Sunnudagur 08.11.2015 - 12:38 - FB ummæli ()

Tekur róttækni Ayns Rand völdin í Valhöll?

 

Útdráttur

Áhrifamenn í Eimreiðarklíku nýfrjálshyggjumanna vinna nú hörðum höndum að útbreiðslu öfgafrjálshyggju Ayns Rand á Íslandi. Hannes Hólmsteinn Gissurarson leiðir verkefnið, eins og fyrri daginn.

Þarna eru á ferðinni hugmyndir um að fjármálamenn og atvinnurekendur séu eins konar ofurmenni, sem einir geri þjóðfélaginu gagn, en aðrir annað hvort skipta ekki máli eða teljast vera “sníkjudýr”, til dæmis ellilífeyrisþegar, rikisstarfsmenn og öryrkjar.

Hugmyndir Ayns Rand réttlæta óvenju róttæka einstaklingshyggju, með áherslu á sérhyggju, græðgi og yfirstéttadekur, en hafna lýðræði, kristinni trú, náungakærleika og samúð.

Bandarískir auðmenn hafa tekið þessar hugmyndir upp á arma sína á síðustu árum og styðja fjárhagslega við útbreiðslu þeirra í Bandaríkjunum – og raunar víðar um hinn vestræna heim. Það gera þeir í áróðursskyni, til að grafa undan lýðkjörnu ríkisvaldi og velferðarríki, um leið og þeir vilja styrkja stoðir eigin auðræðis.

Sú staðreynd að það er að hluta sama fólkið sem stendur að þessu nýja trúboði og stóð að byltingu nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma, vekur spurningar um hvort hin sérkennilega róttækni Ayns Rand verði jafn áhrifarík í flokknum í framhaldinu og nýfrjálshyggjan varð á valdatíma Davíðs Oddssonar.

—————————————————————

Gamla frjálshyggjan toppaði með hruninu

Það er varla umdeilt að Hannes Hólmsteinn hefur verið langáhrifamesti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, fyrr og síðar.

Hann hefur verið helsti talsmaður nýfrjálshyggju í flokksstarfinu og víðar allt frá því fyrir 1980. Braut hans til áhrifa í flokknum opnaðist til fulls þegar Davíð Oddsson, hugmyndafræðilegur samherji og vinur Hannesar, varð forsætisráðherra árið 1991.

Frá um 1995 til 2008 stóðu þeir og fleiri að viðamikilli frjálshyggjutilraun á Íslandi, sem endaði með hruni fjármálakerfisins og djúpri kreppu, sem skall á almenning með fullum þunga kjaraskerðingar og aukinnar skuldabyrði. Sjá grein Hannesar um frjálshyggjutilraunina (hér).

Tilraunin fólst einkum í aukinni markaðsvæðingu, einkavæðingu, fjármálavæðingu, minni ríkisafskiptum (afskiptaleysisstefnu) og skattafríðindum til atvinnurekenda og fjárfesta, samhliða rýrnun reglna og opinbers eftirlits.

Þessi tilraun leiddi til aukins frelsis fyrir fjárfesta og atvinnurekenda og verulega aukins ábata fyrir þá. En öðru fremur leiddi hún til óhófs og brasks með lánsfé sem á endanum drekkti þjóðarbúinu í skuldum. Eftirlitsstofnanir (Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið) brugðust með öllu í að verja þjóðina gegn óhófi og græðgi fjármálaaflanna.

Skuldasúpan gat svo af sér hrunið, þegar ekki var lengur hægt að halda braskinu áfram, með enn meiri skuldasöfnun.

Ætla mátti að nýfrjálshyggjumenn hefðu séð að sér í ljósi skelfilegrar reynslu þjóðarinnar af frjálshyggjutilrauninni og hruninu og mildað hugmyndafræði sína. Þeir hefðu átt að sýna vilja til að læra af mistökunum og tryggja varfærnislegri framvindu í framtíðinni.

En svo var ekki.

Þeir þverneituðu allri ábyrgð á því sem afvega fór, jafnvel þó pólitík þeirra hefði varðað leiðina að hruni. Og jafnvel þó frjálshyggjuleiðtoginn mikli, Davíð Oddson, hefði sem seðlabankastjóri verið æðsti embættismaður fjármálakerfisins, sem hrundi á hans vakt.

Nei, í staðinn gáfu þeir í. Reyndu fyrst að koma sök á hruninu á eina fjölskyldu í Reykjavík sem þeim var í nöp við – og síðan á útlendinga. Sök þeirra síðarnefndu átti að vera sú, að hafa neitað að bjarga íslenska bankakerfinu frá hruni eftir að íslenskir óreiðumenn voru búnir að reka það í risavaxið þrot, með leyfi stjórnvalda (sjá hér).

Nýfrjálshyggjan var áfram boðuð á vettvangi atvinnulífs og stjórnmála, eins og ekkert hefði í skorist. Viðskiptaráð spilar nú þegar allar sömu laglínurnar og fyrir hrun.

 

Ný sókn nýfrjálshyggjumanna – með öfgatrúboði Ayns Rand

Á kreppuárunum eftir 2008 hófu svo Hannes Hólmsteinn og félagar hans í útgáfufélagi Eimreiðarklíkunnar (Almenna bókafélaginu) að þýða og gefa út bækur bandarísku skáldkonunnar Ayn Rand. Almenna bókafélagið er meðal annars í eigu Kjartans Gunnarssonar og Baldurs Guðlaugssonar, sem báðir hafa verið áhrifamiklir í Eimreiðarklíkunni.

Hægri menn í Bandaríkjunum uppgötvuðu það á níunda áratugnum að skáldsögur Ayn Rands fólu í sér róttæka málsvörn fyrir algerlega óheftum kapítalisma og upphafningu atvinnurekenda og fjármálamanna til skýjanna. Þetta líkaði þeim og töldu að skáldsögur þessar gætu verið gagnleg verkfæri fyrir útbreiðslu enn róttækri nýfrjálshyggju en áður.

Cato Institute, áróðursveita nýfrjálshyggjuhugmynda, sem auðmennirnir David og Charles Koch hafa lengi fjármagnað, leggur nú sérstaka áherslu á útbreiðslu hugmynda Ayn Rands, asamt fleiri bandarískum áróðursveitum.

Þannig beitir Cato stofnunin sér nú m.a. fyrir því að styrkja háskóla sérstaklega fyrir að kenna skáldsögur Ayn Rand sem “heimspekirit” um kapítalisma.

Háskóli einn í North Carolina í Bandaríkjunum fékk t.d. um 65 milljón króna styrk til að setja upp námskeið í efninu og stúdentar fengu bók Ayns Rand gefins í upphafi námskeiðsins. Þetta er auðvitað ígildi þess að selja áróðursveitu aðgang að stúdentum og gera áróðursefni að námsefni við háskóla – gegn greiðslu til viðkomandi stofnunar.

Sagt er að Cato áróðursveitan og Ayn Rand Institute reki nú sérstaka utanríkisstefnu sem miðar að því að halda bókum Ayn Rands að stúdentum víða um heim, með slíkum styrkveitingum. Stundum eru bækurnar gefnar. Þetta er eins konar heimstrúboð róttækustu útgáfunnar af nýfrjálshyggjunni. Hannes Hólmsteinn var einmitt með erindi um boðskapinn í Háskóla Íslands í síðustu viku og talaði um meinta sköpunargleði ofurmenna og sníkjulíf annarra.

Hannes og útgáfufélag Eimreiðarklíkunnar eru sem sagt komnir inn á þessa línu, að breiða út boðskap Ayns Rand, sem virðist vera liður í þessu heimsátaki bandarískra auðmanna. Ég veit ekki hvort þeir fá styrk frá Cato eða öðrum slíkum áróðursveitum til verkefnisins, en slíkt er klárlega í boði. Þeir gangast fyrir ráðstefnum eða fundum um efnið meðal stúdenta (sjá hér) og dreifa þessum bókum, sem þeir upphefja sem “heimspekirit”.

Bækur Ayns Rand eru hins vegar lítið annað en dystópískar annars flokks skáldsögur, með gegnumgangandi trúboði sem réttlætir græðgi og óheftan kapítalisma.

Þetta eru hugmyndir sem styrkja auðræði en hafna algjörlega lýðræði og kristnum trúarbrögðum.

 

Speki Ayn Rand: Ofurmenni yfirstéttar gegn þjófum og sníkjudýrum

Lykilþema í skrifum Ayn Rand er, eins og áður segir, upphafning atvinnurekenda og fjármálamanna sem ofurmenna, sem eru sögð skapa auð og verðmæti samfélagsins af eigin dug einum. Aðrir eru sagðir ónytjungar  – eða skipta bara engu máli. Framlag venjulegs vinnandi fólks til verðmætasköpunarinnar telur varla með.

Af þessu verður mikið yfirstéttardekur. Allt skal gera fyrir þessa snillinga til að auðvelda þeim að auka auð sinn enn frekar – óháð því hvernig hag almennings reiðir af.

Við sáum hvernig þetta var í framkvæmd hér á Íslandi á áratugnum fram að hruni, með snillinga útrásar og fjármála í fararbroddi. Þeir keyrðu þjóðarbúið á kaf í skuldir. Einmitt þeir sem Ayn Rand og Hannes Hólmsteinn segja vera sérstaka snillinga og velgjörðarmenn! Þeir voru bara braskarar að þjóna eigin græðgi.

Síðan er í heimi Ayn Rand litið á lýðkjörið ríkisvald sem þjóf, er rænir hina miklu skapara sem fjármálamenn og atvinnurekendur eru sagðir vera, með skattlagningu fyrir sameiginlegum þörfum samfélagsins – en þær eru sagðar óþarfar.

Velferðarríkið er sagt byggja á þeim þjófnaði og gera illt verra með því að úthluta skattfé til iðjulausra ónytjunga! Enginn skilningur er sýndur á því að um sé að ræða samtryggingarkerfi, þar sem notendur greiða flestir fyrir sig sjálfir.

Þannig eru opinberir embættismenn og starfsmenn, sem fá laun af skatttekjum ríkisins, einnig taldir afætur, sem atvinnurekendur og fjármálamenn eru sagðir bera á bakinu. Örorkubótaþegar og ellilífeyrisþegar eru sérstaklega neðarlega í virðingarröðinni hjá Randistum – og kallaðir sníkjudýr!

Þetta er sem sagt heimsmyndin. Atvinnurekendur og fjármálamenn einir skipta máli. Aðrir eru sníkjudýr, sem sagðir eru lifa á yfirstéttinni. Kennarar, hjúkrunarfólk og læknar á ríkisspítölum eru taldir með flokki sníkjudýra og fólk sem hefur misst heilsuna vegna veikinda eða slysa er uppnefnt sem sníkjudýr og bótasvikarar.

Þetta er auðvitað mjög villandi mynd af velferðarríkinu sem upp er dregin, en umfram allt ruddaleg og miskunnarlaus, en svona tala Ayn Rand og fylgjendur hennar. Svona talaði Hannes Hólmsteinn í fyrirlestri sínum um daginn, þó hann reyndi til málamynda að setja smá fyrirvara við örfáa þætti í yfirgengilegasta boðskap skáldkonunnar.

 

Verður þetta stefna Sjálfstæðisflokksins?

Hannes sagði fyrir skömmu í viðtali við Reykjavík Grapevine að boðskapur Eimreiðarhópsins um aukna markaðshyggju, í anda Hayeks og Friedmans, hafi verið miklu mildari hugmyndafræði en boðskapur Randistanna. Nú sé hins vegar komið að því að harðari rödd Ayn Rands heyrist betur (sjá hér).

Nýfrjálshyggjan er þegar búin að breyta Sjálfstæðisflokknum mikið, í átt þess að vera fyrst og fremst flokkur yfirstéttarinnar, flokkur ríka fólksins. Það gerðist á tíma Davíðs.

Spurningin er nú hversu langt þetta nýja framlag Eimreiðarklíkunnar til íslenskra stjórnmála muni ná inn fyrir veggi Valhallar?

Verður ekki lengur pláss í Sjálfstæðisflokknum fyrir samstöðu með millistéttinni? Verða ellilífeyrisþegar kallaðir sníkjudýr þar á bæ? Verða langveikir öryrkjar kallaðir sníkludýr? Verður kristilegt siðgæði þurkað út úr allri hugmyndafræði flokksins? Verður auðræðið allsráðandi?

Kanski þeir sem vilja enn um sinn halda í norrænu samfélagsgerðina á Íslandi ættu að óska þessum fylgjendum öfganna hjá Ayn Rand góðs gengis innan Sjálfstæðisflokksins.

Líklegast er að þjóðinni muni ekki hugnast svona öfgafull og mannfjandsamleg pólitík.

Sjálfstæðisflokkur Hannesar Hólmsteins og Ayns Rand gæti þannig orðið enn minni en hann nú er!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar