Fimmtudagur 25.10.2012 - 01:14 - FB ummæli ()

Skólakafli Kynungabókar

Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:

Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

—–
Mér skilst að feministar undrist mjög skrif mín um innrás kvenhyggjutrúboðs í skólakerfið. Munu m.a. hafa farið fram umræður um meintan fávitahátt minn á facebookvegg eiginmanns Menntamálaráðherra í framhaldi af þessum pistli.

Ekki hefur þó nokkur sála, mér vitanlega, gert tilraun til að svara því sem ég hef um skólamál og kvenhyggju að segja. Skrif mín um forræðishyggjuna sem birtist í stríðinu gegn klámi og vændi hefur heldur aldrei verið hrakin með rökum, ekki heldur umfjöllun mín um hættuna á öfugri sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Eina gagnrýnin sem ég hef orðið fyrir úr herbúðum feminista, sem gerir tilraun til einhverskonar greiningar, er þessi pistill eftir Magnús Helgason, þann hinn sama og tjáir sig í skjáskotinu hér að ofan. Engin rök er þó að finna gegn málflutningi mínum í pisli Magnúsar, fremur en annarsstaðar, heldur er ég afgreidd sem narkissisti. Margir urðu til að svara Magnúsi Sveini í umræðum, greinilega með þeim afleiðingum að hann hefur gefist upp á tilraunum sínum til að vera málefnalegur og nú er ég ekki bara narkissisti heldur líka afturhaldssamur hálfviti. Merkilegt að enginn treysti sér þá til að svara mér með öðru en rökvillum og persónuárásum; maður þarf ekki að vera sleipur í rökræðum til að afhúpa bjána. Ég tek fram að mér er ósárt um mat Magúsar Sveins á gáfnafari mínu; ég fer ekki fram á kurteisi af hans hálfu, svo fremi sem mér er svarað efnislega.

Hvað um það, þessi útúrdúr er orðinn allt of langur. Síðustu tvær færslur sem ég hef birt, í þessari pistlaröð, snúast um Kynungabók, kennsluefni í svokallaðri jafnréttisfræðslu. Rétt er að taka fram að ég er hlynnt jafnréttisfræðslu, ég vil bara ekki jafnréttisfræðslu sem byggir á þeim feminiskum kenningum sem Kynungabók gerir og því síður að svokallaðir kynjafræðingar verði látnir um kennsluna. Í þetta sinn er ætlunin að skoða þann kafla Kynungabókar sem fjallar um skólamál.

 

Skólakafli Kynungabókar (bls 13-16)  Kynjaímyndir sem stærsta vandamálið

Þau jafnréttismál skólakrakka sem höfundar Kynungabókar leggja áherslu á, snúa fyrst og fremst að staðalmyndum kynjanna.

Tölfræðilegar upplýsingar er að finna um það hversu oft (eða öllu heldur sjaldan) stúlkur hafa verið nemendafélagsformenn og tekið þátt í spurningakeppni framhaldsskólanna. Bent er á að telpur fái minni athygli kennara en drengir og  athygli er vakin á því að stúlkur taki minni þátt í félagsstarfi, sem oft sé undirbúningur fyrir opinberan frama. Það er þarft að vekja athygli unglinga á þessu.

Ég er ekki eins ánægð með áherslur Kynungabókar hvað varðar drengi. Ekki er minnst orði á það háa hlutfall drengja sem rekst ekki í skóla. Þó er það ekki einu sinni umdeilt að drengjum líður að jafnaði mun verr í skóla en stúlkum. Þeim finnst námið leiðinlegra, þeir sýna slakari námsárangur og hegðunarvandamál eru mun algengari hjá þeim. (Sjá t.d. hér) En þetta virðist ekki vera jafnréttismál í hugum höfunda Kynungabókar. Áherslan á vanda drengja í skólum snýr að því hversu erfitt kvenlegu strákarnir eigi uppdráttar félagslega og einnig er talið vandamál hve lítið piltar sæki í „kvenlægar“ námsgreinar.

Komið er inn á það hvað karlastörf njóti miklu meiri virðingar en kvennastörf og áhugaleysi drengja á hefðbundnum kvennagreinum skýrt með því að þeir sem velji kvennagreinar þurfi frekar að réttlæta val sitt en stúlkur sem velja karlagreinar. Það finnst mér trúverðug skýring. Ég tel þó hreint ekki útilokað að eðlislægir þættir getið spilað inn í áhugaleysi drengja á umönnunarstörfum og áhugaleysi stúlkna á að taka þátt í spurningakeppni, en í Kynungabók er öllum slíkum hugmyndum hafnað. (Nánar er um þetta rætt er í pistlinum sem varð tilefni fyrrnefndar umræðu á facebook vegg eiginmanns Menntamálaráðherra. Endilega horfið á heimildamyndina sem birt er neðst í þeim pistli ef þið eruð ekki búin að því.)

Í lok kaflans er svo sögð óstaðfest reynslusaga af einum fávita, þjálfara ræðuliðs, sem sagði stúlkur of skrækróma til að geta tekið þátt í Morfís. Þessi saga á væntanlega að endurspegla hið almenna viðhorf eða hver er annars tilgangurinn með henni? Trúa höfundar bókarinnar því í alvöru að margar stúlkur sem sækjast eftir frama í félagslífi fái skilaboð af þessu tagi?

 

Viðhorf unglinga til kynhlutverka

Í skólakaflanum er fjallað um kynjaímyndir í tengslum við verkaskiptingu á heimilum. Sagt er frá viðhorfskönnun sem sýni fram á íhaldssöm viðhorf unglinga til kynhlutverka. Aðalheimilidin er óbirt BA ritgerð, þar sem umrædd rannsókn er borin saman við aðra könnun sem gerð var 1992. Niðurstaðan er sú að unglingar hafi íhaldssamari hugmyndir um kynhlutverk árið 2006 en 1992.

Vel má vera að íhaldssemi meðal ungs fólks hafi aukist. Athugum samt að sú ályktun er dregin af aðeins einni viðhorfskönnun. Það er út af fyrir sig varasamt að alhæfa út frá einni rannsókn, en sé það rétt að viðhorf til kynhlutverka séu íhaldssamari en fjórtán árum fyrr, væri þá ekki eðlilegt að spyrja hversvegna? Ekki var jafnréttiskennsla í skólum svona miklu betri árið 1992 en 2006.

En líklega þarf ekkert að spyrja. Samkvæmt feminiskum rétttrúnaði er það klámvæðingin sem er sökudólgurinn og móteitrið við henni er kvenhyggjutrúboð í skólum. Það er því rökrétt að leita engra skýringa, heldur drífa í því að framleiða pólitískt námsefni.

Kynjahallinn í skólakerfinu fær lítið vægi

Sé kynjahalli einhversstaðar sérstakt áhyggjuefni fyrir ungt fólk er það kynjahallinn í skólakerfinu. Þetta vandamál er afgreitt í eftirfarandi efnisgrein í framhaldi af umfjöllun um aukið námsval (bls 15)

Brottfall á framhaldsskólastigi hefur lengi verið kynjað og virðast strákar frekar hverfa frá námi en stelpur. Von margra er sú að brottfall eigi eftir að minnka við þessar breytingar. Í langtímarannsókn á brottfalli þeirra sem fæddir eru 1975 voru niðurstöður þær að 38% kvenna og 48% karla hafði ekki lokið lokaprófi úr framhaldsskóla við 24 ára aldur. Konum hefur fjölgað jafnt og þétt sem nemendum og kennurum frá því um 1970 og  eru nú orðnar fleiri en karlar á framhalds- og háskólastigi.

Ekki orð um það meir. Eins og sjá má er áherslan ekki á vanda drengja heldur árangur stúlkna. Ekkert er komið inn á það á hvaða grunni „margir“ byggi þá von að meira námsval auki áhuga drengja á námi. Ekkert er heldur fjallað um það hversvegna piltar sæki síður í langskólanám en stúlkur; ekki er það takmörkun á námsframboði eða skortur á ráðgjöf sem stendur í vegi fyrir þeim þar.

Sú skoðun að kynjahallinn í kennarastéttinn skýri að einhverju leyti það hversu margir drengir eiga erfitt uppdráttar í grunnskólum er svo afgreidd sem mýta í kafla um varasamar fullyrðingar (bls 16.) Vinstri textinn er flokkaður sem „fullyrðing“ en sá hægri sem „staðreynd“.

Ég hef rætt stöðu drengja í skólum við marga sem telja að kynjahalli meðal kennara sé vandamál. Ekki minnist ég þess þó að nokkur eldri en 15 ára hafi skýrt það á þann veg að kvenkennarar hygli stúlkum. Ég hef tekið þátt í samræðum um það hvort drengir þurfi á karlmannlegum fyrirmyndum að halda, hvort konur temji sér aðrar kennsluaðferðir en karlar, sem höfði þá meira til stúlkna, hvort karlar skilji stráka betur en konur og svo mætti lengi telja.

Er það viðunandi í unglingakennslubók sem að nafninu til snýst um jafnréttismál að hafna þeim möguleika að fjarvera karla hafi áhrif á slakan árangur drengja? Er viðunandi að  fjalla ekkert um stöðu stráka í skólum nema þeirra sem verða fyrir barðinu á fordómum gagnvart „stelpulegum“ strákum?

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics