Mánudagur 09.12.2013 - 10:21 - FB ummæli ()

Lækkun barna- og vaxtabóta – afleit hugmynd

Nú berast fregnir af því að ríkisstjórnin hyggist lækka barna- og vaxtabætur um nálægt 600 milljónir króna og setja féð í heilbrigðismálin.

Auðvitað er gott að auka fjárveitingar til heilbrigðismála – en að taka það þarna er afleit hugmynd.

Hvers vegna?

Barnabætur eru lágar á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Á áratugnum fram að hruni var búið að skera svo mikið af barnabótunum að kerfið var nánast orðið lítils virði.

Fyrri stjórn var of sein að hækka barnabætur eftir hrun, en miðaði þeim enn frekar á allra tekjulægstu hópana í staðinn. Síðan hækkaði fyrri stjórn bæturnar um 30% undir lok kjörtímabilsins. Þó það hafi verið myndarleg hækkun dugði hún varla til að koma barnabótakerfinu á eðlilegt ról.

Það er því af mjög litlu að taka hvað barnabætur snertir. Þeir sem fá barnabætur sem einhverju máli skipta eru ungar barnafjölskyldur með mjög lágar tekjur. Margar þeirra lentu sérstaklega illa í hruninu, eftir að hafa keypt húsnæði á uppsprengdu verði bólunnar eftir árið 2003 – með meiri skuldabyrði en áður hefur þekkst hér á landi.

Hækkun vaxtabóta var afar mikilvægt úrræði fyrri stjórnar til að létta skuldabyrði fjölskyldna. Vaxtabæturnar fóru einkum til þeirra sem voru í verstum skuldavanda, án þess að vera með miklar eignir umleikis eða háar tekjur. Þær skiptu miklu máli, ekki síst fyrir tekjulægri fjölskyldur.

Í hinum nýju skuldaúrræðum eru fyrri úrræði, þ.m.t. sérstakar vaxtabætur, dregin frá, svo þeir sem þeirra nutu fá minna eða ekkert nú.

Með lækkun barna- og vaxtabóta er hoggið í afkomu þeirra sem einna verst standa eftir hrun og sem lítið fá úr nýju úrræðunum.

 

Slæm stefna, einkum fyrir Framsókn

Ég tel að ríkisstjórnin geri mistök með slíkri aðgerð. Nær væri að hækka barna- og vaxtabæturnar og styðja þannig við nýju skuldaúrræðin – eða falla frá því að draga fyrri úrræði frá nýju úrræðunum. Meiri sátt yrði um það. Í staðinn væri hægt að ná í þessar tekjur af erlendum ferðamönnum með eðlilegri hækkun virðisaukaskatts á hótelgistingu, sem átti að skila 1,5 milljarði.

Að höggva í barna- og vaxtabætur er aðgerð sem gæti hugnast Sjálfstæðismönnum, sem gjarnan segja að þeirra kjósendur séu einkum hærri tekjuhópar.

En fyrir Framsókn er þetta sérstaklega hættuleg aðgerð. Framsókn sótti mikið fylgi til tekjulægri hópa í síðustu kosningum, ekki síst vegna fyrirheita um að verja heimilin. Það var velferðarstefnan sem færði Framsókn aukið fylgi.

Lækkun barna- og vaxtabóta heggur skörð í velferðarstefnuna gagnvart þeim sem síst mega við því.

 

Síðasti pistill:  Hólmsteinn hafnar lýðræði

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar