Laugardagur 02.02.2013 - 13:37 - FB ummæli ()

Gullverðlaun í skattheimtu

Við Íslendingar eigum mikið af afreksfólki og þegar met eru sleginn verðum við stolt og glöð og stöndum þétt saman. Ganga Vilborgar Örnu Gissurardóttur á Suðurpólinn er dæmi um slíkt afrek sem sameinar þjóðina. En svo er önnur met sem sundra fremur en að sameina. Það nýjasta er að ríkisstjórn Samfylkingar og VG virðist hafi slegið Evrópumet í skattpíningu á þjóð sína.

Í gömlu Austur Evrópu voru þeir stjórnmálamenn reyndar heiðraðir sem stóðu sig best í útþenslu ríkisins og að slíta fé af hinum vinnandi manni og setja í hin ýmsu gæluverkefni á vegum hins opinbera með meiri skattahækkunum.  Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG hefur einmitt þetta gerst, allt er skattlagt sem hreyfist.  Hreyfist það ekki þá er það hrist til þar til skattstofn fæst.

Það var svo sem viðbúið að með því að kjósa yfir sig skattaglaða vinstri stjórn þá fengum við skattaveislu, á kostað einstaklinga og fyrirtækja.  Og verra er að stjórnvöld skattpíningar eru algerlega stikkfrí hvað sneri aðrar efnahagslausnir, annað verður ekki ráðið.

Af hverju var skattaveislan ekki notuð til að slá skjaldborg um heimilin og ráðast á skulda vanda fólksins í landinu eins og lofað var? Í staðinn hefur stórfé verið notað í rándýr gæluverkefni eins og ESB aðildarviðræður sem stór meirihluti vill ekki, nýja stjórnarskrá sem engin þörf er á og rándýrar breytingar innan stjórnarráðsins með tilheyrandi samþjöppun valds.  Og við skulum ekki gleyma Icesave. Við gleymum hvorki þeim sem björguðu okkur, fólkinu í landinu,  né hinum sem vildu koma íslensku þjóðinni í ævarandi skuldafangelsi.  Ríkisstjórnin mun lafa út kjörtímabilið enda stutt í land.  Eðlilegast er úr þessu að þjóðin afgreiða hana eins og í stefnir í kosningunum í apríl.

Eftir situr að Evrópumetið í skattpíningu er ekki hættu í bili og gott að það vinnst ekki tími til að bæta það frekar. Máltækið „dýr mundi Hafliði allur“ kemur hér ósjálfrátt upp hugann.  Það er til komið vegna Hafliða Másssonar goðorðsmanns á tólftu öld sem átti í deilum við Þorgils Oddason sem hjó af honum einn fingur.  Hafliði fékk sjálfdæmi í ákvörðun á greiðslu bóta og notfærði sér það óspart svo Þorgils á að hafa sagt: „dýr mundi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur“.

(með fyrirvara um innsláttarvillur)

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur