Föstudagur 11.01.2013 - 20:17 - FB ummæli ()

Guðrún hjá Stígamótum og mannréttindin

Í umræðunni um mál Karls Vignis Þorsteinssonar hefur Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum viðhaft ummæli sem vert er að staldra við. Þau eru þess efnis að mannréttindi þeirra barna sem eru í hættu hljóti að vega þyngra en mannréttindi barnaníðinga. Þetta er undarleg útlegging á mannréttindahugtakinu.

Mannréttindi eru réttindi sem fjöldi þjóða hefur bundist samkomulagi um að yfirvöld skuli tryggja öllum mönnum. Mannréttindi eru á ábyrgð yfirvalda. Mannréttindabrot er þannig glæpur sem yfirvald fremur gegn almennum borgara eða hópi fólks. Einstaklingar geta ekki framið mannréttindabrot, þeir geta hinsvegar framið glæpi. Það er svo aftur mannréttindabrot ef yfirvöld láta glæpi viðgangast, annað hvort með því að setja ekki lög gegn ofbeldi eða með því að framfylgja ekki lögum. Þannig er það glæpur ef Íslendingur lemur konu sína en í Íran eru líkamlegar refsingar karls gagnvart konu sinni ekki refsiverðar. Það refsileysi hlýtur að teljast mannréttindabrot.

Mannréttindi lúta að rétti til lífs, frelsis og mannhelgi, en mannhelgi felur í sér vernd gegn pyntingum og lítilsvirðandi meðferð. Hvergi nokkursstaðar í mannréttindasáttmálum er það flokkað sem mannréttindi að fá óáreittur að fremja ofbeldisverk eða að sæta ekki refsingu fyrir glæpi. Það eru hinsvegar mannréttindi þess sem er grunaður um glæp að hann fái samskonar meðferð hjá réttarkerfinu og samborgarar hans; að hann sé ekki látinn gjalda uppruna síns, lífsskoðana eða samfélagsstöðu. Að hann fái tækifæri til varna og að yfirheyrslur séu mannúðlegar. Það eru mannréttindi þess sem kemur fyrir dóm að sá dómstóll sé löglegur og faglegur og að hann verði ekki sakfelldur nema sekt hans sé hafin yfir vafa. Það eru mannréttindi þess sem sakfelldur er að refsing sé ekki til þess fallin að valda honum líkamlegum eða andlegum skaða.

Það eru þessir hlutir sem þeir sem hamra á mannréttindum sakborninga hafa áhyggjur af.  Það veit Guðrún eflaust vel en með því að orða hlutina á þennan hátt býður hún heim þeirri túlkun að valið standi annaðhvort um mannréttindi barna eða mannréttindi barnaníðinga. Að markmið þeirra sem vilja standa vörð um mannréttindi sé að skapa glæpamönnum góðar aðstæður til að brjóta gegn börnum og öðrum varnarlausum.

Sannarlega jaðrar það við mannréttindabrot gagnvart þeim sem eru í hættu á að verða ofbeldismönnum að bráð þegar íslensk stjórnvöld fresta því áratugum saman að setja lög sem hindra að hættulegum mönnum sé hleypt út í samfélagið án nokkurs eftirlits eða meðferðar. Um það getum við Guðrún verið sammála. Æskilegt væri þó að krafan um að komið verði í veg fyrir að barnaníðingar og aðrir hættulegir ofbeldismenn fái tækifæri til að halda uppteknum hætti, verði rædd á þeim forsendum, en ekki út frá þeirri hugmynd að skerða þurfi mannréttindi barnaníðinga. Það eru nefnilega ekki mannréttindi þeirra sem fremja voðaverk að fá svigrúm til að halda því áfram.

Réttindi grunaðra og sakfelldra til réttlátrar málsmeðferðar og mannúðlegrar meðferðar eru mannréttindi sem ekki má skerða, sama hversu hryllilega þeir hafa hegðað sér. Aðgengi barnanauðgara að börnum eru ekki mannréttindi. Það er því vel hægt að tryggja mannréttindi barna án þess að fórna mannréttindum sakamanna.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics