Föstudagur 30.12.2016 - 13:41 - FB ummæli ()

Sigur Björgólfs er ósigur Íslands

Lyfjafyrirtækið Actavis hefur sagt upp nærri 300 hundruð starfsmönnum síðan 2015 og hættir nú stórum hluta starfsemi sinnar á Íslandi (sjá hér og hér).

Actavis varð til með samruna tveggja íslenskra lyfjafyrirtækja, Pharmaco og Delta, sem nýttu sér séríslenskar aðstæður til árangursríkrar framleiðslu samheitalyfja

Þetta voru nýsköpunarfyrirtæki sem uxu upp úr íslenskum jarðvegi. Snjallir frumkvöðlar komu þeim á legg og gerðu úr þeim verðmæti. Það gagnaðist bæði íslenskum starfsmönnum og eigendum fyrirtækjanna.

Þjóðarbúið hafði af þessari starfsemi nokkrar tekjur – sem var eðlilegt því það lagði til grunninn og efniviðinn í starfsemina.

Svo kom spákaupmaðurinn Björgólfur Thór Björgólfsson inn í myndina. Hann keypti sig inn í fyrirtækið með lánsfé (fyrst í Pharmaco og síðar keypti hann aðra hluthafa út úr Actavis með risaláni frá Deutsche Bank). Fór illa í hruninu en fékk miklar skuldir afskrifaðar eftir hrun og seldi loks fyrirtækið endanlega til alþjóðlegs fyrirtækis (fyrst til Watsons og þaðan fór það til Teva).

Þeir hafa nú ákveðið að hætta allri framleiðslu lyfja Actavis á Íslandi. Brátt mun starfsemi Actavis á Íslandi heyra sögunni til.

Björgólfur Thór græðir á sölu fyrirtækisins, en Ísland tapar starfseminni úr landi. Mörg hundruð starfsmanna hafa misst álitlega vinnu og þjóðarbúið tapar tekjum af starfseminni. Þetta er sigur Björgólfs og kanski örfárra annarra minni eigenda.

Stjórnendur voru að einhverju leyti færðir yfir til Teva, að því er virðist til málamynda meðan umskiptin gengu yfir. Forstjórinn missti til dæmis starf sitt nýlega, eftir innan við tveggja ára forstjórastarf yfir samheitalyfjasviði Teva (sjá hér).

Þessi saga gengur þvert á forskrift Adams Smiths um að eigin hagsmunir atvinnurekenda fari saman við samfélagshagsmuni, eins og fyrir tilstilli “ósýnilegrar handar”.

Í stað þess að græðgi eins kapítalista geri samfélaginu gagn þá einmitt leiðir græðgi hans til mikils taps starfsmanna og samfélagsins alls – það er þegar spákaupmennskan er leiðarljósið frekar en uppbygging framleiðslu til langs tíma.

Einkahagur ræður för og skaðar almannahag.

 

Trumpari í sekknum!

Svona virkar hinn alþjóðlegi kapítalismi nú á dögum. Spákaupmenn taka yfir heilbrigða atvinnustarfsemi, braska með hana sjálfum sér til hagsbóta – og samfélagið tapar.

Fjárfestar græða en almenningur tapar störfum og tekjum. Ríkasta eina prósentið eykur tekjur og eignir sínar enn meira…

Þetta er það sem hefur skapað hina miklu óánægju millistéttarfólks í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.

Þetta er megin ástæðan fyrir sigri Donalds Trump í forsetakjörinu í Bandaríkjunum. Hann lofaði að sækja aftur störf sem hafa tapast með þessum hætti.

Trump mun að vísu ekki stöðva spákaupmennsku og eignabrask né flótta fyrirtækja til láglaunalanda, enda er hann sjálfur braskari af þessum toga.

Það er því viðbúið að kjósendur Trumps úr milli og lægri stéttum hafi keypt köttinn í sekknum! Val hans á valinkunnum auðmönnum í ráðherraembætti sýnir það með óyggjandi hætti.

Auðræðið í Bandaríkjunum mun væntanlega eflast enn frekar í valdatíð Trumps.

Þetta virðist vera óumflýjanleg þróun um þessar mundir – sem hlýtur þó að enda illa.

Fjármálaöflin hafa allt of mikil völd til að skara eld að eigin köku, jafnvel þó það skaði samfélagið. Þau orsökuðu fjármálakreppuna 2008 með óhóflegri græðgi og ósjálfbærri skuldasöfnun. Þau eru enn á sömu leið – þó hægar fari fyrst um sinn.

Samfélagið og fjölmiðlar þess eru svo villuráfandi að þeir eru vísir með að heiðra svona spákaupmenn sem höfunda “viðskipta ársins” fyrir svona starfsemi.

Sumir virðast sem sagt telja að slíkt brask einstakra fjáraflamanna sé samfélaginu til góðs.

Kanski við ættum að leiða hugann lítillega að þessari þróun á nýju ári – áður en of mikið tapast út landi.

Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu sem er að líða.

Gleðilegt og farsælt nýtt ár!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar