Þriðjudagur 31.12.2013 - 00:04 - FB ummæli ()

Hrægammar á Wall Street – í beinni

Mynd Martins Scorcese The Wolf of Wall Street  er sannsöguleg frásögn af starfs- og lífsháttum sem tíðkast í bandaríska fjármálaheiminum. Myndin er nú í sýningarhúsum í Reykjavík. Ég mæli með henni.

Myndin er mögnuð og upplýsandi, en um leið óþægileg, enda að miklu leyti um óhóf, lygar, siðleysi og græðgi. Myndin er vel gerð og vel leikin. Hún varir í þrjá tíma og mér fannst engu ofaukið – en sumum þykir þó nóg um svallveislur fjármálagosanna.

Leonardo DiCaprio leikur braskarann Jordan Belfort, sem skilgreinir hlutverk verðbréfasalans þannig, að honum beri að ná í sparifé fólks og koma því í sinn eigin vasa. Það er samkvæmt forskrift frjálshyggjunnar um eigingirni og sjálfselsku.

Á Íslandi var þetta kallað að “græða á daginn og grilla á kvöldin”!

Ég sé á umfjöllun nokkurra bandarískra netmiðla að myndin hefur gengið fram af sumum þar vestra. Kynlífsorgíur, eiturlyf, lygar og svik eru jú í stóru hlutverki. Myndin þykir því ekki heppileg sem jólamynd, en hún var frumsýnd vestra á annan dag jóla. Þeir hefðu átt að bíða fram yfir áramót…

Samt er myndin almennt og einstök yfirgengileg atriði hennar sannleikanum samkvæm. Frásögnin er öll byggð á minningabókum Jordan Belforts sjálfs og viðtölum við tengda aðila.

Hér má sjá könnun tímaritsins Time á staðreyndagildi sumra yfirgengilegustu atriðanna í myndinni. Nær allt er það sannleikanum samkvæmt og ekki ýkt. Myndin er mögnuð lýsing á mergjuðum veruleika.

Þessi mynd og fyrri myndir um fjármálaheiminn gefa góð innsýn inn í heim ofurríkra fjármálamanna og braskara í Bandaríkjunum. Þetta er heimur hinna gráðugu hákarla sem hafa mestu völdin í nútímanum.

Þetta er heimurinn sem nýfrjálshyggjan dásamar og réttlætir.

Það má læra sitthvað um tíðarandann af slíkum kvikmyndum og sögunum sem þær byggja á.

Við fengum okkar eigin útgáfu af slíkum ævintýrum hér á Íslandi á árunum fram að hruni. Þó ekki vilji ég jafna þeim ævintýrum við það sem gerist í þessari kvikmynd Scorcese, þá er undirliggjandi eðlið hið sama.

Sjáið til dæmis skarpa og rétta lýsingu hins virta fjármálahagfræðings Willem Buiters á óhófi og vitleysu íslensku útrásaráranna hér.

Græðgin er jú ein af höfuðsyndunum, sem leiðir einstaklinga og samfélög afvega…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar