Í opinberri umræðu ber alltaf á einhverjum tískuhugtökum.Fyrir 10-12 árum komst varla nokkur maður í gegnum þriggja mínútna útvarpsviðtal án þess að koma orðinu „stærðargráða“ einhversstaðar að. Meira ber þó á hugtökum sem fela í sér gildisdóma, orðum sem verða nánast eins og töfraþula, svar við öllu og hentug leið til að loka umræðunni. Árið 2009 klæmdust netverjar á orðinu „meðvirkni“ þar til það missti nánast merkingu sína. Varla er hægt að kalla það tísku að tala um aðför og einelti gegn stjórnmálaflokkum; það fer nú sennilega að teljast sígilt.
Eitt af tískuhugtökum dagsins er „pólitísk rétthugsun“. Hugsjónafólk er gegndarlaust lamið í hausinn með ásökunum um pólitískan rétttrúnað, oft af litlu eða engu tilefni. Það er í rauninni ósköp skiljanlegt að þessi ásökun komi fram. Hugsjónastarf einkennist af sterkri sannfæringu og eldmóði, auk þess sem baráttufólk ryður brautina fyrir viðhorf sem víkja frá norminu (svokallaðar öfgar). Heit sannfæring minnir á trúarbrögð og stundum fylkir hugsjónafólk sér svo þétt um málstaðinn að það þolir enga gagnrýni á sína samherja, sama hversu fráleitur málflutningur þeirra er. Líkingin við rétttrúnað getur því vel átt rétt á sér. Hugsjónafólk heldur auk þess oft á lofti skoðunum sem flestum þykja sláandi og einnig tileinka grasrótarhreyfingar sér oft baráttuaðferðir sem rúmast ekki innan þægindasviðs samfélagsins. Þegar fólki blöskrar er það líklegt til að afgreiða umræðuna sem rugl og öfgar.
Það er samt engin sanngirni að afgreiða alla fylgispekt við hugsjónir og flokka sem pólitíska rétthugsun. Þessi stimpill er í mörgum tilvikum dæmi um „explaining by naming“ eða það að afgreiða hugmyndir annarra með því að þeir séu kommúnistar, fasistar, trúarnöttarar eða hvað það nú er, án þess að takast á við það sem þeir hafa að segja. Pólitísk rétthugsun er ekki það að hafa hugsjónir eða halda þeim fram af eldmóði.
Pólitískur rétttrúnaður er það þegar hollusta við ákveðinn málstað og/eða hóp, verður heilbrigðri skynsemi yfirsterkari og tekur ekki tillit til forsögunnar, samfélags eða einstaklingsaðstæðna.
Pólitísk rétthugsun er vont innlegg í alla umræðu því hún er ósanngjörn, hún styður rangfærslur og útúrsnúninga og lokar umræðunni í stað þess að hleypa fleiri sjónarmiðum að. Hér eru nokkur dæmi um það hvernig málefnaleg skoðun getur af sér pólitíska rétthugsun:
Pólitísk afstaða | Pólitísk rétthugsun |
Ekkert getur réttlætt stríðsglæpi og þjóðernishreinsanir. | Þar með ertu að afneita Helförinni ef þú spyrð hvað sé hæft í því að Rudolf Höss (ekki sá sami og Hess) hafi verið pyntaður til játninga. |
Palestínumenn eiga rétt á að beita vopnum gegn hernáminu. | Þar með er það stuðningur við Zionisma að gagnrýna sjónvarpsbarnaefni Hamas. |
Nató er glæpastofnun sem hefur beitt hernaði gegn saklausum borgurum í þágu heimsvaldastefnu. | Þar með er hernaðaríhlutun aldrei réttlætanleg. |
Vesturlandabúar hafa engan rétt til að troða sinni menningu upp á þróunarlöndin. | Þar með eigum við ekki að skipta okkur af aftökum og öðrum mannréttindabrotum “því þetta er bara þeirra menning”. |
Það er óþolandi að stórfyrirtæki geti stjórnað heiminum. | Þar með ertu með óvininum í liði ef þú kaupir þér súkkulaðistykki. |
Við sættum okkur ekki við að náttúruperlum sé fórnað í þágu stóriðju. | Þar með ertu hræsnari ef þú notar álpappír. |
Kjötát stríðir gegn dýravernd. | Þar með ertu dýraníðingur ef þú gerir ömmu þinni það til geðs að borða grænmetisréttinn sem hún eldaði af tillitssemi við skoðanir þínar, af því henni varð það á að setja kjötkraft í hann. |
Klám er ógeðslegt og getur stuðlað að ranghugmyndum um kynlíf. | Þar með ertu að hvetja til barnanauðgana ef þú fjarlægir kynhár. |
Útlitsdýrkun getur haft alvarleg áhrif á sjálfsmynd ungra stúlkna. | Þar með ertu að hvetja til átröskunar ef þú gagnrýnir námsefni sem notar hugmyndafræði Fat Acceptance hreyfingarinnar sem rök fyrir því að offita sé ekkert vandamál. |
Konur verða fyrir fordómum á vinnumarkaði og eru minna metnar en jafn hæfir karlar. | Þar með ertu fylgjandi kynbundinni mismunun ef þér finnst óhæfa að kona sem lendir í fimmta sæti í hæfnismati verði tekin fram yfir karl sem lendir í því fyrsta. |
Flóttamenn eiga rétt á vernd gegn ofsóknum og aðstæðum sem ógna öryggi þeirra og frelsi. | Þar með ertu að vinna gegn málstaðnum ef þú ert á móti því að afreksmenn fái sérmeðferð. |
Samkynhneigðir eiga að njóta allra sömu réttinda og annað fólk. | Þar með má svipta þá vinnunni sem viðra úreltar hugmyndir um öfughneigð á blogginu sínu. |
Fötluð og veik börn eiga sama rétt á skólagöngu og öll önnur börn. | Þar með á heilbrigða barnið bara að sætta sig við að geðveika barnið sem situr við hliðina á því hrelli það og trufli í sífellu. |
Samfélagið á að virða börn og gefa þeim rými. | Þar með áttu að umbera barnagrát og aðra truflun í leikhúsi, kirkju og við öll önnur tilefni. |
Lögleiðing vímuefna myndi skapa fleiri vandamál en hún leysir. | Þar með ertu að gera lítið úr vímuefnavandanum ef þú neitar því að grasreykingar leiði til heróínneyslu. |
Ég held að flestum sem hafa heitar skoðanir verði það einhverntíma á að missa sig í pólitíska rétthugsun. Ég hef staðið sjálfa mig að því og séð mörg dæmi um það hjá fólki sem allajafna er mjög málefnalegt. Það er sjálfsagt að benda á ofstopafullan málflutning en það er líka jafn sjálfsagt að sá sem er sakaður um póltíska rétthugsun fái skýringar á því hversvegna andmælendur hans álíti hann kominn út fyrir mörk skynsemi og sanngirni.
Málflutning skal gagnrýna með rökum. Merkimiðar eru ekki rök; þeir sem telja andmælendur sína á valdi pólitískrar rétthugsunar ættu þessvegna að útskýra hvað nákvæmlega er gagnrýnivert við skoðanir þeirra. Krafan um efnislega gagnrýni á einnig við um þá sem tala um mig sem „skoska rannsóknarréttinn“. Þeir hinir sömu hafa aldrei útskýrt þá líkingu, enda er hún jafn innihaldslaus og ómarktæk og tuðið í þeim sem án nokkurra raka kalla allt andóf gegn umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum pólitískan rétttrúnað.