Þriðjudagur 13.11.2018 - 16:07 - FB ummæli ()

Villandi tal um vinnutíma

Hagfræðingur Viðskiptaráðs fór geyst í gær og lagði út af nýrri tilraun Hagstofu Íslands til að meta framleiðni.

Fékk þessi ágæti maður þá niðurstöðu að Ísland væri nú með einna stystu vinnuvikuna meðal OECD-ríkjanna, í stað þess að vera með eina af þeim allra lengstu, eins og hagskýrslur hafa sýnt um áratuga skeið (sjá hér).

Þetta var heldur villandi upphlaup hjá þeim Viðskiptaráðs-mönnum.

Tölur Hagstofunnar um framleiðni byggja meðal annars á áætluðum tölum um heildarfjölda greiddra vinnustunda á ári hverju og deila þeir svo í það með áætluðum tölum um heildarfjölda þeirra sem vinnuna framkvæma. Bæði er mat á slíkum heildartölum nokkuð lauslegt og auk þess eru ekki allar unnar stundir greiddar.

Slíkum tölum (bæði hjá Hagstofu Íslands eða OECD) fylgir sá skýri fyrirvari að þær henti ekki til að bera saman fjölda vinnutíma milli landa (sjá hér).

Það eru því engar forsendur fyrir þeim ályktunum sem hagfræðingur Viðskiptaráðs dró af þessum nýju mælingum Hagstofunnar á þróun framleiðni milli ára.

Nokkur einkenni hafa fylgt íslenskum vinnumarkaði um langt skeið. Þessi eru helst:

  • Íslendingar hafa meiri atvinnuþátttöku en flestar vestrænar þjóðir
  • Íslendingar hafa lengri starfsævi (vinna til hærri aldurs) en flestar vestrænar þjóðir
  • Algengara er á Íslandi að tvær fyrirvinnur séu á heimilum, enda er atvinnuþátttaka íslenskra kvenna með allra mesta móti á Vesturlöndum
  • Vinnandi fólk á Íslandi hefur um langt skeið unnið lengri vinnuviku en flestar vestrænar þjóðir
  • Íslendingar hafa lengi varið afar stórum hluta af lífi sínu til vinnu

Þetta síðastnefnda er nú á dögum einkum byggt á mælingum vinnumarkaðskannana á vinnutíma, sem eru framkvæmdar á sama hátt í öllum Evrópuríkjunum. Hagstofa Íslands notar sömu aðferðir og spyr eins og hagstofur annarra Evrópulanda um lengd vinnutíma hjá svarendum.

Samkvæmt upplýsingum Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins, er matartími almennt ekki talinn til vinnutíma í þessum könnunum. En lykilatriði fyrir túlkun þessara talna um meðallengd vinnuvikunnar í aðalstarfi er, að það eru svarendur sjálfir sem lýsa lengd eigin vinnutíma í síðustu viku eða að jafnaði.

Þeir eru almennt að svara því, hversu löngum tíma þeir verja í vinnu eða á vinnustað – óháð því hvort þeir séu að strita að staðaldri. Síðan eru ýmsar hefðir í ólíkum löndum um hvíldartíma og neyslutíma, bæði fjölda og lengd, sem og um hversu kröftuglega unnið er frá einni stund til annarrar.

Hér að neðan má sjá nýjustu tölur Eurostat um meðallengd vinnuvikunnar í aðalstarfi hjá fullvinnandi launafólki, sem og hlutfall þeirra sem teljast hafa “langa vinnuviku”. Síðan vinna margir í aukastörfum til viðbótar, ekki síst á Íslandi.

Niðurstaðan er sú, að launafólk á Íslandi er með næstlengstu vinnuvikuna í aðalstarfi í Evrópu, á eftir Tyrklandi. Ísland er einnig með næsthæsta hlutfall þeirra sem Eurostat telur hafa langa vinnuviku (þríhyrningarnir á myndinni).

Hinar norrænu þjóðirnar eru á hinum enda stigans, bæði með einna stystu meðal vinnuvikuna og lægst hlutfall fólks sem er með langa vinnuviku (ljósbláu súlurnar).

Þetta eru bestu mælingarnar sem við höfum í dag til að svara því hve löng vinnuvikan er hjá vinnandi fólki á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum.

Í sérkönnun meðal verkafólks í ágúst á síðasta ári kom fram að fullvinnandi einstaklingar í hópi verkafólks voru að jafnaði með 46 stunda vinnuviku (Gallup könnun fyrir Flóabandalagið 2017).

Íslenskt verkafólk sem er á lágum launum hefur iðulega þurft að stóla á umtalsverða yfirvinnu og aukavinnu til að ná endum saman.

Þannig er það því miður enn.

 

Síðasti pistill: Launakröfur verkalýðshreyfingarinnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar