Föstudagur 9.10.2015 - 15:35 - FB ummæli ()

Innanlandsflugvellir – TAKA 2

Stjórnendur Isavia og fulltrúar hlutaðeigenda ráðuneyta mættu á fund fjárlaganefndar í dag til að ræða stöðu innanlandsflugvalla vítt og breitt um landið. Sambærilegur fundur var haldin fyrir ári síðan og fundarefnið var það sama.

Rekstur millilandsflugs hjá Isavia stendur vel fjárhagslega og skilar afgangi á meðan flugvellir og önnur starfsemi í innalandsflugi gengur erfiðlega. Eftirlitsstofnun EFTA hefur lagst gegn því að millilandaflugið niðurgreiði innanlandsflugið. Þess vegna ákvað fjárlaganefnd að fara þá leið að leggja til að ISAVIA greiddi arð í ríkissjóð sem síðan yrði varið til flugvallaframkvæmda á landsbyggðinni.

Isavia hefur staðið í miklum framkvæmdum í Keflavík vegna stóraukins ferðamannafjölda. Forsvarsmenn fyrirtækisins báru sig mjög illa yfir því að þurfa að greiða arð í ríkissjóð og sögðu að slíkt setti í hættu fjárfestingar í Keflavík. Því ákvað fjármálaráðuneytið að ganga ekki á eftir því að Isavia greiddi arð í ríkissjóð.

Nú ári síðar erum við stödd á sama stað. Fjárfestingarþörfin er gríðarlega í Keflavík á sama tíma og ekkert fjármagn er eyrnamerkt til uppbyggingar á innanlandsflugvöllum á næsta ári. Ekkert hefur gerst í því að koma þessum málum í framtíðarfarveg sem tryggir uppbyggingu innanlandsflugvalla.

Það þarf nauðsynlega að byggja upp innanlandsflugvellina og því er ekki hægt að una óbreyttu ástandi.

Fjárlaganefnd verður því að leggja til sömu tillögu og gert var á síðasta ári með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun. Líklega verður að hækka fjárhæðina og gera arðsemiskröfu á Isavia upp á ? milljónir og leggja til að fjármagnið verði notað til innanlandsflugvalla. Isavia mun síðan gagnrýna ákvörðun fjárlaganefndar, fjármálaráðuneytið dregur arðsemiskröfuna líklega til baka en fjármagnið til framkvæmda stendur.

Svo er bara að málin verði komin í framtíðarfarveg á næsta ári og fjármagn verði tryggt til innanlandsflugvalla. Ef ekki þá er það TAKA 3 að ári, svo gáfulegt sem það nú er.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.9.2015 - 10:13 - FB ummæli ()

Landsbankinn – Hvert skal stefna?

Umræða hefur verið undanfarið um Landsbankann. Fyrst vegna áætlana forsvarsmanna bankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins en dregið var í land eftir mikla gagnrýni. Nú hafa farið af stað umræður um hvort selja skuli hlut í Landsbankanum og nota fjármagnið í það mikilvæga verkefni að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

 

Fyrri ríkisstjórn stefndi að sölu

Fyrri ríkisstjórn tók ákvörðun um að afhenda tvo af stærstu bönkunum (Arion Banka og Íslandsbanka) til erlendra vogunarsjóða. Það er auðvitað fagnaðarefni að margir þeirra sem það gerðu skuli nú sjá að sér og viðurkenna að þeir hafi gert mistök á sínum tíma. Frá þessum tíma hafa þessir bankar skilað tugum milljarða í hagnað til sinna eigenda. Fyrri ríkisstjórn hafði jafnframt þá stefnu að selja Landsbankann enda er heimild um sölu ekki ný í fjárlögum. Þetta kom oft fram á síðasta kjörtímabili.

Hérna má t.d. sjá viðtal við Steingrím J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra þar sem hann sagði að stefnt skyldi að sölu Landsbankans. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra tók í sama streng og vildi reyndar ganga lengra og sagði að ríkið ætti að stefna að því að eiga einungis 33% hlut í Landsbankanum.

 

Áfram banki „allra landsmanna“

Framsóknarflokkurinn hefur samþykkta stefnu um að stefnt skuli að því að Landsbankinn verði rekinn á öðrum forsendum, Frosti Sigurjónsson hefur farið fyrir þeirri umræðu fyrir hönd flokksins. Fyrir þessu hafa verið færð ýmis almenn rök.

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga í þessari umræðu. T.d. gæti verið skynsamlegt að klára uppgjör við þrotabú föllnu bankanna áður en lengra er haldið. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvað kemur út úr þessu uppgjöri. Síðastliðið ár þá hafa nokkrir af stærstu sparisjóðunum verið yfirteknir eða sameinaðir stóru bönkunum þremur. Getur Landsbankinn geti orðið bakhjarl Sparisjóðanna?

 

Eigum við að halda stefnu fyrri ríkisstjórnar?

Er skynsamlegt að halda stefnu fyrri ríkisstjórnar þegar kemur að sölu Landsbankans og nota söluandvirðið til að niðurgreiða skuldir ríkissjóðs? Eða eigum við að stefna að því að Landsbankinn verði áfram undir stjórn almennings? Hvernig tryggjum við best að Landsbankinn verði rekinn með hagsmuni almennings að leiðarljósi?

Það er mikilvægt að fram fari umræða í íslensku samfélagi á næstu mánuðum um þessar og fleiri lykilspurningar.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.8.2015 - 10:51 - FB ummæli ()

Stýrivextir og Seðlabankinn

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í síðustu viku að hækka stýrivexti. Það eru nokkur atriði sem hafa komið upp í hugann eftir þessa ákvörðun.

Seðlabankinn tekur sérstaklega fram að þeir séu að hækka stýrivexti vegna kjarasamninga. Ég sakna þess að þeir taki fram að verslanir og fyrirtæki hafi ákveðið að hækka vörur og þjónustu of mikið. Hafa olíufélögin skilað lækkun heimsmarkaðsverðs? Af hverju hafa innflutningsaðilar raftækja ekki lækkað verðin eftir nýlegar tollalækkanir? Þetta hefði verið sanngjörn gagnrýni í stað þess að sparka í saklaust launafólk sem sannarlega átti skilið kjarabætur.

Það er full þörf á því að skoða peningastefnu Íslands og raunar ótrúlegt að slík endurskoðun skuli ekki hafa farið fram strax eftir efnahagshrun. Ástæða þess er væntalega sú að þáverandi ríkisstjórn hafði ofurtrú á að Evran myndi leysa þetta líkt og annað í íslensku samfélagi og því þyrfti ekkert að skoða þessi mál. ESB-sinnar hafa keppst við það undanfarið að blása lífi í þessa umræðu og halda því fram að ekki sé mögulegt að ná niður vöxtum nema ganga í ESB og taka upp Evru. Staðreyndin er að það eru mjög breytilegir vextir innan ESB.

Þegar rætt var um afnám fjármagnshafta á síðasta kjörtímabili þá héldu margir ESB sinnar því fram að ekki væri hægt að afnema fjármagnshöft nema með því að ganga í ESB og taka upp evru. Þegar ríkisstjórnin kynnti frumvörp um afnám fjármagnshafta sl. vor þá voru sömu aðilar fljótir að flýja undan þessum málflutningi. Það sama á við um vaxtamálin, vandinn liggur ekki í krónunni frekar en lausnin liggur ekki í evrunni.

Það getur ekki verið markmið að hafa hér háa vexti. Ráðast svo í aðgerðir til að hindra það að spákaupmenn sigli hingað með gull í von um mikinn skyndigróða líkt og Seðlabankinn kynnti í síðustu viku. Það þarf að ráðast að rótum vandans. Vandinn er m.a. verðtryggingin. Efnahagsstjórnin virkar ekki sem skyldi þegar við búum við verðtryggingu skulda. Það er sama hvað stýrivextir eru hækkaðir mikið, þegar við deilum hækkuninni á allan lánstímann líkt og gert er í dag þá hefur hún til skamms tíma lítil sem engin áhrif. Þetta var m.a. ástæða þess að við náðum ekki að kæla hagkerfið þegar á þurfti að halda fyrir hrunið.

Rót vandans varðandi háu vextina er heimatilbúinn og eðlilegast hefði verið að umræða yrði tekin eftir efnahagshrunið. Það þarf strax að hefjast lausnamiðuð umræða án upphrópanna um þessi mál. Það er grunnur þess að við þá náum að vinda ofan af þessu séríslenska vandamáli. Það væri líka skynsamlegt að setja inn í þá umræðu hugmyndir sem verið hafa hjá Frosta Sigurjónssyni o.fl. um betra peningakerfi.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.8.2015 - 15:38 - FB ummæli ()

Landsbankinn þarf að verða banki allra landsmanna

c_documents_and_settings_aslaug_desktop_landsbanki50ara

Glæsileg bygging Landsbankans á Ísafirði er í dag að hluta notuð sem orlofsíbúð.

Forsvarsmenn Landsbankans hafa gefið það út að líklega verði fyrirhugaðri byggingu á höfuðstöðvum slegið á frest. Ástæðan er sú að margir hafa tjáð sig um málið og gagnrýnt fyrirhugaða byggingu. Það er vel að forsvarsmenn Landsbankans séu að draga í land en er nóg að fresta málinu?

 

Það þarf að breyta um grunnstefnu

Það er ekki nóg að stjórnendur Landsbankans hafa hrakist undan varðandi byggingar á nýjum höfuðstöðvum. Í framhaldinu þarf að boða til hluthafafundar þar sem þessi áform eru endanlega slegin út af borðinu og lóðin margrædda verði síðan seld hæstbjóðanda.

Í framhaldinu ætti banki „allra“ landsmanna að setja af stað vinnu sem miðar að því að endurskipuleggja starfsemi bankans með það að leiðarljósi að nýta á sem hagkvæmastan hátt þær fjölmörgu byggingar sem bankinn á víðsvegar um landið. Ég er sannfærður um að ítarleg skoðun á þessari blönduðu leið myndi sýna fram á hagkvæmni samanborið við að byggja risastórar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins.

Það þarf líka að taka almenna upplýsta umræðu um það í samfélaginu af hverju Landsbankinn ákvað að velja margumrædda leið í stað þess að lækka veita hagstæðari kjör til almennings.

 

Störf án staðsetningar – Kröfuhafar standa sig betur en Landsbankinn

Landsbanki, banki allra landsmanna, ætti að hafa forystu í því að nýta ljósleiðaravæðingu landsins í stað þess að þjappa öllu á eina dýra lóð í 101 Reykjavík. Það á að skoða hagkvæmni þess að efla þær starfsstöðvar sem bankinn á í einhverjum glæsilegustu byggingum hvers byggðalags.

Landsbankinn breytir útibúum í orlofsíbúðir fyrir starfsfólk líkt og gert var rétt fyrir hrun á Ísafirði. Ætli það hefði ekki verið mögulegt að halda úti starfsemi á Ísafirði í stað þess að breyta útibúinu í orlofshúsnæði fyrir starfsfólk úr Reykjavík?

Af hverju horfir Landsbankinn ekki til þess sem áunnist hefur í fjarvinnslu. Ég hygg að Arion Banki, banki kröfuhafanna væri ekki að notfæra sér fjarvinnslu á Siglufirði nema af því væri hagkvæmni. Sú starfsemi hófst árið 2000 og hefur reynslan verið mjög jákvæð allar götur síðan.

Meðan Landsbankinn er eign almennings þá á almenningur allt í kringum landið fullan rétt á því að bankinn leitist við að uppfylla sitt gamla slagorð „banki allra landsmanna“.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.7.2015 - 13:50 - FB ummæli ()

Hagræðing og „ekki“ hagræðing Landsbankans

Áform Landsbankans, banka allra landsmanna, að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni dýrustu lóð landsins hefur verið gagnrýnd af fjölmörgum aðilum. Landsbankinn er í almenningseigu og það er á ábyrgð okkar allra að hann fari vel með almannafé.

Landsbankinn ber við miklu fjárhagslegu hagræði af þessari framkvæmd. Þrátt fyrir að ég hafi efasemdir um skynsemi þess að færa alla starfsemi bankans á einn stað þá skulum við gefa okkur að af þessu hljótist umrætt hagræði.

Ef bankinn væri einungis að hugsa þetta út frá hagræðingu væri ekki skynsamlegra að leita að ódýrara húsnæði á ódýrari lóð? Í umræðu um málið hefur verið bent á hagkvæmari kosti, gefum okkur að bankinn gæti komist af með höfuðstöðvar sem kosti hann 2 milljarða í stað þeirra 8 milljarða sem áætlanir gera ráð fyrir. Hvað væri hægt að gera fyrir þá fjármuni?

 

Dugar til að reka eitt útibú í 100-150 ár!

Á undanförnum árum höfum við fylgst með því hvernig Landsbankinn hefur jafnt og þétt verið að fækka útibúum einmitt í nafni hagræðingar. Á árinu 2012 var t.d. með einni aðgerð ákveðið að loka nokkrum útibúum og áætlaður meðalsparnaður samkvæmt fréttum frá bankanum var 50 milljónir á hvert útibú.

Ef Landsbankinn færi hagkvæmari leið varðandi nýjar höfuðstöðvar þá hefði verið hægt að halda opnu einhverju af þeim fjölmörgu útibúum sem bankinn lokaði í nafni hagræðingar í 100-150 ár. Var verið að skerða þjónustu vítt og breitt um landið til að safna fyrir útborgun í nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins? Er nema von að margir spyrji sig hvort menn séu algerlega úr sambandi við raunveruleikann?

Stjórnendur bankans hafa heldur dregið í land varðandi fyrirhugaða uppbyggingu og það er vel. En verði ráðist í þessa framkvæmd þá er það hrein og klár ögrun við almenning, enda bankinn eigna okkar allra eftir að ríkið endurreisti hann við hrun efnahagskerfisins.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.1.2015 - 13:48 - FB ummæli ()

Fjármálastofnanir, sektir og samfélagsábyrgð

Ekki er vafi  á því að fjármálastofnanir voru þeir aðilar innanlands sem báru mestu ábyrgð varðandi hrun fjármálakerfisins haustið 2008.  Ljóst er nú að ekki var nógu varlega farið í góðærinu, bæði hér á landi og í hinum alþjóðlega fjármálaheimi. Nú á eftir að ganga frá þrotabúum Kaupþings, Glitnis og Landsbankans.  Heildareignir þrotabúanna eru rúmlega 2500 milljarðar.  Reiðufé búanna eru tæpir 1400 milljarðar.

Íslenskir bankar voru ekki einu bankarnir á síðasta áratug sem reknir voru á vafasaman hátt. Margvísleg mál er varða fjármálastofnanir hafa komið upp bæði austan hafs og vestan. Samkvæmt frétt breska blaðsins Guardian frá nóvember sl. voru sektir á breska og bandaríska banka á árunum 2009-2013 um 34.000 milljarðar í íslenskum krónum. Í fréttum síðan í nóvember er sagt frá sektum upp á 2 milljöðrum punda en það eru um 400 milljarðar króna.

Af þessu má sjá að ríkisstjórnir geta látið banka sæta samfélagslegri ábyrgð sé pólitískur vilji fyrir hendi og sterk forysta.

 

Skipt um stefnu gagnvart bankavaldinu

Á meðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var við völd var lítið sem ekkert gert til að knýja þrotabú gömlu bankanna að leggja sitt af mörkum til að bæta fyrir tjónið sem bankarnir bera sannanlega ábyrgð á. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG fannst aðrir hlutir brýnni en að rétta hlut almennings gagnvart fjármálakerfinu. Ríkisstjórn sem átti að heita vinstristjórn en hún sýndi fjármálastofnunum auðmýkt og undirgefni.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar breytti um stefnu gagnvart bönkum. Ríkisstjórnin ákvað að bankar skyldu látnir sæta aukinni ábyrgð og leggja fram sanngjarnan skerf til reksturs samfélagsins. Samkvæmt álagningaskrá ríkisskattstjóra síðast liðið haust munu bankarnir greiða mest í skatta og sitja þrír bankar í efstu sætunum; Kaupþing, er greiðir 14,6 milljarða, Landsbankinn  greiðir tæpa 13 milljarða og Glitnir greiðir tæpa 12 milljarða.

Vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur veitti fjármálastofnunum nánast frítt spil en núna er annað upp á teningunum. Meirihluti framsóknarmanna og sjálfstæðismanna á alþingi gerði fjárlagafrumvarpið þannig úr garði fyrir árið 2015 að áætlað er að tekjur ríkissjóðs af bankaskatti verði nálægt 39 milljörðum króna fyrir árin 2014 og 2015.

Það gengur ekki þrautalaust að knýja á um samfélagslega ábyrgð bankanna. Þrotabú gömlu bankanna hafa haft sig í frammi í umræðunni og  þrotabú Glitnis hefur kært bankaskattinn til ríkisskattsstjóraþ Þá eru ónefnt að margir telja að þrotabúin kaupi margvíslega aðkeypta þjónustu frá aðilum sem reyna sitt til að hafa áhrif á niðurstöðu mála í þágu bankanna.

En ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur staðið föst á þeirri stefnu sinni að bankarnir eiga ekki að vera stikkfrí frá því að skila til samfélagsins eðlilegu framlagi.

 

Sterk staða Íslands

Eitt stærsta verkefni stjórnvalda í dag er afnám gjaldeyrishafta. Markmið ríkisstjórnarinnar er að afnám haftanna valdi ekki kollsteypu í fjármálum þjóðarinnar. Veruleg undirbúningsvinna er að baki áætlunum um afnám hafta. Vinna þar undir handarjaðri ríkisstjórnar og Seðlabankans bæði erlendir og íslenskir sérfræðingar.

Þrotabú bankanna og uppgjör þeirra eru veigamiklir þættir í afnámi gjaldeyrishaftanna. Til skamms tíma var talað um að ef þrotabúin legðu ekki fram raunhæfar tillögur um uppgjör á búunum, þar sem tekið væri tillit til fjármálalegs stöðugleika, þá yrðu búin knúin til gjaldþrotakskipta.

Eftir því sem vinnu ríkisstjórnar vindur fram er orðið skýrara að fleiri verkfæri koma til greina en gjaldþrotaskipti til að halda ábyrgð að þrotabúunum. Útgönguskattur á fjármagnsflutninga er eitt ráð sem þekkt er alþjóðalega. Fordæmi eru um útgönguskatta á fjármagn upp á 20 til 50 prósent. Hugmyndir þessa efnis voru í umræðunni á síðasta kjörtímabili m.a. hjá Lilju Mósesdóttur o.fl. en fyrri ríkisstjórn fékkst aldrei til að ræða þessa leið.

Lykilþáttur í sterkri stöðu Íslands er að lagaramminn okkar er traustur og við búum við krónu sem gjaldmiðil. Þrotabúin verða aðeins gerð upp í íslenskum krónum. Erlendir kröfuhafar þrotabúanna eru hægt en örugglega að átta sig á því að ríkisstjórninni er full alvara að standa vörð um hagsmuni almennings á Íslandi. Það sést til dæmis á því að ýmsir þeir sem áttu stórar kröfur í þrotabúin seldu kröfur sínar seinni hluta ársins.

 

Bankarnir verða að læra að haga sér

Þrotabú föllnu bankanna og afnám haftanna eru tímafrek umræðuefni. Kastljósinu er síður beint að fjármálastofnunum sem endurreistar voru eftir hrun á grunni gömlu bankanna: Arion, Íslandsbanki og Landsbaninn nýi. Fyrstu dagar og vikur nýs árs leiða á hinn bóginn í ljós að ekki er vanþörf á að skerpa skilning starfandi banka á samfélagslegri ábyrgð sinni.

Þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hafi lækkað vexti undanfarið er misbrestur á að bankar hafi lækkað vexti til viðskiptavina sinna. Sumir bankar ganga lengra en að láta undir höfuð leggjast að skila stýrivaxtalækkun til skuldara.  Þannig hækkaði Arion banki um áramótin vexti á verðtryggðum íbúðarlánum. Ekki voru innlánsvextir  hækkaðir með tilsvarandi hætti. Þar með jókst vaxtamunur bankans á kostað viðskiptavina sinna, sparifjáreigenda og skuldara.

Á síðasta ári óx vaxtamunur Arion banka um 0,20%.  Hjá Landsbankanum og Íslandsbanka jókst vaxtamunurinn á sama tíma um 0,15%.

Tekjur bankanna jukust um tæplega milljarð vegna breytinga á vaxtamun í kjölfar lækkunar stýrivaxta, sem nú standa í 5,25%. Með þessum hætti hafa bankarnir mörg hundruð milljónir króna af almenningi.Verkalýðsfélög, t.d. VR, láta málið til sín taka og hafa beint fyrirspurnum til bankanna en fátt verið um svör. Augljóst er að bankarnir eru í þeirri stöðu að taka til sín fjármuni frá heimilunum í landinu með því að föndra við vaxtatöflurnar fyrir inn- og útlán.

Almenningur er berskjaldaður gagnvart ásæli bankanna enda haga fjármálastofnanir og þrotabú föllnu bankanna sér eins og ríki í ríkinu. Það hlýtur að vera eitt af stærstu verkefnum nýs árs að ríkisstjórn og löggjafi láti til sín taka á þessu sviði til að knýja á um samfélagslega ábyrgð bankanna.

 

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2015.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.11.2014 - 22:16 - FB ummæli ()

Fjarskipti – Orð og athafnir

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur gert tillögu til Alþingis um að veitt verði 300 milljónum til þess að hefja fyrsta áfanga framkvæmda við fyrirhugaða fjarskiptaáætlun. Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga var talsverð umræða um fjarskiptamál á landsbyggðinni. Framsóknarflokkurinn lagði þar höfuðáherslu á mikilvægi fjarskipta. Í grein sem formaður, varaformaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins skrifuðu í Morgunblaðið 30. mars 2013 sagði:

“Ríkisstjórnin ætti að hafa frumkvæði að því að kalla saman fjarskiptafyrirtækin og leggja áherslur á að nýta Fjarskiptasjóð í slíkt verkefni. Allir fjarskiptaaðilar geta veitt þjónustu á kerfinu. Mikilvægt er að allir landsmenn geti fengið jafna og góða þjónustu á sama verði. – Fyrir þessu höfum við framsóknarmenn talað. Með samstarfi allra aðila ásamt sveitarfélögunum væri hægt að ljósleiðaravæða landið á nokkrum árum.”

 

Forystumenn Framsóknarflokksins sögðu jafnframt:

“Ný heildstæð byggðastefna er nauðsynleg. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að um hana ríki víðtæk sátt. Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Eitt fyrsta skrefið ætti að vera ljósleiðaravæðing alls landsins.”

 

Unnið hefur verið eftir þessari stefnumörkun frá síðustu kosningum. Undanfarið hefur verið í gangi vinna undir forystu stjórnarþingmannanna Páls Jóhanns Pálssonar og Haralds Benediktsonar um að kortleggja og undirbúa þetta verkefni.

Til þess að fylgja þessu eftir þá hefur fjárlagnefnd lagt til að veitt verði 300 milljónum við fyrsta áfanga fjarskiptaáætlunar. Áætlunar sem á að setja fram töluleg markmið um ljósleiðaraæðingu og uppbyggingu annarra fjarskipta á næstu árum. Með fjárveitingunni verður hægt að skipuleggja og kortleggja innviðagrunni ljósleiðara, hefja tengingar á ótengdum svæðum auk þess að hringtengja landsvæði o.fl.

Þetta fyrsta skref sýnir að ríkisstjórn ætlar sér að stíga stórt skref í áttina að því að jafna búsetuskilyrði fólks í dreifbýli og þéttbýli. Það er mikilvægt að allir sitji við sama borð þegar kemur að fjarskiptum og ljósleiðaravæðing gegnir þar lykilhlutverki. Afgreiðsla fjárlaganefndar á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er ánægjuleg staðfesting á því að Framsóknarflokkurinn mun líkt og bent var á fyrir síðustu kosningar beita sér fyrir stórefldum fjarskiptum á þessu kjörtímabili.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.11.2014 - 17:13 - FB ummæli ()

Raforkukostnaður – Dreifbýli og köld svæði

Víða á landsbyggðinni var mikið fjallað um jöfnun raforkukostnaðar fyrir síðustu kosningar. Flestir stjórnmálaflokkar og þar með talinn Framsóknarflokkurinn lagði áherslu á að jafna þennan kostnað. Til þess að það náist til frambúðar þá þarf að endurskoða núverandi löggjöf hvað þetta snertir. Þessi stefna er mörkuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir orðrétt:

“Unnið verður að jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar.”

 

Jöfnun á dreifingarkostnaði raforku

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sýnt hver vilji hennar er enda brást hún hratt við þessu máli og frumvarp um jöfnun á dreifingarkostnaði raforku (http://www.althingi.is/altext/144/s/0107.html) var lagt fram á síðasta ári. Frumvarpið náði ekki fram að ganga síðasta vor og var lagt fram aftur á þessu haustþingi og ekkert er því til fyrirstöðu að það klárist á þessu þingi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lagt verði sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna með það að markmiði að standa undir fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, þ.e. heimila og fyrirtækja sem fá raforku sína beint frá dreifiveitunum. Þetta þýðir að kostnaður við dreifingu raforku verður sá sami óháð því hvort vðikomandi er búsettur í þéttbýli eða dreifbýli.

 

Jöfnun á húshitunarkostnaði á köldum svæðum

Það er einnig réttlættismál að jafna raforkukostnað þeirra sem búa á köldum svæðum og þar hafa verið til skoðunar ýmsar leiðir. Til að fá nákvæmar upplýsingar um hvenær aðgerðir eru væntanlegar þá lagði ég fram í síðustu viku svohljóðandi skriflega fyrirspurn til iðnaðar- og viðskiptaráðherra (http://www.althingi.is/altext/144/s/0512.html):

„Hvenær má vænta ráðstafana sem miða að því að jafna húshitunarkostnað að fullu á milli kaldra svæða og annarra?“

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks mun jafna húshitunarkostnað á köldum svæðum og að dreifikostnað raforku í dreifbýli. Það er hinsvegar mikilvægt að það gerist fyrr en síðar. Með tilliti til byggðasjónarmiða og jafnræðis til búsetuvals, er ekki verjandi að verð á jafn mikilvægum nauðsynjum og rafmagni og heitu vatni til húshitunar skuli vera jafn breytilegt milli landsvæða og raun ber vitni.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.11.2014 - 12:02 - FB ummæli ()

Leiðrétting – Hverjir borga fyrir hvern?

Það er full ástæða til að fagna því að höfuðstólsleiðrétting ríkisstjórnarinnar skilar tugþúsundum heimila leiðréttingu á húsnæðisskuldum. Leiðréttingu sem er fjármögnuð með hækkun skatta á fjármálafyrirtæki og ekki síst með því að afturkalla undanþágu sem fyrri ríkisstjórn hafði veitt slitabúum föllnu bankanna. Núverandi ríkisstjórn er því að skattleggja þrotabú erlendra kröfuhafa og vogunarsjóða til að leiðrétta skuldir almennings. Fyrrverandi ríkisstjórn reyndi hinsvegar í þrígang að skattleggja heimili landsins til að greiða erlendum kröfuhöfum (Icesave).

 
Fyrri ríkisstjórn – Ekki meira fyrir skuldsett heimili!

Fyrri ríkisstjórn tók meðvitaða ákvörðun um að gera ekki meira fyrir skuldsett heimili. Þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði 2. desember 2010 orðrétt: „Við erum búin að ganga eins langt og við mögulega getum,“ og sagði svo jafnframt: „ Ég verð að segja það að það er ekki hægt að vænta þess að við komum með fleiri aðgerðir“.

Því hefur líka verið ranglega haldið fram að sú almenna leiðrétting sem núverandi ríkisstjórn ákvað að ráðast í renni mest til hátekjufólks. Staðreyndin er að stærstur hluti leiðréttingarinnar nú rennur til fólks með meðal og lægri tekjur. Hinsvegar nýttist 110%-leið fyrri ríkisstjórnar aðallega tekjuhæstu heimilunum en skildi þau tekjulægri eftir með vandann. Leiðin nýttist aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Um 1% heimilanna hrepptu helming niðurfærslunnar, rúmlega 20 milljarða króna. Þessi 775 heimili  fengu hvert yfir 15 mkr niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslu um 26 mkr. Fyrri ríkisstjórn ber þannig ábyrgð á 20 milljarða króna niðurfærslu á lánum tekjuhæsta hluta þjóðarinnar.

 

Núverandi ríkisstjórn hlífir ekki þrotabúum föllnu bankanna

Ólíkt fyrri ríkisstjórn þá tók þessi ríkisstjórn ákvörðun um afnema undanþágu þrotabúa föllnu bankanna og þar með erlendra vogunarsjóði frá skatti upp á tugi milljarða. Því hefur stundum verið haldið fram af stjórnarandstöðunni að eignarsafn þrotabúanna hafi ekki verið orðið nægilega skýrt í upphafi síðasta kjörtímabils þannig að hægt væri að skattleggja þau. Það kann að vera að það hafi verið raunin árið 2009 og jafnvel 2010. En hvað með 2011, 2012 svo ekki sé talað um árið 2013? Í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi um síðustu helgi staðfesti Guðbjartur Hannesson, sem á síðasta kjörtímabili var hluti af ráðherraliði Samfylkingarinnar, að það hafi verið hægt að skattleggja þrotabúin í lok síðasta kjörtímabils en ákvörðun hafi verið tekin um að gera það ekki.

Það er því staðfest að fyrrverandi ríkisstjórn tók ákvörðun um að gera ekki meira fyrir skuldsett heimili samhliða því að slá „skjaldborg“ um erlenda vogunarsjóði og hlífa þeim við eðlilegri skattheimtu. Núverandi ríkisstjórn hefur hinsvegar þá stefnu að setja almenning í fyrsta sæti og því var tekin meðvituð ákvörðun um að skattleggja þrotabú föllnu bankanna og ráðast í almennar leiðréttingar á verðtryggðum lánum heimilanna.

 

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.8.2014 - 13:19 - FB ummæli ()

Þjóðkirkjan og við

Þjóðkirkjan fylgir flestum Íslendingum frá vöggu til grafar og hefur gert í þúsund ár. Við erum flest skírð til kirkjunnar ómálga börn, staðfestum skírnarheitið með fermingu, fáum blessun kirkjunnar í upphafi hjónabands og þorri landsmanna fær sína hinstu kveðju í kirkjulegri útför.

Okkur er ekki tamt að flíka trúarskoðunum okkar. Við teljum það til einkamála hvort og hvernig við iðkum trúna. Engu að síður gerum við ráð fyrir að kirkjan sé til taks þegar á þarf að halda og að boðskapur hennar um kærleika og fyrirgefningu sé stuðningur við daglegt amstur.

Kirkjan er hluti af okkar stjórnskipun. Í fyrstu málsgrein  62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir um þjóðkirkjuna: ,,Hin evangelísk lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.” Þarna undirstrika grunnlög þjóðarinnar mikilvægi þjóðkirkjunnar og boða að ríkisvaldið skuli styðja og vernda kirkjuna.

Stuðningur þjóðarinnar við þjóðkirkjuna var mældur fyrir tveim árum, þegar greidd voru atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs vegna vinnu við nýja stjórnarskrá. Meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði sagði já við eftirfarandi spurningu: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Kirkjuna og kristna trú er ekki hægt að jafnstilla öðrum trúarbrögðum hér á landi, þótt við virðum trúfrelsi og réttinn til trúleysis. Í sögu okkar, menningu og stjórnskipun er kristni og þjóðkirkja verðmæti sem leggja ber rækt við. Til dæmis með því að útvarpa morgunbæn í dagskrá þjóðarútvarpsins.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur