Sunnudagur 26.01.2014 - 20:49 - FB ummæli ()

Ríkissjóður undir smásjá

Árið 2014 verður afar mikilvægt og stefnumarkandi í ríkisbúskapnum. Búið er að samþykkja það sem lög frá Alþingi að ríkissjóður skuli rekinn hallalaus. Í fyrsta skipti í mörg ár stíga menn á bremsuna og segja: „Hingað og ekki lengra í hallarekstri og skuldasöfnun.“
Við vitum orðið öll að með hallarekstri erum við í reynd að halda niðri lífskjörum þegar fram í sækir. Þegar við lifum um efni fram eins og íslenska ríkið gerir lendir það á fólkinu í landinu að borga brúsann. Nú þegar greiðum við 70 milljarða í vexti af lánum árlega sem tekin hafa verið til að mæta halla ríkissjóðs á undanförnum árum. Hugsa má hvernig þeir fjármunir myndu nýtast inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæsluna, fyrir fatlaða og svo framvegis. Þess vegna er það afar mikilvægt skref sem ríkisstjórnin stígur með þessu að skila ríkissjóði hallalausum árið 2014.
Ég vona svo sannarlega að það gangi eftir. Ríkisreikningur fyrir árið 2014 á líka að vera hallalaus. Það er ekki nóg að gleðjast yfir hallalausum fjárlögum nú í ársbyrjun, því verkefnið er rétt að byrja og því er ekki lokið fyrr en ríkisreikningur fyrir árið liggur fyrir. Ég skora því á ríkisstjórnina að fylgja málinu allt til enda og svo tekur við nýtt ár 2015 og þá þarf að halda áfram á sömu braut þannig að áfram verði haldið á braut ábyrgrar efnahagsstjórnar.
Á næstu vikum og mánuðum þarf að fylgjast gaumgæfilega með rekstri á hverjum einasta lið fjárlaganna og um leið og einhver frávik verða eiga rauð viðvörunarljós strax að byrja að blikka í stjórnarráðinu. Þá þarf að grípa til viðeigandi ráðstafana. Ekki er lengur hægt að líða það að eytt sé um efni fram í stofnunum ríkisins þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar og þvert á þau lög sem gilda í landinu.
(Grein sem birtist í Fréttablaðinu 24. janúar 2014)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur