Laugardagur 10.11.2012 - 14:18 - FB ummæli ()

Pistill sem Sighvatur má taka til sín

Sighvatur Björgvinsson hraunar hressilega yfir mína kynslóð í Fréttablaðinu í dag. Ég það tók mig fimm vikur að fá birta grein um upplýsingamál í því merka blaði en Sighvatur hefur væntanlega beðið lengur eftir að koma þessu þjóðþrifamáli sínu á framfæri. Jæja það er allavega komið til skila. Ég nenni ómögulega að eyða laugardegi í að svara heimsósómaraunsinu í Sighvati en það vill svo skemmtilega til að ég á í fórum mínum grein sem ég birti á blogginu mínu í apríl 2005, þar sem þessi kynslóðamál eru reifuð.

 

Til heiðurs verðbólgukynslóðinni

 

Kaldastríðskynslóðin

Kynslóð mín er firrt.

Kaldastríðskynslóðin hafði hvorki pólitíska vitund né tónlistarsmekk á táningsárunum. Við sáum enga ástæðu til að fara í mótmælagöngur því það var engin heimsstyrjöld í gangi bara gjöreyðing yfirvofandi. Lítið við því að gera svo við fórum bara á diskótek. Kunnum ekki einu sinni að nota fíkniefni að ráði. Í dag erum við kortakynslóðin og ennþá jafn veruleikafirrt. Lifum á pizzum. Ölum börn okkar upp við efnishyggju sem gengur geðbilun næst og skuldum meira en við eigum nokkurn tíma eftir að afla. Ljótu lúðarnir.

Börnin okkar eru náttúrulega bara slys. Eða náttúruhamfarir. Ýmist ofvirk, þunglynd eða með sértæka óþekktarrröskun. Reyndar hefur það nú verið svo frá dögum Sókratesar og sjálfsagt lengur að unglingar hafa verið óalandi og óferjandi, vanþakklátir, kröfuharðir og rífandi kjaft við sér eldra og viturra fólk en okkar börn eru i þokkabót meðvituð um réttindi sín og Guð má vita hvaða hörmungar það mun hafa í för með sér.

Já, þetta er býsna slæmt ástand. Unga fólkið veruleikafirrt og börnin óþæg. Hvar skyldi þetta eiginlega enda?

 

Það var nú eitthvað annað þegar þau voru ung

Annars hef ég verið að hugsa dálítið um verðbólgukynslóðina, þessa sem ól okkur upp þið vitið, þessa sem er öllu skynsamari þegar kemur að fjármálum og veit miklu betur en við hvernig á að ala börnin okkar upp. Þetta fólk er miklu klárara í fjármálum en við. Það á sumarbústaðina sína skuldlausa. Það tekur ekki yfirdrátt til að fara til Kanarí. Það baslaði með sín börn án þess að hafa tök á að labba inn í banka í skítugum gallabuxum, heimta lán og prútta um vextina. Það átti ekki kost á neinum félagsmálastyrk ef það nennti ekki að vinna. Í þá daga var skömm og neyðarúrræði að segja sig til sveitar.

Já, verðbólgukynslóðin hefur sannarlega ástæðu til að hneykslast á bruðlinu í okkur. Kynslóðin sem ólst upp hjá fólkinu sem nú er á níræðisaldri. Afar okkar og ömmur ólust upp í fátækt og fengu sinn skerf af kreppunni. Jafnvel ríkar fjölskyldur muldu ekki undir börnin sín. Lífið var einfalt, viðhorfin skýr:
-vinnan göfgar manninn
-nýtni er dyggð.
Stóru markmiðin í lífinu voru þau að skulda engum neitt, koma börnum sínum á legg og helst til mennta og eiga fyrir útförinni sinni.

Svo kom Bretinn og þá fór nú allt að skána svona smátt og smátt. Ennþá var unnið myrkranna á milli, nýtt og sparað og börnin send í sveit á sumrin en nú var líka afgangur af peningunum, allavega stundum. Afi og amma fóru að safna sjóðum og það þótti ekki sérlega flott að eiga bara fyrir útförinni sinni. Börnin áttu rétt á arfi. Seinna meir auðvitað og engin ástæða til að missa sig í bruðl en foreldrar okkur fengu allavega fermingargjafir. Sumir afar höfðu kannski fengið úr og sumar ömmur saumakassa en þó því aðeins að til væru peningar og það var ekkert alltaf. Verðbólgukynslóðin fékk auðvitað ekki myndbandsupptökuvélar eða hesthús með öllu tilheyrandi en þetta fólk var þrátt fyrir allt fyrsta kynslóð Íslandssögunnar sem gat beinlínis reiknað með að fá fermingargjöf.

Svo kom að því að pabbarnir okkar kvæntust mömmunum. Það var ekki mulið undir þau en brúðkaupið var haldið á kostnað afa og ömmu og oft kom þá í ljós bankabók með einhverju smáræði. Afi og amma voru nefnilega að átta sig á því að brátt krefðist vinnumarkaðurinn menntunar og svo var heldur enginn íbúðalánasjóður til staðar. Auðvitað þurfti unga parið aðstoð.

 

Verðbólgukynslóðin

Svo kom blessuð verðbólgan og stjórnvöld sáu ekki við henni. Pabbarnir fóru í langskólanám og verðbólgan át lánin sem þeir tóku upp. Þeir unnu baki brotnu, fóru á sjóinn í sumarfríinu, kvenfrelsið brast á og amma passaði börnin á meðan mamman var að vinna fyrir ennþá meiri péningum. Pabbi fór í jakkafötin og sleikti skó bankastjórans til að fá lán og loksins gátu þau önglað saman fyrir útborgun í íbúð. Verðbólgan var að vísu hinn mesti skaðvaldur, svo slæm að mömmurnar keyptu frystkistu til að geta eytt öllu kaupinu sínu í mat strax á útborgunardegi því hálfum mánuði seinna hafði allt hækkað í verði. En verðbólgan át ekki bara börnin sín. Hún át líka skuldirnar þeirra. Það var ekkert óyfirstíganlegt að borga íbúðina og námslánið og auk þess höfðu mörg hjón ókeypis barnagæslu hjá ömmu. Það varð þrátt fyrir allt afgangur, þrældómurinn borgaði sig.

 


Bankarnir reyndu auðvitað, en pabbi og mamma vissu betur 

Og verðbólgukynslóðin gaf börnunum sínum reiðhjól þegar þau urðu 8 ára og kenndi þeim að eyða öllum peningum sem þau fengu í hendurnar eins hratt og þau gætu, annars kæmi verðbólgan og æti þá. Við fengum líka flottari fermingargjafir og enginn nema amma fríkaði út þótt hálfétnu epli væri hent í ruslið. Verðbólgukynslóðin var nefnilega ekkert heima til að gæta þess að unglingarnir sýndu matarafgöngum tilhlýðilega virðingu. Á hinn bóginn áttaði verðbólgukynslóðin sig á því að ungt fólk á enga heimtingu á því að hlaðið sé undir það. Sá siður að foreldrar greiddu brúðkaup barna sinna og að þau byggju í foreldahúsum á meðan þau væru í námi (jafnvel með barnahóp) komst úr tísku enda miklu auðveldara fyrir kaldastríðskynslóðina að fá lán og leikskólapláss.

 

Laun dyggðarinnar eru áhyggjulaust ævikvöld

Núna er verðbólgukynslóðin orðin að ömmum og öfum. Að vísu allt öðruvísi ömmum og öfum en kreppukynslóðin. Í dag hafa ömmur engan tíma til að steikja kleinur og prjóna vettlinga, þær eru uppteknar við að vera skvísur og alltaf í ljósum eða útlöndum eða í Kringlunni. Og afarnir eru ekkert á sjónum eða á eyrinni, þeir eru bara hangandi í tölvunni að reyna að botna í verðbréfaviðskiptum, nú eða þá á Kanarí.

Í dag á verðbólgukynslóðin húsin sín, bílana og sumarbústaðina skuldlaust. Margir eiga líka einhvern sjóð í bankanum. Þau eiga auðvitað skilið að hafa það þokkalegt, þegar allt kemur til alls vann þetta fólk myrkranna á milli og kynntist aldrei börnunum sínum almennilega. Auk þess ætti það ekkert svona mikið nema vegna þess að afi er dauður og amma vildi endilega greiða þeim föðurarfinn strax. Það er nú aldeilis heppilegt að þetta fólk skuli eiga einhverjar eignir því heilbrigðiskerfið er orðið svo fullkomið að þetta á eftir að lifa von úr viti.

Annars er svosem ekki víst að eignirnar dugi til þess að halda því uppi til hundrað ára aldurs. Það er nefnilega ákveðin vakning í gangi meðal verðbólgukynslóðarinnar. Hún er semsé að átta sig á því að hún á peningana sína sjálf og að henni ber engin skylda til að skilja eftir sig arf handa börnunum sem kunna hvort sem er ekkert með peninga að fara. Þessvegna selur verðbólgukynslóðin einbýlishúsin sín, kaupir litlar íbúðir í staðinn og leggst í ferðalög fyrir mismuninn. Býsna snjallt. Laun dyggðarinnar eru áhyggjulaust ævikvöld og sennilega eiga flestir samt fyrir útförinni sinni þegar upp er staðið.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics