
„Það hefur vakið vægast sagt furðu mína hér í dag að sitja á næstaftasta bekk og hlusta á, ég ætla að leyfa mér að segja, vægast sagt skrílslæti á aftasta bekk,“ segir Birna Lárusdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, sem er gáttuð á framferði kollega sinna í þingsal.
Í viðtali við bb.is hneykslast Birna á framferði þingmanna í tenglsum við umræður um nýja stjórnarskrá á þriðjudag. Hún hafi sem nýr þingmaður verið að reyna að átta sig á venjum og hefðum þingstarfa á sama tíma og aðrir þingmenn hafi verið með skrílslæti.
Ég hef fylgst með, einkanlega þeim sem sitja hér á aftasta bekk í dag, taka sérstaklega fyrir einn þingmann úr röðum Framsóknarflokksins. Mér hefur þótt það sem ég hef heyrt og ég hef séð ljótt,
segir Birna. Fleirum þótti greinilega nóg um, því Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki, sá sérstaka ástæðu til að ræða hegðun þingmanna undir liðnum störf forseta.
Ég hef orðið vitni að því ítrekað í dag að hér er verið að hæðast að þingmönnum sem koma hér upp og ræða málefnalega um stjórnarskrá Íslands. Jafnvel er gengið svo langt að menn sitja í þingsal og senda inn ógeðfelld skilaboð á Facebook um hvað menn eru að segja hér í ræðustól. Mér er nóg boðið. Fólk sýnir sínu eigin starfi lítilsvirðingu og stjórnskránni. Það er lítilmótlegt. Þetta gengur ekki lengur. Menn þurfa að fara að taka sjálfa sig taki og virða þá málefnalegu umræðu sem hér verður að fara fram um stjórnarskrána.