Laugardagur 31.10.2015 - 13:03 - FB ummæli ()

Sigmundur Davíð er með pálmann í höndunum

Fyrir síðustu kosningar var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, nær einn á báti með þann málflutning, að ganga ætti fast að erlendum kröfuhöfum þrotabúa bankanna.

Þeir þyrftu að eftirláta íslenskum stjórnvöldum umtalsverðan hluta íslenskra eigna sinna hér á landi.

Hann nefndi gjarnan að um gæti verið að ræða nálægt 300 milljörðum “og jafnvel hærri upphæðir”.

Margir efuðust um þetta og gagnrýndu Sigmund Davíð fyrir lýðskrum, sérstaklega þegar hann tengdi þetta við möguleikann á að lækka skuldir heimilanna. Hart var gengið að honum í fjölmiðlum (sjá t.d. hér).

Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms lagði grundvöllinn að góðri samningsstöðu ríkisins, með því að loka þrotabúin bak við gjaldeyrishöftin. Þar voru áform um að nýta þá samningsstöðu, til hagsbóta fyrir þjóðarbúið.

Hins vegar gerðu vinstri flokkarnir þau mistök í kosningabaráttunni að tala ekki um slík áform og veitast í staðinn að Sigmundi Davíð. Þeir misstu fótanna í pólitíkinni og töpuðu sókarfæri sem Framsókn nýtti sér hins vegar til fulls.

Framsókn varð kröftugur talsmaður velferðarstefnu og bættrar afkomu heimilanna, sem hún vildi setja í forgang. Að þessu leyti hefði Framsókn átt að eiga meiri samleið með vinstri og miðju flokkunum en raun varð á.

Samfylkingin fjandskapaðist sérstaklega í garð Framsóknar og boðaði fyrst og fremst aðild að ESB, sem allsherjarlausn á öllum vanda Íslendinga. Það voru stór mistök og flokkurinn galt afhroð í kosningunum. Framsókn myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki og þarf nú að berjast við þá um flestar framfarir í velferðarmálum heimilanna.

Margt hefur þó heppnast ágætlega hjá núverandi stjórnvöldum, rétt eins og líka gildir um vinstri stjórnina. Hún skilaði góðum árangri í mörgum mikilvægum málum, í einstaklega erfiðri stöðu, þó ekki tækist allt sem að var stefnt.

Saman hafa báðar þessar ríkisstjórnir skilað Íslandi á mun betri stað eftir hörmungar hrunsins. Fólk á að meta framlag beggja ríkisstjórna en ekki tala pólitíska andstæðinga niður út í eitt, eða gefa skít í alla stjórnmálamenn, nema þá óþekktu og óreyndu (Pírata).

 

Loforðin efnd

Og nú þegar samningar við erlendu kröfuhafana eru að komast í höfn þá blasir við að Sigmundur Davíð er með pálmann í höndunum.

Hann hefur þegar efnt loforðið um skuldalækkun til heimilanna (þó upphæðin hefði mátt vera meiri og framlag stjórnvalda gildara – en þar er þó meira við Sjálfstæðisflokkinn að sakast).

Sigmundur Davíð hefur líka efnt það sem hann sagði um fyrirhugaða sókn gegn kröfuhöfunum fyrir hönd ríkissjóðs.

Kröfuhafarnir munu skila um 400 milljörðum í ríkissjóð og ýmsum öðrum verðmætum með stöðugleikaframlögum, sem hjálpa við að tryggja stöðugleika, þó hluti eigna kröfuhafanna fari úr landi, nú og síðar meir.

Það er vonum framar.

Við skulum heldur ekki gera of mikið úr því, að stjórnvöld og Seðlabankinn hafa að því er virðist ýkt ávinninginn af væntanlegu samkomulagi um stöðugleikaframlögin í kynningu sinni, með oftalningu og tvítalningum (sjá hér).

Það er líka rétt hjá InDefence-mönnum að hluta vandans er seinkað og að stöðugleikaskattur hefði skilað meiru beint í ríkissjóð. Það hefði að vísu verið mjög mikil skattlagning eigna og ef til vill óraunsæ framganga (sjá hér).

Samkomulag um þessa lausn sem liggur fyrir og Seðlabankinn hefur samþykkt er á heildina litið gríðarlega mikilvægt.

Farsæl niðurstaða virðist blasa við. Ávinningur þjóðarbúsins verður mikill og það ber að virða.

Sigmundur Davíð má sérstaklega vel við una og fólk ætti að virða framlag hans, hvar í flokki sem það stendur.

 

Síðasti pistill: Mun Ísland semja af sér?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar