Fimmtudagur 02.01.2014 - 22:34 - FB ummæli ()

Uppgjör 2013: Lífsgleðin endurheimt

Fall Íslands haustið 2008 var eitt það allra mesta í sögu hagsældarríkjanna í seinni tíð. Hruni bankanna og tvísýnni stöðu í kjölfarið fylgdi sú tilfinning að ekkert yrði eins á ný – um langt árabil.

Menn spurðu sig hvort lífskjörin á Íslandi yrðu yfirhöfuð aftur boðleg?

Þó áhrifin hefðu mest verið fjárhagsleg (mikil kjaraskerðing, aukið atvinnuleysi og skuldabyrði) þá hrökk hugarfar og sálarró þjóðarinnar einnig verulega af teinunum. Byltingarástand ríkti á götum Reykjavíkur um nokkurra vikna skeið í lok ársins 2008 og fram í byrjun 2009.

Íslendingum var verulega brugðið.

Ánægja með lífið mældist mun lægri strax í kjölfar hrunsins en áður hafði sést frá því nútímalegar mælingar á lífsánægju hófust árið 1984, í svokallaðri “hamingjukönnun Gallup International”.

Við vorum í mikilli lægð.

Botni kreppunnar var náð vorið 2010 og síðan þá höfum við mjakast uppávið. Margt hefur gengið vonum framar, þó margir vildu gjarnan sjá örari endurheimt fyrri efnahags.

Það er því athyglisvert að skoða hvernig lífsánægja þjóðarinnar hefur þróast eftir hrun. OECD hefur nýlega birt gögn um breytingu á lífsánægju aðildarríkjanna frá 2010 til 2012, sem sýnd eru á myndinni hér að neðan (byggt er á svokölluðum Cantril kvarða Gallup International við mat á lífsánægju).

Lífsánægja oecd þjóða 2010 og 2012

Eins og sjá má á myndinni er Ísland árið 2012 komið í 3-4. sæti, samhliða Svíþjóð, en næst á eftir Noregi og Sviss, sem tróna á toppnum. Á hæla okkar koma Hollendingar, Danir, Finnar og Kanadamenn.

Þetta hlýtur að teljast mjög góður staður að vera á í svona könnun – á þessum tíma.

Þarna vorum við gjarnan á áratugunum tveimur fram að hruni. Í hópi þeirra þjóða sem hvað ánægðastar voru með líf sitt. Við vorum að vísu stundum óánægð með fjárhagsafkomuna á hallærisárum, en kunnum samt að meta annað sem gott er hér á landi.

Ef skoðaður er munurinn á útkomunni 2010 og 2012 (dökku og ljósu súlurnar) þá kemur í ljós að aukning lífánægjunnar frá botni kreppunnar til 2012 var langmest á Íslandi. Næst komu Mexíkó, Eistland og Sviss.

Hjá tveimur af hverjum þremur þjóðum í könnuninni minnkaði hins vegar lífsánægjan eða stóð í stað á þessum krepputíma, frá 2010 til 2012. Staðan versnaði. Langmest hjá Ítölum og Grikkjum.

Það er því óhætt að segja, að eftir hið mikla áfall sem þjóðin varð fyrir á árinu 2008 þá hafa Íslendingar endurheimt lífsgleði sína á ný, þó margir kvarti enn yfir þröngum fjárhag.

Það er þekkt að saman getur farið almenn ánægja með lífið og nokkur óánægja með fjárhagsafkomuna. Þannig var það t.d. í fyrstu “hamingjukönnuninni” frá 1984. En við töpuðum einnig umtalsverðum hluta lífsánægjunnar í kjölfar hrunsins og efuðumst um framtíðina. Sá þáttur er nú endurheimtur.

Það er líka athyglisvert að þjóðin hafi verið komin í þessa stöðu þegar á árinu 2012. Vinstri stjórnin getur huggað sig við að hafa náð þessum árangri á stjórnartíma sínum.

Eftir hið mikla áfall og mikið bakfall í lífsánægju endurheimti þjóðin lífsgleði sína á tveimur árum, þrátt fyrir áframhaldandi óánægju með fjárhagsafkomuna.

Leiðtogar vinstri stjórnarinnar geta að sama skapi nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki sýnt skuldavanda heimilanna nægan skilning. Þess vegna töpuðu þau kosningunum í apríl 2013.

Nýrri könnun Eurobarometer frá maí 2013 sýnir sambærilega niðurstöðu. Ísland var þá líka á toppnum í mati á ánægju með lífið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar