Fimmtudagur 13.12.2012 - 18:13 - FB ummæli ()

Rónaþversögnin

Ég er búin að fá nokkrar rukkanir um umfjöllun um það sem stendur í leyniskjölum kynjafræðinnar við HÍ (en kynjafræði eru kynlegar skýringar nokkurra kynjadýra á stöðu kvenna í samfélaginu.)  Ég biðst afsökunar á takmarkaðri afkastagetu minni. Ég er að sjálfsögðu með skyggnulýsingar á pistlaplaninu en þar sem ég reikna með að aðeins lítill hluti lesenda minna hafi áhuga á því fimbulfambi sem hin „akademiska grein feminismans“ er (með orðum Þorgerðar Einarsdóttur) og þar sem skyggnulýsingarnar verða litaðar af persónulegum reynslusögum, tel ég persónulegu vefbókina mína betri vettvang fyrir þá umfjöllun. Hér er fyrsta færslan í þeim flokki, fyrir þá sem hafa áhuga.

Enda þótt ástríðufull andúð mín á dólgafeminisma fari síður en svo rénandi, langar mig að skjóta inn umfjöllun um annað efni, það er afstaðan til útigangsfólks.

 

Skilgreindir sem sjúklingar en krafist heilbrigðrar hegðunar

Merkilegur tvískinnungur hefur ríkt gagnvart ofdrykkjufólki og öðrum fíklum. Annarsvegar eru fíklar flokkaðir sem sjúklingar; hinsvegar er bati og batavilji gerður að skilyrði fyrir því að þeir fái umönnun.

Ímyndum okkur krabbameinssjúkiling sem hefur undirgengist erfiða meðferð. Ef meðferðin ber ekki árangur ætti þá heilbrigðiskerfið að láta hann róa? Og ef hann gæfist upp og harðneitaði að undirgangast fleiri meðferðir, væri þá réttlætanlegt að velferðarsamfélagið henti honum út á gaddinn? Væri ekki líklegra að honum yrði veitt þjónusta til þess að gera líðan hans sem skársta á meðan hann lægi banaleguna? Af hverju í ósköpunum ætti annað að gilda um fíknsjúkdóma? Við vitum að sumir hætta ekki í neyslu, sama hversu oft þeir fara inn á Vog og sama hversu mörg ár þeir eru á útigangi, hírast í köldum geymsluskúrum og yfirgefnum húsum.

Forræðishyggjan  og ábyrgðarleysið

Almennt ríkir töluverð forræðishyggja gagnvart útigangsfólki. Hegðun sem þetta fólk hefur engan hug á að láta af, þótt það sé meðvitað um að hún geti verið skaðleg, er skilgreind sem sjúkdómur og fólk er hálfþvingað til að undirgangast meðferð. Þegar það hættir meðferð er talað um að það hafi „strokið“ og það orðalag afhjúpar þá afstöðu að þetta fólk sé ekki sjálfu sér ráðandi.
Sjálfsákvörðunarréttur fíkla þykir nógu léttvægur til þess að allskyns boð og bönn, eftirlit og ritskoðun er ástunduð með þeim rökum að verið sé að vernda fólk sem kærir sig ekkert um það. Frægt dæmi er þegar fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur lagðist gegn því að bjórkælir yrði settur upp í vínbúðinni við Austurstræti af því að það mætti ekki auðvelda rónum aðgengi að bjór.
Það er undarleg þversögn að á sama tíma og fíklar eru taldir ófærir um að taka ábyrgð á sjálfum sér, gætir nokkurs ábyrgðarleysis af hálfu yfirvalda. Fyrrum borgarstjóri sýndi þannig meiri áhyggjur af því að róninn næði í bjór en að hann hefði öruggt næturskjól. Þessa tvískinnungs gætir því miður víða. Í stað þess að hið opinbera sjái þeim sem missa tök á lífi sínu og þurfa á langtímaumönnun að halda (og kæra sig um hana) fyrir faglegri þjónustu, treysta ríki og sveitarfélög á hreyfingar áhugafólks, stundum hreyfingar sem byggja á trúarlegum eða pólitískum grunni. Þannig afsalar ríkisvaldið sér annarri ábyrgð á þessum hópum en þeirri sem nemur fjárhagsstuðningi. Oft er blindur að leiða haltan og afleiðingarnar geta orðið í ætt við Byrgismálið.
Misskiljið mig ekki. Ég er ekki að setja út á það að fíklum sé hjálpað til að hætta. Það er gott mál að til séu áfangaheimili fyrir þá sem eru að koma úr meðferð. Það sem ég er ósátt við er tvennt; að hið opinbera skuli leggja meiri áherslu á þjónustusamninga við mishæfar hreyfingar (ég tek skýrt fram að ég er ekki að draga í efna hæfni þeirra sem ætla að reka áfangaheimilið) og það að hjálpin er svo oft fólgin í því að „lækna“ fólk, hvort sem það kærir sig um þá hjálp eða ekki. Það er ekkert hægt að setja út á áhugafólk fyrir þá áherslu en það er slæmt að hið opinbera skuli ekki bjóða upp á mannúðlegar aðstæður fyrir þá sem taka ekki meðferð. Þá sem geta ekki hætt í neyslu eða vilja það ekki. Það er sem betur fer dálítið að lagast eins og ég kem að á eftir.

Hlutverk yfirvalda er ekki að stjórna fólki heldur þjóna því 

Þegar hinn mannréttindasinnaði borgarstjóri Reykjvíkur, Jón Gnarr, bauð sig fram til þeirrar stöðu, gekk hann í bol með áletrun þess efnis að hann áttaði sig á því að annað fólk væri ekki hans eign. Þetta hlýtur að skiljast sem stuðningur við þá hugmynd að hlutverk borgarstjórnar sé ekki að stjórna fólki heldur að koma á skipulagi sem þjónar borgurunum.  Slagorðið er að vísu engin skilgreining á anarkisma en það lýsir anarkískri afstöðu og þótt aðrir borgarfulltrúar og þeir sem áður sátu í borgarstjórn, hafi ekki skreytt sig með anarkískum slagorðum, sjást þess víða merki að nokkuð stór hópur fólks hugsi á þessum nótum.

Þessi afstaða sést t.d. í þeim framförum sem hafa orðið í málefnum útigangsfólks í Reykjavík á síðustu árum og hófust reyndar áður en Besti tók við borginni. Auðvitað þarf að gera betur og enn er mikill hluti starfseminnar í höndum áhugafólks en þó rekur borgin heimili þar sem ekki er sett skilyrði um að íbúar séu hættir neyslu. Það verður að teljast mikil framför.

 

Betur má ef duga skal

Jón Gnarr veit eins og aðrir borgarfulltrúar og við öll að sumir þeirra sem koma inn á nýja áfangaheimilið munu fljótlega fara í neyslu aftur, hversu frábær sem þjónustan verður. Hann veit líka eins og við öll að sumt útigangsfólk vill  ekkert fara í meðferð.

Útigangsfólk sem ekki tekur meðferð þarf umönnun sem felst ekki í því að reyna að lækna það, heldur í viðurkenningu á því að það tekur ekki lækningu. Borgaryfirvöld hafa að einhverju marki fylgt þeirri stefnu í nokkur ár en í sumar voru meira en 80 manns í bókstaflegri merkingu heimilslausir og hátt í 100 bjuggu við ótryggar aðstæður. Það þarf  því að gera betur og þótt sé frábært að áhugafólk opni áfangaheimili má borgin ekki líta fram hjá þessum 80 sem líklegt er að muni aldrei verða færir um að annast sig sjálfir. Ég vona að borgin leiti betri lausna á húsnæðisvanda þeirra en að koma upp fleiri neyðarskýlum.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics