Þriðjudagur 12.03.2013 - 21:12 - FB ummæli ()

Er löggan undirmönnuð?

 

Löggan er með mann í fullu starfi við að hanga á facebook. Í fullu starfi, auk þess sem 12 til viðbótar sinna síðunni í hjáverkum. Eruði ekki að djóka? Hvernig getur það verið fullt starf að uppfæra snjáldursíðu 3-5 sinnum á dag og svara 1-2 fyrirspurnum? Og hvernig getur stofnun sem segist vera undirmönnuð réttlætt slíka notkun á starfskrafti?

 

„Almannavarnir“ facebook-löggunnar ná ekki til almennings

Allir geta skoðað logreglan.is, hringt í lögguna eða sent tölvupóst. Facebook síðan hvetur e.t.v. til þess að almenningur hafi samband en hún breytir engu um aðgengi almennings að löggunni, sem hefur lengi verið mjög gott. Því síður gegnir síðan almannavarnahlutverki, því til þess að netnotandi sjái innlegg lögreglunnar án þess að bera sig sérstaklega eftir því þarf að uppfylla þrjú skilyrði.

 1. Notandinn þarf að „læka“ síðuna.
 2. Hann þarf að leyfa uppfærslur frá henni á fréttaveitunni.
 3. Hann þarf að skoða fréttaveituna.

Titill Kastljóssfréttarinnar sem ég tengdi á hér að ofan, „37.000 góðvinir lögreglunnar“ er mjög villandi. Titillinn á að staðfesta gífurlegar vinsældir fb-síðunnar en 37.000 aðdáendur merkja bara alls ekki að 37.000 manns fylgist með því sem fer fram á síðunni. Jón Gnarr á 66.000 aðdáendur á fb og Hugleikur Dagsson 31.000. Dettur einhverjum í hug að allir sem læka síðu einu sinni fylgist almennilega með henni?

Ef fjöldi „læka“ segir eitthvað um aðsókn er eðlilegra að skoða hversu mörg læk innleggin fá. Flestar færslur löggunnar fá minna en 200 læk. Ef við skoðum til samanburðar vinsælar netsíður á borð við Baggalút, sjáum við að lækin þar hlaupa oftast á mörgum hundruðum, jafnvel þúsundum. Ef samræmi er milli læka og lesturs nær Baggalútur til miklu fleira fólks en lögreglan.  Auk þess deilir fólk fréttatenglum á facebook svo ef ætlunin er að koma skilaboðum til almennings eru fréttamiðlar miklu skilvikari leið en fb-síða lögreglunnar.

loggabagga

Að vísu fær löggan rosalega mörg læk þegar hún deilir Baggalútsfréttum

 

Hvaða almannavarnir er svo að finna á síðunni?

Ennþá hlægilegri  verða hugmyndir um að facebookhangs löggunnar sé hluti af almannavörnum þegar maður skoðar það sem fram fer á meintri almannavarnasíðu.

logga3       logga1

 

Lítum á upphaf umræðuþráða á venjulegum degi í lífi facebooklöggunnar:

19. feb

 • Borgari lýsir ánægju sinni með að löggan rúnti um hverfið hans.
 • Löggan auglýsir eftir fólki til að vinna að „umferðarsáttmála“ sem á að stuðla að betri umferðarmenningu.
 • Borgari skorar á lögguna að taka “Harlem shake”.
 • Lögreglan óskar eftir vitnum að umferðarslysi.
 • Borgari spyr hversvegna hann megi ekki kasta af sér vatni á almannafæri líkt og hundarnir. Löggan ræðir muninn á manni og dýri og bendir borgararnum á að beina spurningunni til vísindavefjar Háskólans.
 • Borgari þakkar löggunni fyrir að vera sýnileg við umferðargötu nálægt barnaskóla.
 • Borgari spyr um margra ára gamalt sakamál sem komst í umræðuna aftur.
 • Borgari deilir tónlistarmyndbandi.

Þetta er ósköp dæmigerður dagur. Ég tók saman yfirlit yfir innlegg sem spanna 14 daga frá miðjum febrúar. Auðvitað þyrfti miklu lengri tíma til að fá áreiðanlegar niðurstöður um það hvernig þessi síða er notuð en tvær vikur gefa þó einhverja vísbendingu.

Lögreglan deilir einstaka glæpafrétt (sem fjölmiðlar birta hvort sem er) en megnið af færslum eru almennar ábendingar um að gæta að öryggi og sýna tillitssemi. Já og tónlistarmyndbönd og annað léttmeti frá almenningi. Í mars er hátt hlutfall ófærðarfrétta. Almannavarnatengt efni hverfur í kraðakið.

Screenshot from 2013-03-12 17:30:56     logga2

Er þá ekkert gagn að þessu fyrir almenning?

Facebooksíða löggunnar skiptir sennilega fáa máli nema persónulega vini lögreglumanna. Og þó; við sjáum spurningar frá notendum varðandi lög, reglur og verklag. Löggan getur ekki svarað öllum þessum spurningum en hefur staðið sig vel í því að benda fólki á hvert það eigi að snúa sér. Almenningi gætu þótt þessar spurningar áhugaverðar en gallinn er sá að það er mjög erfitt að leita að svörum á facebook. Ef maður sér ekki þráðinn samdægurs eru allar líkur á að maður missi af honum. Það er mun gagnlegra fyrir almenning að spurningum sé svarað á þessum ágæta vef.

 

Ímyndarsköpun löggunnar

544454_497020367028183_851729530_nHelst er að sjá sem megintilgangur síðunnar sé ímyndarsköpun. Löggan sem mætir okkur á facebook er örugg og brosandi. Við fáum ekki myndir af hrottalegum handtökum, heimildalausum húsleitum eða frjálslegri notkun piparúða. Helst er að sjá sem starf lögreglunnar felist aðallega í því stuðla að umferðaröryggi og njóta tónlistar og ljósmynda með almennum borgurum.

Þessi krúttlega mynd hér til hægri er meðal þeirra sem löggan hefur birt á fb. Löggan í heimsókn hjá Barnaspítala Hringsins. Mikið hlýtur Ísland að vera huggulegur Kardimommubær. En vitiði hvað, þetta er sama trix og mótorhjólaklíkur nota til að bæta ímynd sína. Nei ég er ekki að segja að löggan sé ótínt glæpagengi heldur að benda á að ímyndarsköpun segir ekkert um eðli stofnunarinnar.

 

20493_458626980867522_1501928902_n           santa_motorcycle

      Af facebooksíðu Lögreglunnar                                          Frá góðgerðasamkomu Outlaws

 

Hver er hinn raunverulegi tilgangur?

Enginn sér lögguna á facebook nema óska sérstaklega eftir því. Þeir sem taka þátt í umræðum virðast aðallega vera persónulegir vinir löggunnar. Svo hver er tilgangurinn? Ímyndarsköpun – augljóslega. Eitthvað meira?

Það skal enginn segja mér að stofnun sem grætur hástöfum yfir fjársvelti og manneklu, setji mann í fullt starf við að taka þátt í tónlistarupplifun kunningja sinna og minna einmitt það fólk sem mestan áhuga hefur á störfum lögreglunnar á að nota endurskinsmerki.

Og hvað er undirmönnuð lögregla að gera á facebook allan daginn? Fylgjast með þessum 200.000 sem eru skráðir í gagnagrunninn? Varla eru þeir að spila „slotomania“ í vinnutímanum en það er ekki fullt starf að uppfæra fb síðu nokkrum sinnum á dag og nei, þið skuluð ekki segja mér að löggan sé marga klukkutíma á dag að svara einkaskilaboðum.

Einhverjum tilgangi hlýtur þetta nethangs þeirra að þjóna. Hvernig væri að blaðamenn leituðu skýringa á því, í stað þess að gapa upp í forsvarsmenn lögreglunnar eins og ástfangnir unglingar og gleypa gagnrýnislaust við gaspri þeirra um að lögregla annarra ríkja taki þá til fyrirmyndar? Í alvöru talað, þetta er ekki boðlegur fréttaflutningur.

Þessu tengt: Þessvegna þarf lögreglan i-pad

 

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics