöldum, nema við ætlum að sætta okkur við verulega lélegt heilbrigðiskerfi.

Það verður engin þjóðarsátt um slíka afturför.

Hins vegar má draga ályktun af ýmsu sem fram kemur í skýrslu AGS um að hægt eigi að vera að aftra aukningu heilbrigðisútgjalda í framtíðinni vegna öldrunar íslensku þjóðarinnar. Það er vegna þess, að hluti af núverandi óhagræði kerfisins byggir á fámenni og dreifbýli í landinu. Víða á landinu er þannig geta til að þjóna fleirum án umtalsverðrar aukningar á húsakynnum, búnaði og mannafla.

Sömu rök gilda um menntakerfið með tilliti til fólksfjölgunar. Stór hluti af miklum kostnaði við lægri skólastigin er fámenni og dreifbýli á landsbyggðinni. Þar þarf fólksfjölgun ekki að leiða til mikillar aukningar á kostnaði í framtíðinni.

Hins vegar er Landsspítalinn augljóslega kominn á tíma.

Það er loks athyglisvert að AGS er ekki að leggja til lækkun lífeyrisgreiðslna né tilfærslna til heimila, heldur einkum að leita hagræðingar í velferðarþjónustunni.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar