Laugardagur 04.01.2014 - 12:41 - FB ummæli ()

Forsetinn fór afvega

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Ólafs Ragnars Grímssonar.  Okkar ágæta forseta.

Það þýðir þó ekki að ég telji hann óskeikulan. Ólafur er eitursnjall en honum hættir til í mælsku sinni að fara framúr sér og hann á það til að vera full sjálfhverfur.

Í síðasta nýársávarpi sínu fór hann heldur langt út fyrir ramma staðreyndanna. Menn hafa bent á það varðandi ýkt tal um gildi samstöðu fyrir helstu framfaraspor þjóðarinnar og um draumsýnina um að Norðurslóðir og Ísland verði þungamiðja “nýrrar heimsmyndar”.

Ég ætla að bæta einni villu við tossalistann hjá okkar ástsæla leiðtoga. Hún liggur í eftirfarandi klausu hans:

“Þegar verðbólgan hafði í áratugi hamlað vexti atvinnugreina og skert lífskjör launafólks náðist fyrir rúmum tuttugu árum þjóðarsátt um stöðugleika, varanlegan grundvöll framfara og velferðar.”

Í þessari klausu eru alvarlegar staðreyndavillur.

Skiptum tímabilinu frá 1960 til hrunsins 2008 í tvö tímabil: verðbólgutímann (1960-1989) og þjóðarsáttartímann (1990-2008). Spyrjum svo hvort tímabilið hafi verið betra fyrir vöxt atvinnulífs og bætt kjör launafólks.

Niðurstaðan er sú, að verðbólgutíminn hefur talsverða yfirburði yfir þjóðarsáttartímann, bæði hvað snertir meiri vöxt atvinnugreina (meiri hagvöxt) og bætt lífskjör launafólks (aukinn kaupmátta ráðstöfunartekna). Tölur um þetta má sjá hér og hér.

Fyrstu 4 ár þjóðarsáttartímans minnkaði kaupmáttur launafólks eða stóð í stað. Það fór saman við markvert lægra verðbólgustig. Síðan var ágæt aukning kaupmáttar frá 1995 til 2000 og svo aftur í bóluhagkerfinu frá 2003 til 2007. En kaupmáttaraukning var þó markvert meiri á tímabilinu frá 1960 til 1987, þ.e. á verðbólgutímanum.

Það er því kolrangt að segja að verðbólgan hafi “í áratugi hamlað vexti atvinnugreina og skert lífskjör launafólks” og að allt hafi batnað með þjóðarsáttinni. Verðbólgutíminn var eitt almesta framfaraskeið Íslands, þrátt fyrir allt.

Verðbólgan lagaðist að vísu með þjóðarsáttinni en kjörin bötnuðu þá minna en á verðbólgutímanum og hagvöxtur varð minni.

 

Varanlegur grundvöllur framfara og velferðar?

Skapaði þjóðarsáttartíminn svo “varanlegan grundvöll framfara og velferðar”, eins og forsetinn segir?

Ónei!

Í kjölfar þjóðarsáttarinnar kom tími aukinna frjálshyggjuáhrifa sem leiddu til bóluhagkerfisins er byggði á braski með erlent lánsfé. Forsetinn og Hannes Hólmsteinn lögðust þá á árarnar með bankamönnum og útrásarbröskurum og mærðu í sameiningu “snilli” þeirra.

Hagþróun þess tíma, einkum eftir aldamótin, á ekkert sameiginlegt með hugtakinu “varanlegur grundvöllur”, heldur var þá flest á sandi byggt. Þjóðarbúið var þanið áfram með óhóflegri sókn í lánsfé – raunar var Íslandi drekkt í skuldum.

Varanlega afleiðingin af því tímabili er skuldabasl, en ekki „grundvöllur framfara og velferðar“.

Verkalýðsleiðtogarnir voru svo uppteknir af goðsögninni um þjóðarsáttina að þeir gleymdu að fylgjast með þegar yfirstéttin fór að taka tekjur sínar inn sem fjármagnstekjur er báru mun minni skattbyrði en launatekjur. Lágtekjufólk drógst afturúr, svo um munaði.

Hlutur atvinnurekenda og fjármálamanna af þjóðartekjunum stórjókst. Tekjur þeirra jukust langt umfram tekjur venjulegs fólks, um leið og þeir drekktu þjóðarbúinu í skuldum (sjá hér og hér).

Nú biðja menn um endutekningu á þjóðarsátt um ábyrgð launamanna á verðbólgunni og ætlast til að launafólk fórni kaupmáttaraukningu um langt árabil til að ná því marki. Á meðan hafa atvinnurekendur og fjáraflamenn frítt spil.

Reynsla sögunnar er sú, að samstaða launamanna innbyrðis er mikilvæg fyrir sókn eftir kjarabótum. Samstaða launamanna með atvinnurekendum þjónaði meira hagsmunum atvinnurekenda en launamanna á tímabili þjóðarsáttarinnar frá 1990 til 2008. Öll fögnuðum við þó lægra verðbólgustigi, vegna verðtryggingar á skuldum heimilanna, sem hefur reynst hin mesta spennitreyja fyrir launabaráttuna.

Raunar er hin almenna lexía sögunnar líka sú, að mörg helstu framfaraspor fyrir almennt launafólk hefur þurft að sækja af krafti og með átökum. Það á við um kaupmáttaraukningu og velferðarréttindi flest. Það á einnig við um framfarir í mannréttindamálum.

En þeir sem sækja fram gegn íhaldi og forréttindastéttum þurfa hins vegar að standa saman til ná árangri. Ólafur Ragnar Grímsson hefur örugglega kennt nemendum sínum þá lexíu á háskólaárum sínum, enda var hann góður háskólakennari.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar