Miðvikudagur 01.01.2014 - 14:48 - FB ummæli ()

Uppgjör 2013: Pólitíkin

Þetta var ár Framsóknar – hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Framsókn vann kosningarnar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk forystuhlutverk í ríkisstjórn, með Sjálfstæðisflokknum. Það var ekki sjálfgefið.

Framsókn hafði verið í lægð um árabil, eða frá seinni hluta stjórnarsamstarfsins í tvíeyki Davíðs og Halldórs. Fylgið lenti í sögulegri lægð í kosningunum 2007 (11,7%).

Lengst af á síðasta kjörtímabili náði Framsókn sér ekki á strik. Það var svo í kjölfar Icesave-dómsins í byrjun síðasta árs að landsmenn veittu Framsókn brautargengi á ný, fyrir staðfasta baráttu í því máli.

Framsóknarmenn lofuðu svo verulegri skuldalækkun til heimilanna í kosningabaráttunni og sigurinn blasti við.

Það voru mistök vinstri stjórnarinnar að sýna ekki nægilegan vilja til að lækka skuldabyrði heimilanna enn meira en gert hafði verið (sem þrátt fyrir allt var umtalsvert).

Sennilega var ómögulegt að fara í almenna skuldalækkun á þeim tíma, vegna óljósrar stöðu þrotabúa bankanna og mun erfiðari stöðu ríkissjóðs en nú er. En almenningur sá ekki nægan vilja hjá stjórnvöldum til að reyna að finna nýjar leiðir. Samfylkingin bauð t.d. einungis upp á „stöðugleika“ um óbærilega stöðu, með ESB-aðild. Því fór sem fór.

Og hvernig stjórn er svo nýja stjórnin?

Vinstri menn kalla hana hægri stjórn, enda með Sjálfstæðisflokkinn innbyrðis, þó ekki sé hann með forystu stjórnarinnar. Þeir hafa þó forystu í ríkisfjármálunum. Vissulega er mikill þrýstingur á framgang hægri stefnu úr þeirra átt. Það birtist í löngun til að lækka skatta á hærri tekjuhópa, atvinnurekendur og stóreignafólk – og til að auka fríðindi fyrirtækjafólks.

Framsókn hefur hins vegar skilgreint sig sem miðjusinnaðan velferðarflokk með áhuga á eflingu atvinnulífs. Það var einkum velferðarpólitík sem kom Framsókn til valda, mest áherslan á skuldaléttingu heimilanna, en einnig áhersla á almenn velferðarmál, eins og lífeyrismál og húsnæðismál.

Þar sker í odda með stjórnarflokkunum, því Sjálfstæðismenn hafa einkum áhuga á velferð yfirstéttarinnar – eins og almennt er um nýfrjálshyggjumenn. Þeir leggjast gjarnan gegn opinberum velferðarúrræðum en vilja efla gróðasókn einkageirans.

 

Heilbrigð togstreita milli stjórnarflokkanna

Við höfum séð mörg merki togstreitu milli stjórnarflokkanna um velferðarmálin. Þannig settu Sjálfstæðismenn sér að reyna allt hvað þeir gátu til að draga niður efndir loforða Framsóknarmanna í skuldamálum heimilanna. Það var opinbert og augljóst.

Þeir hrósuðu sigri eftirá fyrir að hafa náð að hafa hóf á aðgerðunum og láta heimilin sjálf borga næstum helminginn af úrræðunum (með skattaafslættinum sem þau þegar höfðu fyrir séreignasparnað sinn). Bein höfuðstólslækkun Framsóknar varð því ekki meiri en 80 milljarðar á fjórum árum, í heildaraðgerðum upp á um 150 milljarða. Um 240 milljarða skuldalækkun hafði þó verið lofað, með skýrum hætti.

Síðan vildu Sjálfstæðismenn og hin hægri sinnaða Vigdís Hauksdóttir lækka barnabætur og vaxtabætur, leggja á sjúklingaskatt og draga fyrri úrræði frá nýju skuldaúrræðunum. Það þýðir að þeir sem fengu mestan stuning frá fyrri stjórn (sem voru heimilin í erfiðustu stöðunni) fá lítið eða ekkert í nýju aðgerðunum.

Sjálfstæðismenn geta þakkað sér það – þó þeir segi ef til vill annað!

Þetta gæti þó vakið óánægju á nýja árinu þegar fólk sér hverju úrræðin skila.

 

Vinstri sinnuð hægri stjórn

Þegar litið er á fjárlög næsta árs í heild blasir við minni breyting en hægri menn í Sjálfstæðisflokki væntu. Ríkisbúskapurinn verður hallalaus, eins og vinstri stjórnin stefndi einnig á (eftir að hafa náð gríðarlegum árangri í lækkun hallans úr rúmum tvö hundruð milljörðum niður í um 25 milljarða).

Og þó nýja stjórnin hafi gefið frá sér tekjustofna sem ætlaðir voru í nýsköpunarverkefni í Fjárfestingaáætlun vinstri stjórnarinnar (t.d. nýja veiðigjaldið), breytt tekjuskattinum lítillega í hag hærri tekjuhópa og stefni á verulega léttingu auðlegðarskatta í framhaldinu, þá er heildarmynd nýju fjárlaganna mjög í anda þess sem vinstri stjórnin lagði upp með.

Fjárlögin bera því þrátt fyrir allt mörg merki um stefnu og áform vinstri stjórnarinnar – þó auðvitað vanti nokkuð uppá. Munurinn er þó meira stigsmunur en eðlismunur.

Þetta er því hálf vinstri sinnuð hægri stjórn!

Það má þakka árangursríku mótvægi Framsóknar gegn áformum Sjálfstæðismanna. Sigmundur Davíð tók af skarið í sumu og fór það vel. Hann styrkti sig á árinu, ekki síst með efndum á sviði velferðarmálanna. Eygló Harðardóttir hefur líka haldið merki velferðarinnar vel á lofti og mun þurfa að láta til sín taka í húsnæðismálum á nýja árinu.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, hefur raðað í kringum sig órólegum frjálshyggjumönnum sem ráðgjöfum. Vúdú-hagfræði Hólmsteina í flokknum virðist einnig eiga greiðan aðgang að eyrum hans. Það er miður fyrir jafn geðþekkan mann og Bjarni annars er.

Því má ætla að Sjálfstæðismenn muni setja sér áform um að ná meiri framgangi hægri stefnu á næstu árum, með auknum forréttindum fyrir yfirstéttina – jafnvel á kostnað milli og lægri stétta.

Á hinn bóginn talaði Sigmundur Davíð forsætisráðherra í góðu áramótaávarpi sínu um nauðsyn þess að bæta hag lægri og milli stéttanna á næsta og næstu árum. Sagði kjör lægri hópanna óviðunandi. Hann boðaði einnig nýja áætlun um nýsköpun, í anda Fjárfestingaráætlunar fyrri stjórnar.

Í kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag rifust stjórnarmenn og stjórnarandstaða um hvorir hefðu meiri áherslu á velferðarmál og nýsköpun – og virtist frekar um stigsmun en eðlismun að ræða.

Sigmundur Davíð sagði þar að velferðarútgjöld væru nú meiri en nokkru sinnum fyrr. Ef það reynist rétt (sem á eftir að koma í ljós), þá hafa Sigmundur Davíð og Eygló slegið met Jóhönnu og Steingríms, sem sett var á vinstri árunum 2010 og 2011!

Það má kalla nokkuð vinstri sinnaða hægri stefnu! Eða kanski bara miðju stefnu…

Framsókn mun þó þurfa að hafa sig alla við til að hemja frjálshyggjuóra Sjálfstæðismanna í framhaldinu. Vonandi er að það takist vel, því mikið er í húfi fyrir heimilin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar