Föstudagur 06.01.2017 - 21:39 - FB ummæli ()

Skattaskjól – skömm Íslands staðfest

Nefnd fjármálaráðherra sem falið var að leggja mat á umfang eigna Íslendinga í erlendum skattaskjólum skilaði skýrslu sinni til ráðherra fyrir kosningar og var hún birt loks í dag (sjá hér).

Niðurstaðan er að uppsafnaðar eignir Íslendinga í skattaskjólum sé á bilinu 350-810 milljarðar króna, með tæplega 600 milljarða sem líklegustu niðurstöðu. Sex hundruð þúsund milljónir króna. Það er hátt í 30% af vergri landsframleiðslu.

Nefndin setur þó þann fyrirvara að upphæðin sé vanmetin vegna líklegra umsvifa íslenskra hlutafélaga sem eru með alþjóðlega starfsemi og starfsmannaleiga sem ekki fengust upplýsingar um.

Norkun skattaskjóla gengur öðru fremur út á að auðmenn (eigendur fyrirtækja, fjárfestar og stjórnendur) nýta sér leyndar leiðir til að koma fé undan skattgreiðslum og ábyrgðum.

Þær opinberu vísbendingar sem hægt er að fá hljóta því alltaf að vera vanmetnar – umfram það líklega vanmat sem nefndin vísar til.

En ef byggt er á hinu mjög svo varkára mati nefndarinnar þá er ljóst að þjóðin hefur orðið af miklum skatttekjum, sem nema allt að 6,5 milljörðum króna á ári.

Tapaðar skatttekjur ríkisins á árunum 2006 til 2014 eru samanlagt um 56 milljarðar króna, að mati nefndarinnar. Og þetta er augljóst vanmat.

Upphæðin myndi án efa duga til að fjármagna byggingu nýs Landsspítala.

 

Fjórfalt meira á Íslandi en í Danmörku

Nefndin vísar einnig til niðurstöðu danskrar rannsóknar af sama toga og bendir sá samanburður til að fé Íslendinga á skattaskjólum hafi verið um fjórfalt meiri en fé Dana, miðað við hvern íbúa.

Íslendingar voru ekki bara miklu fleiri í Panama-skjölunum en grannþjóðirnar heldur fluttu þeir einnig miklu meira fé í erlend skattaskjól – undan sköttum og ábyrgðum.

Nefndin segir: “Ekki leikur vafi á því að skráning eigna á aflands- og lágskattasvæðum til þess að forðast eðlileg skattskil og tryggja leynd er andstæð hagsmunum alls almennings og hefur í för með sér margvíslegan óbeinan skaða sem útilokað er að meta að fullu til fjár.”

Auðveldara var fyrir íslenskt efnafólk að koma fé í erlend skattaskjól en almennt var í grannríkjunum. Nýfrjálshyggja Sjálfstæðismanna ýtti beinlínis undir þetta. Lausungin varð því meiri hér.

Hvað ætla stjórnvöld að gera til að fyrirbyggja slík undanskot yfirstéttarinnar frá skattskyldu og ábyrgðum? Hvernig verður tekið fyrir slíkt siðleysi og spillingu?

Almenningur sem stendur skil á sínum gjöldum og skyldum á heimtingu á að fá svör við því.

Almennir skattborgarar greiða meira vegna þessara og annarra undanskota frá skatti.

Hvers vegna skyldu venjulegir borgarar yfir höfuð sætta sig við að greiða skatta þegar yfirstéttin fer fram með þessum hætti?

 

Síðasti pistill:  Sigur Björgólfs er ósigur Íslands

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar