Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:
Feitabollufeminismi í skólana – um heilsufarskafla Kynungabókar
Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa?
Ungliðahreyfing VG vill kennivaldið inn í skólana. Réttlætingin er sú að viðhorfskannanir sýni að hærra hlutfall unglinga hafi íhaldssamar hugmyndir um kynhlutverk nú en fyrir 20 árum. Hvernig unga fólkið í vg fær það út að feministatrúboð muni breyta því er vandséð. Aldrei hefur feminisk umræða verið meira áberandi en á þessum 20 árum og þó hefur þetta bakslag orðið; það er því nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að kynjafræðikennsla hafi tilætluð áhrif.
Meira máli skiptir þó að með sömu rökum mætti segja að þar sem einelti hafi aukist sé rétt að lofa kirkjunni að predika kærleika Krists yfir börnunum eða að þar sem þeim hafi fækkað sem álíti mikilvægt að eiga fé í banka, sé nauðsynlegt að láta Hannes Hólmstein kenna „frjálshyggjufræði“ í grunnskólum. Kynjafræði er nefnilega pólitísk hugmyndafræði og þrátt fyrir fræðilegt yfirbragð á námsefnið Kynungabók meira skylt við trúboð en fræði.
Í dag ætla ég að fjalla um sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi. Athygli vekur að ólíkt öðrum köflum bókarinnar er þessi kafli svartur í bókstaflegri merkingu, hvítt letur á svörtum grunni. Sjálfsagt er talin þörf á að dramatísera ofbeldi gegn konum í samfélagi þar sem varla líður dagur án þess að netmiðlarnir klæmist á reynslusögum af nauðgunum og öðru ofbeldi.
Klám sem kynbundið ofbeldi
Svarti kaflinn hefst á endurskilgreiningu á kynbundnu ofbeldi, nú er orðið „ofbeldi“ farið að ná yfir kynlífsþjónustu og klám:
Hugtakið kynbundið ofbeldi er notað um ofbeldi sem karlar beita konur svo sem nauðganir, mansal, vændi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislega áreitni og klám.
Takið hinni postullegu kveðju. Klám er ofbeldi. Samkvæmt því er kona sem verður fyrir hrottalegri nauðgun komin í sama flokk brotaþola og sú sem les Fifty Shades of Grey enda margir sem álíta að sú bók sé niðurlægjandi fyrir konur.
Það eru ekki bara höfundar Kynungabókar sem hafa tekið upp þessa endurskilgreiningu á kynbundnu ofbeldi; nærbuxnafeminisminn er líka ríkjandi hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar sem snemma á árinu fór í allsherjarátak gegn meintri klámvæðingu á vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Í fyrstu átti titillinn á bæklingnum að vera „Klámvæðing er kynferðislegt ofbeldi“ en hann var mildaður og endanlega útgáfan varð „áreitni“ í stað ofbeldis. Þörfin á þessum bæklingi þótti víst brýn enda segjast 2-3 af hverjum 1000 starfsmönnum einhverntíma hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af einhverju tagi á vinnustað. Skömmu síðar kom í ljós að jafnvel á stærsta vinnustað borgarinnar Landspítalanum er kynferðisleg áreitni næsta sjaldgæf og helst að starfsfólk verði fyrir slíku af hálfu sjúklinga. Mannréttindafrömuðirnir ætla kannski að berjast gegn geðveiki og elliglöpum með klámpredikunum yfir skólabörnum?
Ónothæf tölfræði sem námsefni
Auk endurskilgreiningar á kynbundu ofbeldi er sú tölfræði sem notuð er til að kynna umfang vandamálsins, stór galli á svarta kafla Kynungabókar. Fullyrt er að kynlífsþjónusta og mansal hafi aukist enda þótt engar ábyggilegar tölur séu til um umfang þessarra mála fyrr og nú. Vitnað er í tölur frá Stígamótum og Kvennaathvarfinu um tíðni ofbeldis en þær tölur gefa engan veginn rétta mynd af ástandinu. Oft er um eldgömul mál að ræða og sömu málin geta komið inn á borð til þessara hreyfinga ár eftir ár, svo fjöldi heimsókna segir nákvæmlega ekki neitt um það hversu margar konur hafa sætt slíku ofbeldi. Ég hef áður skrifað um tölfræði Stígamóta og almennar ýkjutilhneigingar varðandi ofbeldi gagnvart konum svo ég ætla ekki að eyða meira púðri í þann þátt hér.
Í svarta kaflanum er ennfremur fullyrt að ný rannsókn leiði í ljós að fjórða hver kona verði fyrir ofbeldi í nánu sambandi (á bls 34-35). Þar sem enga tilvísun er að finna eða neinar upplýsingar um heimildina, er erfitt að leggja mat á þessa staðhæfingu. Ólíklegt er þó að þar hafi klám verið skilgreint sem ofbeldi. Áhugavert væri að sjá tölurnar ef sameiginleg klámneysla para væri skilgreind sem ofbeldi.
Samkvæmt skilgreiningu Kynungabókar á kynbundnu ofbeldi eru allar konur fórnarlömb, annað hvort í nánum samböndum eða utan þeirra, þar sem við komumst ekki hjá því að verða varar við efni sem feministar flokka sem klám, svosem öskudagsbúninga og legófígúrur. Ósköp finnst mér kaldhæðnislegt að þeir sem mest tala um normaliseringu ofbeldis skuli sjálfir standa fyrir hvílíkri normaliseringu á hugmyndinni um þolendur ofbeldis.
Ef klám er ofbeldi þá eru nánast allir strákar ofbeldismenn
Athyglisvert er að bera fullyrðingar nærbuxnafeminista um áhrif kláms saman við siðaboðskap fyrri alda. Nú er því haldið fram (án þess að nokkur hafi bent á gögn sem styðji þá tilgátu) að kynferðisofbeldi sé afleiðing klámneyslu og að áhrif kláms á unga menn séu m.a. kvenfyrirlitning, vandi við að mynda tilfinningatengsl og „skert sjálfsmynd“ (hvað sem það nú merkir.) Á endanum verður drengurinn svo klámfíkninni að bráð með tilheyrandi skömm og félagslegri einangrun.
Hugmyndir kvenhyggjusinna um ógnvænlegar afleiðingar klámsins eiga sér skemmtilega hliðstæðu í hugmyndum fyrri alda um sjálfsfróun. Í umfjöllun um hinn „skæða löst“ frá 1920 er sunginn sami söngurinn um skömm og sjálfvirðingarleysi og sá sem nú er kveðinn um klámfíknina.
Myndirnar hér til vinstri sýna sjálfsflekkunarforvörn frá 19. öld; þá var talið nauðsynlegt að skerða aðgengi ungra manna að sjálfsþægingu en nú þarf að takmarka aðgang þeirra að klámi.
Í játningabók sinni talar Jean Jacques Rousseau, einn af helstu forkólfum Upplýsingarinnar, um sjálfsfróun sem skelfilegan löst sem ýti undir kynferðislega óra. Kynlífsfantasíur eru að hans mati „hugræn nauðgun“ þar sem ímyndunaraflið sem sjálfsflekkunin kyndi undir geri draumóramanninum fært að serða hvaða yngismey sem honum þóknast án hennar samþykkis. Þessi hroðalega synd, sjálfsfróun, er svo ávanabindandi að ekkert nema dauðinn getur orðið unglingnum til bjargar.
Sú afstaða Rousseaus að sjálfsfróun væri stórhættuleg var ekkert nýnæmi. Aðskiljanlegustu geðrænir og líkamlegir sjúkdómar hafa verið taldir afleiðingar sjálfsfróunar og kynóra í gegnum aldirnar og fyrir 2000 árum talaði Jesús frá Nasaret um það sem synd að drýgja hór með konu „í hjarta sínu“. Það var aðeins stigsmunur á hugsun og gjörðum, ekki eðlismunur. Það þarf því enga klámvæðingu til þess að álykta að allir strákar séu upprennandi ofbeldismenn, það er alveg nóg að þeir gæli við lostúðugar hugsanir til þess verða geðveiki og ofbeldisfýsn að bráð.
Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þessi endurskilgreining á klámi sem ofbeldi, muni hafa til langs tíma. Varla trúa menn því almennt að drengir muni hætta að sækja í kynferðislegt efni af því að kynjafræðikennarinn segi að það sé ljótt? Hafa höfundar Kynungabókar og aðrir skrattamálarar, sem eru nú ekki lítið uppteknir af áhrifum orðræðunnar á sjálfsmynd unglinga, velt því fyrir sér hvaða áhrif það getur haft ef þorri unglingspilta fer að líta á klámneyslu og kynferðislegar fantasíur sem ofbeldi? Ef maður er ofbeldismaður hvort sem er, hvar liggja þá mörkin milli þess ofbeldis sem allir fremja og þess sem ekki er réttlætanlegt?