Sunnudagur 01.09.2013 - 13:34 - FB ummæli ()

Opin eða lokuð samfélög – alþjóðlegur samanburður

Einn af mikilvægustu eiginleikum samfélaga er í hve miklum mæli þau gera þegnum sínum kleift að vinna sig upp og komast til bjargálna – ekki síst fyrir þá sem eru uppaldir í lægri stéttum samfélagsins.

Opin samfélög gera þetta í miklum mæli, en lokuð samfélög eru með stéttaskiptingu sem leyfir slíkt í minni mæli.

Opin samfélög eru oftar “verðleikasamfélög”, sem leyfa einstaklingum að njóta eigin hæfni og dugnaðar. Lokuð samfélög eru oftar “forréttindasamfélög”.

Þetta er það sem “ameríski draumurinn” snérist um.

Á nítjándi öld og langt fram eftir þeirri tuttugustu litu menn til Bandaríkjanna sem draumalands, þar sem auðveldara var fyrir venjulegt fólk að komast áfram en í gömlu Evrópu, og enn frekar en í öðrum heimshlutum.

Nú á dögum er þetta mikið breytt. Bandaríkin og önnur vestræn samfélög eru auðvitað enn rík og þróuð, en þar eru þó víða neikvæðar horfur varðandi möguleika á að vinna sig upp þjóðfélagsstigann.

Hér að neðan er mynd er sýnir mat íbúa (18 ára og eldri) í 38 löndum jarðarinnar á því hvort þau hafi færst upp eða niður þjóðfélagsstigann, miðað við forendra sína. Þetta er sem sagt huglægt mat íbúanna sjálfra, að meðaltali, byggt á þeirra eigin reynslu af lífshlaupi sínu.

Það er ekki eina leiðin til að meta hreyfanleika og opnun samfélaga, en mikilvægur mælikvarði engu að síður, því það sem fólki finnst um þetta skiptir miklu máli. Aðrar algengar leiðir til að meta hreyfanleika eru að bera saman starfsstétt eða tekjur foreldra og afkomenda þeirra.

Hér er mat íbúanna á opnun og lokun samfélaga þeirra. Gögnin koma úr alþjóðlegum sambærilegum könnunum sem gerðar voru árið 2009. Íslensku gagnanna var aflað af Jóni Gunnari Bernburg prófessor við HÍ og Sigrúnu Ólafsdóttur félagsfræðingi við Boston háskóla.

Slide1

Mat íbúa 38 landa á eigin hreyfanleika upp eða niður þjóðfélagsstigann, miðað við foreldra þeirra. (Gögn frá ISSP, kynnt af dönskum félagsfræðingi, Christian Albrecht Larsen, á alþjóðlegri ráðstefnu í Amsterdam í sumar).

 

Algengast er að fólk skynji hreyfanleika uppávið í samfélagi sínu.

Af þessum 38 samfélögum eru 27 þar sem fleirum finnst að þeir hafi færst uppávið, samanborið við foreldra sína. Japönum finnst þeir flestir standa í stað (eru nálægt 0 á myndinni) og í 10 löndum er algengara að fólk skynji sig hafa færst niðurávið, miðað við foreldra sína.

 

Örastar framfarir í Kína

Kína er mesta land tækifæranna núna, þ.e. í örustum vexti og framförum, sem staðið hafa frá um 1980. Kýpur var einnig í slíkri stöðu fram að kreppu, er þeir hrundu illa og standa í dag frammi fyrir miklum vanda, meiri en Íslendingar.

Að vissu leyti er auðveldast fyrir minna þróuð lönd sem komin eru á mikið flug framávið að koma vel út úr svona mælingu. Íbúarnir þar skynja mikla breytingu á hag og afkomu sinni, samanborið við foreldrana. Það er erfiðara að sama skapi fyrir ríku og hagsælu samfélögin að koma vel út í slíkum mælingum.

 

Noregur rís hæst í hópi hagsælla þjóða

Ef við lítum eingöngu á hagsælu vestrænu samfélögin, þá eru Noregur og Finnland þau lönd sem standa út úr, raunar í 3ja og 4ða sæti yfir allar þjóðirnar, sem er afar góð útkoma. Nýja Sjáland og Ástralía koma svo í humátt á eftir. Þetta eru mestu lönd tækifæranna um þessar mundir (Kanada vantar, en það kæmi væntanlega vel út).

Þá eru næst Frakkland, Sviss, Danmörk, Austurríki, Svíþjóð og Þýskaland. Síðan kemur Bretland í sextánda sæti

Norrænu þjóðirnar koma vel út úr þessum samanburði sem lönd mikilla tækifæra, en Svíþjóð og Ísland eru neðst í þeim hópi.

 

Ísland er neðst norrænu þjóðanna

Á eftir Bretum kemur Ísland í sautjánda sæti. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að könnunin er gerð hér á árinu 2009-10, er við vorum í sárum eftir hrunið. Það hefur væntanlega þrýst okkur neðar en í venjulegra árferði.

Við erum sem sagt á róli með Bretlandi og Spáni og talsvert neðar en frændþjóðirnar á Norðurlöndum.

 

Ameríski draumurinn er dauður

Bandaríkin eru svo í neikvæða neðri hluta myndarinnar, þar sem almenningur skynjar oftar afturför samanborið við stöðu foreldranna. Þessi útkoma fyrir Bandaríkin er í samræmi við það sem nýlegar rannsóknir á hreyfanleika milli starfsstétta og tekjuhópa hafa sýnt.

Bandaríkin eru auðvitað enn ríkt samfélag og háþróað að mörgu leyti, en mikil og vaxandi misskipting auðs og tekna gerir að verkum að almenningur nýtur þjóðarauðsins og tækifæra ekki í nægilega ríkum mæli. Of mikið rennur til yfirstéttarinnar.

Þannig má segja að ójöfnuðurinn í Bandaríkjunum sé að skemma ameríska drauminn fyrir of stóran hluta íbúanna. Ójöfnuðurinn tók að aukast með vaxandi frjálshyggjuáhrifum upp úr 1980.

 

Fyrrum Sovétríki standa illa

Aðrar þjóðir sem eru á slóðum Bandaríkjamanna eru Filippseyjar, Króatía, Rússland og Tyrkland, auk nokkurra þjóða sem áður tilheyrðu Sovétkerfinu. Neðst eru Lettland og Úkraína.

Algerlega ólík staða fyrrverandi Sovétríkja og Kína er sérstaklega athyglisverð. Umskiptin yfir í óheftan kapítalisma sem urðu í mörgum fyrrum ríkjum Sovétríkjanna hafa ekki skilað almenningi eins jákvæðum framförum og virðast nú eiga sér stað í Kína. Þar er ekki síst miklum ójöfnuði og spillingu í fyrrum Sovétríkjum um að kenna.

Í öllu fallir virðist Kína vera að skila efnahagsframförum sínum í bættum kjörum almennings, enda hefur millistéttin þar vaxið mjög ört á síðustu árum, þó enn sé langur vegur í að Kínverjar nái algengum kjörum vestrænna þjóða.

Stærsta drama þessarar sögu er þó sennilega hnignum ameríska draumsins.

————————————————

Skýringar: Í þessum könnunum var fólk beðið um að staðsetja sjálft sig í þjóðfélagsstiganum á kvarða frá 1 til 10 (1=lægsta þrep; 10=hæsta þrep eða stétt). Síðan var fólk beðið um að staðsetja foreldra sína á sama hátt. Þar með er komin staðsetning tveggja kynslóða í stéttastiganum. Niðurstaðan á myndinni hér að ofan er svo munur á staðsetningu foreldra og afkvæma þeirra. Þegar talan á myndinni er „+“ þá er stéttarstaða afkvæmanna hærri en staða foreldranna að meðaltali (þ.e. þau hafa fært sig upp stéttastigann m.v. foreldrana) og öfugt ef niðurstaðan er með mínus-tölu (þá hafa afkvæmin lægri stöðu en foreldrarnir). Ef enginn munur er á staðsetningu foreldra og afkvæma, eins og í Japan, er niðurstaðan núll. Niðurstöðurnar eru meðaltöl hverrar þjóðar og sýna þannig nettó útkomu. Þó þjóð fái mínus útkomu þá eru auðvitað einhverjir sem hafa færst uppávið, en þeir sem fóru niðurávið í viðkomandi samfélagi eru einfaldlega fleiri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar